Velferðarráð - Fundur nr. 368

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 15. janúar var haldinn 368. fundur velferðarráðs sem var sameiginlegur með barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Fundurinn hófst kl. 13:03 í Borgarráðssalnum, Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Aron Leví Beck, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Tómas Hrafn Sveinsson, Margrét Sverrisdóttir, Sólrún Sverrisdóttir, Sandra Ocares og Eldey Huld Jónsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Hákon Sigursteinsson, Katrín Helga Hallgrímsdóttir, Sigrún Þórarinsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Þórdís L. Guðmundsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á framkvæmdaáætlun barnaverndar Reykjavíkur. 
    Samþykkt og vísað til Borgarráðs. 

    -    Kl. 13:17 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á stöðu vegna aukins málafjölda hjá barnavernd Reykjavíkur.

    -    Kl. 14:15 víkur Margrét Sverrisdóttir af fundinum.

  3. Fram fer kynning á frumvarpsdrögum til laga um samþættingu velferðarþjónustu í þágu barna.

    -    Kl. 14:37 víkur Sandra Ocares af fundinum. 

    Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Silja Stefánsdóttir, starfsmenn barnateymis félagsmálaráðuneytisins taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 15:10 lýkur sameiginlegum fundi með barnaverndarnefnd Reykjavíkur og velferðarráð fundar áfram. Tómas Hrafn Sveinsson, Sólrún Sverrisdóttir, Eldey Huld Jónsdóttir, Hákon Sigursteinsson, Katrín Helga Hallgrímsdóttir, Sigrún Þórarinsdóttir víkja af fundinum.

  4. Fram fer kynning á samræmdri móttöku flóttafólks. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna þakka fyrir greinargóða kynningu. Það er mikilvægt að tekið sé vel á móti flóttafólki á Íslandi. Við fögnum því að vinna fari fram við það að jafna aðstöðumun kvótaflóttafólks og annara sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Mikilvægt er að sú þjónusta sem veitt er verði ekki háð skilyrðum um búsetu í ákveðnu sveitarfélagi. Reykjavíkurborg er frjálslynd borg sem hefur fjölmenningu og mannréttindi meðal sinna fremstu gilda og mun ekki láta sitt eftir liggja í því að taka við nýjum borgarbúum og veita öllum þjónustu við hæfi. Flóttafólki hefur oft reynst erfitt að finna varanlegt húsnæði á sanngjörnu verði. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög sameinist í því verkefni í að leysa húsnæðisvanda flóttafólks.

    -    Kl. 15:53 víkur Örn Þórðarson af fundinum. 
     
    Sabine Leskopf, Nichole Leigh Mosty, Renata Emilsson Peskova og Tui Hirv, fulltrúar úr fjölmenningarráði, Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur frá félagsmálaráðuneytinu, Inga Sveinsdóttir og Hrafnhildur Kvaran, starfsmenn frá Fjölmenningarsetri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Lögð fram úthlutun íbúaráða úr forvarnarsjóði 2019.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga sviðsstjóra um tilfærslu fjármagns úr tilraunaverkefninu Sveigjanleiki í þjónustu – frá barni til fullorðins í NPA.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsókn um styrk úr jöfnunarsjóði til að gera könnun á framlagi sjóðsins til Reykjavíkurborgar til málaflokks fatlaðs fólks. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að vekja athygli á því hve lítið Reykvíkingar fá úr sjóðnum miðað við framlög. Sjóðurinn var í rauninni stofnaður til þess að nýta stærðarhagkvæmni höfuðborgarsvæðisins til að greiða niður þjónustu á svæðum þar sem smæð samfélaga leiðir til minni tekna + dýrari þjónustu. Það er náttúrulega gagnrýnisvert hversu oft hefur verið staðið illa að framkvæmd sjóðsins og reglugerðum og lagagrundvelli að baki honum, en flest dómsmálin hafa snúið að því að sjóðurinn væri ekki að greiða nógu mikið til smærri sveitarfélaga. Í rauninni þyrfti að breyta lögunum til að jafna hlut Reykjavíkur. Reykjavík getur náttúrulega ályktað að sjóðurinn styðji ekki nóg höfuðborgina og að það þurfi að breyta lögum til.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram drög að þjónustulýsingu og drög að reglum um akstursþjónustu fatlaðra.

    Samþykkt að vísa til aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks og óska eftir umsögnum helstu hagsmunaaðila og fulltrúum notenda. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð sendir þau drög að þjónustulýsingu og reglum þeim sem hér eru lögð fram til umsagnar hagsmunaaðila og samtaka notenda. Mjög mikilvægt er að þau hafa nú verið lögð fram tímanlega til að senda þau í öflugt umsagnarferli sem haft geti raunveruleg áhrif á lokaniðurstöðu. Þó er leitt að ekki náðist samkomulag með öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um samstarf þar sem það er okkar trú að það myndi skila hagkvæmari rekstri og betri þjónustu fyrir alla notendur.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði samþykkir að drög að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra fari í umsögn. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á að jafnræði verði ávallt haft að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að boðið verði upp á sem mesta valið í þessu sambandi. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir enda ekki stjórnavalda að segja til hvernig lífsstíll annarra á að vera. Muna þarf að enginn ákveður upplifun annarra eða getur sagt til hvað öðrum hentar.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er alltaf jákvætt að fá fram umsagnir hagsmunaaðila og þjónustan á að vera veitt á forsendum þeirra. Nú fara drögin í það ferli og velferðarráð mun síðan fá þjónustulýsinguna og drög að reglum til baka með þeim umsögnum. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir mögulegt rask í þjónustu og fulltrúi Sósíalistaflokksins vill taka fram að margt hefur ekki farið á þann veg sem best yrði kosið í gegnum tíðina í kjölfar þess að akstursþjónusta var boðin út. Mikilvægt er að veita sem besta þjónustu. 

  9. Fundadagatal ráðsins 2020 lagt fram.

    Fylgigögn

  10. Erindisbréf um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Til samþykktar. 

    Fylgigögn

  11. Erindisbréf um mótun velferðarstefnu.

    Frestað.

    Fylgigögn

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu ásamt greinargerð:

    Flokkur fólksins leggur til að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Mörg dæmi, m.a. nú um jól og áramót, koma upp utan opnunartíma þjónustumiðstöðva sem leigjendur vita ekki hvernig bregðast á við. Hér getur verið um erfið tilvik í stigagöngum, erjur milli leigjenda og jafnvel alvarlegar uppákomur sem tengjast einum eða fleiri leigjendum. Um er að ræða stigaganga/hús þar sem Félagsbústaðir eiga íbúðir að stórum hluta eða öllu leyti. Sambærilegar kringumstæður komu upp um síðustu jól. Í þessum aðstæðum sem eiga sér stað utan hefðbundins opnunartíma eiga leigjendur enga möguleika á að fá aðstoð. Það dugar ekki að segja við fólk að það verði bara að bíða þar til þjónustumiðstöð opni. Sum þessara mála eru að koma upp ítrekað og sem þjónustumiðstöð hefur ekki getað leyst jafnvel þótt hún hafi unnið að því. Stundum eru aðstæður þannig að mál þola ekki neina bið og því ekki viðeigandi að segja viðkomandi að leita til síns ráðgjafa þegar stofnun opnar næst. Ef mörg vandamál koma upp af því tagi sem hér er vísað í er alveg ljóst að verkferlar, virka ekki sem skyldi. Eitthvað annað þarf því að koma til.

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðarsviðs.

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1501.pdf