No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2007, miðvikudaginn 4. júlí var haldinn 61. fundur s (aukafundur) og hófst hann kl. 9.00 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Einar Ævarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðlaug Magnúsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Guðrún Ásmundsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga formanns velferðarráðs um starfsemi heimilis fyrir heimilislausa karlmenn að Njálsgötu 74.
Lagt er til að Velferðasvið hefji starfsemi heimilis fyrir 8 heimilislausa karlmenn að Njálsgötu 74 eigi síðar en 1. október n.k. sbr. fyrirliggjandi samning þess efnis sem undirritaður var 20. desember 2006 af borgarstjóranum í Reykjavík og félagsmálaráðherra.
Í framhaldi af samráði sem átt hefur sér stað samþykkir Velferðarráð að:
? Fækka heimilismönnum úr 10 í 8.
? Staðsetning heimilisins verði metin að ári liðnu.
? Öflugt samstarf verði við lögreglu um vakt í hverfinu.
? Skapaður verði grundvöllur fyrir reglulegri samvinnu við náganna heimilisins
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Eftirfarandi greinargerð var lögð fram með framangreindri tillögu:
Í Reykjavík teljast á bilinu 40-60 einstaklingar heimilislausir á hverjum tíma, meirihluti þeirra eru karlmenn. Margir þeirra hafa gist í Gistiskýli fyrir heimilislausa til lengri eða skemmri tíma. Gistiskýli fyrir heimilislausa er ætlað sem tímabundin lausn meðan verið er að vinna að lausn á vanda þeirra sem þangað leita. Í nokkurn tíma hefur staðan í Gistiskýlinu verið erfið og hefur þurft að vísa einstaklingum sem þangað hafa leitað frá vegna plássleysis. Þörf fyrir heimili fyrir heimilislausa sem nú er í undirbúningi að setja á stofn er mjög brýn. Mikilvægt er að geta boðið þeim einstaklingum heimili sem gist hafa í Gistiskýlinu að staðaldri í einhvern tíma. Þannig skapast um leið svigrúm í Gistiskýlinu til að taka við þeim einstaklingum sem þangað leita.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur langa reynslu af starfi með heimilislausum og fólki í vanda. Reynsla hefur sýnt að mikilvægt er að hafa úrræði og heimili fyrir slíka hópa miðsvæðis, í göngufæri við þá þjónustu sem einstaklingarnir þurfa á að halda og nýta sér. Velferðarsvið hefur reynslu af rekstri heimilis fyrir sambærilegan hóp einstaklinga að Miklubraut 20 frá árinu 2002. Rekstur þess heimilis hefur gengið vel og verið í sátt við nágrennið. Margir einstaklingar sem þar hafa búið hafa náð undraverðum árangri með líf sitt í framhaldi af því að eignast þar heimili. Við viljum geta boðið fleiri einstaklingum að hefja endurhæfingu sína með sambærilegum hætti.
Þann 20. desember 2006 undirrituðu borgarstjórinn í Reykjavík og félagsmálaráðherra samstarfssamning um stofnun og rekstur heimilis fyrir heimilislausa í Reykjavík sem hvergi eiga höfði sínu að halla og geta ekki nýtt sér önnur úrræði. Um er að ræða samstarfssamning til 3ja ára. Skipulag þjónustunnar sem heimilið mun veita byggist á tillögum samráðshóps sem félagsmálaráðherra skipaði og skilaði áliti í október 2005. Þjónustan á heimilinu mun uppfylla gildandi ákvæði laga og reglugerða og vera í samræmi við stefnumörkun samstarfsaðila í þeim málaflokkum sem þjónusta við heimilislausa heyrir undir. Heimilismönnum verður boðið upp á heildstæða félagslega ráðgjöf og stuðning til þess að ná tökum á lífi sínu, sem og að sækja áfengis- og fíkniefnameðferð. Sólarhringsvakt verður á heimilinu.
Sérstakur stýrihópur verður skipaður sem fer með stjórn heimilisins. Í honum munu sitja fulltrúar frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Heilsugæslustöð, Lögreglunni í Reykjavík, Félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti.
Hlutverk stýrihópsins er að hafa umsjón með inntöku á heimilið og tryggja ráðgjöf og aðgang að úrræðum. Stýrihópurinn mun í samstarfi við forstöðumann heimilisins útbúa framkvæmdaáætlun um almenna og sérhæfða heilbrigðis- og hjúkrunarþjónustu og önnur stuðningsúrræði sem heimilismönnum standa til boða. Stýrihópurinn setur reglur um daglega starfsemi heimilisins. Fulltrúi Velferðarsviðs er formaður hópsins og oddamaður ef upp kemur ágreiningur varðandi ákvarðanatöku í stýrihópnum.
Velferðarráð samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Velferðarráð Reykjavíkurborgar styður einróma opnun heimilis fyrir heimilislausa á Njálsgötu þar sem afar brýnt er að bregðast við mikilli þörf fólks sem verið hefur án húsnæðis. Húsnæðið að Njálsgötu þykir henta vel fyrir margra hluta sakir. Þarna var áður gistiheimili fyrir 19 einstaklinga og ljóst að lítið sem ekkert þarf að breyta húsnæðinu til þess að það muni virka vel sem heimili fyrir þessa einstaklinga.
Allir eiga rétt á heimili. Í þessu máli er tekist á um hvort skilgreina eigi nýtt heimili sem stofnun sem fara þarf í grenndarkynningu og er þannig háð samþykki nágranna. Velferðarráð hafnar því að skilgreina heimili fólks sem stofnun þó svo að það þurfi aðstoð við sitt daglega líf. Slík skilgreining er í algjörri andstöðu við uppbyggingastarf sem unnið hefur verið síðastliðna áratugi þar sem fatlaðir hafa verið í fararbroddi og til fyrirmyndar. Ef heimilið á Njálsgötu verður skilgreint sem stofnun, má skilgreina öll heimili fólks sem þarfnast sólarhringsaðstoðar sem stofnanir. Framundan er að finna húsnæði fyrir tugi geðfatlaða sem nú loks eiga möguleika á að flytja af stofnunum og þá er haldið áfram þeirri þróun að mæta vilja aldraðra til að búa heima eins lengi og mögulegt er með aukinni heimaþjónustu allan sólarhringinn.
Þörf heimilislausra fyrir þjónustu er aðkallandi. Staðan í Gistiskýli fyrir heimilislausa hefur verið óviðunandi undanfarið, ásókn hefur verið mikil og oft hefur þurft að vísa frá einstaklingum í fangageymslur eða á götuna og því er brýnt að opna fleiri heimili fyrir heimilislausa í Reykjavík.
Velferðarráð vonar að þeir íbúar sem enn kunna að vera mótfallnir staðsetningu heimilisins gefi heimilinu tækifæri þannig að Velferðarsvið fái tækifæri til að aðstoða heimilislausa einstaklinga til að öðlast betra líf með öflugri félags- og heilbrigðisþjónustu. Með samráði hefur verið komið til móts við óskir nágranna eins og frekast er kostur og verður staðsetning heimilisins metin að ári liðnu og farið yfir það hvernig til hafi tekist.
- Einar Ævarsson vék af fundi kl. 10:30
Fundi slitið kl. 10:37
Jórunn Frímannsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir Guðlaug Magnúsdóttir Þorleifur Gunnlaugsson