No translated content text
Velferðarráð
Ár 2014, fimmtudaginn 4. september var haldinn 245. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.04 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir (varamaður fyrir S. Björn Blöndal), Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna; Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Árni Múli Jónasson, Kristjana Gunnarsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Nýr sviðsstjóri boðinn velkominn.
Stefán Eiríksson, nýráðinn sviðsstjóri Velferðarsviðs var boðinn velkominn til starfa og kynnti hann framtíðarsýn sína, forgangsverkefni og helstu áskoranir í starfi Velferðarsviðs á næstu árum.
2. Kynnt ársskýrsla Velferðarsviðs fyrir árið 2013.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra kynnti ársskýrsluna.
Guðmundur Sigmarsson, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið.
3. Lögð fram greinargerð með sex mánaða uppgjöri Velferðarsviðs.
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Launakostnaður Velferðarsviðs á árinu lítur út fyrir að verða nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Einn hluti af skýringunni eru veikindi starfsmanna og álag vegna yfirvinnu og stórhátíða. En talið er að þessi kostnaður geti numið um 145 milljónum króna í 6 mánaða uppgjöri sviðsins. Vitað er að önnur svið borgarinnar standa frammi fyrir sama vanda þannig að gera má ráð fyrir að samanlögð upphæð sé mun hærri á heildina litið. Sjálfstæðismenn í velferðarráði telja að nauðsynlegt sé að skoða gagngert hvernig megi bregðast við, skoða hvort veikindin séu vinnutengd og þá hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á skipulagi vinnu starfsmanna. Algjörlega óásættanlegt er að borgin horfi framhjá þessum kostnaði og geri ekki ráð fyrir honum í áætlunum sínum.
4. Lögð fram og kynnt samþykkt borgarráðs frá 20. ágúst 2014 um úthlutun fjárhagsramma vegna fjárhagsársins 2015 og forsendur fjárhagsáætlunar.
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
5. Lagt fram yfirlit yfir áherslur og forgangsröðun fyrir árin 2015-2019.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
6. Lagt fram til kynningar bréf borgarráðs vegna móttöku flóttafólks, dags. 8. ágúst 2014.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar því að Reykjavíkurborg svari neyðarkalli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og taki við þrettán flóttamönnum frá Sýrlandi. Í hópnum eru einstaklingar í brýnni þörf fyrir heilbrigðisþjónustu eða þjónustu vegna fötlunar. Reykjavíkurborg axlar þannig ábyrgð í samfélagi þjóðanna og leggur hönd á plóg til að aðstoða megi flóttamenn í neyð.
7. Lagðar fram til kynningar leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks.
8. Lögð fram tillaga starfshóps um framkvæmd eftirágreiðslu fjárhagsaðstoðar til framfærslu.
Enn fremur lögð fram skýrsla starfshópsins, dags. 21. ágúst 2014.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
9. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til júní 2014.
10. Lögð fram tillaga um aukningu á rýmum í virkni- verkefna- og vinnumiðaðri stoðþjónustu. Nína Dögg Filippusdóttir tók sæti á fundinum kl. 15.15.
Heiða Björg Hilmisdóttir vék af fundi kl. 15.17.
Katrín Jacobsen, deildarstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða með fyrirvara um samþykki borgarráðs.
Vísað til borgarráðs.
11. Lagður fram til kynningar viðauki við samning Samhjálpar vegna Gistiskýlis, dags. 728. júlí 2014.
12. Lagt fram yfirlit yfir einstök innkaup yfir einni milljón kr. á öðrum ársfjórðungi ársins 2014.
13. Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokks frá fundi velferðarráðs þann 21. ágúst 2014.
Sýnt er að Atvinnutorg - úrræði fyrir atvinnulausa hefur reynst mjög vel til að aðstoða fólk til að komast af fjárhagsaðstoð. Ein af meginstefnum Velferðarsviðs er að fækka fólki sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda og koma fleira fólki til sjálfshjálpar. Atvinnutorg er sannarlega þjónustan sem líkleg er til að ná árangri. Í ljósi reynslunnar af Atvinnutorgi og þess fjölda Reykvíkinga sem þurfa fjárhagsaðstoð sem fjölgar því miður of hægt er því ástæða til að bæta við ráðgjöfum og fjölga því fólki sem með hjálp slíkrar þjónustu kemst út á vinnumarkað. Lagt er til að Velferðarsviði í samvinnu við fulltrúa Atvinnutorgs verði falið að koma með tillögu til velferðarráðs að því hvernig ná megi enn frekari árangri til að ná fram þessu helsta stefnumáli sviðsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins drógu tillöguna til baka.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga:
Í áherslum og forgangsröðun Velferðarsviðs 2015-2019 kemur fram að sviðið mun beita sér fyrir áframhaldandi markvissum stuðningi við þá íbúa Reykjavíkurborgar sem þurfa fjárhagslega aðstoð. Áhersla verði lögð á stuðning til sjálfshjálpar með áherslu á virkni og einstaklingsbundinn stuðning. Mikilvægt er að styðja vinnufæra einstaklinga á fjárhagsaðstoð aftur út á almennan vinnumarkað. Velferðarsvið hefur upp á fjölmörg og fjölbreytt úrræði að bjóða þeim sem nota fjárhagsaðstoð, sem mörg hver hafa skilað gríðarlega góðum árangri. Virkniráðgjafar starfa á þjónustumiðstöðvum, verkefnin Virkni til velferðar, Virknibrú, Vel-Virk, Atvinnutorg og Stígur standa þessum hópi m.a til boða. Lagt er til að Velferðarsviði í samvinnu við fulltrúa helstu virkniúrræða verði falið kortleggja framboð og nýtingu þeirra úrræða sem standa nú til boða. Einnig hvort dæmi séu um að einstaklingar komist ekki að í virkniúrræði og greining á biðlistum ef um þá er að ræða. Velferðarsviði verði í framhaldi falið að koma með tillögur til velferðarráðs að því hvort og þá hvernig samræma megi virkniúrræðin í þeim tilgangi að efla þau enn frekar og tryggja góða nýtingu þeirra. Markmiðið skal vera að styðja enn frekar við notendur fjárhagsaðstoðar í átt til virkni, samfélagsþátttöku og sjálfshjálpar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
14. Kynntar niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands; „Flutningur þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga, ágúst 2014 – mat á yfirfærslu“ .
Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti niðurstöðurnar.
Áslaug Friðriksdóttir vék af fundi kl. 16.05.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga:
Ýmislegt jákvætt kom fram í nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á flutningi þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Það er hins vegar alvarlegt að 41% foreldra reykvískra barna sem eiga við fötlun að stríða svöruðu því til að þeim fyndist þjónustan hafa versnað eftir að hún var flutt til sveitarfélaganna árið 2011. Þá er marktækur munur á ánægju og eða óánægju með þjónustu í Reykjavík og á öðrum þjónustusvæðum. Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands greina betur hvað það er sem foreldrar fatlaðra barna í Reykjavík eru óánægðir með. Það er forsenda þess að hægt sé að mæta þörfum þeirra betur. Það er vilji velferðarráðs að veita góða þjónustu sem mætir þörfum þeirra sem á þurfa að halda.
Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að velferðarráð og Velferðarsvið beiti sér í því að fjölga starfsfólki sem starfar við stuðningsþjónustu, svo sem félagslega liðveislu þar sem núverandi stöðugildi eru ekki fyllt, til þess að létta á biðlistunum sem nú þegar eru til staðar. En fyrst og fremst til þess að bregðast við þeim áhyggjum foreldra að börnum þeirra vanti félagsskap og aðstoð til þess að taka þátt í félagslífi og tómstundastarfi eins fram kemur í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Einnig til þess að bregðast við vaxandi einmannaleika meðal fatlaðra barna sem virðist fara vaxandi með hækkandi aldri.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að fulltrúar Velferðarsviðs komi með hugmyndir til velferðarráðs um hugmyndir að leiðum til að bæta upplýsingagjöf til þeirra sem njóta þjónustu sviðsins en eins og fram kemur í könnunni eru 44% fullorðinna notenda frekar eða mjög óánægðir með þá upplýsingagjöf sem þeir hafa fengið varðandi réttindi fatlaðs fólks og 50% aðstandenda fatlaðra barna. Enn fremur eru 29% fullorðinna notenda þjónustunnar frekar eða mjög óánægðir með þær upplýsingar sem þeim eru veittar varðandi réttindi fatlaðs fólks og 52% aðstandenda fatlaðra barna sem við teljum allt of hátt hlutfall. Jafnframt eru 30% aðstandenda fatlaðra barna frekar eða mjög óánægð með þá ráðgjöf sem þau hafa fengið varðandi fötlun og umönnun barnsins.
Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fundi slitið kl.16.25
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Börkur Gunnarsson (sign) Nína Dögg Filippusdóttir (sign)
Gréta B Egilsdóttir (sign)