Dalskóli byggist upp

Skóli og frístund Framkvæmdir

""

Fyrsti hluti að nýjum Dalskóla í Úlfarsárdal var tekinn í notkun í síðasta mánuði aðeins ári eftir að fyrsta skóflustungan var tekin. Húsnæðið sem tekið hefur verið í notkun er hannað sem leikskóli Dalskóla en verður fyrst um sinn nýtt fyrir grunnskólanemendur.  Það er 820 fermetrar að stærð, auk 2.000 fermetra lóðar sem nýtist vel fyrir leikglaða nemendur skólans.

Dalskóli er hluti af því sem kallað hefur verið „Miðstöð skóla, menningar og íþrótta“ í Úlfarsárdal og er ein stærsta framkvæmd Reykjavíkurborgar.  Einstakir verkhlutar eru leik- og grunnskóli, menningarmiðstöð, sundlaugar innanhúss og utan, sem og önnur íþróttamannvirki. Heildarkostnaður framkvæmda er áætlaður um 10,2 milljarðar króna

Nýr grunnskóli mætir þörfum stækkandi hverfis

Næsti áfangi framkvæmda er grunnskólahluti Dalskóla um 5.200 fermetrar og verður það tekið í notkun eftir tvö ár, haustið 2018. Húsið verður steypt upp og frágengið að utan í einni heild, en ákvörðun um endanlegan frágang innanhúss verður tekin eftir því sem þörf fyrir húsnæði eykst með stækkandi hverfi og þannig komið til móts við þarfir íbúa. Áætlanir gera ráð fyrir að nemendur Dalskóla verði um 300 haustið 2018, en fullbúinn skóli mun rúma 500 nemendur. 

Í dag voru opnuð tilboð í annan áfanga byggingarinnar og bárust tilboð frá Ístak, Íslenskum aðalverktökum, Eykt, Prima og LNS Sögu. Niðurstöðu um hvaða tilboði verður tekið er að vænta á næstu dögum.

Heilnæm bygging og lágur rekstrarkostnaður

Dalskóli er vistvænt mannvirki, eins og aðrir hlutar miðstöðvar skóla, menningar og íþrótta í Úlfarsárdal. Mannvirkið er hannað og verður byggt undir ströngum kröfum BREEAM vottunarkerfisins, sem hvetur til umhverfisvænnar hönnunar á byggingum og jafnframt betri umhverfisstjórnunar á verktíma og rekstrartíma byggingarinnar.  BREEAM stendur fyrir Building Research Establishment´s Environmental Asessment Method og er kerfið þróað og viðhaldið af bresku rannsóknarstofnuninni í byggingariðnaði.

Með BREEAM vottunarkerfinu er verið að svara þörf fyrir viðmiðunarramma um hvað sé vistvænt mannvirki. Kröfurnar endurspegla ákveðið mat á því hvað er vistvænt og hvað ekki og hönnuðir og aðrir sem að mannvirkjagerð koma fá í hendur verkfæri sem leiðbeinir á þessu sviði.

Í BREEAM hafa verið skilgreindar kröfur eða viðmið sem að lágmarki uppfylla lagalegar kröfur á viðkomandi sviði og er það síðan hönnuða, byggingaraðila og rekstraraðila að leita leiða til nýsköpunar og útfærslu leiða sem uppfylla kröfurnar eins og hentar fyrir hverja byggingu.  Kröfurnar eru uppfærðar reglulega sem þýðir að þær kröfur sem gerðar eru í BREEAM í dag  eru ekki þær sömu og gerðar voru fyrir 5 árum.  Þannig eru kröfurnar sífellt í endurskoðun sem leiðir til framþróunar í mannvirkjagerð. Vottunarkerfið er þannig hvatakerfi fyrir vistvæna hönnun og byggingu mannvirkja en jafnframt viðurkennd staðfesting á að mannvirkið uppfylli ákveðnar gæðakröfur.  Kristinn J. Gíslason, verkfræðingur, segir að stefnt sé að því að mannvirkin nái BREEAM einkuninni „VERY GOOD“ .

Nánari upplýsingar: