Vetrarfrí verður í grunnskólum borgarinnar frá 17. - 21. október. Margt verður í boði fyrir fjölskylduna þá frídaga, hvort heldur í frístundamiðstöðvum eða menningarstofnunum og frítt verður fyrir fullorðna í fylgd með börnum inn á söfn borgarinnar.
Í Árbæ verður boðið upp á sundlaugargleði fyrir fjölskylduna mánudaginn 20. október kl. 14.00 og daginn eftir, þriðjudaginn 21. október kl. 12.00, býður frístundamiðstöðin Ársel upp á grillveislu í nýrri grillaðstöðu á Árbæjartorgi.
Í Vesturbæ verður leikjasprell og kaffihúsastemming í Frostaskjóli frá kl. 11.00 - 15.00 föstudaginn 17. október og sundlaugarpartý í Vesturbæjarlauginni kl.14.00 - 16.00 sama dag.
Frístundamiðstöðin Miðberg í Breiðholti heldur árlega hrekkjavöku mánudaginn 20. október með draugahúsi og nornakaffihúsi.
Gufunesbær í Grafarvogi verður með fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna bæði föstudaginn 17. október og mánudaginn 20. október með klifri, útieldun og frisbígolfmóti. Þá verður sundlaugarpartý í Grafarvogslaug kl.14.00 á föstudaginn.
Frístundamiðstöðin Kampur í Miðbæ og Hlíðum býður upp á fjölmenningarlega fjölskyldustund föstudaginn 17. október kl. 13.00 og Sundhöllin við Barónsstíg býður börnum ókeypis í sund kl. 13.00 - 15.00 sama dag.
Dagskrá verður fyrir alla fjölskylduna í frístundamiðstöðinni Kringlumýri föstudaginn 17. október kl.11.00 - 14.00. Boðið verður upp á fjölbreyttar smiðjur og leiki.
Menning fyrir fjölskyldur
Bókasöfnin í borginni, Borgarsögusafn og listasöfnin verða með margvísleg tilboð fyrir alla fjölskylduna í vetrarfríinu. Þannig verður t.d. hægt að fara í ratleik með rúnum í Landnámssýningunni, föndra á Borgarbókasafninu og kynna sér stelpumenningu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.
Ratleikur verður einnig í boði í Fjölskyldu – og húsdýragarðinum og Gerðuberg býður upp á sýningar fyrir alla fjölskylduna. Þar verður einnig leiksýningin Langafi prakkari sýnd sunnudaginn 19. október kl. 15.00.
Fullorðnir fá í vetrarfríinu frítt í fylgd með börnum á Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaði, Ásmundarsafn, Árbæjarsafn, Landnámssýninguna í Aðalstræti og Víkina – Sjóminjasafn.