Andri Snær Magnason fær barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs
Skóli og frístund Menning og listir
Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason var valin besta frumsamda bókin sem kom út á árinu 2013 og Veiða vind í þýðingu Þórarins Eldjárn best þýdda barnabókin.
Andri Snær Magnason veitti í dag viðtöku barnabókaverðlaunum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir bókina Tímakistuna sem Mál og Menning gaf út. Þórarinn Eldjárn fékk verðlaunin fyrir þýðingu sína á færeyska tónlistarævintýrinu Veiða vind eftir Rakel Helmsdal, Janus á Húsagarði og Kára Bæk sem Mál og menning gaf einnig út. Þetta er í þriðja sinn sem Þórarinn fær þýðingarverðlaunin, en hann hefur tvisvar fengið þau fyrir bestu frumsömdu barnabókina. Verðlaunin voru nú afhent í 42. sinn við hátíðlega athöfn í Höfða.
Í umsögn valnefndar um verðlaunabókina Tímakistuna segir m.a.:
- Í Tímakistunni leiðir undurfallegur texti lesandann inn í ævintýri tveggja heima og kveikir margar spurningar. Tíminn sjálfur er undirliggjandi, yfirvofandi og allt umlykjandi í þessari sögu enda okkur mannfólkinu kannski það hugleiknasta í lífinu. Okkur þyrstir ætíð í ævintýri. Við þurfum þau inn í okkar ævintýri og þegar þau eru sögð af jafn mikilli innlifun og hugmyndaauðgi og hér er gert, getum við öll verið hamingjusöm á meðan á lestrinum stendur og jafnvel örlítið lengur…minnug þess sem aðalpersónan í Tímakistunni segir: „Sá sem sigrar tímann mun glata heiminum."
Í umsögn um þýðingu barnabókarinnar Veiða vind segir m.a.
- Þórarni tekst með þýðingu sinni, eins og honum einum er lagið, að fanga á léttan og ljóðræna hátt hinn fallega færeyska þjóðsagnaranda sem við könnumst flest við og tileinka sér textann svo hann skili sér lifandi til lesandans.
Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, og Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, afhentu barnabókaverðlaunin síðdegis við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum fjölmörgum gestum. Meðal þeirra voru ungir sigurvegarar í Stóru upplestrarkeppninni sem lásu upp úr verðlaunabókunum.
Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Dómnefnd var að þessu sinni skipuð Margréti Kristínu Blöndal formanni, Mörtu Guðjónsdóttur og Guðrúnu Höllu Sveinsdóttur.
Meira um barnabókaverðlaunin.