No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2013, mánudaginn 27. maí var haldinn 214. fundur s og hófst hann kl. 9.40 að Borgartúni 12-14. Mætt: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Lárus Rögnvaldur Haraldsson, Bjarnveig Magnúsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Birna Sigurðardóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynnt staða notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
Þórhildur G. Egilsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessu lið og gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að þeir hagsmunaaðilar sem komið hafa á fundi velferðarráðs til að fjalla um umrætt mál, verði boðið aftur á næsta fund ráðsins, til að ræða stöðuna.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er einstaklega ánægjulegt að nú er búið að gera 14 fjölbreytta samninga samkvæmt leikreglum tilraunaverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð. Með þeim verður vafalaust til víðtæk reynsla sem ætti að nýtast þegar unnið verður að frekari þróun og lagasetningu um NPA. Að sama skapi er að verða að veruleika hluti framtíðarsýnar Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk þ.e. að unnið skyldi að þróun notendastýrðar persónulegrar aðstoðar. Allir þeir sem unnið hafa að þróun verkefnisins og sýnt vilja sinn til að taka þátt í því eiga miklar þakkir skyldar. Nú er ljóst að 32 einstaklingar sem vildu taka þátt í verkefninu geta það ekki vegna fjármagnsskorts og er það miður. Þeir sem fengu ekki boð um þátttöku í verkefninu eru á biðlista og fáist meira fjármagn í tilraunaverkefnið geta fleiri tekið þátt. Velferðarráð beinir því þess vegna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkisvaldsins sem ber ábyrgð á skipulagi og leikreglum tilraunaverkefnisins, að til þess fáist meira fjármagn a.m.k. til þeirra sem eru tilbúnir til þátttöku í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur bætt sérstaklega inn í verkefnið rúmum 70 m.kr. þó ekki hafi verið gert ráð fyrir slíku í upphafi, enda gerði ríkið ráð fyrir að NPA yrði greitt með þeirri þjónustu sem félli niður. Raunin er að minna en helmingur fjármagns fæst með niðurlagningu fyrri þjónustu. Það þarf að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að tryggja að möguleikinn á að fá NPA verði sjálfsagður hluti af aðstoð og þjónustu við fatlað fólk til framtíðar. Á næstu dögum og vikum munu þátttakendur í tilraunaverkefninu í Reykjavík byrja nýtt sjálfstætt líf með NPA. Þeim sem enn eru á biðlista eftir NPA stendur áfram til boða hefðbundin þjónusta sem veitt er á þjónustumiðstöðvum borgarinnar, þar sem ávallt er leitast við að mæta þörfum íbúa eins og kostur er samkvæmt þeim reglum sem um þjónustuna gilda.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá og vísar til tillögu Vinstri grænna um að sótt yrði eftir því við borgarráð að veitt yrði fjármagn til að allir umsækjendur fengju að taka þátt í tilraunaverkefninu. Einnig minnir fulltrúi Vinstri grænna á hjásetu þegar málið var afgreitt en hjásetan var byggð fyrst og fremst á því að mörgum var hafnað. Þessu til viðbótar hefur verið samþykkt að kalla hagsmunaaðila til fundar og þykir velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna rétt að bíða með gildishlaðna bókun þar til sá fundur hefur farið fram.
2. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Velferðarsviðs um rekstraraðila Konukots:
Lagt er til að samið verði við Reykjavíkurdeild Rauða krossinn (RRKÍ) vegna reksturs gistiskýlis fyrir konur, Konukots.
Greinargerð fylgir.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Reykjavíkurdeild Rauða kross Ísland, tók að sér rekstur neyðaskýlis fyrir konur á sínum tíma þar sem borgin var ekki að sinna þessum skyldum sínum á sómasamlegan hátt. Væntanlega hefur RRKÍ litið svo á að um hafi verið að ræða, neyðarástand. Nú hefur SÁÁ boðist til að reka úrræðið á lægra verði en að jafnframt verði tryggð fagleg og mannúðleg aðkoma. Því er lagt til að kannaður verði vilji forsvarsmanna Rauða krossins hvað málið varðar og hvort þeir hafi eitthvað við það að athuga að SÁÁ taki við rekstrinum. Á meðan verði afgreiðslu málsins frestað.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að þar sem SÁÁ er faglega og rekstrarlega hæft til að reka neyðarskýli fyrir utangarðs konur og þar að auki með lægsta tilboð, verði samið við samtökin.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að samið verði við Reykjavíkurdeild Rauða krossins um rekstur Konukots út árið en ekki til þriggja ára. Þannig gefst velferðaráði nægur tími til stefnumótunar í málaflokknum og mótun heilstæðra lausna.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fram hefur komið að verið er að úthýsa körlum úr neyðarskýli borgarinnar vegna plássleysis. Óskað er eftir eftir upplýsingum hvort það sama eigi við um konur sem sækja Konukot og hvernig staðan hefur verið hvað þetta varðar á þessu ári og því síðasta.
Aðaltillagan um að samið verði við Reykjavíkurdeild Rauða krossinn (RRKÍ) vegna reksturs gistiskýlis fyrir konur var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Reykjavíkurdeild Rauða kross Ísland, tók að sér rekstur neyðaskýlis fyrir konur á sínum tíma þar sem borgin var ekki að sinna þessum skyldum sínum svo sómi væri að. Væntanlega hefur RRKÍ litið svo á að um hafi verið að ræða, neyðarástand. Nú hefur SÁÁ boðist til að reka úrræðið á lægra verði en að jafnframt verði tryggð fagleg og mannúðleg aðkoma. Því var lagt til að kannaður yrði vilji forsvarsmanna Rauða krossins, hvort þeir hefðu eitthvað við það að athuga að SÁÁ tæki við rekstrinum. Þeirri tillögu var hafnað.
Jafnframt þessu hefur meirihluti velferðarráðs nú samþykkt tillögu um að semja ekki við SÁÁ um rekstur neyðarskýlis fyrir konur sem orðið hafa utangarðs. Þetta er gert þó svo að samtökin séu með lægstu tilboð og njóti ótvíræðs trausts í samfélaginu. Þar með hefur Samfylkingin og Besti flokkurinn tekið pólitíska ábyrgð á ófaglegum vinnubrögðum Velferðarsviðs og skaðað borgarsjóð og reykvíska skattgreiðendur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Rauði krossinn í Reykjavík hefur rekið Konukot frá upphafi og á miklar þakkir skildar, enda hefur starfsemin reynst heimilislausum konum gríðarlega vel í næstum áratug. Rauði krossinn í Reykjavík (RRKÍ) er áfram tilbúinn til að reka Konukot til næstu 3ja ára og er ekki marktækur munur á tilboði þeirra og SÁÁ. Raunar yrði það dýrara að semja við SÁÁ þar sem innbú er allt í eigu RRKÍ og SÁÁ leggur fram tilboð sem gerir ráð fyrir eigin framlagi upp á 5 m.kr. á ári, allt til að vera undir RRKÍ.
3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Velferðarsviðs um rekstraraðila Gistiskýlis.
Lagt er til að samið verði við Samhjálp um rekstur gistiskýlis fyrir karla, Gistiskýlið.
Greinargerð fylgir.
Ennfremur lögð fram eftirfarandi breytingartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins.
Í ljósi aðstæðna, þ.e. líklegs flutnings Gistiskýlisins í nýtt húsnæði og því álagi sem búast má við að sá flutningur hafi á starfsemina auk þess sem líklegt er að bregðast þurfi við stækkandi/breyttum notendahópi á næstu mánuðum miðað við reynslu fyrstu mánaða ársins 2013, leggja fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins til að áfram verði samið við Samhjálp um rekstur Gistiskýlisins frá 1. september 2013 til 12 mánaða enda liggi þá fyrir ný stefna í málefnum utangarðsfólks. Samningurinn byggi á því tilboði sem barst eftir auglýsingu og starfsemin verði grundvölluð á kröfulýsingu Velferðarsviðs. Jafnframt er lagt til að Velferðarsviði verði veitt heimild til að framlengja þann samning um aðra 6 mánuði ef þörf krefur.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að þar sem SÁÁ er faglega og rekstralegar hæft til að reka neyðarskýli fyrir utangarðs konur og þar að auki með lægsta tilboð, verði samið við samtökin.
Felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að samið verði við Samhjálp, um rekstur Gistiskýlisins út árið en ekki fram í september 2013 með framlengingarheimild til þriggja ára. Þannig gefst velferðaráði nægur tími til stefnumótunar í málaflokknum og mótun heilstæðra lausna.
Felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs hefur nú samþykkt tillögu um að semja ekki við SÁÁ um rekstur neyðarskýlis fyrir karla sem hafa orðið utangarðs. Þetta er gert, þrátt fyrir það að samtökin séu með lægstu tilboð og njóti ótvíræðs trausts í samfélaginu. Þar með hefur Samfylkingin og Besti flokkurinn tekið pólitíska ábyrgð á ófaglegum vinnubrögðum Velferðarsviðs og tekið ákvörðun sem skaðar borgarsjóð og þar með reykvíska skattgreiðendur.
Sú breyting sem gerð hefur verið á samningi við Samhjálp að semja, þann 1. september nk. til 12 mánaða og gefa síðan Velferðarsviði leyfi til að semja um sex mánuði í viðbótar þýðir í raun 19 til 25 mánaða framlengingu. Að gera þetta með því fororði að „enda liggi þá fyrir ný stefna í málefnum utangarðsfólks“ er undarlegur málflutningur þar sem stefnumótun hlýtur að klárast á þessu ári. Þar að auki hefur velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna bent á það, bæði í ráðinu og starfshópnum um stefnu í málefnum utangarðsfólks, að það hljóti að vera hagstæðast, bæði faglega og fjárhagslega að líta á málaflokkinn, heildstætt en vera ekki að taka stóra þætti út fyrir sviga áður en stefnumörkun lýkur.
Allur málatilbúnaður hefur verðið með ólíkindum. Velferðarsvið sem á síðasta ári var ávítað af innkauparáði fyrir að auglýsa ekki eftir áhugasömum vegna Gistiskýlisins þegar Samhjálp var enn einu sinni ráðið til verksins, auglýsti svo eftir áhugasömum um rekstur Gistiskýlisins í desember sl. Auglýsingin og ekki síður kröfulýsingin sem henni fylgdi var gagnrýnd og kom þar helst tvennt til:
1. Að það er ólíðandi að Velferðarsvið skuli, upp á sitt einsdæmi, hafa auglýst eftir rekstaraðilum neyðarskýlanna til þriggja ára, og láti fylgja nákvæma kröfulýsingu á meðan starfandi er nefnd sem vinnur að stefnumótun í málefnum utangarðsfólks til fjögurra ára. Neyðarskýlin og aðbúnaður þeirra er þar gista hlýtur að verða mikilvægur þáttur í stefnu borgarinnar hvað þennan málaflokk varðar.
2. Velferðarsvið hefur hingað til samið um rekstur neyðarskýlanna til eins árs í senn. Að sviðið skuli nú hafa auglýst rekstur skýlanna til þriggja ára á sama tíma og stefnumótun til fjögurra ára er í gangi er aðför að pólitísku sjálfstæði kjörinna fulltrúa og því hlutverki þeirra að vinna stefnumótun í málaflokknum. Neyðarskýlin eru stór þáttur málaflokksins.
Vinnubrögð Velferðarsviðs og meirihluta velferðarráðs hvað samningagerðina sjálfa varðar er ekki síður ámælisverð. Á fundi velferðarráðs þann 20. desember s.l., þar sem felld var tillaga um að Velferðarsvið dragi til baka gildishlaðna auglýsingu eftir áhugasömum um rekstur neyðargistiskýlanna var því haldið fram að vegna tímapressu yrði ráðhagurinn að vera á þennan veg. Þegar lagt var til að samið yrði til eins árs í stað þriggja var það talið ómögulegt. Þrátt fyrir þetta hefur hver viðaukasamningurinn rekið annan. Sá fyrsti rann út 31. mars s.l., annar rennur út 31. maí og nú er búið að gera viðaukasamning sem rennur út 31. ágúst. Þar með hefur samningagerð sem í raun á að ljúka fyrir áramót, tekið 7 mánuði. Þetta getur varla talist ásættanleg stjórnsýsla.
Að semja ekki við lægstbjóðanda hlýtur að vekja upp þá spurningar hjá skattgreiðendum í Reykjavík. Þegar á allt er litið er velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna á þeirri skoðun að verðkönnun Velferðarsviðs hafi í raun verið skrípaleikur og aldrei hafi staðið til að semja við aðra, en þá sem reka úrræðið nú.
Breytingartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar bera fullt faglegt traust til Velferðarsviðs enda hefur verið unnið eftir reglum borgarinnar varðandi auglýsingu og samningagerð um rekstur neyðargistiskýla. Framundan eru breytingar á húsnæði gistiskýlisins sem á að mæta betur þörfum utangarðsmanna og unnið er að heildstæðri stefnumótun á þessu sviði. Borgaryfirvöld eru stolt af þeirri þjónustu sem veitt er utangarðsfólki í Reykjavík.
4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi velferðarráðs 13. maí s.l.
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur verið um að ræða 137 tilvik þar sem körlum hefur verið vísað frá neyðarskýli borgarinnar. Þetta er mikil aukning frá síðasta ári þegar 24 körlum var vísað frá allt árið. Við svo búið má ekki standa, því um er að ræða lágmarks mannréttindi. Samkvæmt áætlunum Velferðarsviðs er ekki reiknað með nýju gistiskýli fyrr en eftir 6 – 9 mánuði. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur því til að þegar í stað verði fundið bráðbirgðahúsnæði til að leysa vandann. Ef annað kemur ekki í leitirnar er bent á Tjarnarsal Ráðhússins eða þann hluta Hörpunnar sem ekki er í notkun.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Sú fjölgun sem orðið hefur í Gistiskýlinu síðan í janúar á þessu ári er ný. Þannig fór nýting úr 92#PR í 99#PR á tímabilinu. Velferðarsvið og starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða hafa verið að fylgjast vel með þessari aukningu. Fyrir liggur samþykkt velferðarráðs um að fela sviðinu að leita að nýju húsnæði fyrir Gistiskýlið og er sú vinna í fullum gangi. Hún miðar að því að finna húsnæði sem getur betur tekið við tímabundinni fjölgun líkt og núna ríkir.
Áslaug Friðriksdóttir vék af fundi kl.11.10.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðaráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar þá afstöðu meirihluta velferðarráðs að vilja ekki bregðast við þeirri fjölgun sem orðið hefur í Gistiskýlinu. Þar með er það ljóst að haldið verður áfram að úthýsa fólki vegna plássleysis.
Bjarnveig Magnúsdóttir vék af fundi kl. 11.40.
Fundi slitið kl. 12.10
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Lárus Rögnvaldur Haraldsson
Jórunn Frímannsdóttir Þorleifur Gunnlaugsson