Velferðarráð - Fundur nr. 223

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 10. október var haldinn 223. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Karl Sigurðsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 2. október s.l., þess efnis að Sveinn Skúlason taki sæti í velferðarráði í stað Jórunnar Frímannsdóttur og að Jarþrúður Ásmundsdóttir taki sæti Sveins sem varamaður í velferðarráði.

2. Lögð fram endurskoðuð tímaáætlun vegna vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árin 2014-2018.

3. Lagt fram bréf frá Spörvari-líknarfélagi Reykjavíkur, dags. 14.september s.l., þar sem óskað er eftir styrk vegna reksturs Draumaseturs - Áfangahúss fyrir árið 2013.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Spörvar líknarfélag gæti fengið styrk fyrir síðari hluta ársins 2013 í samræmi við reglur um styrki til áfangaheimila og innan ramma fjárheimilda vegna styrkja til áfangaheimila ef viðeigandi gögnum er skilað. Velferðarsviði er falið að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum um Draumasetrið til að uppfylla skilyrði um styrkveitingu ssmkvæmt þeim reglum.
Enn á ný ítrekar velferðarráð Reykjavíkurborgar mikilvægi þess að velferðarráðuneytið setji skilyrði til þeirra sem vilja opna og reka velferðarþjónustu eins og áfangaheimili fyrir fólk með fíknisjúkdóma.

Sverrir Bollason tók sæti á fundinum kl.13.12.

4. Kynning á aðgerðaáætlun vegna fjárhagsaðstoðar sem unnin var af starfshópi á vegum Velferðarsviðs, Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og Fjármálaskrifstofu borgarinnar.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir og Jón Viðar Pálmason, starfsmenn á Velferðarsviði sátu fundinn undir þessum lið.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna þakkar starfshópnum fyrir ágæta vinnu en varar við hugmyndum hans um reglur sem heimila skerðingar á fjárhagsaðstoð til sjúklinga með gild læknisvottorð. Hinsvegar er eindregið hvatt til þess að viðkomandi fái alla þá aðstoð sem unnt er að veita þannig að þeir nái bata sem fyrst.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Stærstu mistök meirihlutans í Reykjavík komu fram í upphafi kjörtímabilsins þegar hann ákvað að hækka fjárhagsaðstoð þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt myndi draga úr fjárhagslegum hvata fólks til að fara út á vinnumarkað. Með slíkri aðgerð var í raun óumflýjanlegt að þeir sem eru á lægstu launum sjái lítinn tilgangi í því að vinna þegar hægt er að sleppa því og hafa sömu ráðstöfunartekjur. Ef kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar er skoðaður er ljóst að hver fjölskylda í Reykjavík greiðir nú 250#PR meira vegna þessa vanda en árið 2008 og í samanburði við Akureyri greiðir hver fjölskylda a.m.k. 440#PR hærra í Reykjavík en þar. Stefna meirihlutans hefur því verið sú að byrja á því að auka á vandamálið og hefja svo síðar vinnu við að leita lausna til að leysa málin.
Vegna fjárhagsaðstoðar eingöngu:
52.186 kr. á fjölskyldu í Reykjavík á ári 2008 á föstu verðlagi
130.475 kr. á fjölskyldu í Reykjavík skv. áætlun árið 2013
29.831 kr. á fjölskyldu á Akureyri skv. áætlun 2013
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað allt kjörtímabilið stutt allar hugmyndir um aukna virkni fólks og að mikilvægt sé að gera allt til að grípa inn í vandann sem blasir. Eins hafa fulltrúarnir ítrekað bent á nauðsyn þess að skilgreina hvaða skyldum þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar eiga að gegna í þeim tilgangi að hægt væri að nýta þann mannauð sem býr í atvinnulausu fólki á fjárhagsaðstoð mun betur en nú er gert.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Markmið velferðarráðs er að fækka fólki á fjárhagsaðstoð, til að auka lífsgæði fólksins og sporna gegn útgjöldum. Ótal leiðir hafa verið farnar til að ná því markmiði á þessu kjörtímabili, svo sem eins og að bæta við ráðgjöfum, með virkninámskeiðum og opna Atvinnutorg sem hefur náð miklum árangri. Heildarupphæð fjárhagsaðstoðar hefur hækkað undanfarin ár, fyrst og fremst vegna aukins fjölda notenda. Aukinn fjöldi notenda fjárhagsaðstoðar helst í hendur við atvinnuleysistölur fyrst og fremst. Með minnkandi atvinnuleysi fer notendum fjárhagsaðstoðar einnig fækkandi en síðar þar sem vandi fólks á fjárhagsaðstoð verður með tímanum umfangsmikill. Samfara mikilli verðbólgu í kjölfar gengishruns krónunnar hefur kostnaður nauðsynja hækkað og ekki er forsvaranlegt að fjárhagsaðstoð nægi ekki fyrir einföldustu brýnu nauðsynjum. Varðandi gagnrýni fulltrúa Vinstri grænna er vert að taka fram að markmiðið er ekki að ganga á rétt sjúklinga heldur bjóða upp á endurhæfingu að bæta lífsgæði þeirra þannig að þeir geti náð bættri heilsu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að ekki er hægt að skýra það að kostnaðurinn í Reykjavík sé svo margfalt meiri vegna þátta eins og verðbólgu og gengishruns, því þessi þættir hafa sömu áhrif á öðrum sveitarfélögum. Ábyrgðin er meirihlutans í Reykjavík.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna var að vitna í eftirfarandi texta í skýrslu starfshópsins:
„Lagt er til að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð þannig að kröfur verði um að sjúklingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu vinni í að ná bata og sinni einstaklingsáætlun í samvinnu við félagsráðgjafa að öðrum kosti geti komið til skerðinga samanber 3. grein reglna um fjárhagsaðstoð.“

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna gerir pólitík út úr texta vinnuhóps sem leggur til frekari vinnu sem farið verður í. Ekki stendur til að skerða fjárhagsaðstoð til sjúklinga, nema fólk fái raunhæf endurhæfingartilboð sem eiga að nýtast viðkomandi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er ekki hægt að gagnrýna velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna fyrir að vara við hugmyndum sem birtast í tillögum starfshóps sem voru kynntar og til umræðu á fundinum. Um er að ræða tilvitnun í opinber gögn.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á málflutningi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hin mikla fjölgun fólks sem neyðist til að lifa á fjárhagsaðstoð kom í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og er í beinu samhengi við gríðarlega aukningu á atvinnuleysi sem á örfáum mánuðum jókst um meira en 700 #PR.
Hrunið skrifast fyrst og fremst á Sjálfstæðisflokkinn og í raun ættu fulltrúar hans, frekar að og biðjast afsökunar en að stilla upp kröfum um að fjárhagsaðstoðin verði lækkuð. Í stað þess beina Sjálfstæðismenn spjótum sínum að þeim sem helst þjást af völdum hrunsins og þurfa að draga fram lífið á skammarlega lágri fjárhagsaðstoð.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru að benda á að gæta verður þess að þeir sem neyðast til að lifa af lægstu launum sjái ekki hag sínum betur borgið með því að vera á bótum. Mjög mikilvægt er að jafnvægi ríki milli lægstu launa og bóta þannig að betra sé að vera á vinnumarkaði en ekki. Kostnaðurinn vegna vandans í dag skýrist ekki af fjölda bótaþega eingöngu heldur pólitískri stefnu meirihlutans.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er ekki hlutverk hins opinbera að styðja óprúttna atvinnurekendur í að greiða of lág laun.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
#GLÓprúttnir atvinnurekendur#GL segir allt sem segja þarf um bókun Vinstri grænna enda jaðarflokkur í Íslenskri pólitík.

5. Minnisblað um Atvinnutorg í Reykjavík lagt fram til kynningar.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði kynnti niðurstöðurnar.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar þeim árangri sem Atvinnutorg hefur náð meðal ungs atvinnulauss fólk í Reykjavík. Gæðin í starfinu eru mikil og það segir kannski mest að 68#PR þeirra sem ljúka Atvinnutorgi fara í vinnu eða nám. Það eitt og sér er frábært því lífsgæði þeirra sem eru atvinnulausir og óvirkir eru afar slæm. Ánægja notenda lýsir sér best í því að 92#PR þeirra sem ljúka starfinu þar vilja mæla með því við vini sína. Velferðarráð þakkar þeim sem hafa unnið á Atvinnutorgi fyrir framlag sitt til betra lífs í Reykjavík, bæði starfsfólki og notendum.

6. Rannsókn á afdrifum og viðhorfum ungmenna sem fengið hafa þjónustu Atvinnutorgs kynnt. Rannsóknin var unnin í samstarfi Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Reykjavíkurborgar. Enn fremur lögð fram samantekt á rannsókninni.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði kynnti niðurstöðurnar.

7. Skýrsla um yfirlit sumarstarfa hjá Reykjavíkurborg 2013 lögð fram til kynningar og kynnt sérstakt sumarátak atvinnumáladeildar Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og Velferðarsviðs árið 2013.
8. Kynnt bókhaldsstaða janúar – júlí 2013.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

9. Betri Reykjavík; styðjum börnin meira. Lögð fram efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík 31. júlí s.l. ásamt drögum að bókun.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins samþykktu eftirfarandi bókun:
Börn í Reykjavík eiga að búa við það öryggi að þau geti leitað eftir stuðningi og aðstoð hjá fullorðnu fólki sem þau treysta. Í Reykjavík starfar fagfólk á sex þjónustumiðstöðvum, hjá Barnavernd Reykjavíkur og í grunn- og leikskólum sem hægt er að leita til vegna bágborinna aðstæðna eða vanlíðunar og þar er hægt að fá ráðgjöf og stuðning. Hver sem er getur komið með ábendingu um þörf á aðstoð til þessara aðila.

10. Lögð fram að nýju, svo breytt, eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 5. september s.l.:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram tillögu um að Velferðarsvið skoði hvort innleiðing ávísunarkerfis sé fýsilegur kostur. Að hluta til nýtir Reykjavík sér slíkt fyrirkomulag með svokölluðum beingreiðslusamningum. Hagsmunasamtök fatlaðra og aldraðra hafa bent á að betur þurfi að koma til móts við kröfur um meira val, meiri sveigjanleika og þjónustu sem getur betur mætt þörfum þeirra sem á þurfa að halda. Mikilvægt er því að skoða og meta hvort innleiðing skilar hagræðingu. Skoða ætti afmörkuð verkefni eins og t.d. þrif í heimahúsum og aðra stuðningsþjónustu. Við matið ætti að horfa til tímagjalds þess sem tilraunaverkefnið um NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) byggir á auk þess þarf að meta þann kostnað sem sparast myndi vegna húsnæðis, starfsmannahalds og annarrar stjórnsýslu.

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

11. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 5. september s.l.:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd verði fengin til að kanna viðhorf samstarfsaðila Barnaverndar Reykjavíkur til stofnunarinnar og reynslu af samstarfinu. Með samstarfsaðilum er meðal annars átt við Barnaverndarstofu, meðferðaraðila, þá sem sinna þessum málum í þjónustumiðstöðvum, stuðningsforeldra, fósturforeldra og persónulega ráðgjafa. Enn fremur verði Rannsóknarstofnunin fengin til að kanna viðhorf notenda þjónustunnar, foreldra og ef til vill, barna.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Heiða Kristín Helgadóttir vék af fundi kl.14.55.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tillaga fulltrúa Vinstri grænna um að kanna viðhorf ýmissa samstarfsaðila og notenda Barnaverndar Reykjavíkur er hafnað. Barnavernd Reykjavíkur er eins og annað barnaverndarstarf undir eftirliti Barnaverndarstofu. Þaðan koma reglulega ábendingar sem unnið er eftir. Fyrr á þessu ári var kynnt skýrsla sem Rannsóknarstofnun í Barna- og fjölskylduvernd vann fyrir Barnaverndarstofu. Við það tilefni fundaði velferðarráð og barnaverndarnefnd borgarinnar með Barnaverndarstofu. M.a. komu fram ábendingar varðandi fjölda mála á ráðgjafa og talið brýnt að bæta þar úr. Strax í sumar var ráðinn einn starfsmaður til viðbótar og fyrirhugað er að ráða annan starfsmann um áramót auk þess sem staða sálfræðings hjá Barnavernd Reykjavíkur verður framlengd. Standa vonir til þess að með þessum aðgerðum takist að ná markmiðum Barnaverndarstofu um fjölda mála á ráðgjafa. Jafnframt hefur verið unnið að því að mæta öðrum ábendingum sem fram komu í skýrslunni, m.a. varðandi símenntun. Rétt er einnig að benda á að Barnavernd Reykjavíkur á reglulega samráðsfundi með ýmsum þeirra aðila sem tillagan nær til og er þess að vænta að á slíkum fundum sé einnig rætt um samstarf aðila á milli. Í ljósi þessa sem og að á árinu hefur verið unnið að því að mæta ábendingum í skýrslu Barnaverndarstofu og að fyrirhugaðar eru frekari aðgerðir, þykir rétt að leyfa þeim aðgerðum sem ákveðnar hafa verið að eiga sér stað og vonandi skila tilætluðum árangri áður en farið er út í frekari kostnaðarsamar kannanir.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á andvaraleysi meirihluta velferðarráðs þegar kemur að barnavernd í Reykjavík. Könnun meðal félagsráðgjafa og ráðgjafa Barnaverndar Reykjavíkur sem Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd framkvæmdi, leiðir í ljós að þrátt fyrir ákveðna styrkleika er um mjög alvarlegir veikleika að ræða sem bregðast þarf við hið fyrsta.
Þar sem starfsfólkið sjálft telur sig ekki geta veitt notendum nægjanlega þjónustu er það fullkomlega rökrétt að óháður aðili verði fenginn til að kanna viðhorf, samstafsaðila Barnaverndar Reykjavíkur til stofnunarinnar og þeirrar þjónustu sem hún veitir.
Á það er minnt að samkvæmt könnun Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, upplifir barnaverndarstarfsfólkið upp til hópa mikið vinnuálag, streitu og þreytu og þessir þætti séu að aukast samanborið við niðurstöður fyrri rannsókna. Allir svarendur fundu fyrir mjög eða frekar mikilli gremju og/eða vonleysi þar sem þeir töldu sig ekki geta veitt notendum viðeigandi þjónustu en til samanburðar sögðust rúmlega helmingur starfsmanna barnaverndar á Íslandi finna fyrir streitu/pirringi vegna þessa. Það hlýtur að teljast alvarlegt, að starfsmenn upplifi að geta ekki veitt viðeigandi þjónustu þegar notendur þjónustunnar eru börn í vanda. Mikið bar á sállíkamlegri vanlíðan og/eða óþægindum hjá starfsfólki og hátt hlutfall þeirra var í eða við kulnun. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna áréttar mikilvægi þess þess að einskis verði látið ófreistað til að leita skýringa á vandanum. Að leitað verði lausna og allar leiðir skoðaðar og þar á meðal breytt verkaskipting Barnaverndar Reykjavíkur og þjónustumiðstöðvanna, aukið fjármagn og afnám pólitískt skipaðrar barnaverndarnefndar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna talar um andvaraleysi meirihluta velferðarráðs í barnaverndarmálum. Því er mótmælt. Eins og fram kemur í opinberu minnisblaði frá febrúar þessa árs hefur frá árinu 2009 verið bætt við 5 stöðugildum, og markvisst bætt við fjármagni í úrræði barnaverndar. Á þessu ári hefur verið bætt við starfsmanni, framlengt stöðu sérfræðings og um nk. áramót er verið að bæta við 2 nýjum stöðugildum skv. fjárhagsáætlun sem afgreidd var í síðasta mánuði. Það verður að klára vinna úr ábendingum einnar úttektar áður en farið er í þá næstu.

12. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 16. september s.l.:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að þeir starfsmenn borgarinnar sem starfa reglulega á heimilum fólks skili sakavottorði áður en þeir eru ráðnir til þessa starfa hjá Reykjavíkurborg.

Velferðaráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð telur mikilvægt að starfsfólk sviðsins sem vinnur ummönnunarstörf á heimilum þjónustuþega skili sakavottorði áður en það er ráðið til starfa. Tillögunni er því vísað til starfshóps borgarstjóra sem hefur það hlutverk að yfirfara verklag vegna ráðninga starfsfólks til umönnunarstarfa og til starfa með börnum og unglingum hjá Reykjavíkurborg.

- Karl Sigurðsson vék af fundi kl. 15.32.

Fundi slitið 16.05

Björk Vilhelmsdóttir

Sverrir Bollason Áslaug María Friðriksdóttir
Sveinn H. Skúlason Þorleifur Gunnlaugsson