Velferðarráð - Fundur nr. 519

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 3. desember var haldinn 519. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Friðjón R. Friðjónsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á einangrun eldra fólks, dags. í júlí 2023. VEL25110082.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, Sigurður Á. Sigurðsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur, og Viðar Eggertsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sabine Leskopf, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir ítarlega og mikilvæga skýrslu um einangrun og einmanaleika eldra fólks. Niðurstöður sýna að meirihluti svarenda býr við góða félagslega virkni og að 90% hittir einhvern utan heimilis að minnsta kosti vikulega, auk þess sem 75% eiga regluleg samskipti við börn, ættingja eða vini. Þrátt fyrir þessa jákvæðu mynd eru skýr merki um að ákveðnir hópar, sérstaklega innflytjendur og einstaklingar með takmarkaða íslenskukunnáttu, eigi erfiðara með að nálgast upplýsingar, séu líklegri til að búa einir og upplifi oftar einmanaleika og félagslega einangrun. Fulltrúarnir telja mikilvægt að þessir hópar séu sérstaklega hafðir í forgrunni í þróun þjónustu og forvarna. Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að styrkja fræðslu, forvarnir og markvissa tengslamyndun fyrir eldra fólk, með sérstaka áherslu á tungumálastuðning, aðgengi að upplýsingum og fjölbreytt félagslegt starf.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir gagnlega og ítarlega skýrslu Félagsvísindastofnunar um einangrun og einmanaleika eldra fólks. Niðurstöðurnar varpa ljósi á að meirihluti eldra fólks er virkur félagslega, en að til staðar er hópur sem býr við verulega félagslega einangrun og tilfinningalegan einmanaleika. Sérstaklega vekur athygli að innflytjendur eru mun líklegri til að upplifa einmanaleika og eiga erfiðara með að nálgast upplýsingar um þjónustu og réttindi, þar sem skortur á íslenskukunnáttu vegur þungt. Einnig kemur fram að aðstandendur sinna mun stærri hluta umönnunar meðal innflytjenda, sem getur skapað viðvarandi álag á fjölskyldur. Rétt er þó að vekja athygli á því að svarhlutfall innflytjenda í könnuninni var mjög lágt. Það kallar á spurningar um hvort vandinn sé í raun enn umfangsmeiri en skýrslan sýnir og hvort þörf sé á sértækri gagnaöflun í Reykjavík. Í ljósi niðurstaðna er brýnt að styrkja íslenskukennslu og upplýsingagjöf fyrir fjölbreyttan hóp eldri borgara. Þá þarf jafnframt að efla almennar forvarnir gegn einmanaleika með aðgengilegu félagsstarfi, fræðslu, heilsueflingu og fjölbreyttum úrræðum sem styðja við sjálfstæði og virkni allra eldri íbúa Reykjavíkurborgar.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstöður rannsóknar um einmanaleika eldra fólks frá árinu 2024 kalla á skýrar og markvissar aðgerðir af hálfu borgarinnar. Áhyggjuefni er að eldra fólk af erlendum uppruna er mun líklegra til að upplifa bæði tilfinningalegan og félagslegan einmanaleika en jafnaldrar þeirra af íslenskum uppruna. Aðeins 29% innflytjenda eru ekki einmana, en 31% eru nokkuð eða talsvert einmana. Þá eru konur, einstaklingar sem búa einir og þeir sem hafa minni menntun sérstaklega viðkvæmir fyrir tilfinningalegum einmanaleika. Jafnframt kemur fram að elsti aldurshópurinn og innflytjendur taka síður þátt í félagsstarfi. Nauðsynlegt er að greina hver ástæða þess er. Huga þarf sérstaklega að aðgengi, samgöngum og upplýsingaflæði. Í rannsókninni kemur fram að innflytjendur eiga erfiðara með að nálgast upplýsingar, en skortur á íslenskukunnáttu skýrir þann mun að stærstum hluta. Einmanaleiki hefur veruleg áhrif á lífsgæði og heilsu fólks. Fulltrúinn telur því brýnt að Reykjavíkurborg forgangsraði aðgerðum sem vinna gegn einmanaleika og stuðla að aukinni virkni og þátttöku eldra fólks. Í ljósi þessa vekur það furðu að meirihlutinn hafi hafnað tillögu Framsóknar um að setja 100 milljónir í íþróttastarf fyrir eldra fólk á fundi borgarstjórnar í gær. Fulltrúinn brýnir meirihlutann til að íhuga forgangsröðun sína af alvöru.
     

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á áhrifum stafrænnar umbreytingar í öldrunarþjónustu. VEL25110083.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, Sigurður Á. Sigurðsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur og Viðar Eggertsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sabine Leskopf, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir kynningu um stöðu og framvindu stafrænnar umbreytingar í þjónustu við eldra fólk. Ný tækni og rafræn þjónusta gegna sífellt stærra hlutverki í því að mæta áskorunum tengdum hækkandi aldri þjóðarinnar og vöntun á starfsfólki. Það er ánægjulegt að sjá árangur í verki þar sem 79% notenda telja skjáheimsóknir draga úr einmanaleika og 83% upplifa aukna öryggistilfinningu. Notkun lyfjaskammtara sýnir fram á meira öryggi, sjálfstæði og jákvæðan fjárhagslegan ávinning sem skýrist af betri nýtingu tíma, lægri rekstarkostnaði og eldsneytissparnaði þannig að ein króna inn gefur ábata upp á 8 krónur til baka. Fjarþjálfun í heimahúsi skilar notendum auknum styrk, betri færni og bættri líðan. Með fjarvöktun langvinnra sjúkdóma upplifa notendur meira öryggi, betra heilsulæsi og dregið er úr þörf fyrir heimsóknir og innlagnir. Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að áfram verði unnið markvisst að innleiðingu stafrænnar umbreytingar í einstaklingsmiðaðri þjónustu við eldra fólk á forsendum notenda. Tryggja þarf að tæknilausnir séu aðgengilegar öllum hópum eldra fólks. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi þróun velferðartækni. Samstarfsflokkarnir telja að stafrænar lausnir séu ein leið til að styrkja sjálfstæði eldra fólks, bæta þjónustu og nýta tíma starfsfólks með skilvirkari hætti.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að stafrænar lausnir í öldrunarþjónustu sýni bæði verulegan samfélagslegan og fjárhagslegan ávinning. Ljóst er af kynningunni að lyfjaskammtarar, fjarvöktun, fjarþjálfun og skjáheimsóknir eru dæmi um lausnir sem bæði bæta þjónustu og stuðla að betri nýtingu opinberra fjármuna. Kostnaðar- og ábatagreiningar sýna jákvæða þróun, þar sem tímasparnaður, eldsneytissparnaður og skilvirkari vinnubrögð vega þungt. Það skiptir þó máli að ávinningur sé raunhæfur og að fylgst sé náið með því að hagræðing skili sér í rekstrinum, en ekki eingöngu í glærukynningum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á rekstrarlegan aga og að fjármunir séu nýttir þannig að þeir skili raunverulegum sparnaði, aukinni skilvirkni og minni tvíverknaði í kerfinu. Þetta er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins um að borgin starfi með ábyrgum rekstri, nýti skattfé vel og forgangsraði verkefnum sem skila raunverulegum ávinningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja til áframhaldandi vinnu og leggja áherslu á að faglegar greiningar, gagnsæi og árangursmælingar verði í forgrunni þegar nýjar lausnir eru metnar og innleiddar. Starfsfólk umbótateymisins á fullt hrós skilið fyrir faglega og árangursríka vinnu og öðrum teymum og sviðum borgarinnar er óhætt að taka þau til fyrirmyndar.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða og upplýsandi kynningu á áhrifum stafrænnar umbreytingar í öldrunarþjónustu. Innleiðing stafrænna lausna hefur skilað því að þjónusta við borgarbúa hefur bæði aukist og eflst. Ánægjulegt er að sjá jákvæðan ábata af tæknilausnum á borð við lyfjaskammtara, skjáheimsóknir og fjarþjálfun, sem hafa bætt öryggi og stuðlað að sjálfstæði notenda. Þá sýnir innleiðingin að fjármunum borgarbúa er betur varið, þar sem tæknin gerir starfsfólki kleift að nýta tíma sinn á skilvirkari hátt og að sinna öðrum brýnum verkefnum.
     

  3. Fram fer kynning á ársskýrslu heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar 2024. VEL25080024.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, Sigurður Á. Sigurðsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur og Viðar Eggertsson, fulltrúi í öldungaráði Reykjavíkur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir kynningu á ársskýrslu heimahjúkrunar 2024. Mjög mikilvægt starf þróast í takt við vaxandi þjónustuþörf íbúa og breyttar áskoranir í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samstarfsflokkarnir fagna jákvæðum árangri í þjónustunni, m.a. í því að 2857 notendur fengu heimahjúkrun á árinu og að samþætt heimaþjónusta heldur áfram að styrkjast, þar sem 56% notenda heimahjúkrunar fá einnig heimastuðning. Einnig er ánægjulegt að sjá að 87% notenda telja sig fá nægjanlegan stuðning, 99% upplifa vingjarnlegt viðmót, og 88% telja þjónustuna bæta líðan sína. Samstarfsflokkarnir taka jafnframt undir mikilvægi nýsköpunar og þróunar í þjónustunni, þar á meðal áframhaldandi innleiðingu velferðartækni, samþættingu kerfa, og í að styrkja teymisvinnu, þættir sem skýrslan sýnir að eru orðnir burðarás í þjónustunni. Sérstaklega er horft til árangurs SELMU, hreyfanlegs öldrunarteymis, sem hafði aðkomu að 14% notenda og leysti 77% mála með aðgerðum í heimahúsi. Samstarflokkarnir ítreka mikilvægi þess að tryggja næga mönnun, efla sérfræðiþekkingu, styðja við teymisvinnu og halda áfram umbótastarfi, enda er mönnun og aukið álag áfram ein af stærstu áskorunum í þjónustunni. Samstarfsflokkarnir þakka starfsfólki heimahjúkrunar sérstaklega fyrir fagmennsku, hlýju og samfellu í þjónustunni sem skilar sér í bættum lífsgæðum og öryggi íbúa í Reykjavík.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir ársskýrslu heimahjúkrunar og meta mikilvægt starf sem þar fer fram. Skýrslan sýnir þó að þjónustan stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum. Þjónustumagnið eykst hratt en óvíst er hvort mönnun og fjármögnun haldist í hendur við þá þróun. Þetta getur haft neikvæð áhrif á álag starfsfólks og gæði þjónustu, sérstaklega þegar gæðavísar eins og félagsleg einangrun og líðan eru þegar yfir viðmiðum. Athyglisvert er að 55% nýrra mála koma frá Landspítala sem vekur upp spurningar um hvort heimahjúkrun Reykjavíkur sé orðin hluti af fráflæði sjúkrahússins án fullnægjandi fjárhagslegs mótframlags. Slík tilfærsla ábyrgðar krefst skýrra samninga um kostnað og verkaskiptingu. Samhliða þessu telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægt að stafrænar lausnir verði áfram nýttar til að mæta mönnunarvanda og bæta skilvirkni. Til þess þarf þó skýra stefnu og raunhæfar hagræðingaráætlanir þannig að tæknin styðji við sjálfbæran rekstur og örugga þjónustu.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á framgangi sameiningar á heimaþjónustu Vesturmiðstöðvar og Norðurmiðstöðvar. Trúnaðarmál. VEL25090012.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Fram fer kynning á húsnæðismálum framleiðslueldhúss velferðarsviðs. Trúnaðarmál. VEL25110084.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 15:33 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  6. Lagt fram minnisblað, dags. 1. desember 2025, um fjölda einstaklinga í Reykjavík sem bíða eftir plássi í dagdvöl. VEL25110012.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Hanna María Karlsdóttir, gæða- og fagstjóri heimaþjónustu, Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir svarið. Samkvæmt því eru hundruð einstaklinga sem bíða eftir því að komast að í dagdvöl: 126 að bíða eftir sérhæfðri dagdvöl fyrir heilabilaða og þar af 83 sem eru tilbúnir til að þiggja pláss, 15 á bið eftir sérhæfðri dagdvöl fyrir fólk með MS og Parkinson og 208 á bið eftir almennri dagdvöl. Á sama tíma og þörfin er gríðarleg liggur fyrir að plássum í dagdvölum Reykjavíkurborgar mun fækka um 15 vegna niðurlagningar dagdvalarinnar Þorrasels. Það mun hafa áhrif á töluvert fleiri einstaklinga þar sem á bak við 15 pláss í dagdvöl eru fleiri einstaklingar, vegna þess að sumir nýta dagdvöl aðeins hluta úr degi eða hluta úr viku. Rekstur dagdvala er verkefni ríkisins og því er brýnt að ríkisstjórnin kynni áform um hvernig fjölga eigi plássum í dagdvöl til að mæta þeirri þörf sem glögglega blasir við. Því er sú þróun að fækka dagdvalarrýmum mikið áhyggjuefni og skref aftur á bak.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. desember 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins, um stöðu flutninga dagdvalarinnar Þorrasels, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. október 2025. VEL25100044.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir svarið. Samkvæmt því liggur ekki enn fyrir hver tímalína niðurlagningar Þorrasels er og ekki liggur heldur fyrir í hvaða dagdvöl allir notendur dagdvalarinnar Þorrasels muni færast. Ákvörðun um niðurlagningu dagdvalarinnar hefur haft það í för með sér að óvissa hefur skapast hjá þjónustuþegum og starfsfólki Þorrasels um framhald þjónustunnar. Um 100 einstaklingar mæta í hverri viku í Þorrasel og hefur dagþjálfunin ómetanlegt gildi fyrir þann hóp sem hana sækja. Þótt mikilvægt sé að Heilsugæslan í Miðbæ haldi áfram starfsemi sinni í miðbæ Reykjavíkur og að hún hafi aðgang að húsnæði sem hæfir starfseminni þá er einnig brýnt að starfsemi Þorrasels sé áfram tryggð og ekki komi til þjónusturofs við hópinn. Rekstur dagdvala eru verkefni ríkisins. Enn er óljóst hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við þeirri fækkun á dagdvalarrýmum sem breytingin felur í sér. Í ljósi hækkandi lífaldurs er brýnt að auka aðgengi að dagþjónustu fyrir eldra fólk. Því er sú þróun að fækka dagdvalarrýmum mikið áhyggjuefni og skref aftur á bak. Nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi aðgengi að dagþjálfun, enda gegnir hún lykilhlutverki í að styðja við sjálfstæða búsetu og viðhalda lífsgæðum eldri borgara.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á flutningum Vesturmiðstöðvar. Trúnaðarmál. VEL25080049.

    Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og Rafrænnar miðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  9. Kynning á starfsemi Matthildarsamtakanna. VEL25120002.
    Frestað.

  10. Lögð fram til kynningar, drög að III. viðauka þjónustusamnings milli félags- og húsnæðismálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar, um samræmda móttöku flóttafólks, dags. í nóvember 2025. VEL25110076.
    Frestað.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. desember 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um samskipti Reykjavíkurborgar við íbúa í nágrenni búsetuúrræðis fyrir heimilislausa, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. október 2025. Trúnaðarmál. VEL25100046.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  12. Lögð fram drög að fundadagatali velferðarráðs fyrir janúar - maí 2026. VEL25110077.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 31. október 2025, ásamt minnisblaði, dags. 22. september 2025, um samráðsfund mannréttindaráðs sem fór fram 4. september 2025. MSS25010051.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar Reykjavíkurborgar, dags. 28. nóvember 2025, við erindi ÖBÍ réttindasamtaka, dags. 24. nóvember 2025, varðandi alvarlegar athugasemdir samtakanna við efni fyrirliggjandi frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026. MSS25110116.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa þungum áhyggjum af ábendingum ÖBÍ réttindasamtakanna. Fram kemur í bréfi þeirra að 42 einstaklingar með samþykkta NPA-samninga bíða þess að lögbundin þjónusta hefjist. Þetta eru réttindi sem tryggð eru bæði í lögum og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna og eru því ekki valfrjáls verkefni heldur skylda sem sveitarfélögum ber að uppfylla. Það hefur lengi legið í loftinu að hið opinbera, hvort heldur ríki eða borg, þurfi að fjármagna þessa þjónustu til fulls. Það á hins vegar aldrei að bitna á þjónustuþeganum að stjórnvöld geti ekki gert upp á milli sín úr hvaða vasa eigi að greiða. Á endanum er þetta allt sami vasinn, vasi skattgreiðenda. Það er óásættanlegt að fólk með staðfesta þörf og samþykkt réttindi sitji milli skips og bryggju vegna ágreinings eða óleystrar kostnaðarskiptingar. Í svari borgarinnar kemur skýrt fram að ekki standi til að fjármagna alla samþykkta samninga á árinu 2026. Það eitt og sér sýnir að ekki er brugðist við stöðunni með þeim þunga sem lög og mannréttindaskuldbindingar krefjast. Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að tryggt verði að fólk fái þá þjónustu sem það á skýlausan rétt á. Borg og ríki verða að leysa sín ágreiningsmál án þess að það bitni á þeim sem síst skyldi.

    Fylgigögn

  15. Starfið á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023. 
    Frestað.

    -    Kl. 16:55 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum. 

Fundi slitið kl. 17:09

Guðný Maja Riba Sandra Hlíf Ocares

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns Magnea Gná Jóhannsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 3. desember 2025