Framsækið leikskólastarf fær viðurkenningu

Skóli og frístund

""

Þrír leikskólar fengu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs í dag en þau voru veitt við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins. Þá hlaut samstarfsverkefni þriggja leikskóla sérstaka viðurkenningu. 

Leikskólinn Nóaborg hlaut  verðlaun fyrir verkefnið  Barn vikunnar  sem snýst um að eitt barn fær að njóta sín og vera miðpunktur í barnahópnum með því m.a. að kynna fjölskyldu sína með stuðningi kennara og foreldra.  Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verkefnið bjóði upp á góða tengingu við foreldra og gerir gott samstarf við þá enn betra. 

Leikskólinn Geislabaugur fékk hvatningarverðlaun fyrir jafnréttisverkefnið  Nú skal segja.  Í umsögn dómnefndar segir m.a. að þetta sé brýnt verkefni og mikilvægt frumkvæði í jafnréttisstarfi með ungum börnum.

Anna Gréta Guðmundsdóttir í leikskólanum Sæborg hlaut hvatningarverðaunin fyrir frumkvöðlastarf í tveimur verkefnum, annars vegar jólagjafaverkefni  og hins vegar öskudagsbúninga þar sem frjáls sköpun í listasmiðju er höfð að leiðarljósi. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að í þessu skapandi starfi ráða börnin ferðinni, hlustað sé á skoðanir þeirra og unnið á þeirra forsendum.

Samstarfsverkefni þriggja leikskóla,  Dalskóla, Nóaborgar og Sæborgar, hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið, Reykjavík - borgin okkar. Í því voru börnin í hlutverki landkönnuða og rannsökuðu ýmsa staði og fyrirbæri í borginni, s.s. kirkjur, kirkjugarða, flugvélar og vatn.

Sýning á margvíslegum myndverkum barna í þessu verkefni var sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð og endurspeglaði fallega upplifanir þeirra og túlkun á borginni í teikningum, skúltúrum, málverkum, myndbörnum og skráningum starfsfólks.

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs hafa að markmiði að stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi og eru viðurkenning fyrir verkefni sem eru öðrum til fyrirmyndar.  Að þessu sinni bárust 26 tilnefningar vegna 12 verkefna í leikskólum borgarinnar.  

Verðlaunagripirnir voru útskornir fuglar  eftir Ingibjörgu H. Ágústsdóttir listakonu í Stykkishólmi.