No translated content text
Velferðarráð
Ár 2014, fimmtudaginn 1. ágúst var haldinn 244. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.55 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, S. Björn Blöndal, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigþrúður E. Arnardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fráfarandi sviðsstjóri Velferðarsviðs kvaddur.
Stella K. Víðisdóttir, fráfarandi sviðsstjóri Velferðarsviðs, kom á fundinn. Henni var þakkað langt og farsælt starf í þágu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
2. Lagður fram til kynningar bæklingur um stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum á árunum 2013-2023. Starfandi sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar útgáfu stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Það er mikill fengur að bæði notendur og þeir sem veita þjónustuna hafi aðgengilega stefnu í málaflokknum. Það auðveldar notendum að kynna sér þau þjónustuviðmið sem eru í gildi auk þess sem þeir sem veita þjónustuna hafa skýra stefnu til að vinna eftir. Velferðarráð vill auk þess þakka þeim fjölmörgu fulltrúum sem tóku þátt í starfi starfshópsins sem vann ötullega að mótun stefnunnar. Það er gleðiefni og gott fordæmi að í þeim hópi hafi verið fulltrúar notenda þeirrar fjölbreyttu þjónustu sem veitt er á Velferðarsviði.
3. Lögð fram endurskoðuð tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2015-2019.
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
4. Lagt fram minnisblað Velferðarsviðs vegna þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir ásamt fylgiskjölum.
Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
5. Lagt fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 7. júlí 2014, varðandi dagdvöl í þjónustumiðstöðinni Borgum í Spönginni. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.
6. Kynnt ársskýrsla Atvinnutorgs fyrir árið 2013 og minnisblað Velferðarsviðs um virkni, dags. 21. ágúst 2014, meðal annars varðandi stöðu á Unglingasmiðjunni Stíg, sbr. samstarfsverkefni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnunar, dags. 21. mars 2014.
Tryggvi Haraldsson, forstöðumaður Atvinnutorgs og Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu málið.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
72% þeirra sem fengu þjónustu Atvinnutorgs á síðasta ári fengu störf á almennum markaði (59%) og eða fóru í nám (13%). Þetta er stórkostlegur árangur. Hrós og ferfalt húrra fyrir öllu því unga fólki sem fékk einstaklingsbunda og sveigjanlega þjónustu Atvinnutorgs til að koma sér úr atvinnuleysi og tífalt húrrahróp velferðarráðs til starfsmanna Atvinnutorgs. Takk öll.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Sýnt er að Atvinnutorg - úrræði fyrir atvinnulausa hefur reynst mjög vel til að aðstoða fólk til að komast af fjárhagsaðstoð. Ein af meginstefnum Velferðarsviðs er að fækka fólki sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda og koma fleira fólki til sjálfshjálpar. Atvinnutorg er sannarlega þjónustan sem líkleg er til að ná árangri. Í ljósi reynslunnar af Atvinnutorgi og þess fjölda Reykvíkinga sem þurfa fjárhagsaðstoð sem fjölgar því miður of hægt er því ástæða til að bæta við ráðgjöfum og fjölga því fólki sem með hjálp slíkrar þjónustu kemst út á vinnumarkað. Lagt er til að Velferðarsviði í samvinnu við fulltrúa Atvinnutorgs verði falið að koma með tillögu til velferðarráðs að því hvernig ná megi enn frekari árangri til að ná fram þessu helsta stefnumáli sviðsins.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
7. Lagður fram til kynningar húsaleigusamningur vegna Hraunbæjar 119.
8. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til maí 2014.
9. Lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og hjúkrunarheimilisins Eirar, dags. 27. júní 2014, um þjónustu í Eirborgum.
Fundi slitið kl.15.55
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) S.Björn Blöndal (sign)
Magnús Már Guðmundsson (sign) Kristín Elfa Guðnadóttir (sign)
Áslaug Friðriksdóttir (sign) Gréta B Egilsdóttir (sign)
Börkur Gunnarsson (sign)