Dagur Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012

Menning og listir

""

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, veitti í dag í Höfða Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012.  Besta ljóðahandritið að mati dómnefndar var Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð eftir Dag Hjartarson.

Dagur Hjartarson er fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1986, en hefur búið alla tíð í Reykjavík. Hann stundar nú meistaranám í íslenskum bókmenntum og ritlist við  HÍ og vinnur á Kleppi með námi. Ljóðabókin Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð kemur út hjá bókaforlaginu Bjarti í dag og verður fyrsta bók höfundar. Fyrir tæpum mánuði hlaut Dagur  einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur sem kemur væntanlega út á næsta ári. Þess má til gamans geta að faðir Dags, Hjörtur Marteinsson, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir skáldsöguna AM 00.

Alls bárust 49 handrit að þessu sinni. Í dómefnd sátu Ingibjörg Haraldsdóttir, Bragi Ólafsson  og Davíð Stefánsson formaður nefndarinnar.  Í umsögn dómnefndar um ljóðahandritið segir m.a.: 

,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast - og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“

Verðlaunin nema 600 þúsund krónum og er útgáfuréttur í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður.