No translated content text
Velferðarráð
Ár 2023, miðvikudagur 30. ágúst var haldinn 458. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:11 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Stefán Pálsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. ágúst 2023, þar sem kemur fram að samþykkt hafi verið á fundi borgarráðs 15. ágúst 2023, að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Rannveigar Ernudóttur. MSS22060049.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 30. ágúst 2023, um breytingu á þjónustuflokki íbúðakjarna á Laugavegi:
Lagt er til að fyrirhugaður íbúðakjarni á Laugavegi 105 verði færður úr þjónustuflokki II í þjónustuflokk III til að unnt sé að mæta stuðningsþörfum væntanlegra íbúa. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna breytinganna á árinu 2023 er metinn 26 m.kr. fyrir tvo mánuði í rekstri 2023 eða 155 m.kr. á ársgrundvelli fyrir árið 2024.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23080022.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á 6 mánaða uppgjöri velferðarsviðs í janúar - júní 2023. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL23080024.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 30. ágúst 2023, um breytingu á opnunartíma þjónustuskála miðstöðva Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að opnunartími þjónustuskála miðstöðva Reykjavíkurborgar verði sá sami allt árið eða frá kl. 09:00 til 15:00. Símsvörun verður í samræmi við opnunartíma þjónustuvers borgarinnar frá 08:30 til 16:00 mánudaga – fimmtudaga og frá 08:30 til 14:30 á föstudögum. Tillagan felur ekki í sér kostnaðarauka.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23080032.
Samþykkt.Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar, og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Þjónusta við notendur velferðarsviðs er gífurlega mikilvæg, en samkvæmt niðurstöðu starfshóps er mikilvægt að tryggja að starfsfólk hafi tíma til að vinna úr umsóknum og sinna bakvinnslu áður en vinnutíma lýkur. Hér er einungis um að ræða styttingu á opnunartíma þjónustuskála en í aðgengiskönnun frá árinu 2021 um velferðarþjónustu kemur fram að notendur þjónustunnar vilja frekar notast við samskipti í gegnum netið. Með þessari breytingu er ekki verið að stytta viðtalstíma starfsfólks og símsvörun og netspjall verður áfram opið hjá Rafrænni miðstöð frá 08:30 til 16:00 mánudaga – fimmtudaga og frá 08:30 til 14:30 á föstudögum. Ekki er um kostnaðarauka að ræða, né fækkun vinnustunda starfsfólks. Starfsfólk þjónustuskálanna mun halda áfram að sýna þeim þjónustuþegum sveigjanleika sem af sérstökum ástæðum þurfa mæta utan þessa tíma.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 30. ágúst 2023, með stöðumati á aðgerðaáætlun velferðarsviðs gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra, ásamt fylgiskjali. VEL23080025.
Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri virkni og ráðgjafar á skrifstofu velferðarsviðs, Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, og Elín Oddný Sigurðardóttir, teymisstjóri Virknihúss, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Til kynningar er stöðumat á aðgerðaáætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Samkvæmt stöðumatinu hefur ýmislegt áunnist við að bæta þjónustu við efnalitlar fjölskyldur með börn á framfæri. Flokkur fólksins fagnar að sjálfsögðu öllum þeim úrbótum sem gerðar hafa verið til að bæta hag barna sem búa við sárafátækt. Sérstaklega ánægjulegt er að komið hafi verið á þjónustugreiðslum fyrir börn notenda fjárhagsaðstoðar sem nýta má til greiðslu fyrir allt að átta tíma dvöl á leikskóla, þátttöku á frístundaheimili fimm daga í viku auk síðdegishressingar ásamt skólamáltíðum. Þessar þjónustugreiðslur hafa ekki verið nýttar sem skyldi og það þarf að skoða hvort ekki þurfi að kynna þetta úrræði betur. Frá hausti 2023 verður eitt stöðugildi innan hverrar miðstöðvar sem hefur það hlutverk að vinna á vettvangi barna í skólum og hvetja þau og foreldra þeirra til að nýta frístundakortið og það fjölbreytta tómstunda- og frístundastarf sem er í boði í nærumhverfi/innan borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög gott átak og vonar að það muni bæta þátttöku barna efnaminni fjölskyldna í frístundastarfi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum árangursmats vegna Individual Placement and Support (IPS), í nóvember 2022. VEL23080026.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, Elín Oddný Sigurðardóttir, teymisstjóri Virknihúss, og Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri virkni og ráðgjafar á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur að könnun eins og þessi sé mikilvæg. Þarna er greinilega margt gott í gangi ef marka má niðurstöðuna. Það sem mestu skiptir, og er einmitt gagnrýnt, er að tengslanetið er ófullnægjandi og skortur er á fjölbreytni. Mikilvægt er að fylgja viðkomandi eftir, sleppa ekki strax hendinni ef svo má að orði komast. Má þá líka nefna mikilvægi góðra og stöðugra upplýsinga um vinnumarkaðinn og hvernig fólk skuli bera sig að. Markmiðið er að efla viðkomandi og gera hann færari og tilbúnari að taka þessi skref í framtíðinni. Annað sem Flokkur fólksins er upptekinn af er hlutleysi. Sé ráðgjafinn ekki hlutlaus gagnast hann lítið. Ráðgjafinn þarf að vera sérlega fær í að hlusta og setja sig í spor viðkomandi. Loks þarf að laga skipulag, rútínu, hafa reglubundin viðtöl. Ráðgjafinn á ekki að stýra heldur vera næmur, hlýr og hlusta.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að útrýma fátækt, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023. VEL23050038.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 30. ágúst 2023, með stöðumati á aðgerðaáætlun með velferðarstefnu í ágúst 2023, ásamt fylgiskjali. VEL22090177.
Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar gott yfirlit og vill nema staðar við nokkur atriði. Auka á ráðningar fólks af erlendum uppruna og er það verkefni í vinnslu (7.3.5.).
Þessu fagnar Flokkur fólksins en vill minna á mikilvægi íslenskukennslu fyrir starfsmenn af erlendum uppruna til að þeim geti liðið sem best í starfi og fundið til öryggis. Verkefni nr. 7.1.1. Samstaða um að virkja Teams planner hjá starfsmönnum hefur ekki gengið eftir sem skyldi. Fullvíst er að fjölmargir starfsmenn eru óöruggir með þetta forrit og nota það alls ekki. Þessu átti að ljúka fyrir mitt ár 2023 en sá tímafrestur er liðinn. Verkefni 5.3.3. Að setja á laggirnar mælaborð sem birtir í rauntíma tölfræði um þjónustu á velferðarsviði og ánægju notenda með hana er ekki á áætlun en í 2022 stóð til að ÞON yfirfærði alla tölfræði í vöruhús gagna. Lokin eiga að vera á þessu ári. Loks má nefna seinkun á verkefninu Betri borg fyrir börn (3.1.3.) sem yfirfæra skal á fjögur þjónustusvæði, lokið 2022. Verkefninu hefur ekki tekist að ná böndum yfir biðlista barna eftir fagþjónustu sem nú stendur í 2445 börn.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um könnun á langtímaveikindum meðal starfsfólks velferðarsviðs, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 30. ágúst 2023. VEL23050037.
- kl. 15:45 víkur Ásta Björg Björgvinsdóttir af fundinum.
Tillagan er afturkölluð.
Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir janúar - mars 2023, sem fært var í trúnaðarbók sbr. 3. lið fundargerð velferðarráðs 24. maí 2023. VEL23050021.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hver afstaða Félagsbústaða sé til að koma til móts við breytingar á húsnæði og bæta aðgengi þegar fötlun fólks eykst? Í fjölmiðlum í sumar var til umfjöllunar mál er varðaði einstakling sem leigir íbúð hjá Félagsbústöðum. Viðkomandi einstaklingur sem vegna sjúkdóms og fötlunar hafði ítrekað dottið og slasað sig vegna skorts á hjólastólaaðgengi í íbúðinni og hefur viðkomandi leigjandi t.d. ekki komist á salerni nema að skríða þangað. Samkvæmt fréttaflutningi telja Félagsbústaðir ekki réttlætanlegt að laga íbúðina að þörfum einstaklingsins og vilja að hann flytji. Í þessu tilfelli flytja á milli hverfa og langt frá þjónustu og tengslaneti. Flokkur fólksins spyr því hvort þetta sé almenn regla þ.e. að fatlaðir einstaklingar þurfi að flytja búferlum þegar fötlun þeirra eykst? VEL23080027.
Fundi slitið kl. 15:59
Heiða Björg Hilmisdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir
Stefán Pálsson Helga Þórðardóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Alexandra Briem
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 30. ágúst 2023