Velferðarráð - Fundur nr. 310

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 18.maí var haldinn 310. fundur s og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Margrét Norðdahl, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Sigþrúður Erla Arnardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning sviðsstjóra á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

- Kl. 14.10 tekur Örn Þórðarson sæti á fundinum og Börkur Gunnarsson víkur þar sæti.

2. Lögð fram tillaga sviðsstjóra um að velferðarsviði verði falið að vinna áfangaskipta áætlun til næstu 10 ára um niðurlagningu herbergjasambýla í Reykjavík, dags. 10. maí 2017, ásamt kostnaðarmati og greinargerð.

Samþykkt.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir tillögu um áfangaskipta áætlun vegna fyrirhugaðrar niðurlagningar herbergjasambýla og vel unna meðfylgjandi greinargerð. Velferðarráð leggur til að notendasamráð verði tilgreint nánar, verkáætlun unnin og sú áætlun kynnt velferðarráði hið fyrsta. Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða heimili fólks og þarfir og óskir eru fjölbreyttar. Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að vel sé staðið að notendasamráði í allri vinnunni framundan.

3. Lagðar fram að nýju tillögur sviðsstjóra merktar 1-3 um breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning. sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. maí 2017, ásamt bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. apríl 2017, og greinargerð. Jafnframt er lögð fram tillaga sviðsstjóra, dags. 15. maí 2017, um breytingu á hámarksgreiðslu samanlagðra húsnæðisbóta, ásamt greinargerð.

Tillaga 1:

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings samkvæmt 1. mgr. 4. gr. og tekjumörkum samkvæmt 3 mgr. 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Breytingarnar taki gildi þann 1. júlí 2017:

Fjárhæð tekjumarka samkvæmt 5. gr. reglnanna hækki um 8,8%.

Stuðull til útreiknings sérstaks húsnæðisstuðnings samkvæmt 4. gr. reglnanna hækki úr 0,9 í 1,0.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga 2 er lögð fram svo breytt:

Lagðar eru til eftirfarandi  breytingar á 3. og 4. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning varðandi útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings. Breytingarnar taki gildi þann 1. júlí 2017:

- Fellt verði niður skilyrði samkvæmt 4. gr. reglnanna um að hámarkshlutfall samtölu húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir húsaleigu undir 91.300 kr. sé 60% af leigufjárhæð.

- Sett verði nýtt skilyrði í 4. gr. reglnanna um að lágmarkshúsnæðiskostnaður leigjenda að frádregnum húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisstuðningi sé 40.000 kr. á mánuði.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga:

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á 3. og 4. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning varðandi útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings. Breytingarnar taki gildi þann 1. júlí 2017:

- Fellt verði niður skilyrði samkvæmt 4. gr. reglnanna um að hámarkshlutfall samtölu húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir húsaleigu undir 91.300 kr. sé 60% af leigufjárhæð.

- Sett verði nýtt skilyrði í 4. gr. reglnanna um að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings takmarkist við að húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings verði að lágmarki 40.000 kr. á mánuði. Ef húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til húsnæðisbóta er undir 40.000 kr. á mánuði er sérstakur húsnæðisstuðningur ekki greiddur.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga 3:

Lagt er til að breytingar á 1. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning varðandi stuðul til útreiknings sérstaks húsnæðisstuðnings og breytingar á 3. mgr. 5. gr. reglnanna varðandi tekjumörk verði afturvirkar frá 1. janúar 2017.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga 4:

Lagt er til að hámarksfjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings hækki úr 82.000 kr í 90.000 kr.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Þrátt fyrir að þessar aðgerðir meirihlutans í Reykjavík séu aðallega gerðar til þess að mæta þeirri hækkun á leiguverði sem Félagsbústaðir ehf. eru að kalla eftir sem og þeim hækkunum sem urðu vegna nýrrar reiknireglu á leiguverði hjá Félagsbústöðum, þá gagnast þessar aðgerðir einnig þeim leigutökum sem eru á almennum leigumarkaði og borga að jafnaði mun hærri leigu en þeir sem eru að leigja hjá Félagsbústöðum. Vegna þessara jákvæðu áhrifa samþykkjum við í Framsókn og flugvallarvinum framlagðar tillögur nr. 1, 3 og 4.

Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri og Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

4. Lögð fram að nýju tillaga sviðsstjóra um hækkun leiguverðs Félagsbústaða um 5% umfram hækkun vegna vísitölu og verðbólgu sbr.lið 3. frá fundi velferðarráðs þann 4. maí 2017, ásamt fylgigögnum.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Félagsbústaðir sendu velferðarráði erindi í lok árs 2016 til þess að benda á að rekstrartekjur félagsins stæðu ekki undir skuldbindingum. Nauðsynlegt væri að hækka leigu félagsins um 5% því að þó að hagnaður bókfærist á starfsemina felst hún í hækkun á fasteignamati eigna félagsins og skapar því ekki tekjur nema til standi að selja eignir. Stefna borgarinnar er hinsvegar að fjölga félagslegum leiguíbúðum til að bregðast við fjölgun á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði.Velferðarráð ákvað á þeim tíma að fresta hækkun á leigu Félagsbústaða þar sem breytingar á ákvörðun leiguverðskerfis Félagsbústaða og breyting á húsnæðisbótalögum auk reglna um sérstakan húsnæðisstuðning kölluðu á sérstaka vöktun til að fá yfirsýn yfir heildaráhrif umfangsmikilla kerfisbreytinga sem staðið hafa yfir frá áramótum. Velferðarráð samþykkir nú að vísa þessarri tillögu til borgarráðs, en samþykkir um leið mótvægisaðgerðir þannig að hækkun leigu bitni ekki á leigutökum Félagsbústaða. Aðgerðirnar fela í sér að Reykjavíkurborg styðji fjárhagslega við Félagsbústaði í formi sérstaks húsnæðisstuðnings til leigjenda. Þessar aðgerðir fela í sér hækkun frítekjumarks um 8,8%. Auk þess er stuðull hækkaður úr 0.9 í 1.0. Það þýðir að fyrir hverja 1.000 kr sem ríkið greiðir, greiðir sveitafélagið 1.000 kr á móti í sérstakan húsnæðisstuðning í stað 900 kr áður. Þessi breyting gagnast einna helst einstaklingum en kerfisbreytingin bitnaði einna helst á þeim. Einnig leggur ráðið til að hámarksfjárhæð samanlagðra húsnæðisbóta hækki úr 82.000 kr. í 90.000 kr. þannig að þeir sem nú þegar fá hámarks stuðning fái einnig hækkun en í þeim hópi eru einkum stærri fjölskyldur þar sem mörg börn eru á heimili.Með því að hækka sérstakan húsnæðisstuðning til leigjenda Félagsbústaða og á almennum markaði forgangsraðar Reykjavíkurborg fé til þeirra sem verst standa á húsnæðismarkaði. Hækkun sérstaks húsnæðisstuðnings gagnast einnig þeim sem leigja hjá félagasamtökum og á almennum leigumarkaði. Sá hópur sem greiðir hvað hæst hlutfall af tekjum sínum í húsnæði er einmitt sá hópur sem leigir á almennum markaði. Velferðarráð samþykkir að vísa þessum tillögum til borgarráðs en leggur jafnframt mikla áherslu á að samhliða hækkuninni verði mótvægisaðgerðirnar samþykktar þannig að hægt sé að koma til móts við leigjendur Félagsbústaða.

5. Lögð fram til kynningar umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Þingskjal 571 – 438. mál, dags. 12. maí 2017.

6. Lögð fram til kynningar umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál). Þingskjal 572 – 439. mál, dags. 12. maí 2017.

7. Lagðar fram lykiltölur frá janúar til mars 2017.

8. Lögð fram fundaáætlun velferðarráðs fyrir ágúst til desember 2017.

9. Lagðir fram til kynningar leigusamningar um þjónustumiðstöð DAS við Sléttuveg í Reykjavík, dags.11. maí 2017, þjónustusamningur vegna rekstrar þjónustumiðstöðva fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25 – 27, dags. 11. maí 2017, samningur um verkefnisstjórn og umsjón með undirbúningi, hönnun og byggingarframkvæmdum hjúkrunarheimilis á lóð við Sléttuveg,í Reykjavík, dags.11. maí 2017, samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóð við Sléttuveg, dags. 11. maí 2017 og viljayfirlýsing um rekstur hjúkrunarheimilis við Sléttuveg, 25 dags. 11. maí 2017.

Fundi slitið kl. 15.40

Ilmur Kristjánsdóttir formaður (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Sabine Leskopf (sign) Örn Þórðarson (sign)

Margrét M. Norðdahl (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)