No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2012, fimmtudaginn 16. febrúar var haldinn 181. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.15 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Geir Sveinsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Sigþrúður Arnardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Betri Reykjavík. Setja upp opið, aðgengilegt viðburðadagatal Vesturbæjar.
Lögð fram efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík frá 31.janúar 2012 um að setja upp opið, aðgengilegt viðburðadagatal Vesturbæjar.
Velferðarráð samþykkti að vísa tillögunni til útfærslu hjá Vesturgarði og hvetur aðrar þjónustumiðstöðvar til að skoða sambærilega möguleika í sínu hverfi.
2. Lagt fram til kynningar samkomulag Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Áss styrktarfélags um þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu
3. Lögð fram til kynningar samstarfsyfirlýsing Velferðarsviðs og Vinnumálastofnunar um Atvinnutorg. Ennfremur lögð fram til kynningar kröfulýsing þjónustu og rekstrar Atvinnutorgs í Reykjavík.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Þorleifur Gunnlaugsson tók sæti á fundinum kl. 12.40
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð vill koma á framfæri bestu þökkum til þeirra sem að undirbúningi verkefnisins Atvinnutorgs hafa komið en það opnar formlega á morgun. Verkefnið er samstarfsverkefni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnunar. Atvinnutorg var sett á fót sem aðgerð fyrir fólk yngra en 25 ára til að grípa inn í óvirkni með ráðgjöf og þátttöku á vinnumarkaði. Það er einróma álit velferðarráðs að hér sé um gífurlega mikilvægt og þarft verkefni að ræða.
4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs þann 2. febrúar sl.
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að boðið verði uppá samskonar þjónustu fyrir konur og verið er að samþykkja hér fyrir karla og notast verði við húsnæði í eigu borgarinnar sem staðsett er við hlið þess sem umrætt úrræði á að hýsa.
Bjarni Karlsson tók sæti á fundinum kl. 12.48.
Málinu er vísað til umsagnar hjá Velferðarsviði.
5. Styrkir og þjónustusamningar; Lögð fram að nýju tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
1. Styrkur til Samtaka um kvennaathvarf verði hækkaður um 1 milljón kr. samkvæmt umsókn. Fari úr 11 milljónum kr í 12 milljónir kr.
2. Styrkur til Stígamóta verði hækkaður um 2,3 milljónir kr. samkvæmt umsókn. Fari úr 5,7 milljónum kr. í 8 milljónir kr.
3. Á móti verði styrkur til Samhjálpar lækkaður um 4,8 milljónir kr. samkvæmt tillögu og fari úr 13.620 þ.kr í 8.820 þ.kr.
Gengið var til atkvæða um breytingartillöguna. Breytingartillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.
Liður nr. 17 í aðaltillögu var borinn upp til atkvæða. Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
Þá var borin upp tillaga um alla aðra liði en nr. 17 í aðaltillögu. Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkti í dag að styrkja og gera samstarfssamninga við 45 félög og samtök sem starfa á sviði velferðarþjónustu í Reykjavík. Samtals nema greiðslur vegna þessara samninga og styrkja rúmum 197 milljónum króna. Sérstök áhersla var að þessu sinni lögð á aukinn stuðning við þjónustu við utangarðsfólk og fólk sem á við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Þannig var samningur við SÁÁ hækkaður um 4 milljónir króna eða í 20 milljónir og samningur við Samhjálp um 4,8 milljónir króna eða í 13,6 milljónir. Velferðarráð lýsir ánægju með það góða samstarf sem Reykjavíkurborg á við fjölmörg félög og samtök um velferðarþjónustu í borginni, en það samstarf er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem Velferðarsvið veitir.
Fundi frestað kl. 13.40.
Fundi fram haldið kl. 16.30
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem vinna að mikilvægri samfélagsþjónustu og njóta til þess styrkja frá borginni. Styrkirnir eru því miður, almennt ekki háir en það munar um allt. Það er því ljóst að þegar um takmarkað fjármagn er að ræða er enn mikilvægara að forgangsröðun sé rétt. Að hluta til telur fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði að það hafi mistekist þegar almennir styrkir ráðsins fyrir árið 2012 voru samþykktir. Fulltrúi Vinstri grænna telur sýnt að verið sé að styrkja Samhjálp á óeðlilegum forsendum og að meðal annars sé verið að styrkja samtökin til umönnunar kvenna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi, reksturs félagsmiðstöðvar fyrir trúarsamkomur og stuðning vegna aðstoðar íbúa áfangaheimila samtakanna sem íbúar annara áfangaheimila fá ekki. Það er skoðun fulltrúa Vinstri grænna að styrkur vegna þolenda kynferðisofbeldis eigi að renna til þeirra sjálfseignarstofnana sem sóttu um styrki til velferðarráðs, Stígamóta og Samtaka um kvennaathvarf. Að borgin eigi ekki að styðja við rekstur félagsheimila trúarsamtaka og umrædda aðstoð við fíkla í bata eigi að veita á vegum úrræða borgarinnar, Grettistaks, Kvennasmiðju og Karlasmiðju. Það vekur jafnframt furðu að hafnað hafi verið umsókn Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um skaðaminnkandi þjónustu fyrir heimilislausa, útigangsfólk og fíkla en sú nálgun er mjög mikilvæg nýjung í aðstoð við umrædda hópa og eykur lífsgæði og lífslíkur margra veikustu íbúa borgarinnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Full ástæða er til að leiðrétta misskilning í bókun fulltrúa Vinstri grænna. Eins og fram hefur komið í velferðarráði stendur til að veita styrk til skaðaminnkandi þjónustu Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, þó ekki af þeim styrkjalið sem nú er til úthlutunar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Í tillögum sem lagðar voru fram í velferðarráði þann 26 janúar s.l. hvað varðar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, var sagt að félagið fengi ekki styrk úr styrkjapottinum en að ein milljón kæmi „úr fjármagni vegna utangarðsfólks“. Þessu hefur verið breytt og núna segir eingöngu að „ ekki veittur styrkur úr styrkjapotti velferðarráðs“. Þessi vending getur ekki sagt annað en að umræddur styrkur sé ekki í hendi fyrir Rauða krossinn. Það er reynsla fulltrúa Vinstri grænna í velferðarráði að óvarlegt sé að taka mark á óformlegu spjalli í velferðarráði.
6. Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir að hefja gerð reglna Reykjavíkurborgar um Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) við fatlað fólk. Rammi reglnanna verður handbók verkefnisstjórnar um NPA sem kynnt var á ráðstefnu verkefnisstjórnarinnar þann 10. febrúar sl.
Fundi slitið kl. 16.45.
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Diljá Ámundadóttir
Bjarni Karlsson Áslaug María Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson