Velferðarráð - Fundur nr. 491

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 30. október var haldinn 491. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Sjávarhólum, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Magnús Davíð Norðdahl. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

  2. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, um málefni heimilislausra. VEL24090023.

    Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  3. Lögð fram að nýju tillaga sviðsstjóra, dags. 30. september 2024, um breytingar á reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu nr. 645/2020 og nýja gjaldskrá fyrir akstursþjónustu, ásamt fylgiskjölum, sbr. 1. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24100014.

    Tillaga um breytingar á gjaldskrá fyrir akstursþjónustu er samþykkt. Vísað til borgarráðs.
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar því að loksins sé verið að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um að Reykjavíkurborg beri að breyta gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að bjóða upp á gjaldskrá sambærilega og gjaldskrá í almenningssamgöngur. Breytingin er að stakt fargjald fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks skal miðast við stakt gjald fyrir öryrkja hjá Strætó bs. Gjald vegna tímabilskorta fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks mun einnig miðast við tímabilskort fyrir öryrkja. Einnig munu nemakort vera í boði fyrir 16 ára og eldri sem stunda framhalds- eða háskólanám og skal gjaldið á nemakortunum miðast við tímabilskort fyrir öryrkja samkvæmt gjaldskrá Strætó bs. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að í nýrri gjaldskrá velferðarsviðs er lagt til að allur akstur fatlaðra barna bæði leik- og grunnskólabarna til 16 ára aldurs skuli verða gjaldfrjáls. Fulltrúi Flokks fólksins gagnrýndi einmitt fyrri tillögu vegna þess að þar var gert ráð fyrir því að börn 12-15 ára þyrftu að fara að greiða hálft strætógjald en þau höfðu áður ekki greitt fyrir akstursþjónustuna. Gott er að sjá að hlustað hefur verið á þessar ábendingar í nýrri tillögu.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um gjaldskrá akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. mars 2024. VEL24030008.
    Vísað frá.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað frá þar sem framlögð tillaga sviðsstjóra um nýja gjaldskrá akstursþjónustu fatlaðs fólks gengur lengra. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, um íbúðakjarna á Háteigsvegi í þjónustuflokknum þroski II, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að samþykkt verði opnun nýs íbúðarkjarna við Háteigsveg fyrir sjö einstaklinga í þjónustuflokki þroski II. Samkvæmt fimm ára áætlun 2025-2029 er gert ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður verði 200 m.kr. með uppreiknuðum kjarabótum. Einnig er óskað eftir því að stofnkostnaður að fjárhæð 5 m.kr. verði fjármagnaður í takt við samþykkta uppbyggingaráætlun. Verið er að undirbúa opnun íbúðakjarnans sem mun formlega opna í desember 2024. Kostnaður við rekstur heimilisins rúmast ekki innan fjárheimilda velferðarsviðs og er óskað eftir rekstrarfé sem nemur einum mánuði á árinu 2024 eða 17 m.kr. auk stofnkostnaðar 5 m.kr., alls 22 m.kr. og 200 m.kr. á árinu 2025.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24100067.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á sérstökum húsnæðisstuðningi. VEL24100073.

    Bjarki Hermannsson, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og reksturs, og Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og reksturs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, um samninga og nýtingu sveitarfélaga í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. VEL24100033.

    Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að óska eftir áliti Borgarlögmanns og umboðsmanns Alþingis á því hvort túlka megi lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 á þann veg að þau taki til ábyrgðar sveitarfélaga á kostnaði sem til fellur vegna þjónustu við heimilislaust fólk. Dæmi eru um að sveitarfélög taki ekki þátt í greiðslu vegna heimilislausra sem sækjast eftir þjónustu í neyðarskýlum borgarinnar og því búa þeir einstaklingar sem eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi við þjónustuskort sem felst í því að þau fá ekki skjól yfir nóttina. Þá eru einnig dæmi um að ríkið neiti að greiða fyrir gistingu heimilislausra án kennitölu í neyðarskýlum. Velferðarráð felur sviðsstjóra einnig að senda erindi til innviðaráðherra varðandi löggjöf um lögheimilisskráningu m.t.t. breyttrar lögheimilisskráningar heimilislausra sem flytja lögheimili sitt til þess að fá þjónustu svo sem gistingu í neyðarskýli sem ekki er í boði í þeirra sveitarfélagi. Dæmi eru um að sveitarfélög hvetji einstaklinga beinlínis til þess að færa lögheimilið sitt.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, dags. 16. september 2024, þar sem tilkynnt er um niðurstöðu frumkvæðisathugunar á stöðu uppfærslu stoð- og stuðningsþjónustureglna sveitarfélaga. VEL24030001.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs, dags. 30. september 2024, um skýrslu og tillögur starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa, ásamt bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. júní 2024. MSS24060032.
    Samþykkt með áorðnum breytingum sem gerðar voru á fundinum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er tiltölulega ánægður með framkomna skýrslu um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa enda í takt við vinnu fulltrúa Flokks fólksins í stýrihópi um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk sem var að störfum 2020 en lauk hins vegar aldrei vinnu sinni vegna andstöðu. Minnt er þó enn og aftur á mikilvægi aðgengismála. Gæta þarf þess að aðgengi að hinum sérhæfðu félagsmiðstöðvum sé tryggt og að fólk komist án vandræða á þær og milli þeirra. Strætó er því miður ekki nógu góður kostur fyrir margra sakir. Finna þarf aðrar leiðir. Þegar talað er um sérhæfingu þá þýðir það líka að leggja skuli áherslu á sérhæfð áhugamál. Til dæmis að efla virkni líkama og sálar með göngu- og hlaupahópum, dansi, jóga og hugleiðslu, mat, næringu og heilsueflingu. Mikilvægt er einnig að í hverju hverfi myndi tilteknir opnir og almennir þjónustuþættir/starfsemi hverfiskjarna félags- og menningarstarfs þannig að ekki sé gert upp á milli hverfa. Sátt er einnig um tillöguna sem snýr að því að í fimm félagsmiðstöðvum, sem nú eru reknar í húsnæði þjónustuíbúðakjarna borgarinnar, verði þróaðar dagdvalir til að mæta frekar þörfum íbúa þar. Þetta er í samræmi við vaxandi þjónustuþörf þeirra sem búa í þjónustuíbúðum borgarinnar.
     

    Fylgigögn

  10. Lögð fram til kynningar drög að samningi  milli Tryggingastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaga og VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs ses. og Vinnumálastofnunar og heilsugæslustöðva, um samstarf á sviði endurhæfingar, dags. 23. október 2024, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, um drög að samningi um samstarf á sviði endurhæfingar. VEL24100080.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð samráðshóps samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um velferðarmál, dags. 11. september 2024. VEL24100071.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð félagsþjónustunefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 16. september 2024. VEL24100072.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram trúnaðarmerkt svar sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, við fyrirspurn velferðarráðs um samræmda móttöku flóttafólks og fjárhagsaðstoð, sem færð var í trúnaðarbók, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100016.

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn velferðarráðs, dags. 28. október 2024, um upphæð fjárhagsaðstoðar í Reykjavík í samanburði við önnur sveitarfélög, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100019.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, við fyrirspurn velferðarráðs um húsnæðiskostnað sem hlutfall ráðstöfunartekna meðal leigjanda sem fá sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100018.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð óskaði upplýsinga um hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í húsnæðiskostnað meðal þeirra sem fá sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg annars vegar hjá þeim sem leigja hjá Félagsbústöðum og hinsvegar á almennum markaði. Almennt er talið ásættanlegt að 20-25% ráðstöfunartekna fari í húsnæðiskostnað. Það kemur fulltrúa Flokks fólksins ekki á óvart að hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum er nokkuð hærra á almennum markaði en hjá leigjendum Félagsbústaða. Hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í húsnæðiskostnað hjá leigjendum Félagsbústaða með sérstakan húsnæðisstuðning er hvað verst hjá þeim sem eru í starfi eða 37% og hjá atvinnulausum án bótaréttar 29%. Á almennum leigumarkaði er staðan hvað verst hjá atvinnulausum með eða án bótaréttar en þar er hlutfallið 46% en almennt er hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum alltof hátt á almennum markaði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um mönnun á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. september 2024. VEL24090046.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Slæm staða skapaðist á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða vegna undirmönnunar síðastliðið sumar. Á íbúðakjarna við Skúlagötu skapaðist neyðarástand vegna undirmönnunar. Því óskaði Flokkur fólksins upplýsinga um hvernig væri fylgst með mönnun á sambýlum/íbúðakjörnum borgarinnar og hvaða verkferlar gilda þegar undirmönnun skapast. Í svari kemur fram að ábyrgð á mönnun liggur hjá forstöðumanni á hverjum stað. Það er ánægjulegt að fá upplýsingar um að nú sé búið að manna þau átta stöðugildi sem eru á íbúðakjarnanum á Skúlagötu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert að fá upplýsingar um að engin opinber skilgreining sé til hjá sveitarfélögum varðandi þjónustu við fatlaða einstaklinga en velferðarsvið Reykjavíkurborgar vann skýrslu árið 2016 þar sem lagðar voru fram tillögur að skilgreiningu öryggismarka í þjónustunni. Flokkur fólksins telur brýnt að farið verði yfir þessar tillögur um öryggi í sambýlum/íbúðakjörnum og þær hafðar að leiðarljósi í framtíðar þjónustu.
     

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 28. október 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. september 2024. VEL24090045.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort velferðarsvið gæti aðstoðað Samhjálp við leit að hentugu húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú. Fulltrúi Flokks fólksins hafði spurnir af því að nýlega hefði Samhjálp sent ákall til Félagsbústaða til að minna á að enn vanti Samhjálp húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú í stað húsnæðisins á Höfðabakka. Fulltrúa Flokks fólksins er kunnug forsaga málsins um að Samhjálp hafi verið boðin kaup á húsnæðinu þar sem miðað var við ákveðnar forsendur en því hafi verið hafnað af Samhjálp. Í svari segir að samkvæmt upplýsingum Félagsbústaða hafi Samhjálp ekki óskað formlega eftir aðstoð við að finna annað húsnæði. Samhjálp hafi hins vegar verið að leita að öðru húsnæði sem hentað gæti sem áfangaheimili og hafi beðið um að þau séu höfð í huga frétti Félagsbústaðir af húsnæði sem hentað gæti fyrir áfangaheimili. Það má sannarlega deila um hvað sé formleg ósk eða ákall um aðstoð en fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki aðalatriðið heldur það að fundið verði hentugt húsnæði fyrir áfangaheimilið.

    Fylgigögn

  18. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fram fari umræða um Félagsbústaði og að velferðarráð fái kynningu á skýrslu sem vinnuhópur gerði um sjálfbærni og rekstur Félagsbústaða. VEL24100087.
    Frestað.
     

  19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að Foreldrahús verði fengið til að koma fyrir velferðarráð til að kynna starfsemi sína og samstarf við Reykjavíkurborg. VEL24100088.
    Samþykkt.

  20. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort Félagsbústaðir ætli að hækka  leigu um 6,5% umfram vísitölu, og ef svo er, er óskað upplýsinga um mótvægisaðgerðir.

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24100089.

    Fylgigögn

  21. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hyggist halda áfram að styrkja Foreldrahús næstu árin. Fyrir liggur að borgin greiði 10 milljón króna styrk á næsta eftir en eftir það ríkir óvissa. Öll óvissa í úrræði sem þessu er afar erfið. VEL24100090.

Fundi slitið kl. 16:34

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Stefán Pálsson Magnús Davíð Norðdahl

Sandra Hlíf Ocares Þorvaldur Daníelsson

Helga Þórðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 30. október 2024