No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2013, fimmtudaginn 19. desember var haldinn 230. fundur s og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2014. Sviðsstjóri og framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis gerðu grein fyrir málinu. Starfsáætlunin var samþykkt með tveimur atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
2. Kynnt staða mála vegna undirbúnings búsetuuppbyggingar í málefnum fatlaðs fólks. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Diljá Ámundadóttir tók sæti á fundinum kl.12.47.
Lárus Rögnvaldur Haraldsson tók sæti á fundinum kl.12.55.
3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga um breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg: Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu. Lagt er til að gerðar verði breytingar á 3. og 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er varða einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð á grundvelli læknisvottorðs.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar andstöðu sína við skilyrðingar á fjárhagsaðstoð og sér í lagi ef þeim verður beitt gagnvart sjúklingum úr röðum þeirra sem þurfa að draga fram lífið á aðstoð sem er fyrir neðan fátækramörk. Skerðingar af því tagi sem hér um ræðir, kalla á það að þeir sem þær fá verði útvegaður óvilhallur talsmaður en það er ekki tryggt með umræddum breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Með þessum breytingum er verið að vinna að því að hjálpa fólki af fjárhagsaðstoð til að bæta lífsgæði þeirra. Gerðar eru kröfur um að þeir sem fá fjárhagsaðstoð á grundvelli læknisvottorða vinni í að ná bata og sinni einstaklingsáætlun í samvinnu við félagsráðgjafa. Ef fólk neitar að sinna slíkri einstaklingsáætlun verður heimilt að skerða fjárhagsaðstoð í hámark tvo mánuði. Í þessum tilfellum verður stuðst við svokallað „Eigið mat á starfsgetu“ og ef fólk hefur veigamiklar ástæður gegn skerðingu fjárhagsaðstoðar, svo sem þegar um er að ræða mjög erfiðar félagslegar aðstæður, húsnæðisleysi og skyndileg áföll eins og skilnað, dauðsfall í fjölskyldu og erfiðleika barna verður tekið tillit til þess. Jafnframt getur verið um ræða veikindi sem eru þess eðlis að viðkomandi getur ekki sinnt einstaklingsáætlun tímabundið. Ákvörðun um skerðingu mun ætíð verða tekin á fagfundi þjónustumiðstöðva. Þeirri ákvörðun verður unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Frestur til að kæra ákvarðanir áfrýjunarnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er þrír mánuðir.
4. Lögð fram eftirfarandi tillaga að breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu. Lagt er til að gerð verði breyting á 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg varðandi einstaklinga sem afplána dóma.
Enn fremur lagt fram erindi umboðsmanns borgarbúa dags. 5. desember 2013 um reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
5. Lögð fram drög að stefnu í málefnum utangarðsfólks 2014-2018, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. september 2012. Heiða Kristín Helgadóttir, formaður hópsins, gerði grein fyrir málinu. Samþykkt var að vísa málinu til umræðu í borgarstjórn og til kynningar í borgarráði. Málið verði tekið fyrir að nýju í velferðarráði á næsta fundi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu: Tillaga velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi stefnu í málefnum utangarðsfólks sem lögð er fyrir velferðarráð þann 19. desember 2013. Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að eftirfarandi rati í stefnu um málefni utangarðsfólks.
a) Að tryggt verði að alltaf verði næg gistirými í neyðarskýlum borgarinnar. b) Að til staðar verði nægt rými í þeim úrræðum sem borgin rekur fyrir utangarðsfólk og biðlistar verði ekki lengri en þrír mánuðir c) Komið verði upp neyðarskýli fyrir utangarðsfólk sem hættir neyslu þannig að það þurfi ekki að vera innan um virka alkóhólista. Þessi aðstaða verði til staðar þar til önnur úrræði bjóðast. d) Sett verði á fót úrræði fyrir tvígreindar konur og konur sem metnar eru með slík einkenni þó svo að þær hafi ekki verið greindar. e) Sett verði á fót úrræði fyrir framheilaskaðað utangarðsfólk. f) Sett verði á fót úrræði fyrir utangarðsfólk úr röðum eldri borgara. g) Komið verði á fót samsvarandi gistiskýli fyrir konur og það sem stendur til að opna fyrir karla í vor. h) Að fagfólk verði á öllum vöktum þar sem borgin rekur úrræði fyrir utangarðsfólk. i) Að öll úrræði fyrir utangarðsfólk verði aðgengileg og þar á meðal gert auðvelt að baða fólk í hjólastól. j) Að sett verði í gang skipuleg forvarnarvinna, mönnuð tveimur stöðugildum af hálfu borgarinnar, í samvinnu við áfengis og geðbatteríið og markhópurinn verði þeir sem eru sjúkra- skrifaðir á fjárhagsaðstoð en samkvæmt rannsóknum telur þessi hópur sig, upp til hópa vera með áfengisvandamál. k) Að þjónusta borgarinnar verði tekin út af þriðja aðila í samræmis við skilgreiningu Reykjavíkurborgar á mannréttindum utangarðsfólk l) Að stefnunni verði vísað til umsagnar þeirra hagsmunaaðila sem heimsóttu hópinn. Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Í fylgiskjali nr. 1 er erindisbréf starfshóps sem vinni að nýrri stefnu í málefnum utangarðsfólks. Þar kemur fram að Heiða Kristín Helgadóttir fulltrúi Besta flokksins leiði hópinn og hópsstjóri beri ábyrgð á að kalla hópinn saman, sjá til þess að fundargerðir séu ritaðar og stýra vinnunni. Af þessu tilefni er spurt: 1. Hver er ástæðan fyrir því að engar fundargerðir eru til staðar síðan í maí 2013. 2. Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að setja allt efni sem viðkom vinnu hans á vef borgarinnar þannig að hún yrði öllum aðgengileg. Hver er ástæðan fyrir því að hópstjóri sá ekki til að þessu yrði framfylgt? 3. Samkvæmt erindisbréfi er Verkefni hópsins að gera stefnu í málefnum utangarðsfólks 2013 – 2017. Hver er ástæðan fyrir því að hér er verið að leggja fram tillögu að stefnu fyrri árin 2014 – 2018? Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: Stefna í málefnum utangarðsfólks 2008 – 2012 sem samþykkt var í velferðarráði 9. september 2008 og í borgarráði 18. september 2008 rann út í lok síðasta árs. Í þeirri stefnu voru settar fram tímasettar áætlanir um þjónustu við utangarðsfólk og tekin var ákvörðun um búsetuúrræði, svo sem færanleg hús í Vesturbæ og heimili fyrir karla og konur í neyslu í miðbæ en um þetta leyti var einnig fjölgað rúmum í gistiskýli fyrir karla. Þetta var gert með því fororði að koma ætti „í veg fyrir að fólk sofi utandyra“ Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna var skipaður í starfshóp til að gera stefnu um málaflokkinn fyrir árin 2013 – 2017. Hópurinn sem átti að skila af sér þann 31. mars sl. starfaði nokkuð vel framan af og fékk í heimsókn aðila sem koma að þjónustu við utangarðsfólk. Á þeim fundum fékkst það staðfest að skortur væri á afmörkuðum, einstaklingsbundnum úrræðum sem og rúmum í þeim úrræðum sem til staðar eru. Ábendingar þessar eru uppistaðan í þeim tillögum sem velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram í starfshópnum og síðan formlega á yfirstandandi fundi velferðarráðs. Á fundi starfshópsins, 28 október sl. lagði formaður hans fram nýja tillögu að stefnu í málaflokknum með því fororði að hún yrði endanleg tveimur dögum síðar og færi fyrir velferðaráð þann 7. nóvember. Við svo búið taldi fulltrúi Vinstri grænna einsýnt að ekki væri lengra komist að sinni og ljóst væri að stefnan innibæri engar skyldur hvað varðar ákveðin úrræði, eins og síðasta stefna gerði og ekki væri verið að setja fjármagn til forvarnavinnu. Þetta er staðfest í drögum að stefnu sem lögð er fram á yfirstandandi fundi velferðarráðs. Engar beinar tillögur eru gerðar sem hafa í för með sér ákveðin búsetuúrræði eða fjölgun rúma í þeim sem fyrri eru og vandlega er sneitt hjá öllu sem hefur í för með sér kvaðir um aukið kostnað. Stefnudrögin eru því ekki lögð fram í nafni velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna en vonast er til að tekið verði tillit til tillagna hans og að lokum verði ásættanleg stefna í málefnum utangarðsfólks samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Þessi drög að stefnu um utangarðsfólk, sem nú er lögð fram miða að því að fanga mjög flókinn málaflokk sem Reykjavíkurborg hefur lagt mikið kapp við að sinna vel - eitt sveitarfélaga á landinu. Mikil áhersla er lögð á að efla forvarnir til að forða fólki frá því að verða utangarðs. Þá er megináhersla lögð á öruggt húsnæði enda er það lykilatriði í því koma í veg fyrir húsnæðisleysi. Stefnan er nú gerð opinber og fer í umræðu í borgarstjórn. Þá geta aðrir aðilar komið með athugasemdir við hana fram í miðjan janúar.
6. Lagt fram erindi frá Stígamótum dags. 9. desember s.l. um breytingar í rekstri Stígamóta. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu. Samþykkt var að vísa erindinu til Velferðarsviðs og vinnuhóps um styrki til frekari vinnslu.
7. Lagt fram bréf Geðverndarfélagsins dags. 3. desember s.l. um áfangaheimilið að Álfalandi 15. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu. Samþykkt var að vísa erindinu til Velferðarsviðs til frekari vinnslu.
8. Lagðar fram lykiltölur Velferðarsviðs janúar – október 2013. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
9. Lagðar fram upplýsingar frá borgarráði um breytingu á fjárhagsramma Velferðarsviðs 2013 vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks og niðurgreiðslu strætis og fjármögnunar á niðurgreiðslu strætisvagnagjalda fyrir aldraða og öryrkja.
10. Lagt fram til kynningar bréf Umboðsmanns borgarbúa dags. 27. nóvember s.l. er varðar tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð.
11. Lagður fram til kynningar samningur Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Lárus Rögnvaldur Haraldsson vék af fundi kl. 14.17.
Sverrir Bollason tók sæti á fundinum kl. 14.17.
Velferðarráð óskar eftir því að stöðumat verði gert á samningnum um mitt næsta ár og skoðað verði hvernig til hafi tekist, bæði með tilliti til þjónustu og fjármagns.
12. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um kennslu og rannsóknir á sviði velferðarmála. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
13. Lagður fram til kynningar samningur Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um sameiginlegt þjónustusvæði bakvakta barnaverndar. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
14. Lögð fram til kynningar samþykkt borgarstjórnar um nýtt skipurit fyrir Velferðarsvið.
15. Lögð fram til kynningar samþykkt borgarráðs um Vatnsstíg 12 – bráðabirgðagistiskýli.
16. Lögð fram til kynningar samþykkt borgarráðs um húsnæði fyrir Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða.
17. Lagt fram svar við fyrirspurn velferðarráðs frá fundi ráðsins 21. nóvember s.l. þar sem óskað er eftir upplýsingum um hversu margir íbúar búa í þjónustuíbúðum Velferðarsviðs sem hafa verið metnir í þörf á hjúkrunarrými af Færni- og heilsufarsnefnd höfuðborgarsvæðisins.
Fundi slitið kl. 15.03
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Heiða K. Helgadóttir (sign) Sverrir Bollason (sign)
Diljá Ámundadóttir (sign) Áslaug Friðriksdóttir (sign)
Sveinn H. Skúlason (sign) Þorleifur Gunnlaugsson (sign)