Velferðarráð - Fundur nr. 363

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudagur 23. október var haldinn 363. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Aron Leví Beck, Alexandra Briem, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fer kynning á aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna þakka heimsókn aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks í Reykjavík. Ljóst er að talsverðar breytingar hafa orðið á lögum með tilkomu nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem felur í sér útvíkkað og breytt hlutverk nefndarinnar. Mikilvægt er að virkt samráð sé haft við nefndina í öllum málum. Hugmyndinni um mótun ákveðins verklags varðandi samráð sem kom frá fulltrúa nefndarinnar er vel tekið og verður unnið áfram. Einnig er óskað eftir því að velferðarráð fundi reglulega a.m.k. árlega með nefndinni. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins þakkar heimsókn aðgengis- og samráðsnefndar. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af aðgengismálum fatlaðra í borginni og finnst að á þessum hópi hafi verið brotið. Umræða um aðgengi í miðborginni hefur verið hávær. Borgarmeirihlutinn hefur t.d. haft meiri áhyggjur af ásýnd göngugatna en aðgengi fatlaðra að verslunum og þjónustu við göngugötur. Fatlaðir hafa margir sagst ekki treysta sér í bæinn, aðgengi er erfitt og vegakerfið ruglingslegt, vandi er að finna stæði og aðgengi að bílastæðahúsum er ekki traustvekjandi. Ótaldar eru umferðarteppur og umferðaröngþveiti í og úr bænum og allt um kring. Eins og vitað er eru komin ný umferðarlög. Samkvæmt þeim mega hreyfihamlaðir, með svokölluð P-kort, keyra á göngugötum. Oft er spurt hvort borgin ætli að virða þessi lög? Það er kannski ekki að undra að vantraust ríki þegar meirihlutinn hefur tjáð sig um að löggjafinn hafi verið á villigötum þegar ný umferðarlög voru samþykkt. Almennt séð eru áhyggjur af samráðsleysi þessa meirihluta við hagsmunasamtök borgarbúa. Sífellt er sagt að haft sé samráð en fæstir kannast við það í verki. Borgarfulltrúi óttast að áfram haldi eins konar sýndarmennskusamráð. Flokkur fólksins óskar hinni nýju nefnd farsældar og hvetur nefndarmenn sem ekki eru kjörnir að láta ekki hina kjörnu fulltrúa valta yfir sig.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Tilgangur með samráði er ávallt að eiga raunverulegt samráð. Kjörnum fulltrúum í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks er ætlað að sinna þar upplýsingaflæði og stuðla að því að markmið nefndarinnar náist og áherslur hennar berist á rétta staði í kerfinu en alls ekki að stjórna vinnunni, niðurstöðum eða áherslum nefndarinnar og er ómaklegt að fulltrúi Flokks Fólksins bóki eins og það sé gefið. 

    Tómas Ingi Adolfsson, Þorkell Heiðarsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hallgrímur Eymundsson, Hanna Björk Kristinsdóttir, Ingólfur Már Magnússon, Björgvin Björgvinsson og Lilja Sveinsdóttir, fulltrúar í aðgengis- og samráðsnefnd, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Kynnt drög að reglum Reykjavíkurborgar um stuðning við börn og fjölskyldur.

    Katrín Þórdís Jacobsen, deildarstjóri, Tómas Ingi Adolfsson, Þorkell Heiðarsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hallgrímur Eymundsson, Hanna Björk Kristinsdóttir, Ingólfur Már Magnússon, Björgvin Björgvinsson og Lilja Sveinsdóttir, fulltrúar í aðgengis- og samráðsnefnd, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  4. Lögð fram tillaga um breytingu á reglum um námsgögn og tækjakaup fyrir fatlað fólk.
    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt með þeim breytingum að auglýsa skuli eftir umsóknum fyrir 1. desember 2019 og að umsóknarfrestur skuli vera til 31. desember 2019.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér eru samþykktar uppfærðar reglur vegna náms-, verkfæra- og tækjakaupa fyrir fatlað fólk í kjölfar nýrra laga. Fulltrúarnir þakka aðgengis- og samráðsnefnd fyrir sína umsögn. Í reglunum er tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í umsögninni um að fatlað fólk hætti ekki að vera fatlað við 67 ára aldur. Varðandi þær ábendingar sem snúa að börnum er rétt að benda á að heildstæð endurskoðun er í gangi á nýjum reglum um stuðning við börn og barnafjölskyldur og mun aðgengis- og samráðsnefnd fá þær reglur til umsagnar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hámark styrks hefði mátt vera hærra en 60 þúsund krónur. Hækkunin nemur 10.000-. Hér hefði mátt gera betur? Það sem snýr að 10 gr. finnst fulltrúa Flokks fólksins mikilvægt að fram komi hámark þess tíma sem áfrýjunarnefndin hefur til að taka ákvörðun og standi þar „Áfrýjunarnefnd velferðarráðs skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en 4 vikum eftir að umsókn berst.“ Að segja aðeins „svo fljótt sem unnt er“ finnst fulltrúa Flokks fólksins aðeins of opið.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umræddar reglur veita styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirframgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni eða styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Fjárhæðin sem er til ráðstöfunar byggist á fjármagni sem borgarráð ákveður hverju sinni og taka úthlutanir mið af þeirri fjárhæð. Í reglum stendur að ef komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna er heimilt að forgangsraða umsóknum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill benda á mikilvægi þess að styrkir til umsækjenda skerðist ekki ef fjöldi umsókna er meiri en upphæð styrkjapotts gerir ráð fyrir. Það er mikilvægt að upphæðin hækki í stað þess að færri fái styrkjaúthlutun eða þá mögulega lægri styrk. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að það sé skýrt tekið fram í reglum að það hægt sé að sækja um styrk án þess að áhersla sé á að það þurfi að nýtast í að koma viðkomandi út á vinnumarkað en styrkir eru einmitt veittir til þess að viðkomandi geti a) sótt sér menntun, b) viðhaldið og aukið við þekkingu og færni og c) nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu. Fulltrúinn tekur einnig undir ábendingu frá aðgengis- og samráðsnefnd um að heimila styrki til fatlaðra barna.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á SkaHm – Fyrir fjölskyldur. Þekking – ráðgjöf – stuðningur. 

    Sigrún Sigurðardóttir, forstöðumaður, tekur sæti undir þessum lið.

  6. Lagt fram bréf Sjúkratrygginga Íslands dags. 22. október 2019 um ósk um framlengingu á samningi um hjúkrun í heimahúsum ásamt ósk um viðauka um sérhæfða hjúkrunarmeðferð fyrir börn. 

    Lögð fram tillaga velferðarráðs um að samningur við Sjúkratryggingar Íslands um heimahjúkrun verði framlengdur um 6 mánuði. Einnig er lagt til að velferðarsvið fari í viðræður við Sjúkratryggingar Íslands um samning um heimahjúkrun við börn.

    Samþykkt að framlengja samning við Sjúkratryggingar Íslands um heimahjúkrun um 6 mánuði.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð samþykkir erindi SÍ um að samningur um heimahjúkrun verði framlengdur um 6 mánuði, það er til 30. júní 2020 í stað 31. desember 2019, enda gefur það báðum aðilum tækifæri til að vinna að nýjum samningi með nýjum áherslum í takt við komandi fjölgun aldraða. Hvað varðar ósk SÍ um að gerður verði viðauki við samning um sérhæfða heimahjúkrun barna á höfuðborgarsvæðinu samþykkir velferðarráð að farið verði í samningaviðræður við SÍ að því gefnu að tryggt sé að SÍ geti tryggt órofna þjónustu við börn frá öðrum þjónustuaðilum meðan verið er að manna í stöður.

  7. Lagt fram svar sviðstjóra við fyrirspurn Flokks fólksins, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 21. ágúst 2019, um hvert sé hlutfall barna í 1-4 bekk í Reykjavík sem nota frístundastyrk upp í greiðslu fyrir dvöl á frístundarheimili?

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ótrúlegt að frístundastyrkur var nýttur upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra. Hlutfallsleg nýting kortsins er lægst í hverfi 111. Borgarfulltrúa Flokks fólksins blöskrar afbökunin á markmiði og tilgangi frístundakortsins. Það hefur verið komið aftan að foreldrum og brotið á rétti barna. Frístundakort 1503 barna, 50 þúsund krónur á barn er tekið upp í til að greiða fyrir þau nauðsynlega dvöl á frístundaheimili. Þetta eru 75.150.000 milljónir sem er fjármagn ætlað börnum til að iðka tómstundir óháð efnahag foreldra. Frístundaheimili er ekki það sama og íþrótta- og tómstundanám þótt vissulega fari fram metnaðarfullt frístundastarf á frístundaheimilum borgarinnar. Frístundaheimili er fyrst og fremst nauðsyn svo foreldrar geti unnið úti. Það gefur auga leið að ef frístundakortið er notað til að greiða frístundaheimilið er réttur barnsins til nýtingu þess í íþrótta- og tómstundaiðkun ekki nýttur. Markmiðið og tilgangurinn með frístundakortinu var ætíð að auka tækifæri barna til að stunda íþróttir og tómstundir óháð efnahag foreldra. Markmiðið með frístundarkortinu hefur verið afbakað og útþynnt og er nú nýtt ekki síður sem bjargir frekar en tækifæri fyrir börn að iðka tómstundir.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér virðist um að ræða heiðarlegan og velviljaðan misskilning hjá borgarfulltrúa Flokks fólksins, en misskilning engu að síður. Eins og fram kemur í svari velferðarsviðs er um að ræða 82 börn sem eiga foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð og jafnframt nota frístundakort til að greiða fyrir frístundaheimili, af þeim 1503 sem nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili. Nú stendur yfir umfangsmikil endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð og er mikilvægt að endurskoðun verði á heimildagreiðslum með það í huga að þær dugi fyrir dvöl á frístundaheimili.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Flokkur fólksins veit ekki alveg hvað það er sem fulltrúar meirihlutans skilja ekki varðandi frístundarkortið. Í 1503 tilfellum barna er frístundarkortið notað til að greiða frístundarheimili og það samræmist ekki markmiði kortsins svo það sé nú endurtekið enn og aftur. Í fjölmörgum þessara tilfella er foreldrum sem eru með erfiðan fjárhag að nota kortið sem gjaldmiðil í frístundarheimilið og þar með er tekinn rétturinn af barninu að nota kortið til þess sem því er ætlað. Breyta þarf þessum reglum aftur til upprunans þannig að öll börn óháð efnahag foreldra njóti þess að nýta kortið í þeim tilgangi sem var ætlað. Foreldrum sem eiga í einhverjum erfiðleikum með að greiða frístundaheimili þarf að hjálpa með öðrum hætti og bjóða þeim t.d. styrk samkv. 16 gr. en dæmi er um að foreldrar viti ekki einu sinni af þeim möguleika.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Reglur um frístundakort eru gerðar í menningar, íþrótta og tómstundaráði.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs janúar-ágúst 2019.
    Frestað.

    Fylgigögn

  9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Að í 10 gr. reglna um námsgögn og tækjakaup fyrir fatlað fólk verði gerð breyting á setningunni „Áfrýjunarnefnd velferðarráðs skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er“ og við bætist „en eigi síðar en 4 vikum eftir að umsókn berst.“ 
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 15:55

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2310.pdf