No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2015, fimmtudaginn 1. október var haldinn 271. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Jódís Bjarnadóttir, Björn Jón Bragason og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Starfið milli funda.
Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
- Áslaug María Friðriksdóttir tók sæti á fundinum kl. 13.15.
2. Kynnt samantekt frá vinnudegi velferðarsviðs vegna fjárhagsáætlunar ársins 2016.
Sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
- Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti á fundinum kl. 13.40.
3. Lögð fram tillaga, dags 9. september 2015, um viðbótarfjármagn vegna flutnings þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis. Jafnframt lagður fram húsaleigusamningur við RÚV, dags. 11. febrúar 2015.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fyrir liggur að beiðni um að aukakostnaður vegna flutnings þjónustumiðstöðvar Laugardals- og Háaleitis kemur velferðarráði í opna skjöldu. Áður hafði skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar fengið 35 m.kr vegna flutningsins en nú er 11,4 m.kr. kostnaður útistandandi til viðbótar sem enginn virðist hafa gefið leyfi fyrir og virðist ekki vera inni á áætlun. Hér virðist því vera um alvarlega brotalöm að ræða. Óskað er eftir því að teknar verði saman upplýsingar um kaup eða fjárfestingar af þessu tagi ásamt reglum sem um þær gilda og þær lagðar fyrir velferðarráð eins fljótt og hægt er. Eins verði lagðar fyrir velferðarráð sundurliðaðar upplýsingar um rekstur þjónustumiðstöðvarinnar og sérstaklega fjallað um þá liði sem hækka eftir flutninginn.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir gera athugasemd við það vinnulag að ekki hafi verið reiknað með kostnaði við flutning þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis þegar ákveðið var að flytja þjónustumiðstöðina í Efstaleiti og fjárheimild veitt til flutnings, breytinga og frágangs á nýja húsnæðinu. Slík vinnubrögð teljum við vera merki um óábyrga fjármálastjórnun.
4. Lögð fram drög að samstarfssamningi við Vin ásamt minnisblaði vegna Vinjar, dags. 22. september 2015.
Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað.
5. Lögð fram og kynnt skýrsla vegna endurhæfingar í heimahúsi frá júlí 2015.
Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir skýrslu um endurhæfingu við athafnir daglegs lífs í tengslum við samþætta heimaþjónustu í Reykjavik. Árangurinn af verkefninu er ánægjulegur en í ljós kom að 37% af þeim sem tóku þátt í verkefninu þurftu enga þjónustu í kjölfar verkefnisins, 39% þurftu minni þjónustu og 24% þurftu sömu þjónustu. Velferðarráð óskar eftir að velferðarsvið fari í kjölfarið í viðræður við velferðarráðuneytið um með hvaða hætti sé hægt að vinna áfram í þeim anda að endurhæfa fólk í heimahúsum við athafnir daglegs lífs. Velferðarráð óskar einnig eftir tillögum frá velferðarsviði um hvernig má fjölga þeim sem eru sjálfsbjarga um athafnir daglegs lífs og þannig draga úr þjónustuþörfum í heimaþjónustu til að gera sjálfstætt líf eldra fólks mögulegt.
6. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 28. september 2015, þar sem drög að samningi Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur er vísað til umsagnar velferðarsviðs. Jafnframt lögð fram til kynningar drög að samningi Útlendingastofnunar og Reykjavikurborgar um þjónustu við hælisleitendur ásamt stöðuskýrslu, dags. í september 2015.
7. Lagt fram yfirlit, dags 31. ágúst 2015, vegna upplýsinga um afgreiðslutíma fagráða.
Jódís Bjarnadóttir vék af fundi kl. 14.55.
- Magnús Már Guðmundsson tók sæti á fundinum kl. 14.55.
8. Lagt fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 27. ágúst 2015, vegna fjölgunar dagdvalarrýma og hærri greiðslur vegna almennrar dagdvalar.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð lýsir yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu ráðuneytisins að verða ekki við beiðni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um fjölgun á sérhæfðum dagdvalarrýmum fyrir heilabilaða og hækkun daggjalda í almennri dagdvöl fyrir aldraða. Ljóst er að fjölgun rýma sem og hækkun daggjalda sem duga fyrir rekstri er brýnt velferðarmál fyrir aldraða Reykvíkinga. Þó fagnar velferðráð því að ráðuneytið sýni því fullan skilning að brýn þörf sé á úrræðum fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu. Velferðarráð treystir því að heilbrigðisráðherra muni beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði við vinnslu fjárlaga fyrir árið 2016, þannig að hægt verði að ráðast í fjölgun sérhæfðra dagrýma fyrir heilabilaða og tryggja að daggjöld til almennra dagdvalar dugi til reksturs þeirra.
9. Lögð fram samantekt upplýsinga vegna fjárhagsaðstoðar frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, dags. 22.september 2015
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna því að á tímabilinu janúar til júlí 2014 og 2015 hefur fjárhagsaðstoð til framfærslu dregist saman um 8,2%. Þrátt fyrir að um áramót hafi réttur fólks til atvinnuleysisbóta verið skertur hjá ríkinu hefur ekki fjölgað í þeim hópi og má þar eflaust þakka þeim fjölda úrræða sem komið hefur verið á fót síðustu ár til að efla einstaklinga til að komast í virkni og viðhalda færni til þátttöku á vinnumarkaði. Framundan er ljóst að leita þarf leiða til að mæta betur þörfum þeirra sem eru veikir og hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu til lengri tíma. Í því samhengi vilja fulltrúarnir benda á samþykkt velferðaráðs frá 28. maí sl. um að hætta að tala um sjúklingahóp og tala frekar um virkni - eða endurhæfingarhóp þegar talað er um þá sem eru tímabundið óvinnufærir. Áhersla þarf að vera á einstaklingsmiðaðan stuðning og notendasamráð, meðal annars með notkun matstækisins „Eigið mat á starfsgetu“ (EMS) og telja fulltrúarnir mikilvægt að sett verði mælanleg markmið um notkun þess.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Stefna meirihlutans í Reykjavík gagnvart fjárhagsaðstoð er afar slök og hefur viðhaldið fjárhagsaðstoðarvandanum í Reykjavík sem hleypur á 3 milljörðum króna hvert ár. Tekist hefur verið á um fjárhagsaðstoðarmálin í velferðarráði til lengri tíma. Meðal annars lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til fyrir ári síðan að Hafnarfjarðarmódelið yrði yfirfært á Reykjavík en þar á stuttum tíma náðist frábær árangur. Í ljós hefur komið að hægt var að aðstoða fólk mun betur að komast í virkni eða vinnu og kostnaðurinn við fjárhagsaðstoð lækkaði þar um nærri 800 milljónir króna á ári. Þetta sýnir að vond velferðarstefna er verri en engin. Borið saman við önnur sveitarfélög sem hafa tekið á vandanum og náð kostnaði jafnvel niður um nærri 800 milljónir á ári þá er þetta auðvitað algjörlega óviðunandi. Um stórtjón fyrir fólkið á fjárhagsaðstoð er að ræða sem fær ekki viðunandi aðstoð fyrst og fremst. Ekki síður tjón fyrir aðra sem á meðan fá ekki þjónustu í Reykjavík vegna fjárskorts.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð felur velferðarsviði að stofna rýnihóp, með einstaklingum utan sviðsins sem hefur það hlutverk að móta tillögur að breyttri áherslu í framkvæmd og skipulagi fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Hópurinn skal skipaður fulltúa frá grunnskóla, fulltrúa framhaldsskóla, fulltrúa listnáms, listamanni og fulltrúa notenda fjárhagsaðstoðar. Rýnihópurinn styðjist við skýrsluna „Persónuleg þjónusta, það er góð þjónusta“ frá því í september 2012. Rýnihópurinn skal huga sérstaklega að fjölbreyttum menntunarmöguleikum fyrir notendur fjárhagsaðstoðar, ekki síst þeim sem eru á aldrinum 18-25 ára. Þá skal hópurinn koma með tillögur um skapandi starf með einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð, sérstaklega í þeim tilvikum sem almenn úrræði hafa ekki dugað til. Að lokum skal hópurinn gera tillögur að forvarnaráætlun vegna fjárhagsaðstoðar, sem hægt væri að nýta í samráði við skóla- og frístundasvið til að ná til þess hóps sem líklegur er að hætta í námu að loknum grunnskóla.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
10. Lögð fram samantekt, dags. 30. júní 2015, vegna stöðu foreldra nema með framfærslu til náms á árinu 2014.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
11. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015 vegna fjárhagsaðstoðar.
12. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015 vegna gjaldtöku máltíða í mötuneytum.
13. Ferðaþjónusta fatlaðs fólks:
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Í febrúar sl. var ákveðið að skipa neyðarstjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks til að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Neyðarstjórnin tók svo til starfa í framhaldi af því og hefur starfað síðan. Í dag rennur sú skipan út. Velferðarráð fer þess á leit við þá aðila sem að neyðarstjórninni komu að metið verði hvort hennar sé ennþá þörf og niðurstöður kynntar sem fyrst.
14. Málefni eldri borgara.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í fréttum í vikunni kom fram aðgerðirnar séu afleiðing bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar og munu nú aðeins þeir sem enn dvelja heima og eru veikastir fá aðstoð. Aðrir verða að leita til ættingja eða kaupa þjónustuna á almennum markaði. Hvernig bar ákvörðun um að leggja niður þjónustuna að? Er það á valdi hverrar þjónustumiðstöðvar fyrir sig að hefja aðgerðir sem þessar? Er þarna verið að ákveða að takmarka grunnþjónustu eða er gert ráð fyrir að fé fylgi þeim sem þurfa þjónustuna? Var samráð haft við einkageirann um hverjir gætu veitt þjónustuna eða hún auglýst? Hvernig var undirbúningsferli háttað og hvaða samráð var haft við þann hóp sem um ræðir?
15. Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að setja á fót starfshóp eða starfshópa um fjárhag velferðarsviðs í samráði við borgarstjóra. Markmiðið er að leita leiða til að bæta þjónustu sviðsins og auka hagkvæmni í rekstri og kalla til þess verks breiðan hóp fulltrúa sem tengjast málaflokknum. Fyrirmynd starfshópsins er sambærileg vinna sem farið var í á skóla- og frístundasviði með góðum árangri. Hlutverk hópsins/hópanna væri að taka til endurskoðunar tiltekna lykilþætti í rekstri velferðarsviðs með það fyrir augum að auka skilvirkni og skapa svigrúm til að veita auknu fjármagni í velferðarþjónustu og innra starf á þjónustumiðstöðum og starfsstöðvum sviðsins sem eru hátt í 120 talsins. Fulltrúar í starfshópum komi úr röðum stjórnenda Reykjavíkurborgar, stjórnenda og starfsmanna velferðarsviðs og allra stjórnmálaflokka í borgarstjórn Reykjavíkur.
Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fundi slitið kl. 16.50
Ilmur Kristjánsdóttir (formaður)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Björn Jón Bragason (sign) Gréta Björg Egilsson (sign)