Velferðarráð - Fundur nr. 401

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 5. maí var haldinn 401. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:08 í Hofi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Örn Þórðarson tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 5. maí 2021, um þróun á matarþjónustu velferðarsviðs í takt við áherslur í matarstefnu Reykjavíkurborgar:

    Lagt er til að gerður verði tímabundinn samningur við þriðja aðila um framleiðslu á heimsendum mat ásamt pökkun og akstursþjónustu. Farið verði í útboð á grundvelli þarfagreiningar og gerður samningur til loka ársins 2023. Sá tími verði meðal annars nýttur til að móta framtíðarsýn velferðarsviðs í matarþjónustu í takt við matarstefnu Reykjavíkurborgar og hins vegar til að gera þarfagreiningu og endurbætur á framleiðslueldhúsi og mótttökueldhúsum félagsmiðstöðva. Jafnframt verði framleiðslu á heitum og hálfelduðum mat til félagsmiðstöðva fundin tímabundin aðstaða og byrjað á þróunarverkefni þar sem farið verður í að fullelda mat í tveimur félagsmiðstöðvum. Þetta er nauðsynlegt skref til þess að þróa þjónustuna í samræmi við áherslur í matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018–22 þar sem gert er ráð fyrir að matargerð sé færð nær þeim sem nærast á matnum. VEL2021040001.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Vegna fyrirhugaðra viðhaldsframkvæmda á framleiðslueldhúsi á Vitatorgi og þörf á að endur skipuleggja máltíðaþjónustu velferðarsviðs í takt við matarstefnu Reykjavíkurborgar er lagt til annarsvegar að farið verði í tímabundið útboð á framleiðslu og pökkun á heimsendum mat og hinsvegar að tímabundið verði tekið á leigu aðstaða til að framleiða máltíðir fyrir félagsmiðstöðvar velferðarsviðs á meðan á lokun eldhúss á Vitatorgi varir og að matur verði fulleldaður á tveimur stöðum til reynslu. Samningur við þriðja aðila verði gerður á grundvelli þarfagreiningar og gildi lengst til loka ársins 2023. Sá tími verði meðal annars nýttur til að móta framtíðarsýn velferðarsviðs í matarþjónustu í takt við matarstefnu Reykjavíkurborgar og hins vegar til að gera þarfagreiningu og endurbætur á framleiðslueldhúsi og mótttökueldhúsum félagsmiðstöðva við. Jafnframt verði framleiðslu á heitum og hálfelduðum mat til félagsmiðstöðva fundin tímabundin aðstaða og byrjað á þróunarverkefni þar sem farið verður í að fullelda mat í tveimur félagsmiðstöðvum. Þetta er nauðsynlegt skref til þess að þróa þjónustuna í samræmi við áherslur í matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018–22 þar sem gert er ráð fyrir að matargerð sé færð nær þeim sem nærast á matnum og til að bjóða aukið val eins og notendur hafa óskað eftir. Farið verði í eftirfarandi aðgerðir: 1. Velferðarsviði verði falið að kaupa sérfræðiaðstoð til að gera þarfagreiningu og kröfulýsingu vegna útboðs á framleiðslu og pökkun á heimsendum mat í samvinnu við mannvirkjagerðarskrifstofu, deild framkvæmda- og viðhalds hjá Umhverfis- og skipulagssviði og innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. 2. Velferðarsviði verði falið að kaupa sérfræðiaðstoð til að gera þarfagreiningu og kröfulýsingu vegna máltíðapöntunarkerfis og akstri heim til fólks og meta hvernig því er best fyrir komið á meðan á samningstíma stendur. 3. Húsnæðisteymi velferðarsviðs verði falið í samstarfi við eignaskrifstofu að finna og taka á leigu húsnæði sem er ætlað að brúa bilið á meðan framkvæmdar eru endurbætur á aðstöðu á Vitatorgi og hlutverk framleiðslueldhúss til framtíðar verður endurskoðað. 4. Á tímabilinu verði gerð heildarúttekt á mataþjónustu og fundin leið til framtíðar til að þróa hana í samræmi við matarstefnuna. Gera má ráð fyrir því að tillagan feli í sér viðbótarkostnað, allt að 3 m.kr. á árinu 2021 sem rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs. Ekki liggur fyrir kostnaðarmat umhverfis- og skipulagssviðs vegna viðhalds, endurnýjunar og breytinga. Sá kostnaður er ekki meðtalinn í þessari áætluðu upphæð hér að ofan.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá.

    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mjög nauðsynlegt er að ráðast í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir í framleiðslueldhúsi borgarinnar á Vitatorgi. Auk þess er þörf á því að endurskipuleggja máltíðaþjónustu velferðarsviðs í takt við matarstefnu borgarinnar. Ljóst er að flytja þarf þá umfangsmiklu starfsemi sem fram fer á Vitatorgi meðan á framkvæmdum stendur. Finna þarf aðstöðu fyrir eldhúsið á meðan á framkvæmdum stendur og bjóða út framleiðslu á heimsendum mat þar sem um mjög sérhæfða tækni er að ræða. Samningur við þriðja aðila verði gerður á grundvelli þarfagreiningar og gildir aldrei lengur en til loka árs 2023 eða á meðan á framkvæmdum og vinnu við framtíðarskipan matarþjónustu stendur. Auk þess verði farið af stað með að fullelda mat á tveimur félagsmiðstöðvum í borginni í takt við stefnuna og fagna fulltrúarnir því sérstaklega. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista er sammála því að tímabært er að þróa matarþjónustuna í takt við nýjar áherslur og þarfir og halda áfram innleiðingu matarstefnu Reykjavíkurborgar með þá áherslu að færa matinn nær þeim sem nærast á honum ásamt því að auka val sem stendur fólki til boða og auka fjölbreytni matar. Fulltrúi sósíalista telur í því ljósi ekki að það eigi að bjóða þjónustuna út, heldur að leita leiða til að hægt sé að veita þá þjónustu inni á velferðarsviði en miðað við núverandi tillögu er gert ráð fyrir að hluti af þjónustunni verði boðinn út lengst til loka ársins 2023. Þriðji aðili myndi þá sjá um framleiðslu á heimsendum mat ásamt pökkun og mögulega akstursþjónustu en slíkt yrði skoðað nánar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur að fara þarf í breytingar á matarþjónustu velferðarsviðs. Bjóða á út framleiðslu á heimsendum mat ásamt pökkun og akstursþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins er hræddur við útboð sem leiðir til þess að þjónustan færist fjær. Útvistun er oft dýr kostur. Hafa skal í huga að ekkert fyrirtæki óskar eftir verkefni nema hægt sé að græða á því. Líklegt má telja að gjöld muni hækka fyrir þjónustuna í kjölfarið. Kaupa á sérfræðiaðstoð til að þarfagreina verkefnið, en hverjir eru færari í því en þeir sem nú sinna verkefninu ásamt þeim sem njóta? Jafnframt verður farið í þróunarverkefni þar sem byrjað verður að fullelda mat á tveimur félagsmiðstöðvum. Hlutverk framleiðslueldhússins á Vitatorgi verður þá aðeins verkstjórn. Ljóst er að breyta þarf matseðlinum en spurning er hvort fara þurfi í svo miklar breytingar til þess. Fulltrúi Flokks fólksins er þó ávallt tilbúinn að samþykkja tillögur sem sýnt þykir að bæti þjónustuna og auka gæði og fjölbreytni á heimsendum mat. Í þessari tillögu liggur það ekki ljóst fyrir og situr því fulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhúss Lindargötu, Gunnsteinn R. Ómarsson, teymisstjóri húsnæðismála, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 5. maí 2021, ásamt fylgigögnum, um stöðuna á sviði geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. VEL2020110003.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt var til að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá borginni vegna kórónuveirunnar. Veiran hefur haft áhrif á alla en mestar áhyggjur eru af viðkvæmustu hópunum sem voru veikir fyrir og síðan börnunum. Rannsóknir sýna að líðan grunnskólabarna hefur farið versnandi eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Fleiri eru einmana og áhyggjufull. Nú er mikilvægt að tryggja að þau fái tækifæri til að ræða sína vanlíðan. Á 5 hundruð barna hafa greinst með COVID-19 í Reykjavík. Huga þarf að foreldrum, starfsmönnum og börnunum sjálfum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála. Annar viðkvæmur hópur eru eldri borgarar. Margt er gert fyrir þennan hóp en langt er í land að þjónusta sé heildstæð. Hvernig er sá hópur að koma undan COVID-19? Umfram allt er nú að sýna hvernig gögnin eru notuð og hvaða árangur hlýst þar af. Ekki er nóg að greina og taka stöðuna ef ekki á að bretta upp ermar og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi.

    Soffía Vagnsdóttir, skrifstofustjóri á skóla- og frístundasviði, Gerður Sveinsdóttir, mannauðs- og þjónusturáðgjafi á íþrótta- og tómstundasviði og Markús Heimir Guðmundsson, forstöðumaður Hins hússins, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 6. nóvember 2020, varðandi svohljóðandi tillögu borgarstjórnar sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 3. nóvember 2020:

    Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarráði að skoða leiðir til að ná betur utan um stöðu geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna kórónuveirunnar. Vinnan verði unnin í samstarfi við embætti landlæknis með hliðsjón af nýjum talnabrunni embættisins og borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum sem sett var af stað vegna afleiðinga Covid-19 faraldursins sl. vor. Velferðarráð mun í samstarfi með fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs ná utan um stöðuna. Í kjölfarið verði unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir. VEL2020110003. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Sviðsstjóra velferðarsviðs er falið að skipa starfshóp skipaðan fulltrúum forvarnarhóps Reykjavíkurborgar, fulltrúum þeirra starfsmanna sem sinna verkefninu „Heilsueflandi samfélag“ og fulltrúum úr félagsstarfi Reykjavíkurborgar. Hópnum verði falið að greina niðurstöður fyrirliggjandi gagna um heilsu og líðan íbúa. Vakta þarf þær breytur sem mikilvægt er að vakta og bregðast við þeim neikvæðu þáttum sem rekja má að hafi hafist með Covid-19, en taka ekki breytingum með jákvæðari þróun faraldursins. Samstarf verði haft við skóla- og frístundasvið og íþrótta- og tómstundasvið um verkefnið en fulltrúar þessara sviða eiga fulltrúa í forvarnarhópi Reykjavíkurborgar. Aðgerðaáætlun verði lögð fyrir velferðarráð ef það er mat hópsins að grípa þurfi til sértækra aðgerða.

    Breytingartillagan er samþykkt. 
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vitað er að faraldurinn hefur haft áhrif á alla aldurshópa en vísbendingar eru um að hann hafi lagst þyngra á andlega líðan ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Rannsóknir hafa merkt aukinn kvíða hjá ungmennum í 8-10 bekk grunnskóla, sérstaklega hjá ungum stúlkum en um 17% þeirra upplifðu sig einmanna/niðurdregnar eða daprar í október 2020. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála. Skólakerfinu hefur sem betur fer tekist að halda sjó að mestu á þessu krefjandi tímabili. Þess vegna er mikilvægt að hlúð sé að skólum, starfsfólki og innviðum skólanna. Svarti bletturinn eru biðlistar til fagaðila skólanna. Úr þeim málum verður að fara að leysa. Biðlistar eftir skólaþjónustu, þ.m.t. sálfræðinga, styðja aukna þörf á þjónustu en hann jókst um 14,6% á milli ára. Starfsmannakönnun sýnir að fleiri upplifa álag í starfi. Hugmynd er að mynda annan starfshóp sem er ágætt í sjálfu sér en fulltrúi Flokks fólksins er mest upptekinn af því hvort ekki eigi að fara að gera eitthvað í málunum. Það þarf að fá fjármagn til að fjölga fagaðilum sem gengju í að taka niður biðlista þeirra sem bíða eftir hjálp vegna andlegra vanlíðan.

    Soffía Vagnsdóttir, skrifstofustjóri á skóla- og frístundasviði, Gerður Sveinsdóttir, mannauðs- og þjónusturáðgjafi á íþrótta- og tómstundasviði og Markús Heimir Guðmundsson, forstöðumaður Hins hússins taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 12. desember 2018, um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 17. mars 2021. VEL2018120006.

    Felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð samþykkti þann 11. febrúar síðastliðinn að hækka tekjuviðmið fyrir sérstakan húsnæðisstuðning umfram leiðbeinandi reglur félagsmálaráðuneytisins. Hækkunin er til jafns við hækkun ríkisins á frítekjumarki vegna almennra húsnæðisbóta til að ekki komi til skerðinga hjá þeim sem jafnframt eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Heildarhækkun tekjumarka verður 11,9% eftir breytingu eða 8% umfram upphaflegar leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins. Hækkunin sem um ræðir felur í sér meiri hækkun en myndi hljótast af tengingu sérstaks húsnæðisstuðnings við vísitölu leiguverðs. Eins myndi tenging við vísitölu í stað leigu geta búið til mjög skakka niðurstöðu í einstaka tilfellum. Í ljósi þess er tillagan felld.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ýmislegt hefur áhrif á húsnæðisverð og oft er erfitt fyrir leigjendur að treysta á fyrirsjáanleika t.a.m. vegna tengsla leiguverðs við vísitölu. Þessi tillaga leitaðist við að verja leigjendur frá hækkunum sem hafa verið gríðarlegar upp á síðkastið. Tillagan var lögð fram 12. desember 2018. Í umsögn sem veitt var á tillöguna kemur fram að frá janúar 2019 til desember 2019 hafi vísitala leiguverðs hækkað um 4,28%. Það er því skilningur fulltrúa sósíalista að hefði þessi tillaga verið samþykkt á sínum tíma hefðu leigjendur verið varðir fyrir þeim hækkunum. Mikilvægt er að skoða og fylgjast stöðugt með þeim breytingum sem hafa áhrif á stöðu leigjenda og bregðast við. Ef eitthvað hentar ekki þá þarf að aðlaga og finna betri leiðir til að mæta leigjendum. Þessi leið var sett fram til að leitast við að mæta þeim miklum fjármunum sem leigjendur verja oft í húsnæði, þar sem margt fólk er gjörsamlega að sligast undan húsnæðiskostnaði. Varðandi leigumarkað er mikilvægt að taka áhrif ólíkra íbúða inn í reikninginn og fulltrúi sósíalista hefur sent inn fyrirspurn í borgarráði þar sem kallað er eftir þrískiptri vísitölu leiguverðs frá Þjóðskrá, út frá almennum leigumarkaði, hinu félagslega/opinbera (t.a.m. leigufélög í eigu sveitarfélaga) og út frá óhagnaðardrifnum leigufélögum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Húsnæðisstuðningur tekur nú þegar mið af leiguupphæð. Vísitala getur hækkað, eða lækkað, án þess að leiga hjá tilteknum leigjanda fylgi með, en það væri varasamt að stilla kerfinu þannig upp að bætur breyttust frá mánuði til mánaðar í takt við vísitölu, hjá öllum leigjendum, hvort sem þeirra leiga breytist eða ekki. Eins væri það gífurlega flókið í framkvæmd.

    Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri á fjármálaskrifstofu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning og lögð fram ársskýrsla endurhæfingar í heimahúsi hjá Reykjavíkurborg árið 2020. VEL2021040020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að verkefnið Endurhæfing í heimahúsi hefur sannað gildi sitt sem mikilvægt þjónustuúrræði í Reykjavík. Mikill meirihluti þátttakenda eða 53% þurftu minni þjónustu að lokinni endurhæfingu á meðan 35% þátttakenda voru að fullu sjálfbjarga og þurftu ekki þjónustu. Flestir sem voru í þörf fyrir minni þjónustu þurftu einungis aðstoð við heimilisþrif. Með því að auka sjálfbjargargetu notenda, og félagsþátttöku gegnum þjálfun og endurhæfingu má auka lífsgæði og sjálfstæði íbúa til muna, þar sem lausnamiðaðri nálgun er beitt til að auka bjargráð hvers og eins til að búa áfram sjálfstætt. 

    Fulltrúi Flokks fólkins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynning á ársskýrslu endurhæfingar í heimahúsi. Þarna er unnið metnaðarfullt starf. Fulltrúa Flokks fólksins er hugsað til ólíkra gerða á „heimahúsum“. Sumir búa í sínum íbúðum, hafa búið þar til margra ára, stundum gamlar íbúðir, þröng rými, háir skápar og þröskuldar en annar hópur er í þjónustuíbúðum, hönnuðum fyrir fólk með minni hreyfifærni. Þetta hlýtur að skipta miklu máli þegar horft er til endurhæfingar í heimahúsi og forvarnir og kann fyrrnefndi hópurinn að þurfa allt annars konar nálgun en sá síðari. Sífellt er verið að fjölga möguleikum velferðartækni og er það gott sem viðbót enda kemur fátt í staðinn fyrir að eiga persónulega stund með annarri manneskju í raun.

    Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á eftirfylgniúttekt Innri endurskoðunar vegna úttektar Innri endurskoðunar á verkferlum hjá Barnavernd frá mars 2018. VEL2021040034.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarin misseri hafa verið gerðar miklar úrbætur í barnavernd og annarri þjónustu er snýr að starfsemi fyrir börn og unglinga. Velferðarráð samþykkti 10 tillögur sviðsstjóra sem hafa komið til framkvæmda ásamt ábendingum Innri endurskoðunar sem er ýmist lokið eða eru í vinnslu, sem mikilvægt er að ljúka sem fyrst. Að vernda börn fyrir ofbeldi er forgangsverkefni. 

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  8. Fram fer kynning á úttekt Innri endurskoðunar á innra eftirliti félagslegrar heimaþjónustu frá mars 2021. VEL2021040033.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna þeirri niðurstöðu í úttekt Innri endurskoðunar á innra eftirliti félagslegrar heimaþjónustu að mikil alúð og metnaður sé lagður í að gera þjónustuna vel úr garði. Þar sé góð yfirsýn og vel haldið utan um notendur þjónustunnar. Í skýrslunni koma fram ábendingar sem mikilvægt er að vinna áfram með og innleiða í verklag og daglega starfssemi félagslegrar heimaþjónustu. Þá benda fulltrúarnir á að mikilvægt sé að yfirfara skráningu á biðlista þannig að þeir endurspegli raunverulega þá sem eru á bið eftir þjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar úttekt á innra eftirliti félagslegri þjónustu. Eftirlit er bráðnauðsynlegt og eftirlit með eftirlitinu ekki síður. Gott er að heyra að alúð og metnaður sé lagður í að gera þjónustuna vel úr garði. Eins og alltaf er tækifæri til að bæta og þá með hag notenda í huga. Bent er á að athugasemdir hafa komið fram um að nákvæmari skráningar á biðlista er þörf og vöktun á gildistíma samninga við notendur. Einnig skortir á samræmingu milli hverfa varðandi ýmis praktísk atriði. Upplýsingaflæði er iðulega þáttur sem víða mætti bæta. Innri endurskoðun þyrfti einnig nauðsynlega að gera úttekt á hvort gera þurfi betrumbætur á upplýsingaflæði til notenda um t.d. réttindi þeirra en kvartanir hafa borist þess efnis að notendur fái ekki alltaf fullar upplýsingar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sé hvernig þessum athugasemdum verður fylgt eftir. Það er á ábyrgð innri endurskoðunar að kanna eftir einhvern ákveðinn tíma hvort búið er að bæta það sem mælst var til að yrði bætt og lagað.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti undir á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram 12. og 13. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. VEL2021040035.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. maí 2021, um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi – notkun fjarfundabúnaðar ofl. VEL2021020017.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. maí 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ábyrgð á hár,- hand- og fótsnyrtiþjónustu, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. febrúar 2021. VEL2021020019.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Spurt var um hver, innan þjónustueininganna hefur yfirumsjón með þjónustuþáttum félagsmiðstöðva hár-, hand- og fótsnyrtingu og hvert eiga þeir að snúa sér sem hafa áhuga á að bjóða fram þjónustu sína og gera leigusamning við Reykjavíkurborg? Skýrt kemur fram að það er deildarstjóri fjármála og reksturs á þjónustumiðstöð sem ber ábyrgð. Þetta er gott að vita ef spurt verður. Einnig er sagt að ef rými eru laus þá eru þau auglýst opinberlega. Þeir fagaðilar sem hér um ræðir eru með lögvernduð starfsheiti svo ekki má ráða aðra en þá sem hafa full réttindi. Við val á leigjendum er því litið til reynslu gefið að viðkomandi hafi full réttindi. Ef koma upp misbrestir er bent á fagfélagið. Hér myndi maður halda að fyrsta skrefið væri að leita til þjónustuveitenda og þann sem ber ábyrgð á honum sem hlýtur að vera deildarstjóri/Reykjavíkurborg. Fag- og stéttarfélög fara ekki inn í einstaklingsmál. Fram kemur einnig að aðeins er laust í Furugerði 1 og hefur stofan þar verið ítrekað auglýst. Spurning er þá hvernig stendur á því? Er erfiðara að fylla stöðu þar en í öðrum félagsmiðstöðvum með sambærilega þjónustu?

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0505.pdf