Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

21. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 7. apríl, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 21. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Kristjana M. Kristjánsdóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason forstöðumaður rekstrarsviðs og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu sem ritaði fundargerð.

1. Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarnefndar skóla og leikskóla frá 24. mars s.l.

2. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 24. mars s.l., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði.

3. Lagt fram bréf deildarstjóra starfsmannadeildar, dags. 25. mars s.l., varðandi kaup og kjör stuðningsfulltrúa í skólum. Svar við fyrirspurn Svanhildar Kaaber frá 11. mars s.l.

4. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra, dags. 19. mars s.l., varðandi starfssamning félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um forvarnaverkefni í grunnskólum Reykjavíkur gegn vímuefnaneyslu nemenda og um starfrækslu fjölskyldumiðstöðvar.

5. Lögð fram beiðni um styrkveitingu fyrir foreldraráð Hólabrekkuskóla fyrir skólaárið 1996-1997, dags. 12. mars s.l. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða: Fræðsluráð metur mikils samstarf og stuðning foreldraráða og foreldrafélaga, enda eigum við sameiginlegt markmið: Metnaðarfullt skólastarf og að skólarnir verði góður vinnustaður barna okkar. Hins vegar telur fræðsluráð Reykjavíkur að ekki sé unnt að verða við styrkbeiðni foreldraráðs Hólabrekkuskóla. Fræðsluráð lítur svo á að stuðningur og skilningur á mikilvægi foreldrastarfs í skólum felist í styrkveitingum okkar til Samfoks. Fræðsluráð hefur á þessu kjörtímabili hækkað styrki til Samfoks úr kr. 250 þús. í 1.800 þús. á ári. Vilji er hjá ráðinu að endurskoða þetta fyrirkomulag, ef óskir koma fram þar um. Þá finnst okkur eðlilegt að skólarnir reyni að aðstoða foreldra við útsendingar bréfa og dreifingu.

6. Lagt fram að nýju erindi Landssambands slökkviliðsmanna, dags. 22. janúar s.l. Samþykkt að veita styrk að upphæð 150.000 fyrir árið 1997.

7. Lagt fram bréf skólastjóra Rimaskóla, dags. 12. mars s.l., varðandi fjárhagsáætlun skólans. Einnig lagt fram minnisblað forstöðumanns rekstrarsviðs, dags. 3. mars s.l. vegna sama máls. Forstöðumaður rekstrarsviðs gerði grein fyrir málinu.

8. Lögð fram ályktun fulltrúaráðsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga um rekstrarfyrirkomulag sérskóla og sérdeilda og greinargerð Sambandsins um sama efni. Fræðsluráð gerir ekki athugasemd ályktun þessa og felur Fræðslumiðstöð að vinna áfram að málinu.

9. Lögð fram tillaga Fræðslumiðstöðvar um meðferð umsókna um skólavist nema utan lögheimilissveitarfélags. Samþykkt.

10. Lögð fram drög að skýrslu starfshóps um 6-7 klst. vinnudag grunnskólanemenda. Fræðslustjóri fylgdi skýrslunni úr hlaði og fræðsluráð ræddi drögin.

11. Lögð fram tillaga úthlutunarnefndar Þróunarsjóðs grunnskóla Reykjavíkur að úthlutun fyrir árið 1997. Frestað.

12. Lagt fram bréf verðlaunanefndar um bókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, dags. 7. apríl 1997, um veitingu verðlauna ársins 1997.

13. Lagt fram erindi Knattspyrnusambands Íslands, dags 3. apríl s.l., varðandi heimsóknir í grunnskóla o.fl. í tilefni Dags knattspyrnunnar 2. maí 1997. Frestað.

14. Lagðar fram viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga um veitingu launalausra leyfa kennara og skólastjóra í grunnskólum. Samþykkt að fara eftir þessum viðmiðunarreglum í Reykjavík.

15. Lögð fram tillaga starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar um viðmiðunarreglur vegna afleysinga í lengri leyfum skólastjóra. Samþykkt.

16. Lagðar fram beiðnir eftirfarandi skólastjórnenda um fastráðningu frá 1. ágúst n.k. Erna Sveinbjarnardóttir skólastjóri Langholtsskóla Ragnhildur Skjaldardóttir aðstoðarskólastjóri Langholtsskóla Hafsteinn Karlsson skólastjóri Selásskóla Samþykkt.

17. Lagt fram til kynningar yfirlit starfsmannadeildar Fræðslumiðstöðvar um afgreiðslur kennaramála, dags. 5. apríl s.l.

18. Lögð fram fyrirspurn Svanhildar Kaaber um innritun í skóla fyrir næsta skólaár.

Fundi slitið kl. 15.10

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Hulda Ólafsdóttir
Svanhildur Kaaber