Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 3. september var haldinn 512. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sandra Hlíf Ocares og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. september 2025, um flutning heimaþjónustu Vesturmiðstöðvar í Norðurmiðstöð:
Lagt er til að þegar verði hafinn undirbúningur að flutningi heimaþjónustu Vesturmiðstöðvar til Norðurmiðstöðvar með það markmið að sameina heimaþjónustu þessara tveggja miðstöðva.
Kostnaður vegna tillögunnar rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs og þjónustusamnings Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25080059.
Samþykkt.Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar, og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og Rafrænnar miðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs styðja sameiningu heimaþjónustu Vestur- og Norðurmiðstöðvar í ljósi núverandi stöðu enda brýnt að tryggja öryggi, gæði og samfellda þjónustu innan þess ramma sem samþætt heimaþjónusta borgarinnar byggir á. Þjónustan verður áfram veitt í heimahúsum og notendur verða ekki varir við breytingar á daglegri umönnun. Samstarfsflokkar velferðarráðs leggja áherslu á að í sameiningunni verði haldið vel utan um feril breytinganna og þjónustuþegum, aðstandendum og starfsfólki verði haldið vel upplýstum. Mikilvægt er að röskun verði ekki á þjónustunni í samræmi við markmið samningsins frá 2009. Þá leggja fulltrúarnir áherslu á að fá reglulega upplýsingar um framvindu, einkum áhrif á mönnun, gæði þjónustu og starfsánægju til að geta metið hvort frekari skipulagsbreytinga sé þörf. Samstarfsflokkar velferðarráðs leggja áherslu á að áfram verði unnið að langtímamarkmiðum samþættrar heimaþjónustu sem eru að fólk geti búið heima sem lengst með tryggri og faglegri þjónustu.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarráð felur skrifstofu öldrunarmála, í samvinnu við umbótateymi velferðartæknismiðju og þjónustumiðstöðvar, að hefja vinnu við gerð framtíðarstefnumótunar fyrir heimaþjónustu í Reykjavík. Markmiðið er að móta stefnu um framtíðarfyrirkomulag hvað fjölda starfsstaða heimaþjónustu og staðsetningu varðar. Stefnan skal taka mið af breyttum þörfum notenda, þróun í mönnun og faglegum kröfum til samþættrar félags- og heilbrigðisþjónustu. Stefnumótunin verði lögð fram fyrir ráðið í febrúar 2026. VEL25090012.
Frestað.
-
Tillaga sviðsstjóra um umboð til að ganga til samninga við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna PMTO. VEL25080055.
Frestað. -
Lagt er til að Magnea Gná Jóhannsdóttir, fulltrúi Framsóknar, taki sæti í stýrihópi um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks. VEL25060043.
Samþykkt. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. september 2025, um hækkun tekjumarka í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:
Lagt er til að samþykkt verði hækkun tekjumarka sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, afturvirkt frá 1. september 2025, sem hér segir:
Fjöldi heimilisfólks Neðri tekjumörk á ári Efri tekjumörk á ári Neðri tekjumörk á mánuði Efri tekjumörk á mánuði
1 5.977.276 7.471.595 498.106 622.633
2 7.949.777 9.937.221 662.481 828.102
3 9.264.778 11.580.973 772.065 965.081
4 10.041.824 12.552.280 836.819 1.046.023
5 10.878.642 13.598.303 906.554 1.133.192
6+ 11.715.461 14.644.326 976.288 1.220.361Kostnaður vegna breytinganna rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25080047.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að hækka tekjumörk í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Þetta er gert í kjölfar þess að frítekjumörk húsnæðisbóta hækka frá og með 1. september í kjölfar breytinga á örorkulífeyriskerfinu þannig að hækkanir leiði ekki til skerðinga á húsnæðisstuðningi. Reykjavíkurborg aðlagar hér með reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og hækkar tekjumörkin. Samstarfsflokkum velferðarráðs finnst mikilvægt að uppfæra reglur borgarinnar til samræmis við breytingar hjá ríkinu.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt 6 mánaða uppgjör velferðarsviðs janúar - júní 2025. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fram í borgarráði. VEL25080023.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lagt fram trúnaðarmerkt yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 10 m.kr. á 2. ársfjórðungi 2025. Trúnaður er um málið þar til 6 mánaða uppgjör velferðarsviðs 2025 hefur verið lagt fram í borgarráði. VEL25080038.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á stöðu fjárhagsáætlunargerðar 2026. VEL25080056.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt er til að Guðný Maja Riba, varaformaður velferðarráðs, Helgi Áss Grétarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, taki sæti í styrkjahópi velferðarráðs. Einnig er lagt til að við úthlutun styrkja velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2026 skuli líta sérstaklega til verkefna sem styðja við börn í viðkvæmri stöðu eins og börn í fátækt, fötluð börn og börn af erlendum uppruna. VEL25080057.
Samþykkt. -
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 14. ágúst 2025, um áform um frumvarp til laga um málefni innflytjenda. VEL25070060.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir í velferðarráði lýsa yfir miklum áhyggjum af þjónusturofi við viðkvæma hópa einstaklinga, sérstaklega barna og ungmenna við yfirfærslu verkefna frá Reykjavíkurborg yfir til Vinnumálastofnunar. Um flókna og umfangsmikla þjónustu er að ræða og hefur Vinnumálastofnun ekki komið nægilega skýrt fram að mati velferðarráðs um hvernig stofnunin hyggst leysa verkefnið. Fagfólk Reykjavíkurborgar hefur sinnt þessum málaflokki mjög vel. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir þjónustu- og þekkingartap enda engin fagleg tengsl á milli starfsfólks Vinnumálastofnunar og miðstöðva borgarinnar. Telja samstarfsflokkarnir brýnt að sú sérhæfða þekking og ráðgjöf sem sveitarfélögin hafa byggt upp tapist ekki, heldur verði tryggt að nærþjónusta og þekking á hverfum haldist sem mikilvægur þáttur í inngildingu. Það er einlæg ósk samstarfsflokkanna að hafið verði samtal við Reykjavíkurborg um samninginn, hann rýndur, einfaldaður og endurmetinn þannig að nýr samningur tryggi áframhaldandi þjónustu við viðkvæman hóp fólks og að farsæld barna og ungmenna verði tryggð. UNICEF á Íslandi og Barnaheill efast um getu Vinnumálastofnunarinnar til að mæta þörfum barna sem hafa verið í erfiðum aðstæðum. Vinnumálastofnun býr ekki yfir sömu innviðum og sveitarfélögin, þegar kemur að möguleikunum til að hlúa vel að börnum á flótta.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fyrirhugaða yfirfærslu verkefna á þessu sviði frá Reykjavíkurborg yfir til Vinnumálastofnunar er þörf á að gæta vel að hagsmunum viðkvæmra hópa, ekki síst barna og ungmenna. Að þessu leyti taka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undir bókun samstarfsflokkanna, sjá einnig bókun velferðarráðs frá fundi ráðsins 16. júlí síðastliðinn.
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Umsögn Reykjavíkurborgar er skýr og fer yfir vel yfir hagsmuni Reykjavíkurborgar. Brýnt er að ráðuneytið skýri hvernig þjónusta við börn verði háttað í þeim lagabreytingum sem áformaðar eru, sérstaklega hvað varðar leik- og grunnskólavist. Þá þarf einnig að liggja fyrir hvernig önnur þjónusta sem einstaklingar hafa átt rétt á samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og er umfram beina framfærslu verði háttað. Einnig væri gott ef skýrt væri frekar hvað er verið að samræma við Norðurlöndin og hvaða lönd.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, dags. 1. júlí 2025, við erindi velferðarsviðs þar sem óskað er eftir upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu. VEL25050004.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Óskað er eftir nánari upplýsingum um hvert framtíðarfyrirkomulagið sé.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknar um stofnun stýrihóps um samþætta þjónustu borgarinnar við ungmenni sem eru ekki í virkni, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. maí 2025, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 1. september 2025. VEL25050052.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil og góð vinna hefur verið unnin síðustu misserin sem er enn í gangi í málaflokknum. Samstarfsflokkar velferðarráðs benda á að velferðarsvið er í góðu samstarfi og samtali við ýmsa aðila sem sinna NEET-hópnum, t.d. náms- og starfsráðgjafa innan framhaldsskóla, VIRK, Vinnumálastofnun og starfs- og endurhæfingarúrræði. Tryggja þarf að öll börn og ungmenni, óháð uppruna eða stöðu, njóti réttar til velferðarþjónustu, menntunar og öryggis. Velferðarsvið á einnig fulltrúa í undirhópi sem er að fjalla um NEET-hópinn. Í ljósi þess að fyrirliggjandi verkefni er þegar í gangi leggja samstarfsflokkarnir til að umræddri tillögu verði vísað frá. Það er mikilvægt að forðast tvíverknað og tryggja að fagleg vinna sem þegar er hafin fái að skila sér áður en ný verkefni eru sett af stað. Þegar greiningu vinnuhópa lýkur og niðurstöður liggja fyrir verður tilefni til að taka málið til umræðu á ný og gera viðeigandi ráðstafanir.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir það sjónarmið fulltrúa Framsóknarflokksins að óæskilegt sé að vísa tillögu þessari um stofnun stýrihóps frá en verksvið stýrihópsins átti að snúast um að samþætta þjónustu borgarinnar til að ná betur utan um ungmenni á aldrinum 16-29 ára sem ekki eru í virkni. Samkvæmt svari borgarritara, dags. 8. júlí 2025, (MSS24110087) eru alls starfandi 91 starfs- og stýrihópar og aðrir starfandi vinnuhópar innan borgarkerfisins. Ætla má þó að sá fjöldi sé vanáætlaður. Með hliðsjón af þessu, og því að starfandi eru hópar um sambærileg efni og tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins gekk út á, hefðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki stutt tillöguna um stofnun enn eins stýrihópsins í borgarkerfinu.
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar lýsir furðu á því að ekki sé vilji til að samþykkja tillögu um stofnun stýrihóps um samþætta þjónustu Reykjavíkurborgar fyrir ungmenni 16–29 ára sem ekki eru í virkni. Borgin þjónustar fjölbreyttan hóp ungs fólks í ólíkum aðstæðum, en sum þeirra falla á milli kerfa og fá ekki samfelldan, einstaklingsmiðaðan stuðning sem nauðsynlegur er til að þau nái að fóta sig. Brýnt er að borgin marki sér stefnu um hvernig mæta eigi þessum hópi ungs fólks sem ekki er í virkni, sérstaklega NEET-hópnum, þ.e. ungmennum á aldrinum 16-29 ára sem eru hvorki í námi, starfi né virkri þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt minnisblaði velferðarsviðs frá 6. desember 2023 má gera ráð fyrir að um 1500 einstaklingar í Reykjavík falli í þann hóp. Tillagan tekur mið af þróunarverkefninu Elju virkniráðgjöf í Árborg, sem byggir á samþættingu velferðarþjónustu, skóla, frístundastarfs og einstaklingsmiðaðrar nálgunar. Þar er ungu fólki mætt á eigin forsendum með það að markmiði að skapa heildstæða leið út í nám, starf eða virkni. Fulltrúinn gagnrýnir jafnframt umsögn velferðarsviðs sem vísar aðeins til starfshópa sem ekki fara beint með stefnumótun fyrir þennan hóp, í stað þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að móta markvissa framtíðarsýn fyrir þennan viðkvæma hóp.
Fylgigögn
- Tillaga um stofnun stýrihóps um þjónustu við ungmenni sem eru ekki virkni
- Umsögn velferðarsviðs um tillögu um stofnun stýrihóps um samþætta þjónustu borgarinnar við ungmenni sem eru ekki í virkni
- Fylgiskjal - minnisblað um stöðu einstaklinga sem eru hvorki í námi, þjálfun né starfi (NEET-hópurinn) dags. 6. desember 2023
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknar um kynningu á skýrslu HLH ráðgjafar um skipulag í málaflokki fatlaðs fólks, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 9. apríl 2025. VEL25040011.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Velferðarráð samþykkir að fara ítarlega yfir málaflokk fatlaðs fólks á fundi velferðarráðs 17. september, þar verði m.a. farið yfir greiningu HLH um málaflokk fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg.
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga við stjórnendur innan velferðarsviðs 2015-2024. VEL25050055.
Frestað. -
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. september 2025, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar frá árinu 2019, sbr. 3. lið fundargerðar velferðarráðs frá 25. júní 2025. VEL25060113.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Ýmsar aðstæður geta orðið þess valdandi að fólk þurfi á neyðaraðstoð til framfærslu að halda. Fjárhagsaðstoð er fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Kjörnir fulltrúar í velferðarráði eiga rétt á að beina fyrirspurnum til ráðsins í því skyni að fá upplýsingar um hver sé staða mála. Bókun samstarfsflokkanna undir þessum lið er því sérstök í meira lagi og ástæða er til að halda að hún uppfylli ekki skilyrði sem gilda um efni og tilgang bókana, samanber grunnrök 1. mgr. 27. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt svari velferðarsviðs, dags. 1. september 2025 (VEL25060113), er ákveðin skipting milli þjóðerna þeirra sem þegið hafa fjárhagsaðstoð á árunum 2022-2024, meðal annars er þjóðerni þeirra sem nemur meira en 1,0% af heildarfjölda frá eftirfarandi ríkjum: Íslandi, Úkraínu, Venesúela, Póllandi, Palestínu, Afganistan, Sýrlandi, Írak, Litháen, Rúmeníu og Sómalíu. Spurt er, hver hefur verið árleg fjárhagsaðstoð til einstaklinga frá þessum þjóðernum á nefndu tímabili, það er, á árunum 2022-2024? VEL25090014.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins ítreka eftirfarandi fyrirspurn sem lögð var fram 21. maí 2025 vegna tillögu sem lögð var fram 30. apríl 2025: Á fundi velferðarráðs 30. apríl 2025 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar fram beiðni um að umsókn Memmm Play um opinn leikskóla yrði sett á dagskrá næsta fundar velferðarráðs. Síðan þá hafa tveir fundir verið haldnir án þess að tillagan hafi verið tekin fyrir á fundi ráðsins. Hver er ástæða þessa og hvenær má ætla að tillagan komi á dagskrá ráðsins? VEL25090015.
- kl. 16:19 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum.
Fundi slitið kl. 16:23
Sanna Magdalena Mörtudottir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns
Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson
Sara Björg Sigurðardóttir Sandra Hlíf Ocares
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 3. september 2025