No translated content text
Velferðarráð
Ár 2008, miðvikudaginn 28. maí, var haldinn 81. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:20 á Velferðarsviði, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Mættir: Gunnar Hólm Hjálmarsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Kristján Guðmundsson, Þórir Hrafn Gunnarsson, Stefán Benediktsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Marsibil Sæmundardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Ingunn Þórðardóttir, Sigríður Jónsdóttir og Valgerður Sveinbjörnsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram eftirfarandi tillaga formanns að fyrirkomulagi forvarnarmála hjá Reykjavíkurborg. Greinargerð fylgir.
Lagt er til að skipaður verði samstarfshópur um forvarnir sem taki við af starfshópi um forvarnir sem skipaður var 8. nóvember 2006. Fulltrúar í samstarfshópnum komi frá Velferðar-, Mennta-, Leikskóla-, Íþrótta- og tómstunda- og Umhverfissviði en fulltrúi frá Velferðarsviði leiði hópinn. Þá er lagt til að vorið 2009 verði hafin vinna að endurskoðun á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar, skipaður verði sérstakur starfshópur vegna þeirrar vinnu.
Varaformaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Forvarnarnefnd verði skipuð fimm pólitískum fulltrúum frá velferðar-, mennta-, leikskóla-, umhverfis- og íþrótta- og tómstundaráði. Nefndarfulltrúar verði þannig tengiliðir forvarnarnefndarinnar inn í þau ráð sem þeir koma frá og auki þannig vægi málaflokksins í umræddum ráðum. Nefndin verði vistuð á Velferðarsviði þar sem ábyrgð á framkvæmd forvarnarstefnunnar er á höndum þjónustumiðstöðva borgarinnar sem nú heyra undir Velferðarsvið. Hlutverk hennar verði að bera pólitíska ábyrgð á forvarnarmálum í Reykjavík skv. forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar og gegna m.a. eftirlitshlutverki á framkvæmd stefnunnar hjá öllum sviðum borgarinnar. Nefndin beri einnig ábyrgð á að forvarnarstefna borgarinnar verði endurskoðuð reglulega.
Forvarnarnefnd og samstarfshópur vinni þétt saman á sviði forvarna í Reykjavík, hlutverk og ábyrgðarsvið verði stýrt. Nefndin haldi fundi einu sinni í mánuði en samstarfshópurinn fundi oftar og vinni þau verkefni sem honum er falið. Formaður samstarfshópsins er jafnframt starfsmaður nefndarinnar.
Tillagan fellt með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillaga formanns borin upp til atkvæða og samþykkt. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sátu hjá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F – lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með hliðsjón af reynslu af starfi starfshóps um framkvæmd forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er beint til sviðsstjóra að í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2009 verði stöðugildi verkefnastjóra forvarnarmála á Velferðarsviði aukið úr 0,5 stg. í 1,0 stg. Með því að auka starfshlutfall verkefnastjóra er um leið verið að efla samstarfshóp um forvarnarmál og auka möguleika þess að forvarnarmálum sé sinnt enn betur.
Fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Sú tilraun að leggja niður forvarnarnefnd og setja pólistíka ábyrgð yfir á velferðarráð hefur verið reynt í 2 ár og ekki skilað tilætluðum árangri. Skýr pólitískur vilji er nauðsynlegur þáttur til að tryggja framkvæmd forvarnarstefnunnar og árangur í forvarnarmálum. Það er nauðsynlegt sem aldrei fyrr að Reykjavíkurborg slaki hvergi á í þeim mikilvæga málaflokki sem forvarnarmálin eru og vinni eftir forvarnarstefnunni af myndugleik. Það er til mikils að vinna.
Forvarnir, þ.e. ábyrgð og framkvæmd forvarnarstefnunnar, eru stór þáttur í starfsemi allavega fjögurra fagsviða borgarinnar þ.e. ÍTR, Mennta-, Velferðar- og Leikskólasviði og í samstarfi við félagasamtök, stofnanir, kirkju, íþróttafélög og aðra sem koma að málefnum barna og ungmenna. Að því leiti eru forvarnir málaflokkur sem gengur þvert á borgarkerfið og borgarsamfélagið. Forvarnarmálin skipa því sérstakan sess í borgarkerfinu og þurfa einbeitt pólitískt vald á bak við sig. Velferðarráð vegur eitt og sér ekki nægilega þungt þrátt fyrir að ábyrgðin á framkvæmd forvarnarstefnunnar sé hjá þjónustumiðstöðvunum sem heyra undir Velferðarsvið þar sem framkvæmdin sjálf er í höndum fjögurra til fimm sviða borgarinnar.
Sú tillaga sem fulltrúar D og F lista í velferðarráði leggja fram er metnaðarlaus og tekur ekki mið af reynslusögu og árangri málaflokksins hjá Reykjavíkurborg. Pólitísk forvarnarnefnd skipuð borgarfulltrúum myndi ekki bera neinn aukakostnað í för með sér. Það er þannig ljóst að einu rökin fyrir því að skipa hana ekki er áhugaleysi meirihlutans í málaflokknum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs ítrekar að velferðarráð Reykjavíkurborgar ber pólitíska ábyrgð á framkvæmd forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar en ábyrgð á að stefnan sé innleidd er hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
2. Lögð fram að nýju skýrsla um reynsluverkefni um öryggissíma 3. september 2007 – 29. febrúar 2008 ásamt tillögu að rekstri þjónustusíma, greinargerð fylgir.
Skrifstofustjóri rannsóknar og þjónustumats gerði grein fyrir málinu.
Frestað.
3. Lagt fram til kynningar bréf Faxaflóahafna dags. 14. maí 2008 vegna smáhýsa fyrir heimilislausa.
4. Lögð fram skýrsla um kortlagningu á innra eftirliti með fjárhagsaðstoð, maí 2008.
María Rúnarsdóttir verkefnastjóri á Velferðarsviði mætti á fundinn og kynnti skýrsluna.
5. Lögð fram til kynningar áfangaskýrsla febrúar 2008 vegna móttöku flóttamanna í Reykjavík 2007 – 2008.
Frestað.
6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um móttöku flóttamanna.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun samhljóða:
Velferðarráð Reykjavíkurborgar fagnar því að Akranesbær hefur ákveðið að bjóða velkomin, á nýjan leik, hóp flóttamanna, einstæðar mæður með börn sem dvalið hafa í Írak, en eru landflótta frá Palestínu. Velferðarráð Reykjavíkurborgar fagnar því sérstaklega að bundinn hafi verið endir á þá óvissu sem skapaðist og að íbúar Akranesbæjar ætli að aðstoða þennan flóttamannahóp að koma sér upp framtíðarheimili í bænum. Velferðarráð Reykjavíkurborgar vill þó leggja áherslu á að Reykjavíkurborg er ætíð tilbúin til þess að bjóða flóttafólk velkomið til borgarinnar. Reynsla Reykjavíkurborgar af komu flóttamanna hefur verið góð og í borginni er fyrir hendi sérþekking og reynsla í málefnum flóttafólks.
7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks um að leiga Félagsbústaða verði ekki hækkuð fyrir en náðst hefur samkomulag við ríkisvaldið um að húsaleigubætur hækki reglulega og fylgi verðlagsþróun.
Frestað.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Velferðarráð felur Velferðarsviði að gera úttekt á því hvernig sú kerfisbreyting að hætta almennum niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar til Félagsbústaða hf. vegna félagslegs stuðnings þ.e. sérstakar húsaleigubætur komi út fyrir leigendur. Úttektin skal ná til eins árs, miðað við verðbólguspár, taka til beggja kosta til samanburðar og lögð fyrir næsta fund ráðsins.
Málsmeðferðartillaga samþykkt samhljóða.
8. Lögð fram til kynningar framvinda starfsáætlunar 2008.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun samhljóða:
Eins og fram kemur í yfirliti vegna framvindu starfsáætlunar fyrir árið 2008 þá er að störfum starfshópur sem hefur það hlutverk að skoða öll úrræði sem til boða standa börnum og fjölskyldum sem eiga mál til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur og leggja mat á hvernig þau úrræði sem til staðar eru mæta þeim þörfum sem fyrir liggja. Á grundvelli niðurstöðu þarfagreiningar verður ráðist í áframhaldandi vinnu eftir því sem niðurstöðurnar gefa tilefni til.
Í ljósi undangenginna atburða og umræðu um mál barna sem eiga foreldra í vímefnaneyslu þá leggur velferðrráð áherslu á að skoðuð verði sérstaklega staða barna sem eiga foreldra í vímuefnaneyslu og þörf fyrir úrræði í slíkum tilvikum. Jafnframt leggur velferðarráð áherslu á að vinnu starfshópsins verði hraðað.
9. Lögð fram tillaga sviðsstjóra dags. 28. maí 2008 um úttekt á þjónustumiðstöðvum.
Tillagan samþykkt samhljóða.
10. Lögð fram til kynningar samantekt vegna viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2008.
Frestað.
11. Lögð fram drög að þjónustusamningi Velferðarsviðs og Hjálparstarfs kirkjunnar.
Samþykkt. Fulltrúi Vinstri grænna og annar fulltrúi Samfylkingarinnar sátu hjá.
12. Lögð fram drög að þjónustusamningi Velferðarsviðs og Félags einstæðra foreldra.
Samþykkt samhljóða.
13. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur milli Heilsugæslunnar í Glæsibæ, Barna- og unglingageðdeildar og Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis vegna tilraunaverkefnis um þverfaglega samvinnu milli þessara aðila.
14. Lögð fram til kynningar bókun Barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar frá fundi 27. maí 2008.
15. Búsetuúrræði með félagslegum stuðningi - staða málsins.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokksins í velferðarráði leggja til að viðræðum Velferðarsviðs við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun um rekstur nýs búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga verði frestað þar til Innri endurskoðun lýkur skoðun sinni á málinu.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F- lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurn Innri endurskoðunar vegna búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi sem beint var til sviðsstjóra Velferðarsviðs er í vinnslu hjá sviðsstjóra Velferðarsviðs og verður hraðað eins og kostur er. Því telur meirihluti ekki ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Það er með ólíkindum að meirihluti velferðarráðs skuli fela Velferðarsviði að halda áfram samningaviðræðum við Heilsuverndarstöðina / Alhjúkrun á meðan Innri endurskoðun er með málið til skoðunar. Engin haldbær rök hafa enn komið fram til stuðnings þeirri ákvörðun að hafna lægstbjóðanda og óútskýrt er hvernig það samræmist hagsmunum borgarbúa og þjónustuþega að halda áfram samningaviðræðum við Heilsuverndarstöðina / Alhjúkrun við þessar aðstæður.
Fundi slitið kl. 15:05
Gunnar Hólm Hjálmarsson
Elínbjörg Magnúsdóttir Sif Sigfúsdóttir
Kristján Guðmundsson Þórir Hrafn Gunnarsson
Stefán Benediktsson Þorleifur Gunnlaugsson