No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2011, fimmtudaginn 15. desember var haldinn 177. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.15 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Lárus R. Haraldsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð í samræmi við samþykkt borgarstjórnar frá 6. desember 2011.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hefur fengið sig fullsaddan af blekkingarleik Besta flokksins og Samfylkingarinnar í málefnum fátækustu Reykvíkinganna. Það er orðið nauðsynlegt að þeir Reykvíkingar sem njóta fjárhagsaðstoðar fái talsmann eða réttindagæslumann sem fær er um að verja þennan hóp gagnvart hentistefnu borgarinnar. Meirihlutinn í Reykjavík lofaði skjólstæðingum sínum í upphafi kjörtímabilsins að færa þá yfir fátækramörk en sagðist síðan ekki geta það vegna þess að þá færu þeir yfir atvinnuleysisbætur. Meirihlutinn færði hluta fjárhagsaðstoðarþega því að þeim mörkum. Nú þegar atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar til jafns við hækkun lífeyris og lægstu laun er viðmiðið orðið vísitala ársins sem í þessu tilfelli er óhagstæðasta viðmiðið fyrir umræddan hóp. Í maí var samið á vinnumarkaði og allar bætur þar á meðal atvinnuleysisbætur, hækkuðu. Í kjölfar þess lagði fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði til að fjárhagsaðstoðin yrði hækkuð þannig að hæsta grunnfjárhæðin næði aftur atvinnuleysisbótum og aðrar grunnfjárhæðir hækkuðu jafn mikið, en því var hafnað þá. Þannig var fátækasta fólkið í borginni látið dragast aftur úr í tekjum í þeirri verðbólgu sem ríkt hefur á árinu. Að sjálfsögðu hefði mátt ætla að þessu yrði kippt í liðinn við gerð fjárhagsáætlunar því miðað við málflutning meirihlutans áður má segja að búið sé að snuða fjárhagsaðstoðarþega um umrædda hækkun í sjö mánuði. Tillögu Vinstri grænna um að fólk á fjárhagsaðstoð fái samsvarandi hækkun og aðrir bótaþegar var hafnað aftur við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir stuttu þó svo að aðeins hafi verið lagt til að fjárhagsaðstoðarþegar fái, 1. janúar þær hækkanir sem aðrir fengu 1 maí sl. Hækkun um 12.000 kr á mánuði og 50.000 kr. eingreiðslu. Tillögur meirihlutans sem samþykktar voru hljóða upp á mun lægri upphæðir. Þar er um prósentuhækkun að ræða og mánaðarleg hækkun er frá 4.247 kr. í 8.493 kr. þannig að bilið á milli þeirra hópa sem meirihlutinn hefur fjölgað breikkað og auk þess er ekki gert ráð fyrir þeirri eingreiðslu sem allir aðrir fengu í maí.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Bókun fulltrúa Vinstri grænna um blekkingarleik er fráleit. Reykjavíkurborg greiðir hæstu fjárhagsaðstoð allra sveitarfélaga og höfum við náð því marki að koma fólki yfir lágtekjumörk eins og stefnt var að í stefnuyfirlýsingu flokkanna. Um áramót hækkar fjárhagsaðstoð sem nemur hækkun neysluverðsvísitölu eða um 5.7#PR.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Umræða vinstriflokkana er ótrúleg. Á meðan ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur með skattastefnu sinni og getuleysi skapað það ástand að aldrei fleiri flýja land er verið að halda því fram að það sé göfugt markmið að ná upphæðum fjárhagsaðstoðar fyrir ofan einhver viðmið. Þessi viðmið taka ekkert tillit til þeirra kjaraskerðinga sem ríkisstjórnin og meirihlutinn í Reykjavík hafa staðið fyrir undanfarin ár og hafa eflaust skert ráðstöfunarfé fjölskyldna meira en um þær hækkanir sem þau hafa staðið fyrir.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna hefur ítrekað rakið blekkingar meirihlutans hvað þetta varðar. Í upphafi lofaði hann að hækka notendur fjárhagsaðstoðar yfir fátækramörk Hagstofunnar sem þá voru kr. 160.800 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Síðan voru þeir sem höfðu hæstu grunnfjárhæðina færðir að atvinnuleysisbótum og sagt að því miður væri ekki hægt að hækka þá meira vegna þess að annars yrði borgin að greiða mismuninn á bótunum og aðstoðinni. Nú þegar atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar fyrir mörgum mánuðum er ekki lengur hægt að fara með hæstu grunnfjárhæðina að þeim heldur miðað við vísitölu. Þarna er um að ræða blekkingarleik sem beint er að fjölmiðlum en mestu blekkingunum var kannski beitt á síðasta ári þegar meirihlutinn fjölgaði hópum sem fá mismunandi háar grunnfjárhæðir. Á þeim tíma höfðu flestir fjölmiðlar það eftir meirihlutanum að fjárhagsaðstoðin í Reykjavik væri 149.000 kr. á mánuði en í raun gilti það fyrir minnihluta skjólstæðinga borgarinnar sem þó hafa engar aðrar tekjur og meirihlutanum tókst að flækja málin duglega og flækjan var svona. Einstaklingar, 18 ára eða eldri, sem ráku eigið heimili fengu 149.000 kr. brúttó á mánuði. Þarna var um að ræða 736 einstaklinga. Síðan var búið að flokka þá sem búa með öðrum niður í 4 flokka með sitt hvora en í öllum tilfellum, lægri upphæðir. Undirflokkarnir eru:
- Hjón/sambúðarfólk sem ráku eigið heimili en þau fengu samanlagt 223.500 kr. eða eina og hálfa aðstoð. Þarna voru 90 einstaklingar.
- Einstaklingar sem bjuggu með öðrum, leigðu húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða höfðu ekki aðgang að húsnæði. Þeir fengu 125.540 kr. brúttó á mánuði og þarna er um að ræða 657 einstaklinga.
- Einstaklingar sem bjuggu hjá foreldrum fengu 74. 500 kr. á mánuði. Þar var um að ræða 145 einstaklinga.
Að lokum var um að ræða einstaklinga sem bjuggu hjá foreldrum og höfðu forsjá barns en þeir höfðu áður hæstu bætur en bætur til viðkomandi voru lækkaðar nú í febrúar úr 149.000 kr. í 125.540 kr. Undirritaður hefur ekki fengið uppgefinn fjölda þessa hóps. Blekkingaleikurinn var fólginn í því að fjölga hópunum sem þiggja fjárhagsaðstoð og lækka fjárhagsaðstoðina til fjögurra þeirra. Þannig tókst meirihlutanum í Reykjavík að snúa dæminu þannig að í stað þess að langflestir væru með hæstu upphæðina varð það minnihlutinn. Samkvæmt nýjustu tölum sem borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna er með voru 736 með fjárhagsaðstoð uppá 149.000 kr. á mánuði en 892 með fjárhagsaðstoð frá 74.500 til 125.540 kr. og þessu var sérstaklega náð með því að búa til nýjan hóp „þá sem búa hjá öðrum“ en þeir sem tilheyra honum og voru áður í hæsta flokki, töldu 657 einstaklinga nú í febrúar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í stefnuyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir: „Stefnt verði að því að tryggja að samanlögð fjárhags- og húsnæðisaðstoð nái lágtekjumörkum Hagstofunnar sem eru nú 160.800 kr. á mánuði.“ Þessu stefnumiði er náð fyrir þá Reykvíkinga sem reka eigið heimili. Velferðarborgin Reykjavík greiðir hæstu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og er stolt af þeirri velferðarþjónustu þ.á.m. fjárhagsaðstoð sem veitt er í borginni.
2. Lögð fram til kynningar tillaga borgarstjórnar frá 6. desember 2011 varðandi fjármagn til þjónustu við utangarðsfólk.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar því að auknum fjármununum skuli veitt til þjónustu við utangarðsfólk. Það vekur hins vegar furðu að tillagan sem hér um ræðir skuli ekki hafa verið rædd og afgreidd í ráðinu sem fer með málefni þessa hóps, velferðarráði. Velferðarráð og starfshópar á þess vegum hafa mikið fjallað um málefni utangarðsfólks og eðlilegast hefði verið að umrædd tillaga hefði farið í gegnum ráðið og fengið sess í forgangsröðun þess hvað varðar mikilvæg úrlausnarefni þessa málaflokks. Þetta er annað málið á dagskrá þessa fundar sem fékk hraðsoðna afgreiðslu við samþykkt fjárhagsáætlunar án þess að fá afgreiðslu fagráðsins fyrst og ætla mætti að með þessu sé meirihlutinn að veigra sér við gagnrýninni umræðu í ráðinu. Hitt dagskrármálið er tilkynning borgarstjóra um grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sem afgreidd var á þennan hátt, þrátt fyrir loforð meirihluta velferðarráðs um að tillagan kæmi fyrst til ráðsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur tillaga um að 40 milljónum verði varið í þjónustu við utangarðsfólk af liðnum „ófyrirséð“. Áður en tillagan var lögð fyrir borgarstjórn og samþykkt þar var ekki búið að ræða hana í velferðarráði. Engan veginn er hægt að taka undir það að nauðsynlegt sé að verja auknu fé til þjónustu við utangarðsfólk á meðan engin gögn eru lögð fram um málið og það verður að teljast í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð að fagráð fjalli ekki um slíka tillögu. Tillagan er lögð fram þar sem starfshópur er nú að skoða þjónustu við utangarðsfólk en sá hópur hefur samt ekki kynnt neinar tillögur. Á sama tíma er starfshópur að endurskoða forvarnarstefnu borgarinnar. Ekki verður annað séð en að aðgerðum sem munu koma til með að fylgja forvarnarstefnunni fylgi ekki fé og þær verði því að vinna innan fjárhagsramma sviðsins. Ljóst er að mjög mikill árangur hefur náðst í forvarnarmálum í Reykjavík og mikilvægt er að styrkja þá vinnu og auka úrræði sem byggja á snemmtækri íhlutun. Þá er ljóst að mikill skortur er á úrræðum fyrir ungt fólk með vímuefnavanda. Undarleg forgangsröðun er því að ákveða án umræðu að setja 40 milljónir í þjónustu við utangarðsfólk án þess að ræða málið á heildstæðan hátt.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði þakka það viðbótarfjármagn sem nú fæst í þjónustu við utangarðsfólk. Það á eftir að útfæra hvernig þetta fjármagn nýtist sem best og verða tillögur lagðar fram í velferðarráði fljótlega, ræddar þar og afgreiddar. Mestu skiptir að hægt verður að mæta enn frekar þörfum þeirra sem hafa orðið utangarðs og þurfa stuðning samfélagins.
3. Lögð fram úttekt á þörf á áframhaldandi stuðningi og úrræðum fyrir 18 ára ungmenni sem hafa notið stuðnings og úrræða Barnaverndar Reykjavíkur, sbr. aðgerð í starfsáætlun Velferðarsviðs árið 2011 um vöktun og nýjungar í þágu barna og ungmenna.
Erla Björg Sigurðardóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, kom á fundinn og kynnti úttektina.
4. Lögð fram skýrsla starfshóps um stuðningsþjónustu fyrir börn skv. starfsáætlun Velferðarsviðs 2011 ásamt tillögu Velferðarsviðs.
Stefanía Sörheller, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, kom á fundinn og kynnti skýrsluna.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun.
Velferðarráð fagnar því að nú er þjónusta #GLStuðningsins heim#GL að flytjast út á þjónustumiðstöðvar. Stuðningurinn hefur reynst barnafjölskyldum í Reykjavik vel og flutningur út á þjónustumiðstöðvar styrkir enn frekari þjónustuna og færir hana nær íbúum í hverfum borgarinnar. Þjónustan spilar mikilvægt hlutverk í fyrirbyggandi aðgerðum sem mun skila árangri til lengri tíma litið. Ráðið vill einnig þakka fyrir greinargóða kynningu á góðri skýrslu um stuðningsþjónustu við börn.
5. Betri Reykjavík. Alvöru húsaleigukerfi í Reykjavík
Lögð fram efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík frá 30. nóvember 2011, um alvöru húsaleigukerfi í Reykjavík, ásamt samantekt og rökum.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hefur fengið til kynningar hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík um alvöru húsaleigukerfi í Reykjavík frá 30. nóvember sl. 247 einstaklingar mæltu með þessari hugmynd sem er einkar jákvætt þar sem hugmyndin er í samræmi við nýsamþykkta húsnæðisstefnu borgarstjórnar. Í nýrri húsnæðisstefnu er megináherslan lögð á eflingu leigumarkaðar og búseturéttaríbúða og að auka val og möguleika ungs fólks og þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið eigið fé í húsnæði. Þá á að endurskoða húsaleigubætur með ríkinu þar sem ríkisvaldið verður með almennan stuðning og hlutverk sveitarfélaga verði að koma í veg fyrir óhóflega greiðslubyrði tekjulágs fólks með félagslegan vanda. Nú er borgarráð með það verkefni að fylgja eftir húsnæðisstefnunni og er heilmikil vinna í gangi varðandi það. Þá á Reykjavíkurborg fulltrúa í samráðsnefnd um húsnæðisbætur sem á að skila tillögum vorið 2012. Húsnæðismálin eru forgangsverkefni næsta árs.
Niðurstaða: Málið er í vinnslu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna gerði ríkisvaldið þau grundvallarmistök í kjölfar hrunsins að taka ekki megnið af húsnæðislánum yfir til Íbúalánasjóðs í gegnum þáverandi eignarhald sitt á bönkunum. Þannig hefði verið möguleiki á að leiðrétta þá óhollu einkaeignastefnu sem ríkt hefur á Íslandi og koma á öruggu leigu- og kaupleigukerfi til frambúðar. Það ber einnig að hafa í huga að í maí 2008 breytti borgin reglum sínum varðandi húsnæðisstuðning við fátækt fólk þannig að í stað niðurgreiðslu sem nam um þriðjungi leigunnar var farið í sérstakar húsaleigubætur. Húsaleigubætur hafa staðið í stað í tæp þrjú og hálft ár en húsaleiga Félagsbústaða hefur hækkað um það bil 30#PR. Þannig hefur hlutfallslegur húsnæðiskostnaður þeirra fátækustu hækkað og að sama skapi hefur hlutfallslegur kostnaður borgarinnar minnkað. Það liggur mikið við að endurskoða húsnæðisstefnuna og auka húsnæðisstuðning við leigjendur en einnig verður hið opinbera að leggja sitt að mörkum núna til að stuðla í reynd að félagslegum leigu- og kaupleigumarkaði.
6. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir innkaup Velferðarsviðs sbr. 3. mgr. 37. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar.
7. Lögð fram til kynningar greinargerð um eftirlit með heimilum fyrir börn á vegum Reykjavíkurborgar árið 2011.
Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, kom á fundinn og kynnti greinargerðina.
8. Lögð fram til kynningar fundaáætlun velferðarráðs janúar – júní 2012.
9. Atvinnustefna Reykjavíkur; lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 2. desember 2011 þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs. Ennfremur lögð fram umsögn Samfylkingarinnar og Besta flokksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Atvinnustefna Reykjavíkur er undarlegt mál. Hvergi var tekin formleg ákvörðun um að hefja gerð stefnunnar og óljóst hvernig hún var unnin. Ekkert samráð var haft við fulltrúa minnihlutans sem hafa ekki fengið nein tækifæri til að koma að gerð stefnunnar og því um afar ólýðræðisleg vinnubrögð að ræða. Með engu móti er því hægt að taka undir það að stefnan verði samþykkt án frekari úrvinnslu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er til marks um alvöruleysi meirihluta velferðarráðs hvað málið varðar að ætlast er til að ráðið samþykki umsögn um atvinnustefnuna sem ekki var í gögnum fundarins og ráðsfulltrúar eru að sjá fyrst þegar málið er tekið á dagskrá. Mótun atvinnustefnunnar var upphaflega í samvinnu allra flokka í borgarstjórn en á endanum var hún eingöngu í höndum meirihlutans. Þetta er bagalegt þegar svo mikilvægt mál er á ferðinni en tillaga minnihluta borgarstjórnar um samvinnu allra flokka hvað þetta varðar var nýlega felld í borgarstjórn. Drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar er hins vegar um margt áhugaverð lesning og þörfin fyrir slíka stefnu verður ekki dregin í efa. Það vekur því furðu hversu einskorðuð hún er við atvinnulíf almenna markaðarins án þess að lögð sé rík áhersla á mikilvægi menntunar og velferðar sem undirstöðu. Jafnframt vekur það furðu að ekkert sé fjallað um hlutverk borgarinnar sem eins stærsta atvinnurekanda landsins, en þar leynast mýmörg tækifæri sem gætu stuðlað að bættri heilsu og menntun til framtíðar auk þess að efla atvinnuþátttöku. Í stefnudrögunum er varla minnst á velferðamál utan húsnæðismál. Þar er hinsvegar talað um að útvista ákveðna þætti starfseminnar til að stuðla að þróun á almennum markaði. Þetta vekur upp þá spurningu, hvort meirihlutanum sé svo umhugað um almenna markaðinn að hann sé fús til að fela honum vinnu eða þjónustu sem borgarbúar hafa hingað til valið að eiga og vinna í sameiningu. Lykilforsenda blómstrandi atvinnulífs hlýtur að vera velferðarkerfi sem tryggir jöfn tækifæri og vellíðan íbúanna. Menntakerfi sem tryggir þroska og menntun barna, unglinga og ungmenna og tækifæri fólks á vinnumarkaðnum nú og til framtíðar. Það vekur því furðu að ein sviðsmynd atvinnustefnunnar skuli ekki vera Velferðarborgin Reykjavík.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna heildstæðri atvinnustefnu fyrir Reykjavík þar sem m.a. er að finna kraftmikla, sértækar aðgerðir í málefnum atvinnulausra sem munu stuðla að auknu félagslegu öryggi stórs hóps fólks.
Fundi slitið kl. 15.05
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Diljá Ámundadóttir
Lárus R. Haraldsson Áslaug María Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson