Ársskýrsla velferðarssviðs 2014

Velferð

""

Ársskýrsla velferðarsviðs fyrir árið 2014 er komin út.  Í skýrslunni er hægt að kynna sér þjónustu og starfsemi sviðsins. Í skýrslunni kemur m.a. fram að yfir tuttugu þúsund einstaklingar nýttu sér þjónustu  velferðarsviðs með einhverjum hætti á árinu 2014. 

Meðal þeirra voru tæplega níu þúsund sem fengu greiddar húsaleigubætur og yfir þrjú þúsund fengu félags- eða sálfræðirágjöf. Á velferðarsviði fer fram mjög umfangsmikil starfssemi en 129 starfseiningar eru starfsræktar á sviðinu og þar vinna 2.351 starfsmenn. Heildarútgjöld Reykjavíkurborgar til starfssemi sviðsins námu 15,7% af heildarútgjöldum borgarinnar.

Árið 2014 var viðburðarríkt. Stefán Eiríksson tók við stöðu sviðsstjóra og stefna Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk, í málefnum utangarðsfólks og í forvarnarmálum tóku gildi. Samþykkt var að byggja fleiri búsetukjarna fyrir fatlað fólk og Reykjavíkurborg sótti um að vera meðal þeirra borga í Evrópu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir sem aldursvæna borg. Það þýðir að á næstu árum mun borgin  meta stöðu sína og vinna að því að vera aðgengileg, aðlaðandi og hentug borg fyrir eldri borgara.

Samþykkt var að innleiða verkefni gegn heimilisofbeldi í samvinnu við önnur sveitarfélög og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Gistiskýlið fyrir heimilislausa karla flutti í nýtt og betra húsnæði að Lindargötu 48, þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða flutti einnig í betra húsnæði á Laugavegi 77 og félagsmiðstöðin Borgir opnaði í Spönginni í Grafarvogi. Þetta og svo margt fleira má lesa um í ársskýrslu velferðarsviðs árið 2014.

Tölfræðiviðauki fylgir skýrslunni en minni áhersla hefur verið lögð á að birta töflur og annað tölfræðiefni í ársskýrslu þar sem þær upplýsingar er hægt að nálgast á vef borgarinnar bæði í Árbók Reykjavíkur og í lykiltölum velferðarsviðs.

Skýrsla velferðarsviðs 2014 er 50 bls. að lengd með enskri þýðingu á aðalefni og tölfræðiviðauka. Skýrslan er áhugaverð lesning og gefur góða mynd af velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar árið 2014.

Ársskýrsla velferðarsviðs.