No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2007, miðvikudaginn 27. júní var haldinn 60. fundur s og hófst hann kl. 12.15 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Einar Ævarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Stefán Benediktsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Margrét Sverrisdóttir.
Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram tillögur að endurskoðuðu skipulagi Velferðarsviðs sbr. bókun velferðarráðs frá 11. apríl s.l.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs samþykkir nú skipulagsbreytingar á Velferðarsviði sem undirstrika fyrri ákvarðanir um að gera þjónustumiðstöðvar borgarinnar miðstýrðar undir yfirstjórn Velferðarsviðs. Vinna skal m.a. að því að ”samræma enn frekar starfshætti innan þjónustumiðstöðvanna” sem er í andstöðu við þá hugmyndafræði að þær vinni í nánu samstarfi við nærsamfélagið og íbúana sem þær þjónusta. Við óttumst að þjónusta þjónustumiðstöðvanna muni breytast þrátt fyrir yfirlýsingar um annað og teljum að skipulagsbreytingar þessar vinni gegn þverfaglegri og sjálfstæðri, hverfistengdri nálgun sem skiptir borgarbúa miklu máli. Nýtt skipurit er einfalt og skýrt og því ágætt í sjálfu sér. Væntum við þess að starfsemi Velferðarsviðs muni áfram hafa það að leiðarljósi að þjónusta íbúa borgarinnar á framúrskarandi hátt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagnar nýjum tillögum að skipulagi á Velferðarsviði sem gerðar eru eftir tilfærslu þjónustumiðstöðva undir sviðið. Nýtt skipurit er skref í átt að frekari hagkvæmni. Breytingarnar eru gerðar með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi og er jafnframt lögð áhersla á að jafnræðis sé gætt í þjónustu við borgarbúa. Lögð er áhersla á að gera skipulagið einfalt en öflugt og að boðleiðir verði stuttar.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá.
2. Lögð fram ódagsett styrkumsókn Samtaka um spilafíkn sem vísað var af borgarráði til Velferðarsviðs.
Velferðarráð synjaði umsókninni með vísan til reglna Reykjavíkurborgar um styrki.
3. Lögð fram að nýju drög að samningi milli Velferðarsviðs og Ekron ásamt útreikningi vegna samningsins og samkomulags Velferðarsviðs við Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða vegna Grettistaks á árinu 2007.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og F-listans lögðu fram eftirfarandi bókun :
Það var tekið mikilvægt skref þegar Velferðarsvið lagði af stað með endurnýjun átaksverkefnisins Grettistaks sem tilraunaverkefnis til tveggja ára. Þar var sett í gang metnaðarfull áætlun um starfsendurhæfingu fíkla í bata sem ekki hafa náð að fóta sig á vinnumarkaði. Reiknað er með að um 60 manns nýti sér þetta úrræði á ári sem gefur góða von um árangur. Það væri eðlilegt að velferðarráð sýni þessari tilraun og þeim sem að henni standa, þá virðingu að láta samsvarandi tilraunir afskiptalausar á meðan reynsla af Grettistaki liggur ekki fyrir. Það skýtur því skökku við að nú skuli verið að semja við verktaka um samsvarandi verkefni en greiða þó talsvert hærri upphæðir vegna hvers einstaklings. Ekki er hægt að ræða um sambærilegan valkost nema álika upphæðir verði greiddar vegna hvers einstaklings sem nýtir sér Grettistak.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er stefna nýs meirihluta í borginni að fjölga fjölbreyttum félagslegum endurhæfingarúrræðum. Umræddur samningur við Ekron er eðlilegt framhald þeirrar stefnu enda uppfyllir Ekron öll þau faglegu skilyrði sem Velferðarsvið gerir kröfur um. Eftirfylgni og árangursmat af hálfu Velferðarsviðs á samningstímanum mun leiða í ljós hvort um endurnýjun samnings verði að ræða að tímabilinu loknu. Miðað við þann fjölda sem er í Grettistaki árið 2007 er rangt að Ekron sé mun dýrara úrræði. Auk þess eru þetta tvö ólík úrræði þó svo að tilgangur þeirra sé sá sami. Þess vegna er eðlilegt að kostnaður sé ekki nákvæmlega sá sami heldur miðist hann við umfang þeirrar þjónustu sem úrræðin veita.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og F-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Til glöggvunar á kostnaðarsamanburði á Grettistaki og sambærilegs úrræðis Ekron - starfsþjálfunar vilja fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og áheyrnarfulltrúi F-listans að bókað verði :
1. Varðandi fylgiskjalið um útreikning á kostnaði fyrir hvern einstakling: Ekki er um sambærilegar tölur að ræða, þar sem annars vegar er um að ræða 6 mánaða tímabil og hins vegar 10 mánaða tímabil. Sambærilegur kostnaður pr. einstakling væri kr. 270.000 pr einstakling á mánuði hjá Ekron og kr. 97.193 pr einstakling á mánuði í Grettistaki miðað við gefnar útreikningsforsendur.
Þá má gagnrýna þær útreikningsforsendur sem gefnar eru á tvennan hátt: Annars vegar gerir fjárhagsáætlun fyrir Grettistak ráð fyrir að þátttakendur á ári séu 50 til 60 sem þýðir að kostnaður pr. einstakling gæti allt eins verið um kr. 23.000 pr einstakling á mánuði í Grettistaki, miðað við gefnar forsendur. Kostnaður eykst sem sé ekki við fjölgun þátttakenda heldur lækkar. Hins vegar má gagnrýna gefnar útreikningsforsendur þannig að gert er ráð fyrir að þau 1,2 starfsígildi sem frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða komi kosti það sama og verkefnisstjórinn, en það er fráleitt. Um er að ræða ódýrari starfskraft, þannig að útreikningur fyrir kostnaðarþátttöku Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða er of hár.
2. Varðandi svörin sjálf:
Miðað við framangreint má segja að svara mætti spurningu nr. 2 um hvort þörf sé á öðru úrræði en Grettistaki á þann veg að þar sem ekki er fullmannað í Grettistak væri auðveldlega hægt að bæta þeim fjórum einstaklingum, sem gert er ráð fyrir að taki þátt í Ekron inn í Grettistak án aukakostnaðar og spara þar með algerlega samningskostnaðinn við Ekron og því auðvelt að rökstyðja að ekki sé þörf fyrir annað úrræði.
Einnig miðað við framangreint væri eðlilegt að svara spurningu nr. 3 um hver munur sé á kostnaði pr. einstakling vegna úrræðanna tveggja þannig að munurinn væri í dag kr. 172.807 á mánuði eða u.þ.b. þrefaldur, en gæti, miðað við fulla þátttöku í Grettistaki, verið allt að tólffaldur.
Ef tekið er mið af fjölda tíma sem hver einstaklingur fær minnkar munurinn um ca. helming, þar sem þátttakendur í Ekron fá u.þ.b. helmingi meiri tíma sbr. svör undir spurningu 1.
4. Lögð fram drög að samningi Velferðarsviðs og Námsflokka Reykjavíkurborgar um verkefnið Spíral (starfsKRAFT). Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð fagnar þessu metnaðarfulla verkefni sem hefur mikið forvarnargildi fyrir þennan hóp einstaklinga.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra ásamt greinargerð skrifstofustjóra rekstrar og þjónustuúrræða vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Gerðar voru eftirfarandi breytingar á tillögunni:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að farið verði í viðræður við heilbrigðisráðuneytið til lausnar á rekstrarvanda hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
6. Lagt fram til kynningar dagatal starfs- og fjárhagsáætlunar 2008.
Næsti fundur velferðarráðs verður miðvikudaginn 22. ágúst nk. kl. 12.00 aukafundur miðvikudaginn 29. ágúst nk. kl. 12.00-16.00 vegna starfsáætlunar 2008.
7. Lögð fram umsögn lögfræðiskrifstofu Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar dags. 20. júní um stöðu heimilis að Njálsgötu 74.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
8. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 21. júní 2007 um nýjan varamann Vinstri grænna í velferðarráði.
9. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 21. júní 2007 um nýjan aðalmann og nýja varamenn Samfylkingar í velferðarráði.
10. Lögð fram skýrsla um almenningssalerni í miðborginni.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð telur brýnt að hrinda í framkvæmd áætlun um fjölgun almenningssalerna í Reykjavík sem fram kemur í skýrslu um almenningssalerni í Reykjavík,dags. í júní 2007. Nauðsynlegt er að salernin verði aðgengileg öllum, samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar um nýbyggingar og verði jafnframt gjaldfrjáls. Sviðsstjóra verði falið að vinna að þessu máli í samvinnu við sviðsstjóra Framkvæmdasviðs.
11. Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir væntanlegum sumarlokunum á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sem hafa i för með sér aukna heimaþjónustu.
Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 15.17.
Fundi slitið kl. 15. 35
Marsibil Sæmundardóttir
Sif Sigfúsdóttir Einar Ævarsson
Björk Vilhelmsdóttir Stefán Benediktsson Þorleifur Gunnlaugsson