Ný skýrsla um íbúalýðræðisverkefnin Betri Reykjavík og Betri hverfi sýnir að Reykvíkingar eru ánægðir með þau en þó er bent á ýmis tækifæri til úrbóta og að auka þyrfti þáttöku með öflugri lýðræðisverkefnum.
Reykjavíkurborg fékk Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til að vinna úttekt á Betri Reykjavík og Betri hverfum. Í tengslum við úttektina var m.a. gerð skoðanakönnun með 2.500 manna úrtaki þar sem hugur almennings var kannaður til verkefnanna en einnig voru tekin viðtöl við embættismenn Reykjavíkurborgar og kjörna fulltrúa þar sem þeir voru spurðir út í verkefnin.
Í skýrslunni kemur fram að verkefnin Betri Reykjavík og Betri hverfi séu hluti af samfélagsstraumum undanfarinna missera hérlendis og á alþjóðavísu þar sem kallað er á aukið samráð milli íbúa og stjórnvalda við opinbera ákvarðanatöku. Verkefnin séu svar við kröfu í íslensku samfélagi um aukið lýðræði í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Almennur vilji til að geta haft áhrif
Úttektin sýnir að mikill almennur vilji er meðal borgarbúa til að geta haft áhrif á nærumhverfi sitt og að geta átt í samræðu við borgaryfirvöld um borgarmálefni á netinu. Þá eru bæði verkefnin í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga frá 2011 um að nauðsynlegt sé að tryggja íbúum sveitarfélaga möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.
Bæði verkefnin Betri hverfi og Betri Reykjavík snúast í grunninn um að veita borgarbúum tækifæri til að koma hugmyndum á framfæri rafrænt á vefnum. Íbúar geta rætt hver við annan um hugmyndir sínar, skrifað rök við hugmyndir annarra og aflað þeim fylgis eða kosið gegn þeim. Eftir þetta ferli tekur borgin við, metur hugmyndirnar og framkvæmir þær eftir atvikum. Í tilfelli Betri hverfa er þetta ferli ívið flóknara þar sem fyrst er farið í hugmyndasöfnun meðal íbúa, síðan tekur fagnefnd við og fer yfir hugmyndirnar sem að lokum er stillt upp til rafrænna kosninga eftir hverfum í borginni.
Niðurstöður úttektarinnar sýna að almenn ánægja er með samráðsvefina meðal borgarbúa en ánægjan fer þó ekki endilega saman við virkni og þátttöku. Þannig er virkni með því minnsta, en jafnframt ánægja með því mesta, í Breiðholti og Miðborginni.
Samkvæmt skoðanakönnuninni þekkir ríflega fjórðungur borgarbúa vel eða mjög vel til verkefnanna, rúmlega þriðjungur hefur heyrt af þeim og annar þriðjungur þekkir ekki til þeirra.
Úttektin sýnir að þátttaka í Betri Reykjavík og Betri hverfum er mest í þeim samfélagshópum sem almennt eru virkastir hvað varðar pólitíska þátttöku og virkni, þ.e. háskólamenntaðir einstaklingar, þeir sem eru tekjuhærri og millialdurshóparnir. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra og innlendra rannsókna á þessu sviði.
Starfsmenn síður ánægðir
Þá kemur fram í úttektinni að starfsmenn stjórnsýslu borgarinnar eru mun síður ánægðir með samráðsvefina og ýmsa þætti framkvæmdarinnar en borgarbúar og kjörnir fulltrúar sem gefur til kynna að huga þurfi betur að framkvæmd verkefnanna og samfléttun þeirra við stjórnsýslu borgarinnar.
Eiginlegt samráðið á vefjunum er þó minna en ætla mætti og á það einkum við um BR. Þar á sér einkum stað samræða milli borgarbúa innbyrðis frekar en samtal þeirra við borgaryfirvöld.
Þá segir í úttektinni að þar sem Betri hverfi snúist um bindandi kosningar þar sem opinberum fjármunum er ráðstafað sé umhugsunarefni hvort þátttaka í hverfakosningum sé viðunandi.
Meginniðurstaða úttektarinnar er engu að síður sú að margvísleg tækifæri felist í samráðsvefjunum, eftirspurn sé eftir samráði meðal borgarbúa og að pólitískur vilji sé til staðar hjá borgaryfirvöldum að auka samráð við borgarbúa. Hins vegar þurfi að skilgreina betur hvert hlutverk verkefnanna eigi að vera.