No translated content text
Velferðarráð
Ár 2020, miðvikudagur 1. apríl var haldinn 375. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 á Tindstöðum, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir aðilar fulltrúar velferðarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Á fundinn mætti Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Elsa Guðrún Jóhannesdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfsemi velferðarsviðs vegna COVID-19.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar velferðarráðs þakka Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra fyrir greinargóða kynningu á starfi sviðsins og viðbrögð við covid faraldrinum sem leitt hefur til gríðarlegra breytinga á þjónustu sviðsins við þúsundir íbúa Reykjavíkur. Við viljum koma á framfæri kæru þakklæti til starfsfólks fyrir vel unnin störf á þessum fordæmalausu tímum.
-
Fram fer kynning á stöðunni á verkefninu Betri borg fyrir börn.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans þakka góða yfirferð yfir stöðu verkefnisins Betri borg fyrir börn. Það er mikilvægt að nýta þann mannauð og þá aðstöðu sem velferðarsvið og skóla- og frístundasvið búa yfir í þágu barna í borginni með áherslu á snemmtæka íhlutun og þjónustu sem næst barninu. Um er að ræða tilraunaverkefni og binda fulltrúarnir vonir til að það megi nýta til að útfæra þessar breytingar í öðrum hverfum borgarinnar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna á verkefninu Betri borg fyrir börn og sýnist verkefnið ætla að verða metnaðarfullt og fela í sér fjölmarga þætti, kannski of marga? Það hefði verið gott að fá þessa kynningu fyrirfram til að geta lagst yfir hana og þá komið með viðbrögð, ábendingar, frekari hugmyndir um útfærslur eða annað. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að ná utan um þetta í svona yfirferð og t.d. að átta sig á hlutverki nýs fagstjóra eins og því er lýst. Þegar verið er að búa til nýja stöðu kemur stundum upp sú hugsun hvort boðleiðir lengist og verði flóknari. Markmiðið er að einfalda en það á eftir að koma í ljós hvort það markmið náist. Í nýju verkefni er auðvelt að segja hvað á að gera en síðan er þetta allt spurning um hvernig, hver verður forgangsröðunin, hverjar eru helstu áherslurnar t.d. þegar daglegt líf kemst aftur í sitt venjulega horf eftir Covid 19?
- Kl. 13:36 tók Aron Leví Beck sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.
Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, deildarstjóri, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjóri, Hulda Sólrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri, taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 1. apríl 2020, að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 17. nóvember 2010 og á fundi borgarráðs þann 25. nóvember 2010, með áorðnum breytingum.
Samþykkt að vísa til umsagnar hagsmunaaðila.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú er breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgað vísað til umsagnar hagsmunaðila. Ekki er um að ræða heildarendurskoðun á reglunum að þessu sinni heldur er um að ræða breytingatillögur til samræmis við tillögur sem lagðar voru fram af stýrihóp um aðgerðir gegn sárafátækt barna auk breytinga er varða m.a. framfærslu til einstaklinga sem stunda nám á framhaldskólastigi og er varða greiðslu sérfræðiaðstoðar. Við breytingarnar voru ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga frá árinu 2018 höfð til grundvallar. Breytingarnar eru talsverðar og snúa að því að innleiða þjónustugreiðslur til að tryggja börnum notenda fjárhagsaðstoðar leikskólapláss, skólamáltíð og dvöl á frístundaheimili. Auk þess á að innleiða frítekjumark vegna tekna fyrri mánaða til að draga úr skerðingum. Einnig er lögð til hækkun upphæðar vegna tannlæknakostnaðar, sérfræðikostnaðar og útfararstyrks. Aukin áhersla er lögð á félagslega ráðgjöf, valdeflingu og virkni. Haft var samráð við hagsmunaaðila og fulltrúa notenda við vinnslu reglnanna. Reglunum er nú vísað til formlegrar umsagnar hagsmunaaðila og verða teknar aftur fyrir í ráðinu þegar umsagnir liggja fyrir.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að hér sé ekki um heildarskoðun á reglunum að ræða og fara þær núna í umsagnarferli. Það eru margar góðar breytingar í reglum um fjárhagsaðstoð og þá er það fyrst að nefna tillögu Flokks fólksins að ekki sé lengur skilyrði fyrir aðstoð að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkv. frístundarkorti í 16. gr. a og b. Flokkur fólksins hefur barist fyrir þessu í meira en ár með ýmis konar útfærslum á tillögum, fjölda bókana og greinarskrifum. Í nýjum reglum er oft komið inn á einstaklingsáætlun og þá er mikilvægt að hægt sé að sjá hvernig sú áætlun sé unnin og að hún sé unnin í samráði við einstaklinginn enda áætlun um hann sjálfan og að hann hafi val? Aðrar vangaveltur fulltrúa Flokks fólksins snúa að greiðslum hjá t.d. sálfræðingum en talað er um að fjölda tíma en kostnaður á tíma er mismunandi og getur munað talsvert miklu. Það einfaldar hlutina að hafa ákveðna upphæð sem viðkomandi hefur til ráðstafana. Í minnisblaði með drögum kemur fram að haft hafi verið notendasamráð og sjá má að eitt og annað hefur verið rætt en sem sést ekki beint hvernig skilaði sér inn í breytingarnar.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú fara breytingar á reglum í umsagnarferli. Fulltrúi sósíalista tekur undir allar breytingar sem eru einstaklingum og fjölskyldum til góða og skref í góða átt eins og breytingar sem snúa að því að fjárhagsaðstoð til foreldra með börn á framfæri verði aukin og að skerðing á fjárhagsaðstoð foreldris bitni ekki á börnum sem búa við sárafátækt. Fulltrúi sósíalista vill taka fram mikilvægi þess að skerðingar bitni ekki illa á neinum sem býr við slæma stöðu. Þá er lagt til að dregið verði úr áhrifum tekjutenginga í fyrstu umsókn um fjárhagsaðstoð. Þó að verið sé að hækka frítekjumarkið verulega hefði fulltrúi sósíalista viljað hækka hana meira þar sem þeir sem fara á fjárhagsaðstoð vita það oftast ekki fyrirfram og fyrri tekjur því oft ekki eitthvað sem viðkomandi á eftir þegar greiðslur fjárhagsaðstoðar til framfærslu hefjast. Í samræmi við breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 eru lagðar til breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem fela í sér aukna áherslu á félagslega ráðgjöf, valdeflingu, virkni og samráð við umsækjanda. Fulltrúi sósíalista vill þó koma sinni skoðun á framfæri varðandi upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu og telur að hún þurfi að hækka verulega til að draga úr fátækt, þar sem upphæðin er lág.
María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi, Þóra Kemp, deildarstjóri og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011 undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðstjóra velferðarsviðs, dags. 1. apríl 2020, um samvinnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og ríkisins um rekstur hjúkrunarheimilis um samstarf við ríkið:
Lagt er til að stofnað verði til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið vegna reksturs 10-15 hjúkrunarrýma fyrir heimilislausa einstaklinga með fíknivanda.
Samþykkt.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar fagna því að vilji sé fyrir hendi til að fara í þetta samstarf og binda miklar vonir við að með þessu verði hægt að bæta mjög aðstæður heimilislausra og fólks með miklar og flóknar þjónustuþarfir ef þetta úrræði verður í boði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda og miklar hjúkrunarþarfir. Er það í samræmi við stefnu borgarinnar og velferðaráherslur meirihlutans að efla þjónustu við þennan hóp.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga sviðstjóra velferðarsviðs um samvinnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og ríkisins um rekstur hjúkrunarheimilis fyrir fólk með flóknar þjónustuþarfir er lögð hér fram og að stofnað verði til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið vegna reksturs 10-15 hjúkrunarrýma fyrir heimilislausa einstaklinga með fíknivanda. Samtal er til alls fyrst og vonandi leiða samræður til góðs. Gera má ráð fyrir að ef næst samkomulag þá geti það tekið amk. 2-3 ár að koma á laggirnar hjúkrunarrými. Staðan í dag er alvarleg. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvar þessir einstaklingar eru t.d. núna í miðjum Covid 19 faraldrinum. Sumir voru án efa vanir að koma í hin ýmsu úrræði eins og dag-göngudeildir, hvíldar- og afþreyingastaði hagsmunasamtaka og heilbrigðisstofnanna sem nú eru lokuð. Einhverjir hafa e.t.v. ekki í nein hús að vernda, eru veikir, einmana og einangraðir og hafa nú e.t.v. ekki lengur nein afdrep, athvörf, þar sem þeir geta notið félagsskapar, tekið þátt í hópastarfi, verkefnavinnu og afþreyingu af ýmsu tagi og fengið mat. Aðstæður eru sérlega erfiðar nú fyrir þennan hóp vegna Covid 19 þar sem flestar dag- og dægradvalir eru nú lokaðar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðstjóra velferðarsviðs, dags. 1. apríl 2020, um niðurgreiðslu á matarþjónustu í nýrri félagsmiðstöð á Sléttunni:
Lagt er til að hver máltíð í matarþjónustu í félagsmiðstöðinni á Sléttuvegi verði niðurgreidd um kr. 460 fyrir eldri borgara og öryrkja.
Samþykkt.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að samþykkja niðurgreiðslu á matarþjónustu á nýrri félagsmiðstöð, eins og á við á öðrum félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi sósíalista telur síðan fullt tilefni til að endurskoða gjaldskrár þannig að þær mæti þörfum þeirra sem eru í viðkvæmri efnahagslegri stöðu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna í velferðarráði, dags. 1. apríl 2020, um áfangaheimili fyrir konur:
Velferðarráð felur velferðarsviði að meta þörf á áfangaheimili fyrir konur í Reykjavík og koma með tillögu að stærð slíks áfangaheimilis, staðsetningu og fyrirkomulagi ef niðurstaða mats verður að þörf sé á slíku heimili.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað vegna kynningar á útboði á matarþjónustukerfi.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðstjóra velferðarsviðs, dags. 1. apríl 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um húsnæðisbætur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Greiðslur húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings eru tekjutengdar. Bætur frá Tryggingastofnun ríkisins voru endurreiknaðar og leiðréttingar frá og með 1. janúar 2019 og greiddar út í eingreiðslu afturvirkt í september 2019. Endurgreiðslurnar leiddu til hækkunar tekna og höfðu áhrif á útreikning húsnæðisbóta frá Íbúðalánasjóði og útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings frá Reykjavíkurborg. Greiðslum TR var dreift á þrjá mánuði og leiddi tekjuaukningin því til skerðingar húsnæðisstuðnings í allt að 3 mánuði.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svar liggur nú fyrir við fyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað Reykjavíkurborgar ef tekið væri mið af auknum tekjum lífeyrisþega. Þetta mál má rekja til þess að dregið var úr skerðingum á sérstakri uppbót á lífeyri með lagabreytingum sl. sumar. Hér var Flokkur fólksins að leita eftir upplýsingum um stöðuna ef upphæð húsnæðisstuðnings þessa hóps héldist óbreyttur þrátt fyrir tekjuaukninguna. Forsaga málsins er sú að síðastliðið sumar var lögum breytt um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, 65% af tekjum örorkuþega höfðu áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Leiga fjölmargra öryrkja hækkaði umtalsvert og hafa því þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum þurrkast út vegna þess að Félagsbústaðir skertu húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Flokkur fólksins vill bóka við þessu svari að um 1.123 manns fengu lægri húsnæðisstuðning en ella, vegna leiðréttar sérstakrar uppbótar. Það hefði aðeins kostað Reykjavíkurborg 18 milljónir að horfa fram hjá þessu, varla dropi í hafið, en mikil búbót hjá yfir 1.000 manns. Enda þótt styðjast megi við lögfræðilega hlutann þá er það siðferðislega ámælisvert að bregðast ekki við þessu með hagsmuni fólksins að leiðarljósi. Engin lagaleg fyrirstaða er fyrir að aðstoða meira en núverandi regluverk gerir ráð fyrir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það væri hættulegt fordæmi að borgin tæki á sig aukalegar greiðslur til að vega á móti tekjuskerðingum ákveðnum af lögum og ekki ábyrg stjórnsýsla. Vandamálið sem hér er til umræðu má rekja til lagasetningar og ekki við borgina að sakast þó þar hafi verið stigið ógætilega til jarðar. Fulltrúar meirihlutans frábiðja sér ákúrur um ámælisverða siðferðisbresti taki þeir ekki á borgarsjóð skaðann sem þarna verður vegna tekjutengingar, en stjórnvöldum er það hægur leikur að undanskilja bætur sem þessar tekjutengingu, standi hugur þeirra til þess.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019, um að leita orsaka af hverju munur er á þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð og þeirra sem fá.
Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að erfitt er að átta sig á því um hvaða greiðslur er verið að ræða, en ef um er að ræða heimildargreiðslur ber að taka fram að á þessum fundi er verið að senda til umsagnar breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem myndu breyta því á þann veg að fólk þarf ekki að leggja út fyrir kostnaði og fá svo endurgreitt. Miðað við aðstæður í þjóðfélaginu í dag getur það ekki talist ábyrg notkun á tíma velferðarstarfsfólks að rannsaka áhrif reglna sem er verið að breyta og leggja fulltrúarnir frekar til að síðar verði farið í að kanna samanburð á þessum stuðningi fyrir og eftir breytingar á reglunum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að leitað yrði orsaka þess af hverju munur er svo mikill á þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð og fá hana síðan. Í ljósi þess að fram hefur komið í svörum að á hálfs árs tímabili sóttu 51% barnafjölskyldna um fjárhagsaðstoð en aðeins 41% fékk aðstoðina. Velferðarsvið hlýtur að vilja vita hverju þetta sæti. Tillagan hefur verið felld. Í svari segir að þetta sé umfangsmikil könnun og verið sé að breyta reglunum. Flokkur fólksins fyndist réttar að í stað þess að fella tillöguna mætti setja hana í geymslu eða gera á henni skemmri skírn síðar þegar um hægist. Þetta mál er vissulega ekki brýnt núna en með því að fella tillöguna er í raun verið að segja að svona upplýsingar eru óþarfar? Við getum öll grætt á upplýsingum en þegar tillagan var lögð fram var vissulega ekki vitað að nú þegar hún loksins kemur fram á fundi að heimurinn væri í miðjum Covid 19 faraldri.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Ýmsar breytingar hafa verið í vinnslu á reglum varðandi framkvæmd fjárhagsaðstoðar sem hafa það að markmiði að greiða úr flækjustigum varðandi umsóknarferlið. Það gæti kannski verið flókið að heyra í notendum með eitthvað sem er liðið en fulltrúi sósíalista telur mjög mikilvægt að heyra í þeim sem fá ekki samþykkta fjárhagsaðstoð og hvað hafi legið þar að baki. Gott samtal við þá sem sækja um aðstoð til velferðarsviðs er mjög mikilvægt.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 7. lið fundargerðar borgarstjórnar þann 1. október 2019, um frístundakort.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Pírata og Vinstri grænna bóka að samkvæmt þeim drögum að reglum um fjárhagsaðstoð sem nú hefur verið vísað til umsagnar eru skilyrði fyrir því að nýta frístundakort til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð vegna barna afnumin. Tillögunni er því vísað frá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins, sem er ein af mörgum um frístundakort, er lögð fram hér og er um að aftengja það fjárhagsstöðu foreldra. Henni var vísað til veðferðarráðs frá menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Tillagan hefur nú verið felld en í rauninni er hún samt samþykkt sbr. breytingin í 16. gr. a og b. í reglum um fjárhagsaðstoð. Þetta er tillaga sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í mörgum myndum, mál sem borgarfulltrúi hefur barist lengi fyrir. Tillögunni var vísað í starfshóp um sárafátækt og fór þaðan áfram inn í breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð. Nú finnst borgarfulltrúa því tímabært og eðlilegt að tillagan um frístundarkort sem nú liggur fyrir og kemur frá menningar og tómstundaráði að þessu sinni verði samþykkt formlega. Úrfelling skilyrða um frístundarkort í 16. gr. væri ekki veruleiki nema vegna tillögu og baráttu Flokks fólksins fyrir málinu. Borgarfulltrúi hefur mætt alls kyns mótlæti með þetta mál og skemmst er að minnast viðtals við yfirmann þjónustumiðstöðvar 20. febrúar sl. þar sem hreinlega var gert lítið úr borgarfulltrúa Flokks fólksins með því að segja að frístundarkortið kæmi hvergi nærri fjárhagsaðstoð. Hér voru útúrsnúningar og reynt að villa um jafnvel þótt vel væri að vitað að hér var auðvitað verið að tala um fjárhagsaðstoð vegna barns enda hvernig ætti frístundakort annars að koma við sögu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Tillögunni var vísað til stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og var hluti af þeim tillögum sem lagðar voru fram í áfangaskilum hópsins. Efni tillögunnar hefur því ratað inn í breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð. Fulltrúar meirihlutans kannast ekki við að hafa staðið í vegi fyrir þessu breytingum og frábiðja sér allar dylgjur um slíkt.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Flokkur fólksins lagði þessa tillögu fram fyrir ári síðan og hefur ítrekað eftir það borið málið upp í alls kyns formi á ýmsum stöðum. Dæmi voru um að borgarfulltrúi varð fyrir háði og spotti og meðal annars virtist meirihlutinn oft eiga erfitt með að skilja út á hvað þetta gekk utan einn sem er formaður skóla- og frístundarráðs. Nú ætti meirihlutinn að sjá sóma sinn í að samþykkja þessa tillögu sem tillögu Flokks fólksins enda væri þetta ekki komið inn í breytingar á fjárhagsaðstoð nema vegna þessarar baráttu borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá í fjölda gagna, skrifa og viðtala.
Fylgigögn
-
Lagðar fram lykiltölur ársins 2019.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að sjá hvað biðlistatölur hreyfast lítið. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 142 og munar um tvo frá síðasta yfirliti. Biðlistinn eftir félagslegri heimaþjónustu er sá sami eða 202. Enn bíða 674 eftir þjónustu sérfræðinga skóla, rúmlega 400 börn eftir fyrstu þjónustu og um 250 eftir frekari þjónustu. Á næsta fundi borgarstjórnar mun borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram enn eina lausn til að taka á þessum málum. Lagt verður þá til að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar til að tryggja skjótari þjónustu og stytta biðlista. Þannig verður hægt að vinna saman að málum barna þar sem aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið skal snúa að þeim málum þar sem við skimun hefur komið í ljós að sterkar vísbendingar eru t.d. um ADHD með tilheyrandi fylgikvillum. Þessi hópur barna fengju þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast. Ástandið í þessum málum í dag er slæmt. Börn sem þurfa aðstoð sérfræðinga skóla eru mánuðum saman á biðlista.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt greinargerð:
Velferðarráð felur velferðarsviði að meta hvort þörf sé á tímabundnum breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð til að geta veitt íbúum Reykjavíkur nauðsynlega fjárhagsaðstoð vegna þess ástands sem hefur skapast vegna covid faraldursins.
Samþykkt.
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0104.pdf