No translated content text
Dagur B. Eggertson borgarstjóri afhenti í dag samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) fékk viðurkenningu fyrir að stuðla að vistvænum ferðamáta starfsmanna og Eva Ólafsdóttir hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) fyrir verkefni sem stuðlar að aukinni hreyfingu og er liður í meðferð unglingahóps.
Reykjavíkurborg veitir árlega samgönguviðurkenningu í tengslum við evrópska samgönguviku. Hún er hugsuð sem hvati til að innleiða vistvæna samgöngumáta á fjölbreyttum vinnustöðum í borginni, veita fyrirtækjum og stofnunum viðurkenningu fyrir það sem vel er gert og hvetja til frekari dáða. Við afhendingu samgönguviðurkenningar í dag var einnig opnuð vefsíðan Hjólaborgin sem miðar að því að efla hjólreiðar og vistvænan ferðamáta í borginni. Þar má m.a. skoða hjólreiðaáætlun borgarinnar fram til ársins 2020.
Vistvænar ferðavenjur hjá ÁTVR
Í mati dómnefndar fyrir samgönguviðurkenningu segir að ÁTVR hafi sýnt góðan árangur við að breyta ferðavenjum starfsmanna í átt að vistvænni samgöngumátum. Á vinnustaðnum sé starfsfólk hvatt til heilsueflingar með líkamsræktarstyrkjum og samgöngusamningum. Ferðamáti starfsmanna er mældur bæði á sumrin og veturna. Veturinn 2014 notuðu 44% starfsmanna einkabíl í ferðir til og frá vinnu og er það mikil lækkun frá sumrinu 2012 þegar 60% starfsmanna komu til vinnu á bíl. Á sumrin er hlutfall þeirra sem nota einkabíl enn lægra eða um 33%. Til samanburðar kemur fram í ferðavenjukönnun frá 2014 að 75% Reykvíkinga nota einkabíl í ferðir á milli staða. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað verulega hjá starfsfólki ÁTVR eða úr 140 tonnum árið 2012 í 99 tonn árið 2014. Heilsufarsmælingar hafa verið gerðar reglubundið hjá ÁTVR og mælist heilsufar starfsmanna mun betra en meðaltal á landsvísu. Sem dæmi má nefna að hlutfall þeirra sem eru í kjörþyngd hefur aukist úr 40% í 49% á milli áranna 2014 og 2015. Til samanburðar er landsmeðaltalið 39%. Sjá umsókn ÁTVR um samgönguviðurkenningu.
Aukin hreyfing hjá BUGL
Eva Ólafsdóttir er sá einstaklingur sem hlýtur samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar 2015. Hún starfar sem félagsráðgjafi á legudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL).
Þar var ákveðið að setja á fót prógramm fyrir unglingana sem meðal annars fæli í sér meiri hreyfingu. Þá var farið að skoða hjólin sem voru í misgóðu ásigkomulagi og leitaði ráðgjafi á deildinni til Evu Ólafsdóttur félagsráðgjafa þar sem hún hafði tengingu við Reiðhjólabændur. Hún sendi beiðni á bændurna sem svöruðu að bragði og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Sumir komu með varahluti og bjöllur. BUGL átti fimm hjól og fékk deildin eitt hjól til viðbótar gefins frá einum reiðhjólabónda. Hjólin verða notuð sem hluti af meðferð unglingahóps á legudeild BUGL. Eva sá um að taka á móti sjálfboðaliðum og halda utan um verkefnið, ásamt ráðgjafa á deildinni.
Mælanlegur árangur og vilji til að efla vistvænni samgöngumáta
Aðrir sem hlutu tilnefningu að þessu sinni voru Valitor, Umboðsmaður skuldara og Strætó.
Dómnefndin byggði val sitt á mælanlegum árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda starfsfólki að nýta sér virka ferðamáta, s.s. að hjóla og ganga. Þeir vinnustaðir sem komu til greina að þessu sinni hafa sýnt góðan vilja til að efla vistvænni samgöngumáta. Í dómnefndinni sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi, Héðinn Svarfdal Björnsson, Embætti landlæknis, Hrönn Guðmundsdóttir, ÍSÍ, Rannveig Magnúsdóttir, stjórnarmaður Landverndar og Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar.
(setja inn link á PDF skjalið sem er umsókn ÁTVR)
Samgönguviðurkenningin
Viðurkenningin er byggð á umsóknum frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum sem stigið hafa mikilvæg skref í starfsemi sinni í átt til vistvænni samgöngumáta. Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem fyrirtæki eða stofnanir hafa gripið til í þeim tilgangi að draga úr umferð á sínum vegum og einfalda starfsfólki að nýta sér virka samgöngumáta.
Árið 2014 hlutu Sesselja, Landspítalinn og Fjármálaeftirlitið samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar, árið 2013 hlutu Landsbankinn og Hugsmiðjan viðurkenningar, en Mannvit, Alta og Landsamtök hjólreiðamanna árið 2012.
Reykjavíkurborg leggur einnig sitt af mörkum til að auðvelda íbúum að tileinka sér vistvæna ferðamáta, t.d með lagningu hjólastíga og gera gönguleiðir öruggar og áhugaverðan valkost. Fyrirtækin í borginni skapa einnig umgjörð til að einfalda starfsfólki að nýta sér vistvæna samgöngumáta.