Velferðarráð - Fundur nr. 86

Velferðarráð

Ár 2008, þriðjudaginn 9. september, var haldinn 86. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:15 á Velferðarsviði, Borgartúni 10-12. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Hallur Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson og Marsibil Sæmundardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Ingunn Þórðardóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum ásamt aðgerðaáætlun.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar,Vinstri grænna og óháðra lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Starfshópur sem hafði það hlutverk síðan 10. janúar 2007 að móta stefnu í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum, er nú að ljúka störfum. Starfshópurinn fundaði alls 18 sinnum á tímabilinu og boðaði á fundi sína fjölmarga hagsmunaaðila og fagfólk í málefnum utangarðsfólks auk samráðs við notanda. Til að það verði tryggt sem best að stefna í málefnum utangarðsfólks muni leiða til markvissrar vinnslu í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík leggur minnihluti velferðarráðs til að tillaga að stefnu ráðsins um málaflokkinn verði send þeim aðilum sem sátu fundi með hópnum til umsagnar.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð vill að stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2008-2012 verði send þeim aðilum sem sátu fundi með hópnum, til umsagnar. Velferðarráð mun taka ábendingar er fram koma til skoðunar og með það að markmiði að nýta þær í framkvæmd aðgerðaáætlunar.

Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Samráð og samstarf við samstarfsaðila á að eiga sér stað áður en máli er lokað með samþykkt stefnu.

Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum var borin upp til atkvæða.
Stefnan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar þeim áfanga sem náðst hefur í stefnumótun um málefni utangarðsfólks af báðum kynjum. Stefnan er að mörgu leyti góð. Það getur þó ekki talist ásættanlegt að heimilislausum sé ekki tryggt húsaskjól í gistiskýlum fyrr en á árinu 2009, enda verður að bregðast við þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er í vetur. Ennfremur þolir langtímabúsetuúrræði fyrir konur í neyslu enga bið. Eigi áformin að geta orðið að veruleika er brýnt að til komi meira en húsaskjól, fagþjónusta verður að vera til staðar og kjör og aðbúnaður starfsfólks verður að vera ásættanlegur. Nokkuð skortir upp á þessar áherslur í stefnunni. Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum hlýtur að gera ráð fyrir því að stór hluti utangarðsfólks eigi möguleika á því að ná bata og lifa eðlilegu lífi ef rétt er að málum staðið. Búsetuúrræði með miklum félagslegum stuðningi fyrir utangarðsfólk eftir meðferð er mikilvægur þáttur metnaðarfullrar framtíðarsýnar. Það er því skaðlegt að þann kafla skuli vanta í stefnu borgarinnar í málaflokknum.
Eftir þá vinnu sem nú hefur átt sér stað er nauðsynlegt að eftirfarandi aðgerðir verði settar í gang en nokkrir þeirra eru í áætlunni nú þegar.
1. Rannsókn í samráði við fagaðila á umfangi þeirra sem teljast til utangarðsfólks. Má þar nefna Landspítalann, SÁÁ, RKÍ, Geðhjálp, Samhjálp og lögregluna.
2. Gistiskýli (neyðarathvarf) fyrir konur og karla í neyslu. Staðsett í eða við miðbæinn – tengt mötuneyti. Borgin kaupi eða byggi viðunandi húsnæði.
3. Áfangahús fyrir konur og karla í neyslu – staðsett í eða við miðbæinn.
4. Færanleg hús fyrir pör og einstaklinga í neyslu sem ekki þrífast í sambýli.
5. Búsetuúrræði fyrir konur og karla í neyslu í eða við miðbæ.
6. Búsetuúrræði tengt meðferðarstöð á borgarmörkum. 1-3 ár.
7. Búsetuúrræði í Reykjavík með miklu utanumhaldi.

Að öðru leyti er bent á bókun fulltrúa Vinstri grænna frá fundi starfshópsins 1. september síðastliðinn. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra telja að nýsamþykkt stefna velferðarráðs í málefnum utangarðsfólks sé jákvæð enda komi hún til framkvæmda muni hún verða til þess að; koma í veg fyrir að fólk verði utangarðs til lengri tíma, tryggja viðeigandi stuðning við áhættuhópa og framboð á viðeigandi úrræðum til að auka lífsgæði utangarðsfólks.
Hins vegar samþykkir velferðarráð ekki samhliða fjármagn til að tryggja að þær aðgerðir sem mælt er fyrir um geti orðið að veruleika. Vísað er til framtíðar hvað þetta varðar. Þá veikir það samþykkta stefnu að drög að henni voru ekki send til umsagnar þeirra samstarfsaðila Reykjavíkurborgar sem vinna með utangarðsfólki.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram kemur í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks þá er meginmarkmið með stefnumótun í málefnum utangarðsfólks að koma í veg fyrir útigang og tryggja öllum viðunandi húsaskjól. Meirihlutinn vill þó undirstrika þá mikilvægu nýjung sem fram kemur í aðgerðaráætluninni um að efla samvinnu milli heilbrigðis og velferðakerfa. Þá má nefna námskeið, fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn sem vinna með utangarðsfólk.
Fulltrúar meirihlutans fagna ábendingu fulltrúa Samfylkingar og óháðra. Bent skal á að fjármagn vegna aðgerðaáætlunar verður tryggt í fjárhagsáætlun ársins 2009 og 3ja ára áætlun til ársins 2011.
Þá fagna fulltrúar meirihlutans ágætri bókun fulltrúa Vinstri grænna, enda að megninu til útdráttur úr samþykktri stefnu og aðgerðaáætlun í málefnum utangarðsfólks.
Í aðgerðaráætlun kemur einnig fram að viðtalstímum félagsráðgjafa á stöðum sem utangarðsfólk sækir verður fjölgað. Þá kemur fram í aðgerðaáætlun að komið verði á viðveru hjúkrunarfræðings á stöðum sem utangarðsfólk sækir. Ennfremur verður unnið að því að tryggja aðstöðu fyrir utangarðsmenn með sturtu og þvottahúsi og þá verði einnig skoðaðir núverandi húsakostir og lagðar fram tillögur að breytingum ef þurfa þykir.
Sérstaklega skal bent á þá nýjung að heilbrigðisþjónustu er færð til utangarðsmanna í þeirra daglega umhverfi.
Bent skal á að með tilkomu nýrra smáhýsa á næstunni eru allar líkur á að núverandi þörf á gistirýmum verði fullnægt strax í haust. Komi annað á daginn er ljóst að brugðist verði við því með viðeigandi hætti.
Undirstrikað skal að stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks hlýtur að vera í sífelldri endurskoðun í takt við þróun mála hverju sinni.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð telur rétt að í framhaldi af samþykkt nýrrar stefnu í málefnum utangarðsfólks verði hafist handa við að skoða sérstaklega stöðu ungs fólks að 25 ára aldri og stöðu þeirra í umræddum hópi. Sú vinna hefði það markmið að kortleggja og þarfagreina stöðu ungs utangarðsfólks í Reykjavík.

2. Lögð fram tillaga að skipan stýrihóps um langtímastefnumótun og framtíðarsýn Velferðarsviðs sbr. samþykkt velferðarráðs 11. júní s.l.
Málinu er frestað.

3. Lögð fram tillaga að lausn á vanda Fjölskylduhjálpar Íslands.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað.

4. Lögð fram skýrsla Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar um markaðsgreiningu varðandi máltíðaþjónustu á Velferðarsviði sbr. samþykkt velferðarráðs 30. janúar s.l.
Málinu er frestað.

5. Lögð fram samantekt starfshóps um ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu.
Málinu er frestað.

6. Lagt fram minnisblað dags. 9. september um sameiningu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

7. Lögð fram til kynningar gögn um samanburð á fjárhagsaðstoð í Reykjavík janúar - júlí árin 2007 og 2008.

8. Lögð fram tillaga sviðsstjóra dags. 8. september um framlengingu samnings við félagsvísindasvið Háskóla Íslands um þátttöku í starfrækslu Rannsóknaseturs í barna og fjölskylduvernd.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

9. Lagðar fram til kynningar reglur um gerð fjárhagsáætlunar, forsendubréf fjárhagsáætlunar 2009-2012 og endurskoðuð tímaáætlun fjárhagsáætlunar 2009-2012.

10. Búsetuúrræði með félagslegum stuðningi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi velferðarráðs 27. ágúst var lögð fram tillaga formanns um rekstur búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi um að slíta viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun en fara í viðræður við þá sem buðu í úrræðið. Tillagan var ekki í gögnum sem lágu fyrir fundinum en birtist skyndilega undir önnur mál.
Samkvæmt hefðum var ráðsmönnum heimilt að óska eftir því að málinu væri frestað, en vegna fyrirheita um að tillögur um lausn málsins lægju fyrir að hálfum mánuði liðnum (á þessum fundi) kaus fulltrúi Vinstri grænna, með hagsmuni notenda í huga, að fallast á þessa málsmeðferð.
Nú, á hálfum mánuði liðnum, liggur enn engin tillaga fyrir um málið. Þegar nánar er að gáð virðist málsmeðferð jafnframt hafa verið talsvert ábótavant, enda var það borgarráð sem heimilaði Velferðarsviði að fara í samningaviðræður við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun en ekki velferðarráð. Ákvörðun ráðsins um slit á þeim viðræðum hefði því átt að fara fyrir borgarráð.
Í borgarráði var samþykkt að vísa tillögu Vinstri grænna um að slíta viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun og hefja viðræður við SÁÁ um úrræðið til umsagnar velferðarráðs. Velferðarráð ber að senda umsögn til borgarráðs áður en endanleg afstaða þess getur legið fyrir.

11. Húsnæðismál
Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Það eru mikil vonbrigði að húsnæðismál þeirra Reykvíkinga sem eru í mestum vanda á húsnæðismarkaði séu ekki á dagskrá þessa fundar eins og boðað hafði verið. Fulltrúar minnihlutans í velferðarráði hafa ítrekað lagt fram tillögur til úrbóta sem felast í því aðfleiri heimili eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum, og er síðasta tillaga óafgreidd. Nauðsynlegri og tímabærri umræðu er frestað og borið við fjarveru starfsmanna sem þó eru í vinnu. Raunveruleg ástæða er sú að meirihluti velferðarráðs og Velferðarsvið hefur ekki undirbúið málið enda ekki í forgangi þeirra sem fara með velferðarráð borgarbúa þrátt fyrir vaxandi vanda þeirra.

Fundi slitið kl. 14.00

Jórunn Frímannsdóttir

Sif Sigfúsdóttir Hallur Magnússon
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson Marsibil Sæmundardóttir