EM í knattspyrnu á Ingólfstorgi í sumar

Íþróttir og útivist Menning og listir

""
Ætlunin er að endurskapa stemninguna á knattspyrnuleikvöngunum í Frakklandi á Ingólfstorgi og færa líf í miðborgina.
Reykjavíkurborg og Höfuðborgarstofa fagna samstarfi við KSÍ, Símann, Landsbankann, Icelandair, N1, Vífilfell, Borgun og Íslenskar Getraunir um EM stofu á Ingólfstorgi í sumar í tengslum við þátttöku landsliðs karla í knattspyrnu í úrslitakeppni EM í Frakklandi 2016. Um er að ræða einstakan viðburð í íslenskri íþróttasögu sem fær nú að njóta sín í hjarta höfuðborgarinnar.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í dag umsögn þess efnis að Knattspyrnusamband Íslands, í samstarfi við Símann, Landsbankann, Icelandair, N1, Vífilfell, Borgun og Íslenskar Getraunir fái afnot af Ingólfstorgi í sumar til sýningar á leikjum í úrslitakeppni EM karlalandsliða 2016 í knattspyrnu, með tilheyrandi umgjörð og viðburðum. Framundan er vinna með Reykjavíkurborg að fyrirkomulagi viðburðarins og samráð við hagsmunaðila.

Ætlunin er að endurskapa stemninguna á knattspyrnuleikvöngunum í Frakklandi á Ingólfstorgi og færa líf í miðborgina.
Samkvæmt samningnum mun KSÍ ásamt samstarfsaðilum standa fyrir útsendingum á stórum skjá á Ingólfstorgi þar sem allir leikir mótsins verða sýndir, gestum og gangandi að kostnaðarlausu. Torginu verður þannig breytt í EM stofu. Stærsta aðdráttaraflið verður sýning allra leikja á stórskjá, en til viðbótar verður boðið uppá fjölskylduskemmtun tengda fótbolta með ýmsum uppákomum alla daga meðan mótið stendur. Öll umgjörð, veitingar, dagskrá og básar munu miðast við að um fjölskylduskemmtun sé að ræða. Áhersla verður lögð á að kynna íþróttina fyrir yngri kynslóðinni með þrautum og leikjum sem KSÍ mun skipuleggja. Þá verður sýnt frá stemningunni á Ingólfstorgi í öllum sjónvarpsútsendingum frá EM í knattspyrnu.

Athyglin sem nú beinist að íslenskri knattspyrnu og raunar landinu öllu og íslenskri þjóð á sér fá fordæmi. Ljóst er að hingað til lands munu áfram streyma fulltrúar erlendra fjölmiðla sem vilja kynnast hinu íslenska knattspyrnuundri. Þessi áhugi og umfjöllun hefur vaxið stöðugt síðustu misseri og mun aukast enn frekar eftir því sem dregur nær mótinu og ná hámarki í kringum leiki íslenska liðsins. Því er gríðarlega mikilvægt að geta búið stuðningsmönnum íslenska liðsins flottan heimavöll í hjarta borgarinnar á Ingólfstorgi.