Velferðarráð - Fundur nr. 352

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 3. apríl, var haldinn 352. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Kerhólum, Höfðatorgi. og hófst klukkan 13:04. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Sanna Magdalena Mörtudottir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á menntastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarráði þann 20. nóvember 2018.

    -    Kl. 13:17 tekur Kristín Soffía Jónsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 13:29 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menntastefna Reykjavíkurborgar til ársins 2030 endurspeglar mikinn metnað og framsýni skólasamfélagsins í Reykjavík fyrir hönd barna og ungmenna í borginni. Kjarni menntastefnunnar er valdefling barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfinu með áherslu á að efla tiltekna hæfniþætti sem skólasamfélagið hefur sett í forgang. Þeir lúta að félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði í anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrár leik- og grunnskóla og frístundastefnu borgarinnar. Mikilvægur þáttur menntastefnu er einföldun og efling stoðþjónustu við börn með sérstakar þarfir og lýsir velferðarráð sig tilbúið til þess samstarfs. Innleiðing á breyttu verklagi skólaþjónustu svokölluðu Reykjavíkurlíkani er liður í þessu sem og heilsueflingar og félagsauðsverkefni sem velferðarsvið hefur tekið virkan þátt í. Stefnan er afrakstur víðtæks samstarfs barna og ungmenna, foreldra, kennara, skólastjórnenda, almenns starfsfólks, kjörinna fulltrúa, innlendra og erlendra ráðgjafa á undanförnum tveimur árum þar sem þúsundir einstaklinga hafa lagt hönd á plóg.

    Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, tekur sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði milli funda velferðarráðs.

    -    Kl. 14:27 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundi og Þór Elís Pálsson tekur sæti.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. apríl 2019, um að eftirfarandi breytingar verði gerðar á 1. og 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg:

    Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram hjá þjónustumiðstöð eða með rafrænum hætti á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Í neyðartilfellum er heimilt að leggja umsókn fram í dvalarsveitarfélagi, sbr. 4. gr. Umsækjandi um fjárhagsaðstoð skal leggja fram persónuskilríki með mynd þegar umsókn er lögð fram á þjónustumiðstöð en rafræn umsókn skal staðfest með rafrænum skilríkjum umsækjanda. Umsókn skal undirrituð á sérstök umsóknareyðublöð en ekki er gerð krafa um undirritun þegar umsókn er gerð með rafrænum hætti. Á umsóknareyðublöðum skal koma fram, eftir atvikum, upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri, upplýsingar um skráningu í nám og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir. Umsókn skal fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn er lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, innlendum og erlendum lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bönkum, sparisjóðum, lánastofnunum eða öðrum aðilum, barnabætur, mæðra- og feðralaun.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga velferðarráðs um gildistöku reglna:

    Breytingin sem er ívilnandi fyrir íbúa Reykjavíkurborgar tekur gildi frá og með 1. apríl 2019.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tilkoma rafræns viðmóts fyrir borgarbúa til að sækja um fjárhagsaðstoð er stórt og mikilvægt framfaraskref í velferðarþjónustu borgarinnar. Það er mikið fagnaðarefni að hér er tekið skref í þá átt að einfalda umsóknarferli og auðvelda íbúum að notfæra sér þjónustu borgarinnar og sækja um þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Rafvæðing umsókna er lykilskref í því að bæta þjónustu, gera hana skilvirkari, fljótlegri og einfaldari fyrir notendur og því er hér í burðarliðum mikilvægt hryggjarstykki í þeirri innleiðingu. Ákaflega gott er að sjá hve mikill metnaður hefur verið lagður í undirbúning hins nýja viðmóts til að tryggja að það standist kröfur nútímans og anni sem best þörfum þeirra sem það nota.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill árétta að í þeirri vegferð velferðarsviðs með að rafvæða umsóknargögn verði gætt að persónuupplýsingum um alla þá einstaklinga sem munu nýta sér þessa þjónustu og jafnframt þeir sem taka þátt í þróunarferlinu. Varðandi rafræn skilríki þá verði boðið upp á fleiri en ein skilríki þar sem margir eldri borgarar eru ekki með snjallsíma og þurfa því að nota önnur skilríki sem ekki eru háð snjallsímatækninni.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði fagnar því að umsækjendur geti sótt um fjárhagsaðstoð á rafrænan hátt. Ánægjulegt er að samráð hafi verið haft við starfsmenn og notendur í mótun og þróun þessarar nýju þjónustuleiðar. Tækifæri í tækninýjungum eru mikil til þess að auka skilvirkni í þjónustu Reykjavíkurborgar samhliða persónulegri þjónustu þjónustumiðstöðva borgarinnar.

    Edda Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Rafrænni Þjónustumiðstöð tekur sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum eldri borgara, sbr. 2. lið. fundargerðar velferðarráðs frá 20. febrúar 2019.

    -    Kl. 15:00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022 var samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn í mars 2018. Stefnan var unnin í breiðri sátt og með aðkomu og þátttöku fulltrúa eldri borgara, fagfólks, aðstandenda og þjónustuveitenda ásamt öldungaráði borgarinnar. Stefnan er metnaðarfull og í stefnunni er lögð áhersla á Reykjavík sem aldursvæna og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Leiðarljós stefnunnar eru virðing, virkni og vinátta. Sýn Reykjavíkurborgar er að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og að öll aðstoð skuli taka mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og öllum sé gert kleift að lifa því lífi sem það kýs. Framkvæmdar verða þjónustukannanir á þjónustu við eldri borgara með reglubundum hætti. Með aðgerðaáætluninni sem nú er lögð fram og byggir á stefnunni eru sett fram tímasett mælanleg markmið þannig að hægt sé að fylgja eftir þeirri metnaðarfullu stefnu sem sett hefur verið. Fulltrúar meirihlutans óska eftir reglulegu stöðumati á aðgerðaáætluninni á gildistíma hennar.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á drögum að forgangsröðun fjárfestingaáætlun velferðarsviðs 2020-2024.

  6. Lagt fram bréf heilbrigðisráðuneytis til borgarstjóra, dags. 11. mars 2019, vegna uppbyggingu á hjúkrunarheimilum.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 25. mars 2019, fyrir janúar 2019.

    -    Kl. 15:24 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að setja á laggirnar vinnuhóp um þróun félagsmiðstöðva aldraðra:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði aðrar og nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og eflaust þjóna sínum tilgangi vel. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Getur það verið vegna þess hvernig þær eru skipulagðar og uppbyggðar? Einnig ber að hafa í huga að þeir sem nú eru að hefja sín efri ár eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Menntunarstig þeirra er hærra og lífstíll annars konar en var þegar flestar þeirra félagsmiðstöðva sem nú eru starfræktar voru opnaðar. Flokkur fólksins leggur til að settur verði í gang vinnuhópur sem beiti aðferðum nýsköpunar til að þróa nýjar þjónustuleiðir og afþreyingu fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um gerð upplýsingabæklings:

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg gefi út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Allir borgarar eiga rétt á að vera upplýstir um þá þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar. Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um mikilvægustu réttindi. Í bæklingi af þessu tagi ættu einnig að vera veittar upplýsingar um ýmis sértækari réttindi og bent á leiðir til að afla ítarlegri vitneskju um margvísleg atriði sem varða réttindi. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins, frá fundi borgarráðs 14. mars 2019, um að umsóknarferli um fjárhagsaðstoð verði einfaldað:

    Umsóknarferli um fjárhagsaðstoð er óþarflega flókið í Reykjavík. Fyrst skal nefna að ekki eiga allir skilríki með mynd sem framvísa á þegar sótt er um og í þeim tilfellum þyrfti að finna aðra leið til staðfestingar að viðkomandi er sá sem hann segist vera. Þau gögn sem umsækjanda ber að reiða fram eru líka óþarflega ítarlegar t.d. upplýsingar um skráningu í nám og eða upplýsingar um greiðslur t.d. frá sjúkrasjóðnum eru dæmi um upplýsingar sem mættu e.t.v. missa sín. Markmiðið ætti ávallt að vera að fá minnstu upplýsingar og unnt er að komast af með í slíkri umsókn. Sjálfsagt er að fá leyfi hjá viðkomandi að aflað verði upplýsinga um skráningu hans í nám við lánshæfar menntastofnanir, sbr. ákvæði 15. gr. reglnanna. Hafa skal í huga að mörgum reynist það afar erfitt að þurfa að það að sækja um fjárhagsaðstoð. Sumir upplifa það mjög niðurlægjandi og því er óþarfi að flækja þetta ferli meira en þörf er á. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði markvisst í að einfalda þetta ferli. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. apríl 2019, vegna fyrirspurnar fulltrúa Flokks fólksins frá fundi velferðarráðs þann 20. febrúar 2019, um vægi og valdsvið sérhæfðs þjónustufulltrúa vegna aðgerðaáætlunar í málefnum aldraðra.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Staða sérhæfðs þjónustufulltrúa var sett á laggirnar í kjölfar óska ýmissa hagsmunasamtaka aldraðra. Sérhæfðum þjónustufulltrúa er ætlað að svara fyrirspurnum vegna þjónustu við eldri borgara og vísað erindum á viðeigandi aðila þar sem eldri borgarar geta fengið úrlausn sinna mála. Hlutverk fulltrúans er fyrst og fremst að búa yfir sérhæfðri þekkingu á málefnum eldri borgara og mæta eldri borgurum með vinsemd og áhuga og vinna að því að þeir fái á markvissan hátt úrlausn sinna mála.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari frá velferðarsviði virðist að hlutverk væntanlegs þjónustufulltrúa eldriborgara verði með tilvitnun í svarið: Þannig er um upplýsingamiðlun að ræða fyrst og fremst en ekki fullnaðarafgreiðslu einstakra mála. Ekki stendur til að aðstoða einstaklinga sem oft eiga í vandræðum með að halda utan um ýmsar upplýsingar um þá þjónustu sem þeir eru annað hvort að sækjast eftir eða eru þegar að þyggja, heildrænt. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um umboðsmann aldraðra sem héldi heildrænt utan um málefni einstaklinga sem þyrftu á slíkri aðstoð að halda, en var hafnað. Því lýsum við yfir vonbrigðum okkar að ekki standi til að veita eldri borgurum borgarinnar heildræna aðstoð í þeim frumskógi sem sumir geta lent í.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Mikil sátt er meðal hagsmunaaðila um þá leið sem velferðarráð hefur nú samþykkt um að komið verði á fót sérhæfðum þjónustufulltrúa í málefnum aldraðra, enda kemur tillagan frá grasrót og hefur þróast í samráði við hagsmunaaðila. Reykjavíkurborg leggur metnað í að veita eldri borgurum sem og öðrum góða þjónustu.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. apríl 2019, við fyrirspurnum fulltrúa Flokks fólksins frá fundi velferðarráðs þann 20. febrúar 2019, um liði A2-2 og A3-1 í drögum að aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum eldri borgara.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:39

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Alexandra Briem Sanna Magdalena Mörtudottir