Áramótin eru jafnan mikill gleðitími ekki síst vegna allra þeirra flugelda sem skreyta næturhimininn. Flugeldum fylgir hins vegar rusl, svifryk, hávaði og önnur mengun og að ýmsu þarf að huga.
Flugeldum fylgir rusl
Þegar gamla árið er kvatt og því nýja fagnað með flugeldum fellur til mikið magn flugeldaleifa og eru borgarbúar eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna þeim saman og skila á endurvinnslustöðvar Sorpu. Púður er einungis 10% af heildarþyngd flugelda, restin er aðallega pappi og leir. Slíkur pappír hentar alls ekki til endurvinnslu. Ósprungnum flugeldum skal skila í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.
Svifryk
Svifryk fór átta sinnum yfir sólarhringheilsuverndarmörk árið 2013. Styrkur svifryks í Reykjavík var rétt undir mörkum á nýársnótt 2013 eða 49,2 míkrógrömm á rúmmetra. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra Núna er búist við norðaustankalda, 8-13 m/s og þurrviðri í Reykjavík á áramótum og því litlar líkur á mikilli svifryksmengun á nýársnótt, að sögn Kristínar Lóu Ólafsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á www.reykjavik.is/loftgaedi en þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík m.a. mælistöð á Grensásvegi sem miðað er við þegar hugað er að loftgæðum um áramót. Önnur loftgæðafarstöðva Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er að þessu sinni staðsett við leikskólann Geislabaug í Grafarvogi.
Hávaði
Hávaði vegna flugelda verður oft feikilega mikill. Foreldrar ættu að gæta að börnum sínum því þau eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir hávaða og dýraeigendur að dýrum sínum. Sum dýr geta orðið skelfingu lostin þegar flugeldakökur eru sprengdar í borginni. Æskilegra er að safnast saman fjarri húsum og sprengja á opnum svæðum. Fólk sem er viðkvæmt fyrir svifryki og hávaða ætti að vera inni þegar mest gengur á um miðnætti og loka gluggum.
Innflutningur á flugeldum
Heildarinnflutningur á flugeldum er að þessu sinni um 400 tonn samkvæmt upplýsingum frá Oddi Ólafssyni varðstjóra hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Árið 2012 voru 648 tonn flutt til landsins og árið 2011 575 tonn. Leyfilegt er að selja afganga af flugeldum sem fluttir voru inn 2011 og 2012.
Brennur
Söfnun í þær tíu áramótabrennur sem verða í Reykjavík hófst 27. desember og kemur efnið meðal annars frá fyrirtækjum en einungis hreint timbur er notað í brennurnar. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með brennunum ásamt Lögreglunni og Slökkviliðinu á Höfðuborgarsvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur jafnframt eftirlit með hreinsun á brennustað.
Tenglar:
Upplýsingar um styrk svifryks í Reykjavík
Endurvinnslustöðvar Sorpu