Velferðarráð - Fundur nr. 232

Velferðarráð

Ár 2014, fimmtudaginn 6. febrúar var haldinn 232. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Sverrir Bollason, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist :

1. Kynnt staða breytinga á Velferðarsviði vegna nýs skipurits sem tók gildi þann 1. janúar 2014.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 24. október sl., þar sem óskað er umsagnar velferðarráðs um tillögu stýrihóps borgarráðs um innleiðingu húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, dags. 14. október 2013, um nýju Reykjavíkurhúsin – samstarf um uppbyggingu leiguhúsnæðis, ásamt fylgigögnum. Á fundi velferðarráðs þann 7. nóvember sl. var samþykkt að vísa málinu til frekari vinnslu á Velferðarsviði. Jafnframt er lögð fram umsögn Velferðarsviðs um tillögu um nýju Reykjavíkurhúsin.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn velferðarráðs:

Velferðarráð telur markmið um blöndun leiguhúsnæðis vera jákvæð en spurning er hvort ekki þurfi fjölbreyttari húsagerðir til að ná slíku fram og þá jafnvel blöndun með séreignarhúsnæði. Áætlun um byggingu 400 til 800 leiguíbúða á næstu 5 til 10 árum uppfyllir hinsvegar alls ekki þarfir. Á það er bent að Alþýðusamband Íslands áætlar að þörf sé fyrir allt að 26.000 íbúðir fyrir sértæka hópa vegna félagslegs húsnæðis á Íslandi til þess að standast sömu viðmið og hin Norðurlöndin. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að 25% íbúðanna eða 100 til 200 íbúðir verði úthlutað til þeirra sem eigi skilgreindan rétt til félagslegs leiguhúsnæðis. Biðlistar eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík eru að lengjast og nú er beðið er eftir 845 almennum íbúðum og 252 þjónustuíbúðum, alls 1097 félagslegum íbúðum. Áætlunin mun því alls ekki gagnast þeim sem ekki geta séð sjálfum sér farborða í húsnæðismálum en þegar Félagsbústaðir voru stofnaðir árið 1999 var áætlað að byggja 100 íbúðir á ári þar til þörfinni væri mætt. Megin- ástæðan fyrir svo löngum biðlista nú er sú að á þessu kjörtímabili hefur í eignasafni Félagsbústaða aðeins fjölgað um 75 íbúðir. Það er því einboðið að megináhersluna verður að leggja á fjölgun félagslegra íbúða til handa þeim sem ekki eru taldir geta séð sér farborða í húsnæðismálum. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að 25% leigjenda verði lágtekjufólk sem þó er með tekjur yfir viðmiðunarmörk þeirra sem geta fengið leigt hjá Félagsbústöðum. Það er því ljóst að gangi áætlunin eftir verður stórum hluta þeirra sem lægstu tekjurnar hafa, hafnað á kostnað þeirra sem hafa hærri tekjur. Þetta þjónar ekki markmiðum sveitarfélagsins gagnvart þeim sem í verstri stöðu eru og er því lagt til að skerðingarmörk tekju og eigna verði hækkuð, þannig að stærri hópur komi til greina. Athygli er einnig vakin á því að þær 50% íbúða sem áætlað er að leigðar verði verði út af Félagsbústöðum eru minnstu íbúðirnar og íbúar þeirra því aðeins 40% af íbúum húsanna. Í áætluninni er reiknað með 3,5% verðtryggðum vöxtum til 50 ára fram í tímann sem teljast verða okurvextir. 1% verðtryggðir vextir væri ásættanlegt þegar um er að ræða lán vegna félagslegs húsnæðis. Borgin á að stuðla að víðtæku átaki til að lækka framkvæmdakostnað og fjármagnskostnað varanlega og ná vöxtum á íbúðalánum allra niður fyrir 2% umfram verðbólgu, miðað við 75% veðhlutfall. Þannig skapast einnig forsendur fyrir því að húsnæðissamvinnufélög með leigu og búseturéttaríbúðir geti orðið alvöru valkostur. Mikilvægt er að í stefnunni verði það útilokað að einkaaðilar í hagnaðardrifinni starfsemi fái ívilnanir af nokkru tagi. Hagnaðardrifin leigufélög eiga ekki og mega ekki fá lán hjá Íbúðalánasjóði. Það er umhugsunarvert, hvers vegna það er áætlað að greiða upp öll lán vegna uppbyggingarinnar á 40-50 árum og spurning hvort ekki sé rökrétt að eign í góðu ástandi beri lán eftir 50 ár?  

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu að umsögn velferðarráðs:

Uppbygging leigumarkaðar í Reykjavík er forsenda fyrir enn blómlegri byggð í framtíðinni. Velferðarráð er því afar ánægt með það átak í uppbyggingu sem fyrirhugað er með Nýju Reykjavíkurhúsunum. Tryggja þarf félagslega blöndun í stærri fjölbýlum eins og gert er ráð fyrir í tillögum Félagsbústaða. Nýju Reykjavíkurhúsin eru ekki bara að bæta við íbúðum sem Velferðarsvið úthlutar í, heldur leiguíbúðum fyrir stúdenta, aldraða, fatlað fólk og almennan leigumarkað. Heildaruppbygging leiguhúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila verður 2500 – 3000 íbúðir á næstu 5 árum. Auk þess mun almennur húsnæðismarkaður vafalaust byggja fyrir nýjar þarfir fólks. Heildarfjölgun íbúða mun hugsanlega draga úr eftirspurn eftir íbúðum ætluðum þeim sem eru félagslega verst settir. Best er þegar húsnæði er ekki skilgreint eftir því hvaða þjóðfélagshópur býr þar af stórum hluta, enda eru fasteignir í sjálfu sér hvorki félagslegar eða ætlaðar sérstökum hópum fólks. Blöndun er góð og kemur í veg fyrir vanda.

Velferðarsvið vann umsögn að beiðni velferðarráðs sem ráðið óskar eftir að fylgi þessari umsögn. 

Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir því að umsagnartillaga hans fari til borgarráðs með umsögn meirihlutans.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 24. október sl., þar sem óskað er umsagnar velferðarráðs um tillögu stýrihóps borgarráðs um innleiðingu húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, dags. 14. október 2013, um eigendastefnu fyrir Félagsbústaði hf. Á fundi velferðarráðs þann 7. nóvember sl. var samþykkt að vísa málinu til frekari vinnslu á Velferðarsviði. Jafnframt er lögð fram umsögn Velferðarsviðs  um eigendastefnu Félagsbústaða hf.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn:

Velferðarráð telur rétt að Félagsbústaðir hf. verði færðir aftur í aðalsjóð borgarinnar þannig að reksturinn verði ekki lengur aðgreindur frá borgarkerfinu. Reykjavíkurborg verði þannig beinn rekstraraðili og ekki verði lengur um hlutafélag að ræða. Áfram verði strangt eftirlit með gæðum þjónustunnar, aðhald að rekstri og kostnaður, árangur og ábyrgð sýnilegur. Með þessu móti þarf ekki sérstaka eigendastefnu fyrir félagið.

Tillagan var felld með fimm atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu að umsögn:

Velferðarráð fagnar því að eigendastefna sé sett um Félagsbústaði enda í samræmi við þverpólitískan vilja borgarstjórnar. Velferðarsvið leggur fram nokkrar ábendingar í sinni umsögn, sem velferðarráð tekur undir. 

Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir því að umsagnartillaga hans fari til borgarráðs með umsögn meirihlutans.

4. Lögð fram að nýju stefna í málefnum utangarðsfólks 2014-2018, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 19. desember 2013.

Enn fremur lögð fram umsögn Raddarinnar-baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks.

Heiða Kristín Helgadóttir gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að öll gögn varðandi málið verði gerð opinber og óskað eftir umsögn hagsmunaaðila og almennings. 

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Í vinnu starfshópsins var lögð rík áhersla á að hitta og ræða við fjölbreyttan hóp aðila sem tengjast málaflokki utangarðsfólks. Við fögnum því að fá umsögn Raddarinnar sem eru samtök sem voru stofnuð eftir að vinnu starfshópsins lauk. Við munum nú vinna að því að reyna að koma til móts við þá liði sem við getum, eins og orðalag og svara þeim spurningum sem varpað er fram í umsögninni. 

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Þegar starfshópur um stefnu í málefnum utangarðsfólks hóf störf var tekin ákvörðun um að öll vinnan yrði opin og gögn, aðgengileg á vef borgarinnar. Þetta var ekki gert. Þegar starfshópurinn skilaði af sér, lagði fulltrúi Vinstri grænna til að tillögurnar færu til umsagna þeirra sem heimsóttu hópinn en um er að ræða hagsmunaaðila og starfsfólk sem kemur að þjónustu við utangarðsfólk.

Sú tillaga hefur ekki verið tekin til afgreiðslu. Velferðarráðsfulltrúi VG hefur áður, munnlega lagt til að tillögurnar verði gerðar opinberar og aðgengilegar af hálfu velferðarráðs og óskar nú eftir því skriflega. Þessu hefur verið hafnað. Meirihluti velferðarráðs hefur ekki gert neina tilraun til að gera umræddar tillögur aðgengilegar eða óskað umsagna. Gögn sem lögð eru fram í borgarstjórn geta varla talist aðgengileg almenningi enda fara borgastjórnarfundir fram á virkum dögum. Umfjöllun í fjölmiðlum hefur verið nokkuð einhliða og þar hafa aðeins birst einstaka tilvitnanir í tillögurnar. Í umsögn sinni segir stjórn Raddarinnar – baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks að „Þó svo að ekki hafi borist formleg beiðni um umsögn um drög að stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2014-2018 tekur stjórn samtakanna sér það bessaleyfi að veita hana. Að mati stjórnar Raddarinnar er það gagnrýnivert að velferðarráð hafi ekki séð til þess að stefnudrögin yrðu öllum aðgengileg og óskað eftir umsögnum.“

Enn fremur lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs frá 19. desember 2013:

Tillaga velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi stefnu í málefnum utangarðsfólks sem lögð er fyrir velferðarráð þann 19. desember 2013. 

Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að eftirfarandi rati í stefnu um málefni utangarðsfólks. 

a) Að tryggt verði að alltaf verði næg gistirými í neyðarskýlum borgarinnar.

b) Að til staðar verði nægt rými í þeim úrræðum sem borgin rekur fyrir utangarðsfólk og biðlistar verði ekki lengri en þrír mánuðir

c) Komið verði upp neyðarskýli fyrir utangarðsfólk sem hættir neyslu þannig að það þurfi ekki að vera innan um virka alkóhólista. Þessi aðstaða verði til staðar þar til önnur úrræði bjóðast.

d) Sett verði á fót úrræði fyrir tvígreindar konur og konur sem metnar eru með slík einkenni þó svo að þær hafi ekki verið greindar. 

e) Sett verði á fót úrræði fyrir framheilaskaðað utangarðsfólk. 

f) Sett verði á fót úrræði fyrir utangarðsfólk úr röðum eldri borgara.

g) Komið verði á fót samsvarandi gistiskýli fyrir konur og það sem stendur til að opna fyrir karla í vor.

h) Að fagfólk verði á öllum vöktum þar sem borgin rekur úrræði fyrir utangarðsfólk.

i) Að öll úrræði fyrir utangarðsfólk verði aðgengileg og þar á meðal gert auðvelt að baða fólk í hjólastól. 

j) Að sett verði í gang skipuleg forvarnarvinna, mönnuð tveimur stöðugildum af hálfu borgarinnar, í samvinnu við áfengis og geðbatteríið og markhópurinn verði þeir sem eru sjúkra- skrifaðir á fjárhagsaðstoð en samkvæmt rannsóknum telur þessi hópur sig, upp til hópa vera með áfengisvandamál.

k) Að þjónusta borgarinnar verði tekin út af þriðja aðila í samræmis við skilgreiningu Reykjavíkurborgar á mannréttindum utangarðsfólk 

l) Að stefnunni verði vísað til umsagnar þeirra hagsmunaaðila sem heimsóttu hópinn.

Afgreiðslu málsins er frestað.

5. Lögð fram til kynningar tíma- og verkáætlun fjármálaskrifstofu vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015 og fimm ára áætlunar 2015-2019.

6. Betri Reykjavík; við umönnun aldraðra þurfi að framvísa hreinu sakavottorði. Erindið var efsta hugmynd desembermánaðar 2013 í málaflokknum velferð á Betri Reykjavík. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð telur mikilvægt að starfsfólk sviðsins sem vinnur umönnunarstörf á heimilum þjónustuþega skili sakavottorði áður en það er ráðið til starfa. Tillögunni er því vísað til starfshóps borgarstjóra sem hefur það hlutverk að yfirfara verklag vegna ráðninga starfsfólks til umönnunarstarfa og til starfa með börnum og unglingum hjá Reykjavíkurborg. Starfshópurinn er að ljúka störfum í febrúar 2014 og mun skila af sér nýju verklagi sem felur í sér að óskað verði eftir upplýsingum úr sakaskrá fyrir starfsmenn sem ráða á til starfa við umönnun aldraðra á heimilum þess. Gert er ráð fyrir að nýtt verklag verður tekið upp á næstu vikum.

7. Lagt fram minnisblað frá Velferðarsviði um þjónustu- og öryggisíbúðir fyrir aldraðra janúar 2014.

Skrifstofustjóri skrifstofu „Þjónustunnar heim“ gerði grein fyrir málinu.

8. Styrkir og þjónustusamningar; Lögð fram að nýju tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga.

Lagt fram svar við eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 

16. janúar sl.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

1. Hvernig er metið, hvort þeir sem eru að fá styrki, hafi staðið við þau fyrirheit sem fram komu í styrkumsóknum síðasta árs ?  

2. Hvað er Hjálpræðisherinn að gera í Dagsetrinu sem borgin getur ekki gert sjálf? 

Sá hluti tillögunnar er varðar Dagsetur Hjálpræðishersins var fyrst borinn upp til 

atkvæða og samþykktur með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Aðrir liðir tillögunnar starfhópsins um endurnýjum þjónustusamninga, almenna

styrki og innri leigu  voru samþykktir samhljóða.

Áætlun um styrki til áfangaheimila var samþykkt samhljóða.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð samþykkir nú að veita á þessu ári styrki til 28 félagasamtaka um styrki og þjónustusamninga vegna ársins 2014 að upphæð 130 milljónir króna til velferðarmála í Reykjavík. Þessar styrkveitingar skila sér beint til borgarbúa með öflugu og óeigingjörnu starfi frjálsra félagasamtaka og eru þeim þökkuð störf þeirra í þágu fólksins í borginni. 

Velferðarráð samþykkti samhljóða eftirfarandi tillögu:

Velferðarráð leggur til að settur verði af stað starfshópur sem rýnir og metur reglur og ramma um styrkjaúthlutanir, áfangaheimili og þjónustusamninga Velferðarsviðs. Starfshópurinn mun vinna þetta með hliðsjón af styrkjahand-bókinni, sem var samþykkt 2011. Hópurinn verður samansettur af kjörnum fulltrúum og embættismönnum. 

9. Lögð fram til kynningar skýrsla Velferðarvaktarinnar útgefin í desember 2013.

Fundi slitið kl. 15. 20.

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Diljá Ásmundadóttir (sign)

Sverrir Bollason (sign) Sveinn H. Skúlason (sign)

Þorleifur Gunnlaugsson (sign)