Velferðarráð - Fundur nr. 524
Velferðarráð
Ár 2026, miðvikudagur 21. janúar var haldinn 524. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sandra Hlíf Ocares. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2026, um flutning framleiðslueldhúss velferðarsviðs innan Vitatorgs. Trúnaður er um tillöguna þar til málið hefur verið lagt fyrir borgarráð.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL26010035.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram breytingartillögu sem færð er í trúnaðarbók.
Breytingartillagan er samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Vísað til borgarráðs.Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
- Kl. 13:30 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2026, um breytingar á leigutíma leigusamninga í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjali:
Lagt er til að breytingar verði gerðar á leigutíma leigusamninga, skv. 22. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, á þann veg að að jafnaði verði gerður ótímabundinn leigusamningur nema fyrir því séu málefnalegar ástæður að gerður skuli tímabundinn leigusamningur um áfangahúsnæði (2. mgr. 22. gr. reglnanna).
Einnig er lagt til að fullnægi leigutaki kröfum í samningi um eftirfylgd að mati úthlutunarfundar þá sé heimilt að gera ótímabundinn leigusamning, skv. 2. mgr. 22. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði (3. mgr. 22. gr. reglnanna).
Ekki er gert ráð fyrir að tillagan feli í sér viðbótarkostnað.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL26010080.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram málsmeðferðartillögu um að afgreiðslu málsins verði frestað.
Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.Tillagan er samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.
Vísað til borgarráðs.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs leggja áherslu á mikilvægi þess að tryggja aukið húsnæðisöryggi og fyrirsjáanleika leigjenda í félagslegu leiguhúsnæði í kjölfar breytinga á húsaleigulögum sem tóku gildi 1. janúar 2026. Mikilvægt er að tryggja langtímaleigu og stöðugleika fyrir leigjendur. Samstarfsflokkarnir taka undir mikilvægi þess að tillit sé tekið til sérstöðu leigufélaga félagslegs leiguhúsnæðis þar sem hluti tímabundinna leigusamninga er liður í stuðningi og endurhæfingu leigutaka. Þannig gera Félagsbústaðir tímabundna leigusamninga samkvæmt tilmælum velferðarsviðs með hliðsjón af reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Með samþykkt þessarar tillögu eru reglur Reykjavíkurborgar aðlagaðar að lagabreytingum um öryggi leigutaka í formi ótímabundinna samninga. Breytingarnar fela í sér að að jafnaði verði gerður ótímabundinn leigusamningur nema fyrir því séu málefnalegar ástæður að gerður skuli tímabundinn leigusamningur um áfangahúsnæði (2. mgr. 22. gr. reglnanna). Þá er einnig samþykkt að fullnægi leigutaki kröfum í samningi um eftirfylgd, í þeim tilvikum sem gera á slíka samninga, að mati úthlutunarfundar þá sé heimilt að gera ótímabundinn leigusamning, skv. 2. mgr. 22. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði (3. mgr. 22. gr. reglnanna).
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vegna breytinga á húsaleigulögum er hér lögð fram breyting á reglum Félagsbústaða hvað varðar tímabundna leigusamninga, þannig að eingöngu verði gerðir ótímabundnir leigusamningar. Þessar lagabreytingar munu hafa áhrif á leiguverð tímabundinna samninga Félagsbústaða eins og fram kemur í erindi frá félaginu. Hinsvegar vantar allar tölulegar upplýsingar sem varpa skýrara ljósi á þessi áhrif. Mikilvægt er að upplýsingar um fjárhagsleg áhrif breytinganna á rekstur Félagsbústaða séu lagðar fyrir velferðarráð áður en lengra er haldið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á starfi Barnaverndar Reykjavíkur. VEL26010081.
Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir góða kynningu á starfi Barnaverndar Reykjavíkur. Starfsfólk barnaverndar á mikið hrós skilið fyrir sína vinnu í þágu barna og fjölskyldna í Reykjavík. Mikilvægt er í ljósi langvarandi úrræðaleysis ríkisins í meðferðarmálum að styðja vel við þessa mikilvægu grunnþjónustu borgarinnar, sérstaklega þegar horft er til þess að aukinn þungi hefur færst í þennan málaflokk síðastliðin ár og aukið álag á starfsfólk. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari þróun og forgangsraða fjármagni í þágu þess að barnaverndin geti starfað sem skyldi og hægt sé að styðja við starfsfólk í sínum mikilvægu störfum. Óásættanlegt er að ár eftir ár sé fjárfestingu í bættum úrræðum frestað í fjárhagsáætlun borgarinnar. Mikilvægt er að þessi mál séu sett í forgang og að fjárhagsáætlun endurspegli það.
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL26010020.
- Kl. 14:53 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga styrkjahóps velferðarráðs, dags. 12. janúar 2026, um styrkveitingar úr borgarsjóði til verkefna á sviði félags- og velferðarmála 2026:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu styrkjahóps velferðarráðs um styrkveitingar úr borgarsjóði fyrir árið 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25080057.
Almennir styrkir 2026:
Ásdís Birna Bjarkadóttir. Bók fyrir börn fanga.
600.000 kr.
Samþykkt.Vinaskákfélagið. Allir geta teflt skák.
300.000 kr.
Samþykkt.Þjónustusamningar til eins árs 2026:
Hugarafl, félagasamtök. Notendastýrð starfsemi byggð á valdeflingu og batahugmyndafræði.
3.000.000 kr.
Samþykkt.Katarzyna Beata Kubis. Stuðningshópur fyrir erlenda foreldra fatlaðra barna.
1.500.000 kr.
Samþykkt.Listvinnzlan - listorkuver fta. Listvinnzlan - listorkurver fta.
3.000.000 kr.
Samþykkt.Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Aðstoð við bágstadda.
2.900.000 kr.
Samþykkt.Okkar heimur, góðgerðarsamtök. Fjölskyldusmiðjur.
2.000.000 kr.
Samþykkt.Sjónarhóll, ráðgjafarmiðstöð ses. Sjónarhóll - ráðgjöf og stuðningur.
3.000.000 kr.
Samþykkt.Þjónustusamningar til þriggja ára 2026-28:
Bergið Headspace. Bergið - ráðgjöf og stuðningur fyrir 12-25 ára.
5.000.000 kr. á ári.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Foreldrahús ses. Áfengis- og vímuefnaráðgjöf.
10.000.000 kr. á ári.
Samþykkt. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu tillögunnar.
Vísað til borgarráðs.Memmm Play. Opni leikskólinn.
10.000.000 kr. á ári.
Samþykkt. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu tillögunnar.
Vísað til borgarráðs.Öðrum umsóknum er hafnað.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn gagnrýnir harðlega niðurskurð á styrkveitingum til opna leikskólans Memmm Play, sem sinnir afar mikilvægu starfi fyrir foreldra og ung börn í hverfum borgarinnar. Memmm Play heldur úti gjaldfrjálsu, framsæknu og faglegu starfi í samfélagshúsum borgarinnar. Í gegnum opna leikskólann fá börn sem ekki eru komin í leikskóla tækifæri til að kynnast öðrum börnum og taka þátt í faglegu starfi undir leiðsögn umsjónarmanna Memmm Play. Jafnframt hefur í kringum starfið myndast öflugt tengslanet foreldra í hverfum borgarinnar sem eflir félagsauð og stuðning á milli fjölskyldna. Slíkt foreldrasamstarf gegnir lykilhlutverki í forvarnarstarfi til framtíðar og dregur úr félagslegri einangrun sem getur myndast í fæðingarorlofi. Viðvera opna leikskólans í samfélagshúsum borgarinnar hefur einnig haft jákvæð áhrif á samfélagshús borgarinnar, aukið vitneskju um þau og kynslóðablöndun í þeim. Aðsóknin í opna leikskólann er mikil og umsjónarfólk hefur verið tilbúið til að auka opnunartímann til að mæta eftirspurn. Meirihlutinn virðist þó ekki vilja bregðast við þeirri þörf og leggur til að styrkur borgarinnar til starfsins verði lækkaður. Þannig sker vinstri meirihlutinn niður í velferðarmálum. Styrkurinn er sambærilegur við Hafnarfjörð, þrátt fyrir að íbúar borgarinnar séu um fimmfalt fleiri. Einnig er gagnrýnt að styrkveitingar til Foreldrahúss hækki ekki á milli ára.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til velferðarsviði verði falið að ráðast í breytingar á fyrirkomulagi búsetuúrræðis fyrir heimilislausar konur við H121. Annars vegar verði fyrirkomulagi úrræðisins breytt og því verði skipt upp og hins vegar verði íbúum fundinn nýr og betri staður. Jafnframt verði ráðist í að efla þjónustuna við þjónustuþega H121 með það að leiðarljósi að stuðla að aukinni velferð og virkni þeirra.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL26010104.
Frestað.Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarsviði verði falið að semja ályktunardrög frá velferðarráði til þingsins um breytingar á húsaleigulögum er varða leigutíma leigusamninga Félagsbústaða í samræmi við umsagnir Félagsbústaða og Reykjavíkurborgar þess efnis að ekki væri nægjanlegt tillit tekið til sérstöðu leigufélaga félagslegs leiguhúsnæðis þar sem hluti tímabundinna leigusamninga er liður í stuðningi og endurhæfingu leigutaka. Lagt er til að drögin verði lögð fram á næsta fundi ráðsins. VEL26010105.
Samþykkt. -
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um hversu margir fengu úthlutað íbúð frá Félagsbústöðum árin 2025, 2024, 2023, 2022 og 2021. Sundurliðað eftir árum. Einnig er óskað eftir því hversu mörgum var sagt upp leigu eða leigu rift á sama tímabili. VEL26010106.
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um hversu margar íbúðir Félagsbústaðir eiga til útleigu. Einnig er óskað eftir fjölda allra félagslegra íbúða á Íslandi til samanburðar. VEL26010107.
Fundi slitið kl. 15:29
Guðný Maja Riba Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir
Sandra Hlíf Ocares Magnea Gná Jóhannsdóttir
Pétur Marteinn Urbancic Tómasson Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 21. janúar 2026