Velferðarráð - Fundur nr. 93

Velferðarráð

Ár 2008, miðvikudaginn 12. desember var haldinn 93. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.45 á velferðarsviði, Borgartúni 12-14. Mættir: Hallur Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram tillaga um stofnun sérfræðiteymis í málefnum unglinga sem starfi þvert á fagsvið, ásamt greinargerð starfshóps dags. 24. nóvember 2008.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartilögu við aðaltillögu:

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að ekki verði hróflað við starfsemi Stígs og Traðar að sinni og að óskert fjármagn verði sett í málaflokkinn fyrir næsta ár. Hafin verði sem fyrst endurskoðun með það að markmiði að þjónusta fleiri unglinga sem eiga við félagslega erfiðleika, einangrun og hegðunarvandamál að stríða.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Tveir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Aðaltillagan var borin upp til atkvæða.
Aðaltillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, óháðra og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að óbreytt fjármagn fari til reksturs unglingasmiðjanna Stígs og Traðar en að starfsemin verði þróuð enn frekar með það að markmiði að þjónusta fleiri unglinga og betur en nú er gert. Í þessari tillögu felst hagræðing þar sem fleiri geta nýtt sér þjónustuna og úrræðið þ.a.l. hagkvæmara en nú. Með breyttu rekstrarfyrirkomulagi og aukinni samnýtingu er vel gerlegt að efla úrræðið fyrir sama fjármagn.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, óháðra og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og óháðra í velferðarráði telja eðlilegt að endurskoða fyrirkomulag starfsemi Stígs og Traðar með það að markmiði að efla og bæta þjónustuna. Það bendir þó allt til þess að sú tillaga sem hér var samþykkt standi ekki fyrir slíku. Tillagan gerir ekki ráð fyrir áframhaldandi þjónustu við fleiri einstaklinga í sömu erfiðleikum og hingað til hafa fengið þjónustu í unglingasmiðjunum, heldur augljóslega miklu færri. Það er ljóst að þegar starfsfólki fækkar og dregið er úr kostnaði um 20 milljónir dregur það óhjákvæmilega úr þjónustunni, faglegum gæðum og/eða þeim fjölda sem fær þjónustu. Það er því augljóst að þessi tillaga mun ekki standa undir því að þjónusta fleiri unglinga betur. Tillagan er dæmd til að taka þungavigtina úr því þroskandi, örvandi og hvetjandi uppeldisstarfi sem hingað til hefur einkennt unglingasmiðjurnar. Við teljum að samþykkt þessarar tillögu muni leiða til þess að þeir unglingar sem á hverjum tíma hafa haft þörf fyrir og fengið þjónustu í unglingasmiðjunum, muni ekki fá þjónustu við hæfi. Til lengri tíma litið teljum við að þessi breyting verði því bæði borginni og einstaklingunum dýrkeypt og mun dýrara en sá sparnaður sem nú er ráðist í.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í velferðarráði telur mikil sóknarfæri í þróun þjónustu við unglinga sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda vegna félagslegrar einangrunar. Slíkt starf hefur m.a. farið fram í unglingasmiðjunum Tröð og Stíg með góðum árangri. Með stofnun sérfræðiteymis verður byggt á starfi unglingasmiðjanna en lögð áhersla á að tengja betur starf félagsmiðstöðva ÍTR og einstaklingsbundin stuðningsúrræði við sértækt starf, fleiri unglingum til hagsbóta.
Með vinnu teymisins verður einnig hægt að styrkja starf félagsmiðstöðva ÍTR og einstaklingsbundin stuðningsúrræði eins og persónulega ráðgjafa og liðveislu á sviði velferðarsviðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja áherslu á að innihald þjónustunnar er það sem fyrst og fremst skiptir máli en ekki það húsnæði sem starfsemin er rekin í. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í velferðarráði telja að það fjármagn sem til verkefnisins er ætlað og önnur stuðningsúrræði á vegum velferðarsviðs og borgarinnar tryggi að þjónusta skerðist ekki. Við útfærslu á starfi teymisins verður meðal annars nýtt ráðgjöf og stuðningur frá ADHD samtökunum en ljóst er að hluti af þeim sem nýtt hafa þjónustu unglingasmiðjanna eru börn sem greinst hafa með ADHD.

2. Lögð fram drög að breytingum á reglum um greiðslu styrkja til áfangaheimila.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinar og óháðra lögðu fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og óháðra í velferðarráði leggja til að styrkir til áfangaheimila verði verðbættir á milli áranna 2007 og 2008.

Samþykkt var að fresta tillögunni til næsta fundar og fara fram á kostnaðarútreikning á henni.

3. Lagðar fram til kynningar gjaldskrár velferðarsviðs fyrir árið 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

4. Lögð fram tillaga sviðsstjóra dags. 9. desember 2008 varðandi starfsendurhæfingarúrræðið Ekron.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um húsnæðismál frá síðasta fundi velferðarráðs ásamt greinargerð.
Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggst gegn hugmyndum að Félagsbústöðum verði falið að taka íbúðarhúsnæði til leigu og endurleigja það síðan. Allt frá stofnun hefur það verið stefna Félagsbústaða sem er í eigu borgarinnar að eiga allt það íbúðarhúsnæði sem leigt er út. Félagsbústaðir er vel rekið fyrirtæki sem í krafti stærðar sinnar hefur getað boðið upp á góð híbýli og hagstæða leigu. Þessu til viðbótar er um að ræða félagslegt úrræði (rekið án hagnaðarvonar) sem nýtur sem slíkt hagstæðustu lánakjara (3.5#PR vextir) og býðst 90#PR lán hjá Íbúðalánasjóði. Vegna þessa er ekki hægt að búast við því að verktakafyrirtæki, leigufyrirtæki eða einstaklingar geti keppt til lengdar við Félagsbústaði á leigumarkaði nema að hugmyndin sé sú að þeir leigjendur sem búa í framleigða húsnæðinu greiði hærri leigu en aðrir leigjendur borgarinnar.
Það vekur furðu að meirihluti velferðarráðs skuli leggja í þennan leiðangur og ætla jafnframt að fækka þeim íbúðum sem til stóð að kaupa. Félagsbústaði vantar tæplega 900 íbúðir fyrir fólk í vanda og nær væri að stórauka kaup á íbúðarhúsnæði og slá þannig tvær flugur í einu höggi, leysa vanda leigjendanna og hafa jákvæð áhrif á íbúðamarkað í Reykjavík.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra í velferðarráði samþykkja að Félagsbústaðir auglýsi eftir íbúðum á almennum leigumarkaði til framleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði í eigu borgarinnar. Það er afar ánægjulegt þegar markaðsaðstæður geta nýst þeim sem verst eru staddir í samfélaginu, en hingað til hefur svo ekki verið. Því er það eindreginn vilji okkar að nýta þessar aðstæður í þeirra þágu.

6. Lögð fram skýrsla starfshóps um skráningu verkferla sem lúta að vistunum barna utan heimilis og varða eftirlit með aðbúnaði og líðan barna meðan á vistun stendur og eftir að vistun lýkur.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

7. Lagður fram til kynningar samningur velferðarsviðs og SÁÁ um rekstur búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

8. Staða mála vegna aðgerðaráætlunar velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

9. Framvinda í málefnum geðfatlaðra.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

10. Sameining heimaþjónustu og heimahjúkrunar.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir framvindu í málinu.

11. Umræða um vinnu við fjárhagsáætlun 2009.
Varaformaður velferðarráðs og sviðsstjóri velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu.

Sif Sigfúsdóttir vék af fundi kl. 17.25.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra í velferðarráði lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það er grunnskylda hvers samfélags að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuðið, fæði, klæði og jafna möguleika til menntunar, heilbrigðisþjónustu og þátttöku í samfélaginu. Nú liggur fyrir í drögum að fjárhagsáætlun að ekki er gert ráð fyrir hækkun fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð er í dag krónur 99.329 fyrir einstakling og 158.926 fyrir hjón á mánuði. Hvernig fólk getur lifað á þessum bótum við núverandi ástand er vandséð. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka lífeyrisgreiðslur um 20#PR og tryggja þannig lágmarksframfærslu almannatrygginga í 180 þúsund krónur á mánuði. Þá hafa nær allir launþegar landsins fengið 20.300 króna hækkun á þessu ári. Fulltrúar Samfylkingar, óháðra og vinstri grænna munu ekki sætta sig við annað en að þeir sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hækki um 20 þúsund krónur á mánuði eins og aðrir launþegar, lífeyrisþegar og íbúar annarra sveitarfélaga. a.m.k. 30#PR lækkun á yfirvinnu. Yfirvinna á velferðarsviði er unnin á þeim heimilum þar sem fólk býr, hjúkrunarheimilum og vistheimilum barna. Er það raunverulegu vilji borgaryfirvalda að skera niður þá yfirvinnu þannig að þegar forföll verða á þessum stöðum hafi börnin og hjúkrunarsjúklingarnir enga gæslu. Raunar er líka yfirvinna í heimaþjónustunni – en þar á í hlut tekjulægsti hópurinn hjá borginni. Í þjónustusamningum við frjáls félagasamtök s.s. Kvennaathvarf, Stígamót, Rauða krossinn og fleiri, sem sinna mjög mikilvægri velferðarþjónustu við borgarbúa, er ekki gert ráð fyrir vísitöluhækkun. Þeir samningar taka breytingum samkvæmt fjárhagsramma velferðarsviðs. Ekki er séð við þessar aðstæður hvernig þessir aðilar geta sinnt fólki sem sérstaklega verður illa úti á krepputímum vegna félagslegra afleiðinga atvinnuleysis. Þær afleiðingar eru fyrir utan þær augljósu s.s. aukna fátækt og húsnæðiserfiðleika, aukið heimilisleysi, heimilisofbeldi, áfengisneysla, fjölgun barnaverndarmála og margháttaður félagslegur og heilbrigðisvandi. Þessar afleiðingar eru óumdeildar og í samræmi við sérstakt minnisblað sérfræðinga velferðarsviðs. Auðveldlega er hægt að gagnrýna fleiri þætti í áætluninni. Ekki er tekið tillit til óumflýjanlegs kostnaðar vegna félagslegra afleiðinga atvinnuleysis sem ætti að vera aukið starfsmannahald á þjónustumiðstöðvum og barnavernd. Þá er vanáætlað fjármagn til húsaleigubóta, en fleiri munu eiga rétt á þeim þegar tekjur lækka og leiguíbúðum fjölgar. Í öllum þessum tilfellum er um grunnþjónustuna að ræða sem þverpólitískt samkomulag var um í borgarstjórn að verja sem við fulltrúar í velferðarráði munum áfram standa vörð um. Að lokum lýsum við yfir vonbrigðum með að enn einn fundurinn skuli vera haldinn í ráðinu án þess að drög að starfs- og fjárhagsáætlun séu lögð fram, þrátt fyrir að nokkrir dagar eru til fyrri umræðu í borgarstjórn. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vel sé vandað til áætlana á sviði velferðarmála því það er öllum ljóst að margir munu eiga um sárt að binda á næsta ári. Það er ekki að undra að sá grunur fæðist að meiningin sé af hálfu meirihlutans að umræða um fjárhagsáætlun og velferðarmál kafni í amstri jóla og áramóta.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það hryggir fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verulega að fulltrúi Vinstri grænna, óháðra og Samfylkingar hafi ekki tekið boði um vinnslu sameiginlegs minnisblaðs til aðgerðahóps borgarinnar vegna fjárhagsáætlunar um nauðsynlegar breytingar á drögum að fjárhagsáætlun borgarinnar. Í stað þess að standa saman í velferðaráði sem heild með það að markmiði að tryggja velferðasviði fjármagn til aukinna útgjalda sem verða vegna efnahagsástandsins og vinna þannig að framgangi málaflokksins kjósa fulltrúi Vinstri grænna, óháðra og Samfylkingar að bóka sérstaklega í stað samvinnu. Það hefði verið frekar í þágu borgarbúa að velferðaráð hefði í heild sinni unnið að málinu gagnvart aðgerðahóp borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í velferðaráði munu hins vegar vinna að krafti að tryggja fjármagn til að tryggja rekstur velferðarsviðs í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra í velferðarráði lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í velferðarráði hafa haft fleiri vikur innan meirihluta borgarstjórnar til koma áherslum sínum á framfæri við æðstu stjórnendur borgarinnar. Það hafa þau ekki gert, en neita að vinna með fulltrúum Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra sem vilja segja sannleikann um þá fjármuni sem ætlaðir eru til velferðarmála á næsta ári.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Því fer fjarri að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi neitað samvinnu við fulltrúa Samfylkingarinnar, óháðra og Vinstri grænna. Þvert á móti hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagt sig fram um að ná saman um sameiginlegan þrýsting á aukið fjármagn til velferðarsviðs miðað við fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun.

Fundi slitið kl. 18.15

Hallur Magnússon
Jóhanna Hreiðarsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir Marsibil Sæmundardóttir
Þorleifur Gunnlaugsson