No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2007, miðvikudaginn 13. júní var haldinn 59. fundur s og hófst hann kl. 12.15 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Einar Ævarsson, Stefán Jóhann Stefánsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ingunn Þórðardóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram skýrsla starfshóps dags. 22. maí 2007 um aðskilnað þrifa og félagslegs stuðnings í félagslegri heimaþjónustu.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Birna Sigurðardóttir, verkefnastjóri á Velferðarsviði, mætti á fundinn og gerði grein fyrir skýrslunni.
Stefán Benediktsson mætti á fundinn kl. 12.25.
Formaður velferðarráðs lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að skipa sex manna starfshóp til að yfirfara og útfæra frekar tillögur varðandi aðskilnað þrifa og félagslegs stuðnings í félagslegri heimaþjónustu sem fram koma í skýrslu vinnuhóps dags. 22. maí 2007. Í starfshópnum sitji einn fulltrúi frá meirihluta, einn frá minnihluta, einn fulltrúi frá Félagi eldri borgara, einn fulltrúi frá Öryrkjabandalaginu og tveir starfsmenn Velferðarsviðs.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
2. Lögð fram að nýju drög að samningi milli Velferðarsviðs og Ekron ásamt svari verkefnastjóra á Velferðarsviði dags. 8. júní 2007 við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna varðandi drög að samningi milli Velferðarsviðs og Ekron.
Málinu er frestað til næsta fundar. Skrifstofu rekstrar og þjónustuúrræða falið að leggja fram nánari útreikninga um kostnað á næsta fundi.
3. Lagt fram svar skrifstofustjóra velferðarþjónustu dags. 8. júní 2007 við fyrirspurn fulltrúa F-lista, Samfylkingar og Vinstri grænna varðandi samning Velferðarsviðs við Höndina, mannúðar og mannræktarsamtök.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu og formaður velferðarráðs gerðu grein fyrir málinu.
- Einar Ævarsson vék af fundi kl. 13.40.
- Jóhanna Hreiðarsdóttir mætti á fundinn kl. 13.43.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að skilgreina nánar verkferla og skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga á sviði félagslegra úrræða og skilgreina hvaða faglegu kröfur ráðið vill gera til þeirra.
4. Lögð fram skýrsla starfshóps dags. í maí 2007 um sólarhringsúrræði fyrir börn á vegum Reykjavíkurborgar ásamt tillögum sviðsstjóra dags. 8. júní 2007 um aðgerðir.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Tillögurnar voru samþykktar samhljóða.
5. Lögð fram styrkbeiðni frá Þjónustumiðstöð Breiðholts dags. 23. maí 2007 vegna rannsóknar á íþrótta- og félagsþátttöku barna af erlendum uppruna í Breiðholti.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu og lagði fram þá tillögu að beiðninni yrði vísað til samráðshóps um forvarnir.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Velferðaráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar verkefni vegna rannsóknar á íþrótta- og félagsþátttöku barna af erlendum uppruna í Breiðholti. Með þessu verkefni er stuðlað að því að börn af erlendum uppruna verði virkir þátttakendur í félagsstarfi sem er afar mikilvægt þegar horft er til samfélagslegrar aðlögunar þessara barna.
6. Lagt fram til kynningar bréf stjórnkerfisnefndar dags. 15. maí 2007 um Reykjavíkurráð ungmenna – tillaga um aukið vægi í nefndum og ráðum.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar áhuga Reykjavíkurráðs ungmenna á auknu samráði við nefndir og ráð á vegum borgarinnar og mun ráðið leitast við að kynna Reykjavíkurráði ungmenna þau mál sem varða sérstaklega ungt fólk með samráð og samvinnu að leiðarljósi.
7. Lögð fram styrkbeiðni frá Dropanum, styrktarfélagi sykursjúkra barna og unglinga, dags. í maí 2007 varðandi sumarbúðir fyrir börn 8-13 ára.
Umsókninni verður vísað til meðferðar styrkja á næsta hausti sbr. reglur Reykjavíkurborgar um styrki.
8. Lagðar fram til kynningar fundargerðir frá 12. 13. og 14. fundar samráðshóps um forvarnir.
Stefanía Sörheller, verkefnastjóri, mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
9. Lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs og Blindrafélagsins, dags. 1. júní 2007 um þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga í Reykjavík.
10. Lagðir fram til kynnningar samningar Velferðarsviðs og Samhjálpar dags. 30. maí 2007 um rekstur heimilis fyrir heimilislausa Reykvíkinga að Miklubraut 20 og stuðningsheimilis að Miklubraut 18.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og F-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það verður að teljast undarlegt að endurnýjaður skuli hafa verið samningur Velferðarsviðs og Samhjálpar um Miklubraut 18 án þess að hann væri ræddur áður í velferðarráði. Í úttekt sem gerð var í júlí og águst 2006 og birt var í ráðinu í febrúar 2007 kom í ljós að ýmsu var ábótavant. Íbúar voru mjög ósáttir við mat og húsnæðisaðstæður og kvörtuðu undan lítilli viðveru starfsmanna og ónógu eftirliti með heimilinu. Ráðgjafar heimilismanna höfðu ýmsar athugsemdir fram að færa og efuðust um að úrræðið nýttist notendum sínum.
Umhverfissvið borgarinnar staðfesti umkvartanir íbúa. Meirihluti velfeðarráðs lagði til á 51. fundi ráðsins að ”næsta haust verði gerð önnur úttekt þar sem sérstaklega verða skoðaðir nánar þessir þættir”. Með tilliti til velferðar heimilismanna hefði það verið eðlilegt að beðið yrði eftir úttektinni og hún rædd í ráðinu áður en til samninga kom. Sú skoðun er jafnframt áréttuð að stjórnarskrárvarinn réttur til trúfrelsis er varla varinn ef ákveðnum hópi heimilislausra er sá kostur nauðugur einn að gista hjá líknarfélagi trúfélags í borginni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eftir að úttekt á starfsemi á Miklubraut 18 fór fram var rekstraraðilum gefið færi á því að endurskoða starfsemina og gera viðeigandi breytingar. Rekstraraðilar brugðust vel við því og fóru strax í að gera ráðstafanir til þess að bæta og koma til móts við umkvartanir íbúa. Ákveðið var að gera aðra könnun meðal íbúa á heimilinu í haust og endurskoða í framhaldi af því rekstarfyrirkomulagið ef ástæða þykir til þess.
11. Lögð fram til kynningar samantekt samkvæmt 2. mgr. 27. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar um innkaup frá janúar – mars 2007.
12. Lagt fram til kynningar Fréttablaðið Hugvilji sem gefið er út af starfsfólki og íbúum Búsetu- og stuðningsþjónustunnar.
13. Lagt fram minnisblað LEX lögmannsstofu, dags. 31. maí 2007, varðandi réttarstöðu/lagaleg úrræði vegna fyrirhugaðrar stofnunar heimilis fyrir heimilislausa að Njálsgötu 74.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs og forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerðu grein fyrir málinu.
Samþykkt var að vísa málinu til umsagnar lögfræðiskrifstofu Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs. Álitið verði lagt fyrir næsta fund velferðarráðs.
14. Lagt fram svar forstöðumanns lögfræðiskrifstofu Velferðarsviðs dags. 8. júní 2007 við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um samning vegna búsetuuppbyggingar fyrir aldraða við Eir, hjúkrunarheimili. Ennfremur lagt fram minnisblað Hjörleifs B. Kvaran hrl., dags., 8. maí 2007.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Um leið og við þökkum fyrir svar forstöðumanns lögfræðiskrifstofu Velferðarsviðs og minnum í leiðinni á mikilvægi þess að byggja upp þjónustu fyrir aldraða verðum við að minna á að forystumenn núverandi meirihluta hafa lýst því yfir að bjóða eigi svona verk út. Í því lögfræðiáliti sem liggur fyrir um útboðsskyldu er fullyrt að hönnunarkostnaður hluta borgarinnar þ.e. vegna menningarmiðstöðvar í Spönginni, fari yfir þá viðmiðunarfjárhæð sem hefur útboðsskyldu í för með sér. Þrátt fyrir það vill meirihlutinn semja beint við ákveðinn verktaka. Út frá þessu er ljóst að borgarstjóri er á hröðum flótta frá hástemmdum yfirlýsingum sínum um að bjóða skuli út verksamninga við arkitekta.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í áliti Hjörleifs B. Kvaran, hrl., kemur skýrt fram að útboð hönnunar í þessu tiltekna máli kunni að vera erfiðleikum bundið þar sem hönnun byggingarinnar og samvinnuverkefni borgarinnar og Eirar og muni ekki skila tilætluðum árangri. Líta verður til þess að bygging menningar- og þjónustumiðstöðvar er óaðskiljanlegur hluti af heildarkostnaði. Það sætir því furðu að minnihlutinn skuli enn halda þessum mótbárum til streitu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það eina sem verulegri furðu sætir er sá kollhnís sem meirihlutinn hefur tekið í afstöðu sinni til útboðs á verksamningum við arkitekta.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram kemur í svari Hjörleifs B. Kvaran hrl., og fyrri bókun okkar verður að líta til þess í þessu máli sérstaklega að menningar- og þjónustumiðstöð er óaðskiljanlegur hluti af heildarframkvæmd. Þessi tiltekna framkvæmd hefur ekkert með afstöðu meirihlutans að gera til útboðs á verksamningum við arkitekta.
15. Stefnt að kynnisferð ráðsins á félagsþjónustu erlendis verði farin í vikunni 8.- 12. október nk.
Fundi slitið kl. 15.35
Jórunn Frímannsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Sif Sigfúsdóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Þorleifur Gunnlaugsson
Stefán Benediktsson Jóhanna Hreiðarsdóttir