Velferðarráð - Fundur nr. 251

Velferðarráð

Ár 2014, mánudaginn 17. nóvember var  haldinn  251. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 11.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Elín Oddný Sigurðardóttir, S. Björn Blöndal, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Árni Múli Jónasson og Helga Jóna Benediktsdóttir em ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1. Starfið á Velferðarsviði á milli funda.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir helstu áherslum í starfi sviðsins á síðustu vikum.

2. Lögð fram tillaga vegna þjónustusamnings um Gistiskýlið ásamt minnisblaði, dags. 3. nóvember 2014 sem lagt var fyrir fund velferðarráðs þann 5. nóvember 2014.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Kristín Elfa Guðnadóttir áheyrnarfulltrúi tók sæti á fundinum kl. 11.17.

3. Kynning á starfsemi Félagsbústaða.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf. og Birgir Ottósson, forstöðumaður þjónustudeildar Félagsbústaða hf. tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu starfsemi félagsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúarnir þakka Félagsbústöðum fyrir greinargóða kynningu á starfsemi félagsins og kynningu á uppbyggingaráætlun félagsins ásamt verkefninu “Reykjavíkurhús”. Reykjavíkurhús er metnaðarfull hugmynd sem ætlað er að efla almennan leigumarkað í Reykjavík í víðu samhengi. Vonir standa til að verkefnið muni hafa þau áhrif að skapa aukið framboð leiguíbúða á sanngjörnu verði á almennum markaði auk þess að tryggja félagslega blöndum í hverfum með fullnægjandi hætti. Einnig fagna fulltrúarnir metnaðarfullri og raunhæfri áætlun um fjölgun félagslegra leiguíbúða um fimm hundruð á næstu fimm árum. Er það fyrst og fremst gert til að bregðast við uppsafnaðri þörf hjá þeim sem teljast í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði. Mat Velferðarsviðs er raunhæft enda ekki gert ráð fyrir mikilli fjölgun í aldurshópnum 18-30 ára, en það er sá aldurshópur sem helst er talinn í brýnni þörf. Einnig er mikilvægt að áætlanir geri ráð fyrir því að félagsleg blöndun innan hverfa sé tryggð og því miðast áætlanir við að byggt sé upp í öllum hverfum borgarinnar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa varað við því og vara enn við því að skilgreindur verði nýr hópur leigjenda á markaði í félagslegri þörf eins og hugmyndir um svokölluð Reykjavíkurhús meirihlutans ganga út á. Frekar ætti að leggja áherslu á að sinna þeim hópi sem er í brýnni þörf. Þá má gagnrýna það sem fram kom á fundinum að húsnæðishópur sem vinnur að Reykjavíkurhúsunum hafi ekki fengið umsögn Velferðarsviðs um verkefnið sem lagt var fram í vor. En sviðið telur að ekki sé flötur fyrir því að koma að úthlutunum íbúða vegna þessa nýja hóps. Þetta bendir til að upplýsingaflæði milli stofnana innan Reykjavíkurborgar sé ekki í lagi.“

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

„Samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofunnar mun verða mikil fólksfjölgun á komandi árum og á skipulagstímabilinu 2010-2030 gengur aðalskipulag Reykjavíkur út frá áþekkri meðalfjölgun í Reykjavík og undanfarin 20 ár. Þess vegna teljum við þær forsendur að um óverulega fjölgun sé að ræða á tímabilinu 2014 til 2034 meðal þeirra sem eru á aldursbilinu 18 til 30 ára og eru meginþorri allra umsækjenda um félagslegt húsnæði ótæka. Einnig harma Framsókn og flugvallarvinir að ekki hafi verið gripið betur inn í og unnið að aðgerðum fyrir þann hóp sem þarfnast félagslegs leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin 4 ár þar sem uppsöfnuð þörf er mjög mikil. Sú staðreynd að uppbygging eða kaup á félagslegu húsnæði í Vesturbæ sem og Miðborg og Hlíðum hefur verið takmörkuð megi eðli málsins samkvæmt rekja til hærra verðs á íbúðarhúsnæði og leiguverðs á þessu svæði. Að þessu sögðu sjáum við því ekki hvernig þær fyrirætlanir um byggja upp ódýrar leigu- og félagslegar íbúðir á áðurnefndu svæði verði að veruleika. En muni fyrirætlanirnar verða að veruleika munum við að sjálfsögðu fagna því“.

Áslaug María Friðriksdóttir vék af fundi kl. 12.40.

4. Kynning á áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa. 

Ingi B. Poulsen, umboðsmaður borgarbúa, tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti skýrsluna.

S. Björn Blöndal vék af fundi kl. 13.05.

5. Lagt fram minnisblað um þarfagreiningu vegna uppbyggingarstefnu Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum - félagslegt leiguhúsnæði, dags. 3. nóvember 2014.

6. Lagt fram minnisblað, dags. 30. september 2014; Áfangaheimili í Reykjavik - nýting á áfangaheimilum fyrir fólk sem hætt hefur áfengis- og vímuefnaneyslu. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

„Velferðarráð telur ástæðu til að lýsa yfir ánægju með hversu vel hefur tekist til með uppbyggingu og fjölgun úrræða fyrir fólk sem hætt hefur áfengis- og vímuefnaneyslu. Ljóst er að fjölbreytni úrræða er töluverð og virðist góður stuðningur vera við þá sem leita í þessi úrræði.“

7. Lagt fram níu mánaða uppgjör  ásamt greinargerð.

Jenný Stefanía Jensdóttir, sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup yfir einni milljón króna á þriðja ársfjórðungi ársins 2014.

9. Lagðar fram helstu lykiltölur janúar til september 2014.

10. Skipan starfshóps velferðarráðs um styrki og þjónustusamninga, sbr. reglur velferðarráðs um styrkúthlutanir.

Velferðarráð samþykkti að skipa Elínu Oddnýju Sigurðardóttur og Áslaugu Maríu Friðriksdóttur í starfshópinn.

11. Skipan fulltrúa í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

Velferðarráð samþykkti að skipa Elínu Oddnýju Sigurðardóttur  formann áfrýjunarnefndar velferðarráðs  og Heiðu Björg Hilmisdóttur sem varamann.

Fundi slitið kl.13.28

Elín Oddný Sigurðardóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)

Börkur Gunnarsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)