No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2014, fimmtudaginn 26. júní, var haldinn 243. fundur s að Borgartúni 12-14 og hófst hann kl. 13.05. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir , Eva Einarsdóttir (í stað S. Björns Blöndal) Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir (varamaður Grétu Bjargar Egilsdóttur). Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Árni Múli Jónasson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist: 1. Lagt fram yfirlit yfir áherslur og forgangsröðun vegna áranna 2015-2019 ásamt starfsáætlun fyrir árið 2014. Ennfremur lögð fram að nýju kynning sviðsstjóra frá fundi velferðarráðs sem haldinn var þann 19. júní 2014. Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri Velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu. Börkur Gunnarsson tók sæti á fundinum kl. 13.10. Kristín Elfa Guðnadóttir tók sæti á fundinum kl. 13.20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Velferðarþjónustan í Reykjavík stendur á tímamótum. Þegar horft er nokkur ár fram í tímann er ljóst að mæta þarf þjónustuþörf stærri hlutfalls íbúa sökum öldrunar og að skort hefur á þjónustu við fatlaða sem og að þjónustan er ekki veitt með nógu sveigjanlegum og persónulegum hætti. Mjög mikla áherslu þarf að leggja á hvernig þjónustukerfið í Reykjavík þarf að breytast til að vera í stakk búið til að mæta þessu aukna álagi. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ætti meginverkefni sviðsins á næsta ári að vera að vinna áætlun um hvernig mæta þarf þessum óumflýjanlegu stóru breytingum. Ein af leiðunum er að horfa til velferðartækni. Nauðsynlegt er að innleiða skýra áætlun um hvernig hægt er nýta tækifæri sem felast í rafrænum og tæknilegum lausnum. Dæmi eru um að í stað næturvaktar sé hægt að nota hreyfiskynjara til að veita nauðsynlegt eftirlit án þess að inn á heimilum þurf að vera með fasta viðveru. Slíkt er líka í takt við óskir notenda. Mörg dæmi eru um að rafræn samskipti geti vel komið í stað raunheimsókna og geti veitt mikinn stuðning með mun minni tilkostnaði. Þannig er einnig hægt að veita fleira fólki þjónustu. Ljóst er að þarna liggja gríðarleg tækifæri. Í áherslunum kemur fram að á dagskrá sé stöðug umbóta- og gæðavinna til að auka hagkvæmni, skilvirkni og fagleg vinnubrögð en því miður er framsetningin hér ekki nægilega sannfærandi. Taka þarf verkefnið mun alvarlegar því hætta er á því að velferðarþjónustan í Reykjavík bíði annars skipbrot. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun: Það er rétt að velferðarráð og Velferðarsvið þurfa að hafa það sem eitt af sínum meginverkefnum á næstu árum að ákvarða þjónustustig og forgangsraða fjármunum betur þannig að þeir nýtist fyrst þeim sem eru í mestri þörf hverju sinni. Mikilvægt er að Velferðarsvið vinni áfram að notkun og þróun tæknilausna fyrir aldrað og fatlað fólk sem þarf aðstoð til að geta lifað sjálfstæðu lífi. Nú hefur velferðarráð lagt til að Velferðarsvið taki þátt í nýsköpunarverkefni höfuðborga á Norðurlöndunum á sviði tæknilausna í velferðarþjónustu. Fulltrúar meirihlutans taka undir mikilvægi þess að horfa frekar til tæknilegra lausna í velferðarþjónustu, enda virðist það vera það sem fólk vill.
2. Lögð fram fundaáætlun velferðarráðs fyrir ágúst til desember 2014.
3. Lagt fram til kynningar minnisblað um samstarfsverkefni höfuðborgar Norðurlanda vegna Nordic Innovation 2014 -2017. Jafnframt var kynnt niðurstaða ráðstefnu um tæknilausnir í velferðarþjónustu sem haldin var á Akureyri í byrjun júní 2014. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir minnisblaði um Nordic Innovation. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra kynnti niðurstöðu ráðstefnu um tæknilausnir í velferðarþjónustu. Samþykkt var að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Velferðarráð felur Velferðarsviði að vinna að undirbúningi fræðsluferðar til að kynnast þróun þjónustu og notkun tæknilausna í þjónustu fyrir aldraða og fatlaða með það að markmiði að auðvelda þeim hópum að lifa sjálfstæðu lífi. 4. Kynnt minnisblað um næstu skref um samþættingu heimaþjónustu fyrir Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu. 5. Kynnt staða í búsetumálum geðfatlaðra. Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Björk Vilhelmsdóttir vék af fundi kl. 15.52. Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti á fundinum kl. 15.52. 6. Lögð fram til upplýsingar skýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga frá maí 2014 um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Enn fremur lagt fram minnisblað Velferðarsviðs, dags. 21. júní 2014. Sviðsstjóri Velferðarsviðs og skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerðu grein fyrir málinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Sjálfstæðismenn í velferðarráði hafa síðustu ár bent ítrekað á nauðsyn þess að beita skilyrðingum til að hvetja fólk til að taka þátt í virkniverkefnum og til að styrkja það til að sækja út á vinnumarkaðinn. Mikilvægasta markmiðið er að hvetja fólk til sjálfsbjargar og hvetja það til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Mjög alvarlegt ástand er í Reykjavík hvað fjárhagsaðstoðina varðar en mikill fjöldi þarf á henni að halda. 70% þeirra er fólk yngra en 40 ára og stærsti hópurinn er ungt fólk á aldrinum 18-25 ára. Því er mikilvægt að nýta allar þær leiðir sem geta leitt til þess að losa fólk úr vítahring fátæktar. Reykvíkingar verja miklu mun meira af skatttekjum sínum í fjárhagsaðstoð en íbúar í öðrum sveitarfélögum. Á meðan fjölgar starfandi fólki í Reykjavík ekki eins hratt og annars staðar á landinu. Afleiðingarnar eru því gríðarleg uppsöfnun velferðarvanda. Mjög mikilvægt er að taka upp allar þær aðferðir sem sýnt er að hafi áhrif á virkni til velferðar en ljóst er að skilyrðingar skipta máli en í skýrslunni segir: „Samdóma niðurstaða þeirra heimilda sem skoðaðar voru er að skilyrðingar hafa ótvíræð áhrif við að hvetja þá einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð og á annað borð geta unnið til að leita sér að launavinnu. Sérstaklega er þetta talið mikilvægt þegar um ungt fólk er að ræða. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar , Vinstri grænna og Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun: Fulltrúar meirihluta velferðarráðs ítreka það að áhersla verði lögð á einstaklingsbundinn stuðning til sjálfshjálpar og virkni. Þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar verði boðin tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Vinnufærum einstaklingum verði fundin störf í samvinnu við atvinnulífið eftir því sem kostur er. Sérstaka áherslu þarf að leggja á virkni og forvarnir meðal ungs fólks. Reglur og fyrirkomulag fjárhagsaðstoðar þarf að endurskoða reglulega með það í huga að að stuðningurinn komi til móts við þarfir og efli og hvetji þá sem hann nota. Efla þarf notendasamráð og rannsaka hópinn betur þannig að hægt sé að bregðast við með viðeigandi aðstoð og úrræðum. Fjölmörg góð verkefni eru í gangi til að virkja notendur fjárhagsaðstoðar á borð við Grettistak, Kvennasmiðju, Stíg og Atvinnutorg en mikilvægt er að efla og styrkja notendur fjárhagsaðstoðar á einstaklingsgrundvelli. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Athyglisvert er að nýr meirihluti virðist ekki geta tekið undir niðurstöður skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Bókunin gefur til kynna að ekki sé á dagskrá að taka upp skilyrðingar á kjörtímabilinu. Á fyrra kjörtímabili voru fulltrúar meirihlutans og Sjálfstæðisflokkur á sama máli um mikilvægi þess að nýta skilyrðingarnar þar sem við á. Nú er ljóst að Samfylking og Björt framtíð hafi skipt um skoðun. Slík U-beygja hjá þeim flokkum er engan veginn í takt við hagsmuni borgarbúa allra.
7. Kynnt minnisblað með niðurstöðum MA verkefna vegna átaksverkefnanna Grettistaks og Kvennasmiðju. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu. Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun: Velferðarráð fagnar góðum árangri af átaksverkefnum Grettistaks og Kvennasmiðju. Mikilvægt er að efla fyrirliggjandi virkniúrræði og halda áfram að þróa ný úrræði til þess að auka lífsgæði þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar til reglulegrar virkni. Hvatning og stuðningur við notendur skiptir þar lykilmáli. Mikilvægt er að efla áfram notendasamráð við hópinn og efla rannsóknir á honum til þess að hægt sé að bregðast við með viðeigandi aðstoð og úrræðum. 8. Kynning á leiðbeiningum um ritun fundargerða sveitarstjórna og á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu og sviðsstjóri Velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu. 9. Lögð fram til upplýsingar skýrsla Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um framkvæmd styrkjareglna á árinu 2013. Sviðsstjóri Velferðarsviðs og skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerðu grein fyrir málinu.
10. Lögð fram að nýju tillaga að breytingum á reglum velferðarráðs um styrki. Tillagan var samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum. 11. Lagðar fram til kynningar lykiltölur Velferðarsviðs fyrir mars 2014.
12. Lagður fram til kynningar samningur við Nýtt takmark- áfangaheimili. Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu. Fundi slitið kl. 16.20
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Eva Einarsdóttir (sign) Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir (sign)
Magnús Már Guðmundsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)