Velferðarráð - Fundur nr. 238

Velferðarráð

Ár 2014, fimmtudaginn 10. apríl var haldinn 238. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.08 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Hjálmar Sveinsson, Ragnar Hansson, Áslaug  María Friðriksdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Árni Múli Jónasson, Kristjana Gunnarsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf velferðaráðuneytisins, dags. 26.mars 2014, varðandi niðurstöður nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir ásamt skýrslu starfshóps um málið og minnisblaði Velferðarsviðs, dags. 10. apríl 2014.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og Helga Jóna Sveinsdóttir, deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur, sátu fundinn undir þessum lið og gerðu grein fyrir málinu. Jafnframt lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. apríl 2014, varðandi kynningu á niðurstöðum nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð vill sinna börnum í fjölþættum vanda og fagnar því að ábyrgðin verði skýr og á einni hendi. Það er hins vegar skýr krafa Reykjavíkurborgar að fjármagn komi til viðbótar frá ríkinu til að borginni sé unnt að sinna þessari og annarri nauðsynlegri þjónustu við fatlaða íbúa borgarinnar. Nú liggur fyrir að sveitarfélögunum beri að sinna börnum með fjölþættan vanda skv. niðurstöðum stafshóps sem vann á vegum velferðarráðuneytisins og er nú lögð fyrir velferðarráð. Í bréfi velferðarráðuneytisins sem kynnir tillögur til framtíðar segir að; “kostnaður sveitarfélaganna vegna aukinnar þjónustu sem í tillögum starfshópsins felst, verði tekinn til sérstakrar athugunar í endurskoðun á yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks.“ Endurskoðuninni mun ekki ljúka fyrr en haustið 2014 og því gengur það álit Barnaverndarstofu sem fram hefur komið að sveitarfélögin taki við nú þegar, ekki upp. Það þarf að innleiða allar tillögurnar sem kynntar eru samtímis t.d. skipan sérfræðiteymis þvert á samstarfsstofnanir. Gert er ráð fyrir töluverðu samstarfi sveitarfélaganna við BUGL, Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og heilsugæsluna. Báðir aðilar verða að standa við sitt og ekki vísa hver á annan. Reykjavíkurborg mun ekki líða að ríkið dragi úr sinni þjónustu eins og nýlega hefur verið gert í Þroska og hegðunarmiðstöð heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu – þegar gert er ráð fyrir snemmtækri íhlutun heilsugæslunnar skv. þessum tillögum í málum barna með sérþarfir. Samband íslenskra sveitarfélaga segir í sínu bréfi að það sé löngu orðið tímabært að ráðast í heildstæða stefnumótun á sviði barnaverndarmála þar sem hugað verði sérstaklega að því hvaða úrræði þurfa að vera í boði til þess að Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Velferðarráð tekur undir þetta álit og Reykjavíkurborg lýsir sig reiðubúna til að koma inn í þá vinnu sem fyrirhuguð er í þessu sambandi. 

2. Lagt fram til kynningar minnisblað vegna breytingar á sértæku húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk að Sogavegi.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram greining á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna telur mikilvægt að unnið verði að trúverðugri uppbyggingaráætlun á félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík til að bregðast við vanda þeirra sem metnir eru í brýnni þörf. Mest er þörfin fyrir 1-2 herbergja íbúðum. Ljóst er að þær 30 íbúðir sem nú er áætlað að bæta við eignasafn Félagsbústaða árlega dugar skammt til að vinna á þessum uppsafnaða vanda. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hvetur til að unnin verði raunhæf uppbyggingaráætlun til að vinna bug á biðlistunum. Núverandi aðgerðum borgarinnar í eflingu almenns leigumarkaðar ber að fagna en ljóst er að slík uppbygging kemur ekki í stað uppbyggingar félagslegs leiguhúsnæðis fyrir þá sem metnir eru í brýnni þörf og mikilvægt að vinna að því samhliða annarri uppbyggingu. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Bygging Reykjavíkurhúsanna, sem samþykkt voru í borgarráði í morgun, mun ekki einungis efla almennan leigumarkað, heldur mæta þörfum þeirra sem verst eru settir og fá úthlutað húsnæði á vegum Velferðarsviðs borgarinnar. 

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun: 

Sjálfstæðismenn í velferðarráði taka undir að nauðsynlegt er að fjölga íbúðum fyrir þennan hóps sem verst stendur. Uppbygging á þessu kjörtímabili hefur verið alltof lítil. Þá styðjum við ekki þann hluta uppbyggingaráætlunar sem fyrir liggur og kallast "Reykjavíkurhúsin". Vegna þess að þar er gert ráð fyrir að bæta við 100-150 íbúðum fyrir hóp sem kallast "efnaminni" sem er engan veginn eins illa staddur og sá hópur sem er á biðlistum eftir félagslegu húsnæði í stað þess að fjölga íbúðum fyrir þá sem verst standa. Með þessu er verið að bæta við nýjum félagslegum hópi í Reykjavík.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: 

Fulltrúi Vinstri grænna fagnar fyrirhuguðu verkefni um Reykjavíkurhúsin. Það hefur þó verið skilningur fulltrúans að um tilraunaverkefni væri að ræða og því ekki hægt að halda því fram að það verkefni geti komið í stað uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði þegar biðlistar eru langir og margir metnir í brýnni þörf.

4. Kynnt bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7 apríl, um tillögu að samkomulagi um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, auk fylgigagna. 

Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

Málinu er frestað og verður tekið fyrir næst á fundi velferðarráðs þann 30. apríl n.k.

5. Lögð fram nýju aðgerðaáætlun vegna stefnu í málefnum utangarðsfólks.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

6. Lagt fram minnisblað um tilraunaverkefni um endurhæfingu í heimahúsi. 

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytið eru að fara af stað með tilraunaverkefnið „Endurhæfing í heimahúsi“. Markmið þess er að gera eldri borgara færari um það sem þeir sjálfir vilja, það er að sjá um sig sjálfir t.d. varðandi þrif á eigin heimili og böðun. Verkefnið er byggt upp að Danskri fyrirmynd frá Fredericia „længst muligt í eget liv“ sem hefur fengið fjölda viðurkenninga og verðlauna, nú síðast 2012 sem besta verkefnið af 233 í 24 löndum. Það er gaman fyrir Reykjavíkurborg að taka þátt í þessu þróunarstarfi með ríkinu og við óskum þeim eldri borgurum í Reykjavík sem munu taka þátt fyrirfram til hamingju. 

7. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur á grundvelli styrkveitingar um þjónustu Félags eldri borgara við aldraða Reykjavíkinga, dags. 3. apríl 2014.

8. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur á grundvelli styrkveitingar við Rauða krossinn í Reykjavík um frú Ragnheiði vegna þjónustu við einstaklinga sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda og/eða eiga við geðræna eða félagslega erfiðleika að stríða, dags. 26. mars 2014.

9. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur við Einhverfusamtökin á grundvelli styrkveitingar til rekstur sumarnámskeiðs fyrir unglinga á einhverfurófi, dags. 26. mars 2014.

10. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur við Fjölskylduhjálp Íslands á grundvelli styrkveitingar um aðstoð við fólk í erfiðleikum, dags. 3. apríl 2014.

11. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur við Félag heyrnarlausra á grundvelli styrkveitingar um þjónustu við heyrnarlausa íbúa sem eru með lögheimili í Reykjavík, dags. 4. apríl 2014.

12. Lagðar fram tillögur um úthlutun Hvatningarverðlauna velferðarráðs fyrir árið 2013.

Tillögurnar voru samþykktar samhljóða.

13. Kynning á hugbúnaðarlausninni Qlik View.

       Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar kynnti málið.

Fundi slitið kl. 15.05

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Diljá Ámundadóttir (sign) Hjálmar Sveinsson (sign)

Ragnar Hansson  (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)