Velferðarráð - Fundur nr. 394

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 24. febrúar var haldinn 394. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14:02 í Hofi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 24. febrúar 2021, um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 24. febrúar 2021, og fylgiskjölum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 17. nóvember 2010 og á fundi borgarráðs þann 25. nóvember 2010, með áorðnum breytingum. Heildarkostnaðarauki vegna breytinga á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð nemur 67.072.697 kr. á ári. Þá er einnig gert ráð fyrir að einskiptis kostnaður við hugbúnaðarbreytingar verði á bilinu 6-7,5 m.kr. VEL2020040020.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa til borgarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þær breytingar sem hér eru samþykktar á reglum um fjárhagsaðstoð eiga flestar rætur sínar að rekja til tillagna stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra sem samþykktar voru í velferðarráði þann 4. desember 2019. Stærsta breytingin felst í að heimildagreiðslur vegna barna verða nú þjónustugreiðslur, sem verða að sjálfkrafa rétti, til að hægt sé að veita börnum notenda fjárhagsaðstoðar ákveðna grunnþjónustu. Þjónustugreiðslurnar duga fyrir allt að átta tíma dvöl á leikskóla ásamt fæðisgjaldi, dvöl á frístundaheimili fimm daga í viku ásamt síðdegishressingu og skólamat. Hér er um að ræða nýja nálgun í reglum um fjárhagsaðstoð þar sem litið er á sjálfstæðan rétt barna til þeirrar þjónustu sem um ræðir. Einnig er tekið tillit til aðstæðna þeirra sem eru að ljúka endurhæfingu er varðar skerðingar vegna tekna fyrri mánaða, en mikilvægt er að hvati sé til staðar til að taka þátt í endurhæfingarúrræðum. Auk þessa eru gerðar ýmsar breytingar á reglum t.d. varðandi námsaðstoð, húsbúnaðarstyrk, ábyrgðartryggingar vegna húsaleigu, greiðslur vegna sérfræðikostnaðar eru hækkaðar sem og útfararstyrkur. Reglunum var vísað til umsagnar hagsmunaaðila og tóku drögin ákveðnum breytingum í kjölfar þess. Mikilvægt er að líta á reglur um fjárhagsaðstoð sem lifandi plagg og bregðast við þeim atriðum sem upp kunna að koma í framkvæmdinni með reglubundnum hætti.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í breytingunum á fjárhagsaðstoð sem hér eru lagðar fram er lögð áhersla á aukna félagslega ráðgjöf, valdeflingu, virkni og samráð við þá sem fjárhagsaðstoðina þurfa. Það er jákvætt. Hins vegar er mikilvægt er að marka stefnu í því að hjálpa einstaklingum út úr félagslega kerfinu á kerfisbundinn hátt, með það að leiðarljósi að valdefla einstaklinga og gefa þeim kost að standa á eigin fótum. Því miður festast einstaklingar allt of oft á fjárhagsaðstoð og eru háðir kerfinu til frambúðar. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi. Því er nauðsynlegt að styðja við bakið á einstaklingum á fjárhagsaðstoð aftur út í lífið með kerfisbundnum hætti. Mikil tækifæri eru í að efla vinnu og virkni fólks á fjárhagsaðstoð en það eru mikilvægir liðir í að auka lífsgæði einstaklinga.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista fagnar öllum þeim jákvæðum breytingum sem koma notendum til góða en hefði viljað ganga lengra í ýmsum breytingum á reglum í takt við ábendingar hagsmunaaðila og hefði viljað sjá annað öðruvísi útfært. Hér er ekki um heildarendurskoðun á reglunum að ræða en verið að gera breytingar á ýmsum þáttum. Breytingar eru t.a.m. gerðar er varða framfærslu til einstaklinga sem stunda nám á framhaldsskólastigi. Tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að veita fjárhagsaðstoð til námsfólks sem ekki hefur tök á annarri framfærslu var vísað til hópsins er vann að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð. Ekki var lagt til að breytingar á reglum næðu til þeirra einstaklinga. Fulltrúi sósíalista bendir á að margir geta ekkert leitað annað og sitja svo sannarlega ekki við sama borð þegar kemur að aðgengi að námi. Þessari tillögu var ætlað að ná til þessara einstaklinga. Upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu er of lág  og hana þarf að hækka. Fulltrúi sósíalista þakkar hagsmunaaðilum fyrir góðar ábendingar varðandi fjárhagsaðstoð, framkvæmd við veitingu hennar og hvað þarf að bæta út frá þeirra reynslu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru tveir stórir þættir í reglunum sem eru verulega íþyngjandi og er hið fyrra grein um framfærsluskyldu. Vísað er í dóm Hæstaréttar að einstaklingur geti haft sjálfstæðan rétt til að hafa sínar tekjur. Dómurinn sagði að það væri í lagi að skerða fjárhagsaðstoð vegna tekna maka en dómurinn sagði ekkert um það hvort Reykjavík gæti breytt sínum reglum á þá leið að engin slík skerðing færi fram. Í rauninni var fjallað um það að svigrúm sé rýmra þegar reglur um fjárhagsaðstoð eru ákveðnar en t.d. það svigrúm sem á við um þær ótímabundnu greiðslur sem almannatryggingalög mæla fyrir um. Ekkert kemur fram í þessu dómsmáli sem gefur til kynna að það myndi brjóta gegn ákvæðum hjúskaparlaga eða laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að afnema tekjutengingu við maka. Hið síðara er „króna á móti krónu“. Við gerð reglna um fjárhagsaðstoð er vel hægt að víkja frá þessu krónu á móti krónu, enda  ávinningur af því fyrir alla. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að Reykjavík auki við fjárhagsaðstoð eða breyti reglunum þannig að fjárhagsaðstoð skerðist ekki krónu móti krónu. Lög um félagsþjónustu hafa að geyma ákvæði um lágmarksskyldur sveitarfélaga en takmarka ekki hve mikið þau mega gera umfram þær lágmarksskyldur.

    Þóra Kemp, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu á velferðarsviði, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs á velferðarsviði, taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 24. febrúar 2021, um breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum á þá leið að umsóknarfrestur verði framlengdur til 15. apríl 2021. Kostnaður er að fullu fjármagnaður með framlagi ríkisins. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    -    kl. 15:05 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum. 
    -    kl. 15:07 víkur Egill Þór Jónsson af fundinum. 

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2402.pdf