Velferðarráð - Fundur nr. 440

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 30. nóvember var haldinn 440. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lagt fram trúnaðarmerkt 9 mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar - september 2022. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fram í borgarráði. VEL22110263.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 30. nóvember 2022, um breytingu á gildistíma reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA):

    Lagt er til að velferðarráð samþykki breytingu á 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22110264.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikið framfaraskref var tekið í þjónustu við fólk með fötlun þegar samningum um notendastýrða persónulega þjónustu var komið á fót. Ljóst er að þjónustuformið hefur haft mikil og jákvæð áhrif á líf og störf einstaklinga sem hafa notið þjónustunnar, það hefur verið valdeflandi og aukið sjálfstæði einstaklinganna. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þessum samningum og hafa myndast biðlistar eftir þjónustunni, sem sýnir skýrt vilja fólks með fötlun um hvernig þjónustu þau vilja sem tryggi aðgengi þeirra til þátttöku í samfélaginu. Sú ákvörðun félagsmálaráðuneytisins að fjölga ekki samningum heldur greiða með samþykktum samningum sem voru í gildi í lok árs 2021 gerir það að verkum að Reykjavíkurborg mun ekki geta, vegna slæmrar fjárhagsstöðu, haldið áfram þeirri vegferð að bæta við samningum um NPA þjónustu. Er það afar vont því um er að ræða lögbundna þjónustu við fólk með fötlun.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja að öll sem eigi rétt á NPA fái notendastýrðu persónulegu aðstoðina. Nú eru 34 manneskjur á biðlista með samþykktar umsóknir um nýja samninga hjá borginni og nauðsynlegt er að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Enginn á að þurfa að bíða til lengdar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður tillöguna. Það er með öllu ólíðandi sú óvissa sem ríkir um framtíð NPA þjónustunnar. Ríkisstjórnin fól sveitarfélögunum framkvæmd NPA þjónustunnar en hefur þráast við að láta fjármagn fylgja. Það er ekki á það bætandi fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af  framtíð þjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að Alþingi muni samþykkja breytingartillögur stjórnarandstöðunnar um viðhlítandi fjármögnun NPA þjónustunnar á næsta ári, þannig að fatlað fólk geti notið þeirrar lögbundnu þjónustu sem þau eiga svo sannarlega rétt á.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 30. nóvember 2022, um hækkun á fjárheimildum velferðarsviðs vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármagn til NPA-samninga verið aukið um 25 m.kr. á árinu 2022 til að mæta hækkun á jafnaðartöxtum NPA vegna hagvaxtarauka sem hækkaði jafnaðartaxta frá 1. apríl 2022.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL 22110265.
    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram erindisbréf stýrihóps um endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, dags. 29. nóvember 2022. VEL22110033.

    Samþykkt. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Eftirtaldir fulltrúar sitja í hópnum:
    Magnea Gná Jóhannsdóttir, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar sem jafnframt er formaður.
    Magnús Davíð Norðdahl, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
    Sandra Hlíf Ocares, fulltrúi minnihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
    Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
    Ásta Kristín Benediktsdóttir, deildarstjóri Norðurmiðstöð.
    Inga Borg fjármálasérfræðingur, velferðarsviði Reykjavíkur.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að skoða upphæðir fjárhagsaðstoðar og tryggja að þær dugi til að lifa mannsæmandi lífi. Líkt og kemur fram í reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar er nú 217.799 krónur á mánuði fyrir manneskju sem rekur eigið heimili og getur sýnt fram á það t.a.m. með því að leggja fram þinglýstan húsaleigusamning. Upphæðirnar eru breytilegar t.a.m. út frá húsnæðisstöðu og sambúðarformi. Augljóst er að um er að ræða mjög lága upphæð og erfitt að sjá hvernig ætlast sé til þess að fólk komist í gegnum dagana á þessum lágu upphæðum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um að fjárhagsaðstoð hækki með vísitölu, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar 15. nóvember 2022, sbr. bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. nóvember 2022. MSS22110122.

    Vísað til meðferðar stýrihóps um endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. MSS22110122.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir því í velferðarráði að fjárhagsaðstoð hækki. Á velferðarráðsfundi 4. október var lögð fram tillaga um 4,9% hækkun fjárhagsaðstoðar. Flokkur fólksins studdi þá tillögu en meirihlutinn ákvað að fresta ákvörðun. Á velferðarráðsfundi 2. nóvember kom fram ný tillaga um eingöngu 3% hækkun. Þetta fannst Flokki fólksins einkennileg lækkun þar sem verðbólga er tæp 9% og hefur öll nauðsynjavara hækkað gríðarlega. Flestar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 4,9% og því er einkennilegt að sjá að þeir sem verst eru settir eigi eingöngu að fá 3%. Á umræddum fundi var ákvörðun frestað og ákveðið að fela sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá grunni. Þessi frestun  á hækkun fjárhagsaðstoðar er mjög bagaleg því þessi hópur er í mjög viðkvæmri stöðu. Þeir sem fá fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru borgarbúar sem ekki geta séð sér og sínum farborða af ýmsum ástæðum. Tillaga þessi er til bóta og myndi auka framfærsluöryggi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Að vísu telur fulltrúi Flokks fólksins að fjárhæðir sem þessar ættu einnig að taka mið af launavísitölu þannig að miðað sé við þá vísitölu sem hækkaði meira á liðnu ári við uppfærslu hverju sinni.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á notkun gistiskýla velferðarsviðs. VEL22110269. 

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að staðan í gistiskýlunum er snúnari en nokkru sinni. Mikilvægt er að taka málin föstum tökum, reikna raunkostnað og semja við önnur sveitarfélög og ríkið um að taka fullan þátt í rekstri málaflokksins, enda liggja um 30% af málaflokknum í reynd hjá þeim þrátt fyrir að Reykjavíkurborg sé ein um að sinna þessari þjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur nokkrum sinnum lýst áhyggjum sínum af fyrirkomulagi gistiskýla á vegum velferðarsviðs og þá helst að þau eru ekki opin allan sólarhringinn. Kynningin nú er þó aðallega um útgjöld borgarinnar vegna málefna heimilislausra og hversu illa gengur að rukka önnur sveitarfélög fyrir þá sem eiga lögheimili utan borgarinnar. Mikil aukning hefur orðið á nýtingu gistiskýla fyrir heimilislausa í Reykjavík undanfarin tvö ár. Þessi skýli verða að vera opin allan sólarhringinn á meðan önnur úrræði eru ekki í boði. Helstu rök meirihlutans eru þau að gistiskýlin séu aðeins neyðarúrræði. Þetta eru engin rök á meðan ekki er hægt að finna þessu fólki annað úrræði. Nýlega í fréttum var sagt frá því að fíklar og annað fólk með fjölþættan vanda og heimilislaust hafi leitað skjóls í bílastæðahúsum. Þetta er afar átakanlegt og er skýr birtingarmynd þess að þessi hópur er jaðarsettur, hann hefur ekki í nein hús að venda a.m.k. á vissum tímum sólarhringsins. Á þetta þarf meirihlutinn að fara að horfa með raunsæjum augum og setja í þetta aukið fjármagn til að þessir einstaklingar hafi skjól allan sólarhringinn, hvort heldur neyðarúrræði eða lengri tíma húsnæðisúrræði.

  8. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Spurt er um sundurliðaðan raunkostnað vegna þjónustu við heimilislaust fólk, óháð því hvort það hafi lögheimili í Reykjavík. Óskað er eftir: að tekinn sé með í kostnaðinn við þjónustu við heimilislaust fólk í Reykjavík kostnaður vegna allrar þeirra þjónustu sem heimilislaust fólk nýtur og er greidd af Reykjavík svo sem vegna reksturs neyðarskýla, VoR-teymis, Ylju (neyslurýmis), dagúrræða sem þau geta leitað í og matarþjónustu. Þessi upptalning er ekki tæmandi talin og er því óskað eftir því að öll þjónusta sem heimilislaust fólk á rétt á sé tekin með í sundurliðunina. Óskað er eftir því að svarið sé sundurliðað eftir þjónustu þar sem greint er: heildarkostnaður við þjónustuliðinn; og sundurliðun allra þátta innan þjónustuliðarins svo sem eftir starfsmanna- og húsnæðiskostnaði. Einnig er óskað eftir því að kostnaðurinn sé tilgreindur: á ársgrundvelli fyrir þjónustuna í heild; og miðað við þjónustu í einn þjónustudag fyrir hvern þjónustuþega: með allri þjónustu sem er veitt; og einungis miðað við gistingu í neyðarskýli. VEL22110271.

  9. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Spurt er um sundurliðaðan raunkostnað vegna þjónustu við heimilislaust fólk, óháð því hvort það hafi lögheimili í Reykjavík. Óskað er eftir: upplýsingum um hversu mörg hafa fengið annað úrræði innan Reykjavíkur eftir dvöl í neyðarskýli svo sem herbergjasambýli fyrir heimilislausa, húsnæði fyrst eða félagslegt leiguhúsnæði; það sem af er af árinu 2022; og árin 2021, 2020, 2019, 2018  fjölda notenda í neyðarskýlum Reykjavíkur sundurliðað eftir mánuðum og lögheimili þjónustuþega; það sem af er af árinu 2022; og árin 2021, 2020, 2019, 2018  upplýsingum um greiðslur frá öðrum sveitarfélögum og ríkinu vegna þjónustu við heimilislaust fólk; hvað hefur verið greitt það sem af er af árinu 2022 og árin 2021, 2020, 2019 og 2018; og hvað hefur verið rukkað fyrir hvern dag í þjónustu sundurliðað eftir sömu ártölum. VEL22110272.

Fundi slitið kl. 14:44

Magnea Gná Jóhannsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir
Þorvaldur Daníelsson Kolbrún Baldursdóttir
Rannveig Ernudóttir Sandra Hlíf Ocares

PDF útgáfa fundargerðar
440. Fundargerð velferðarráðs frá 30. nóvember 2022_0.pdf