Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum, þriðjudaginn 19. nóvember, tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um samráð um tækifærin í Gufunesi. Svæðið býður upp á mikla möguleika til útivistar og afþreyingar.
Tillagan gengur út á það að efna til samráðs við íbúa og hagsmunaaðila um tækifærin sem felast í landsvæðinu í Gufunesi. Svæðið býður upp á ótal möguleika til útivistar og afþreyingar, nýtingarmöguleika á svæði gömlu öskuhauganna og á svæði Áburðarverksmiðjunnar.
Samkvæmt tillögunni verður umhverfis- og skipulagssviði, ÍTR, skóla- og frístundasviði, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og hverfisráði Grafarvogs falið að útfæra verkefnið undir forystu skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar. Verkefnið verður unnið samhliða vinnu við hverfisskipulag fyrir Grafarvog.
Í kringum gamla Gufunesbæinn hefur þegar verið byggð upp myndarleg tómstundaaðstaða, með leiktækjum, strandblaksvelli, frisbígolfaðstöðu, klifuraðstöðu og ýmsum leiktækjum.
Fram kemur í greinargerðinni að svæðið sé umfangsmikið og búi yfir mjög fjölbreyttum möguleikum. „Það eru klárlega mikil tækifæri í Gufunesi, “ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sem flutti tillöguna. „Fram hafa komið hugmyndir um að leggja 18 holu golfvöll á svæðinu, ylströnd, aðstöðu fyrir ýmsar jaðaríþróttir og byggingu hótels í tengslum við hafnaraðstöðu á svæðinu. Þessar hugmyndir eru meðal þess sem taka þarf afstöðu til í samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Við sjóinn mætti bjóða upp skemmtilega möguleika til þróunar á ýmis konar vatnasporti, t.d. á sjókajökum og vatnaþotum, og ekki má gleyma þeim möguleika að brúa milli Gufuness og Viðeyjar,“ segir Dagur.
Ekki hefur tekin afstaða til staðsetningar hótels við ströndina í Gufunesi en slíkar hugmyndir geti verið áhugaverðar til að dreifa ferðaþjónustunni betur um borgina.