90% ferðamanna gefa Reykjavík frábæra einkunn

Mannlíf Menning og listir

""

Á síðasta ári komu tæplega 1,8 milljónir gesta til landsins. Langflestir þeirra eða um níu af hverjum tíu gistu í Reykjavík og að jafnaði í fjórar til sex nætur. Samkvæmt því voru gistinætur í borginni í fyrra um 5,2 milljónir og má lauslega áætla að ferðamenn hafi eytt 160 milljörðum króna miðað við fjölda gistinátta og 30 þúsund kr. meðalútgjöld á dag.
 

Reynsla ferðamanna af Reykjavík árið 2016 var mjög jákvæð en níu af hverjum tíu sumargestum og tæplega 92% gesta vetrargesta töldu reynsluna af borginni frábæra eða góða. Einungis 1% töldu hana slæma. Ferðamenn segjast ætla að mæla með borginni við aðra eða 96%  gesta utan sumartíma og 94% sumargesta. Erlendir gestir borgarinnar eru ánægðastir með sundlaugarnar af þeim þáttum sem spurt var um.

Þetta kemur fram í könnun sem nefnist Dear Visitors og Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RFF) framkvæmdi fyrir Höfuðborgarstofu árið 2016. Könnunin var gerð meðal erlendra brottfarþega í Leifsstöð en alls fengust þrjú þúsund gild svör. Niðurstöðurnar eru jafnframt fengnar úr  greinagerð sem byggir á sambærilegum könnunum (RFF) fyrir Höfuðborgarstofu í þrettán ár eða frá 2004-2016. 

Gista fjórar til sex nætur að jafnaði í Reykjavík

Á tímabilinu 2004-2016 gistu að jafnaði 91% sumargesta og 95% vetrargesta í Reykjavík. Að jafnaði dvelja ferðamenn í fjórar til sex nætur í borginni. Má áætla að gistinóttum hafi fjölgað úr 1,3 milljónum veturinn 2004-2005 í nær 5,2 milljónir árið 2016, eða fjórfalt. Ef gert er ráð fyrir að meðalútgjöld hvers ferðamanns séu um 30 þúsund krónur á dag má lauslega áætla að útgjöld erlendra ferðamanna í Reykjavík árið 2016 hafi verið nær 160 milljarðar króna miðað við fjölda gistinátta. Þá eru ekki meðtaldar tekjur fyrirtækja sem staðsett eru í Reykjavík og gera út á ferðir um allt land eða eru með aðra ferðaþjónustustarfsemi á landsvísu. Það er því verðugt rannsóknarefni að skoða betur heildarhagsmuni Reykjavíkur af ferðaþjónustu og margfeldisáhrif þessarar sívaxandi atvinnugreinar fyrir borgina.

Spurt var um um afþreyingu ferðamanna í Reykjavík og sögðust flestir ferðamenn hafa farið á veitingahús eða tæplega 80% og fá þau góða einkunn eða tæplega átta. Samkvæmt þessu fór um 1,3 milljónir ferðamanna á veitingahús á síðasta ári og hefur hlutfall ferðamanna sem fara á veitingahús í Reykjavík farið vaxandi síðustu ár og hækkaði meðaleinkunn veitingahúsa úr 7 í 7,8 á tímabilinu 2004-2016. Ánægjan lækkar þó lítillega frá fyrra ári.

Sama á við um verslun en þeim heldur áfram að fjölga sem segjast versla í Reykjavík og eru nú um sex af hverjum tíu ferðamönnum. Áætlað er að um ein milljón erlendra ferðamanna hafi verslað í Reykjavík á síðasta ári. Ferðamenn eru mun ánægðari með verslun í borginni nú en áður en meðaleinkunn verslana á tímabilinu 2004-2015 hækkaði úr sex í sjö. Örlítil lækkun var þó milli áranna 2015 og 2016 og fær ánægjan nú tæplega 7 í einkunn.

Þriðjungur ferðamanna í skipulagða dagsferð

Ríflega þriðjungur fólks fór í skipulagða dagsferð frá Reykjavík árið 2016 og sama hlutfall skoðaði söfn eða sýningar. Fólk er nokkuð ánægðara með dagsferðirnar sem fá 8,5 í einkunn en söfn og sýningar í borginni sem fá 7,8 í einkunn. Fólk eldra en 55 ára segist frekar sækja söfn og sýningar en yngri hópurinn. Yngra fólkið fór hins vegar frekar í sund en alls fóru þrír af hverjum tíu fór í sund. Frá því mælingar hófust hefur sund fengið hæstu meðaleinkunnina af þeim afþreyingarmöguleikum sem spurt er um eða um 8,6. 
Á síðasta ári var í fyrsta skipti spurt hvort fólk hefði keypt íslenska hönnun og hafði um 16% svarenda gert það eða alls um 270 þúsund erlendir ferðamenn og gefa þeir íslenskri hönnun góða einkunn eða 7,8.

Af sjö stöðum sem spurt var um hvort fólk hefði skoðað í Reykjavík árið 2016 fóru flestir um hafnarsvæðið eða 73%  og má því áætla að um 1.250 þúsund ferðamenn hafi heimsótt hafnarsvæðið og Grandann. Sjö af hverjum tíu hafði farið um Laugaveginn, 67% að Hallgrímskirkju og 54% heimsóttu Hörpu.  Þriðjungur gesta heimsótti Ráðhúsið á síðasta ári eða um 560 þúsund manns. 17% gesta hafði farið í Perluna. Fæstir sögðust leggja leið sína í Laugardalinn eða ríflega einn af hverjum tíu en gera má ráð fyrir að þeir séu fleiri þar sem gríðarlegur fjöldi fer í Laugardalslaug og gerir sér ekki endilega grein fyrir að hún er í Laugardalnum.

Gleðiefni fyrir borgina og íbúa hennar

Áshildur Bragadóttir forstöðukona Höfuðborgarstofa segir um niðurstöðurnar:
,,Þrátt fyrir sívaxandi fjölda ferðamanna í Reykjavík er ánægja þeirra með áfangastaðinn mikil og hefur viðhorf þeirra til einstakra þátta verið svipuð ár frá ári sem er virkilegt gleðiefni. Ákveðnar vísbendingar eru um að ánægjan sé örlítið að lækka á vissum þáttum afþreyingar í borginni eins og með veitingastaði og verslun og er afar líklegt að styrking krónunnar hafi þar áhrif á. Á heildina litið eru ferðamenn þó mjög ánægðir með áfangastaðinn Reykjavík og allt að 96% þeirra segjast ætla að mæla með Reykjavík við vini og fjölskyldu. Það segir okkur að við tökum vel á móti gestum okkar sem íbúar og áfangastaður. Niðurstöðurnar eru ánægjuefni fyrir borgina og íbúa hennar.“

Ánægjukönnun - Erlendir ferðamenn í Reykjavík