Borgarbúar eru hvattir til að velja góð vetrardekk í stað nagladekkja til að draga úr svifryksmengun. Vetrarþjónusta í borginni er góð en umhverfis- og skipulagsráð telur mikilvægt er að fara í forvirkar aðgerðir svo sem fræðslu vegna notkunar nagladekkja og afleiðingar á gatnakerfi. Gæði malbiks sem lagt er í Reykjavík eru mikil.
Svifryk (PM10) hefur farið 8-9 sinnum yfir heilsuverndarmörk á sólarhring undanfarin ár en fór á árum áður oft yfir 20 skipti. Á þessu ári hefur svifryk farið níu sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkin sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Meiri úrkoma heldur svifryki m.a. í skefjum.
Margir þættir geta valdið ryki á götunum, til að mynda sandfok af hálendinu, gosaska og uppspænt malbik eftir nagladekk ásamt sóti frá útblæstri bíla. Vegagerðin gerði rannsókn á samsetningu svifryks veturinn 2013. Niðurstöður hennar leiddu í ljós að malbiksagnir voru 17% af rykinu, sót 30% og jarðvegur 18%. Í sambærilegri rannsókn sem gerð var 10 árum áður voru malbiksagnir 55%. Líkleg ástæða fyrir lækkun á hlutfalli malbiks í svifryki er fækkun bíla á nagladekkjum, í byrjun árs 2003 voru 57% bíla í borginni á nagladekkjum en 10 árum síðar var þessi tala komin niður í 38%.
Í rannsókn Vegagerðarinnar á samsetningu svifryks kemur fram að hlutfall sóts hafi farið úr 7% í 30%. Skýringin gæti verið að bílum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 27,8% frá 1999 – 2013. Þá hefur hlutfall dísilbíla einnig aukist en sótmengun frá dísilbílum er meiri en frá bensínbílum.
Hreinsun gatna
Hreinsun gatna í Reykjavík er unnin samkvæmt áætlun, að hausti fer fram ein umferð af sópun á götum og gönguleiðum til að viðhalda góðu ástandi eftir að laufblöð eru byrjuð að falla.
Götur og gönguleiðir eru síðan hreinsaðar vandlega og þvegnar samkvæmt ákveðinni áætlun á vorin. Miðborgin er hreinsuð daglega og hefur svo verið í allan vetur.
Yfir veturinn sópar starfsfólks Reykjavíkurborgar eftir efnum og ástæðum en yfirleitt tekur við snjóhreinsun, snjómokstur og hálkueyðing. Vegagerðin sér um hreinsun á þjóðvegum í þéttbýli, meðal annars á Sæbraut, Miklubraut og á umferðarmannvirkjum við Elliðaárvog.
Svifryksmengun hefur ekki verið mikil í vetur enda hefur ekki þurft að nota sand eða aðrar hálkuvarnir á göturnar vegna góðs tíðarfars. Þá hefur rignt óvenju mikið að undanförnu sem dregur úr svifryki. Naglarnir spæna aftur á móti upp malbikið hindrunarlaust og veldur það auknu ryki og hávaða.
Mikil gæði malbiks í Reykjavík
Árleg gagnrýni þess efnis að Reykjavíkurborg noti lélegt malbik og leggi það við of lágt hitastig á ekki við rök að styðjast og hefur borgin hrakið hana jafnóðum. Reykjavíkurborg hefur ekki dregið úr gæðum malbiks sem lagt er á götur borgarinnar og hefur það verið staðfest með rannsóknum verkfræðistofu EFLU. Slitlagstegund er t.a.m. valin eftir því hve mikil umferð er á götum sem malbikaðar eru.
Borgarbíllinn þarf ekki að vera á nöglum
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár hvatt borgarbúa til að velja frekar góð vetrardekk en nagladekk sem spæna upp malbik og valda svifryksmengun sem hefur þau áhrif að að börn og fólk með viðkvæm öndunarfæri þurfa að halda sig innivið. Sú hvatning hefur skilað árangri en þó hefur hlutfall nagladekkja aukist á ný og var það um 37% í síðustu talningu sem gerð var í nóvember. Á sama tíma árin 2012-2015 var hlutfallið komið niður í 25-29%. Bílum á nagladekkjum hefur því fjölgað mjög hratt á milli ára og er það áhyggjuefni sem ástæða er til að bregðast við.
Vegna þessa og einnig mikillar svifryksmengunar 10. desember sl. var lögð fram eftirfarandi bókun í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar 14. desember 2016.
„Mikilvægt er að fara í forvirkar aðgerðir svo sem fræðslu vegna notkunar nagladekkja og afleiðingar á gatnakerfi sem og áhrif mismunandi vélartegunda á mengun og svifryk. Hraðakstur og akstur stórra bifreiða þyrlar svifryki upp og setur það möguleika þess að nota tímabundnar hraðatakmarkanir að hluta í brennidepil. Rykbinding og þrif gatna er valkostur sem jafnframt þarf að nýta."
Takmörkun á nagladekkjum á Norðurlöndum
Notkun nagladekkja í borgum á Norðurlöndunum og í Kanada er víða takmörkuð. Svifryk (PM2,5) er talið valda því að um 450 þúsund Evrópubúar hafa látist fyrir aldur fram, þar af um 1.500 í Noregi. Í Osló og Bergen þurfa þeir sem aka á nagladekkjum að greiða fyrir notkunina. Hægt er að kaupa leyfi fyrir heilan vetur, mánuð fyrir mánuð eða dagpassa ef viðkomandi er aðeins inni í borginni í fáa daga.
Í Svíþjóð er gert ráð fyrir að félagslegur kostnaður af svifryksmengun sé um 35 milljarðar sænskra króna. Nýleg samnorræn rannsókn staðfestir að nagladekk mynda svifryk en það fer eftir fjölda nagla og fleiri þáttum hve mikið niðurbrotið er. Þannig valda dekk með 190 nöglum um tvöfalt meiri svifrykslosun (PM 10) en dekk með 96 nöglum.
Tenglar
Vegagerðin - þjóðvegir í þéttbýli
Vegagerðin samsetning svifryks
Studded tyres and air quality in Norway