No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2009, miðvikudaginn 25. nóvember var haldinn 121. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.30 að Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Sif Sigfúsdóttir, Hallur Magnússon, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að starfsáætlun 2010. Sviðsstjóri kynnti drögin.
Drögum að starfsáætlun er vísað til borgarráðs.
2. Drög að fjárhagsáætlun tekin upp og rædd að nýju.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Í ljós hefur komið skekkja í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs upp á allt að 175 milljónir vegna tvítaldra tekna. Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs mun af þeim orsökum bera halla sem þessu nemur við framlagningu fjárhagsáætlunar sviðsins í borgarráði. Ekki gefst svigrúm til frekari vinnslu með fjárhagsáætlun í velferðarráði fyrir fund borgarráðs þar sem þetta kemur svo seint fram. Velferðarráð telur mikilvægt að komið verði til móts við þennan halla og ekki verði gerð frekari hagræðingarkrafa á sviðið vegna þessa svo hægt sé að standa vörð um þjónustuna.
3. Lögð fram tillaga sviðsstjóra dags. 24. nóvember s.l. um að unnið verði markvisst að bættu eftirlitskerfi með framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
4. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna sem lögð var fram á fundi ráðsins þann 24. nóv. sl. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
5. Málefni Barnaverndar Reykjavíkur. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í bréfi frá Barnaverndarstofu til Velferðarsviðs sem barst sviðsstjóra um miðjan júní síðastliðinn var samantekt á því sem forstjóri Barnaverndarstofu hafði farið yfir í borgarráði þann 14.maí 2009. Í bréfinu kom ekkert nýtt fram og þær ábendingar sem þar komu fram rúmuðust allar innan verklags og reksturs Barnaverndar Reykjavíkur og áréttað var að Barnaverndarstofa bæri fullt traust til Barnaverndar Reykjavíkur. Það var því eðlilegt mat sviðsstjóra Velferðarsviðs að ekki væri þörf á að leggja bréfið fram í velferðarráði á þessum tíma heldur var því vísað til framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur til frekari úrvinnslu. Áhyggjur forstjóra Barnaverndarstofu um aukið álag á Barnavernd Reykjavíkur höfðu fyrst komið fram á fundi hans með Barnaverndarnefnd Reykjavíkur í apríl sl. Í framhaldi af árlegum fundi velferðarráðs og Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 29. apríl 2009 var sett í gang vinna við gerð sérstakrar viðbragðsáætlunar fyrir Barnavernd Reykjavíkur og var markmiðið m.a. að bregðast við þeim áhyggjum sem fram höfðu komið í ráðum og nefndum. Viðbragðsáætlunin náði bæði til starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og annarra stofnana borgarinnar sem vinna í þágu barna, enda er það álit Reykjavíkurborgar að nauðsynlegt sé að standa vörð um börn og ungmenni og það sé sameiginlegt verkefni þeirra sem að málefnum barna koma. Áætlunin var samþykkt samhljóða á fundi Velferðarráðs þann 10. júní 2009 og bókaði ráðið sameiginlega af því tilefni með eftirfarandi hætti:
#GLVelferðarráð þakkar sviðsstjóra Velferðarsviðs og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur fyrir viðbragðsáætlun í barnavernd og til frekari stuðnings börnum í borginni. Velferð barna er málefni allra fjölskyldna og þeirra sem koma að starfi með börnum og fjölskyldum í borginni. Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að fylgjast með og bregðast tímanlega við vanda barna og ungmenna. Samantekt um framvindu áætlunarinnar verður lögð fyrir velferðarráð á þriggja mánaða fresti.#GL Viðbragðsáætlunin var svo kynnt í borgarráði 18. júní í samræmi við bókun borgarráðs 14. maí. Sviðsstjóri Velferðarsviðs hafði óskað eftir því við Barnaverndarstofu í kjölfar athugasemda frá forstjóra Barnaverndarstofu á borgarráðsfundi 14. maí að fá fram skriflegt álit Barnaverndarstofu um hvort vinnsla barnaverndarmála í Reykjavík væri að einhverju leyti ábótavant að mati Barnaverndarstofu. Var það ekki síst til þess að fá fram hvort Barnaverndarstofa bæri traust til Barnaverndar Reykjavíkur. Eins og kemur fram í niðurlagi bréfsins ber hann fullt traust til Barnaverndar Reykjavíkur. Það skal ítrekað að annað sem fram kemur í bréfinu hafði áður komið fram á fundum forstjóra Barnaverndarstofu með borgarráði og Barnaverndarnefnd. Yfirlit yfir stöðu mála hjá Barnavernd Reykjavíkur hefur reglulega verið kynnt á fundum velferðarráðs undanfarna mánuði.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Vinstri græn hafa síðustu ár lýst miklum áhyggjum af barnaverndarmálum og viljað fá umræðu um það hvernig að þeim er staðið hér í borginni. Áhyggjurnar hafa snúið að of miklu álagi á starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur en tölulegar upplýsingar frá skýrslum Barnaverndarstofu benda til þess að svo sé. Þannig hafa fulltrúar Vinstri grænna reynt að koma barnaverndarmálum á dagskrá í velferðarráði, borgarráði og borgarstjórn, oft með árangri en yfirleitt undir ásökunum um að þyrla upp viðkvæmum málum. Erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar og fulltrúum Vinstri grænna því gert erfitt fyrir að sinna sínum skyldum, að tryggja hag barna í borginni. Nú hefur komið á daginn að Velferðarsvið bjó yfir skriflegum upplýsingum frá Barnaverndarstofu sem sóst var eftir í framhaldi af umræðu um barnaverndarmál. Í bréfinu frá forstjóra Barnaverndarstofu kemur fram gagnrýni á Barnavernd Reykjavíkur sem eðlilegt hefði verið að pólitískir fulltrúar tækju til umræðu og hefðu möguleika á að bregðast við, en í bréfinu kemur fram að:
• Fjöldi barna að baki hverjum starfsmanni sem starfar að beinni vinnslu barnaverndarmála er mun meiri í Reykjavík en annars staðar þekkist.
• Tilkynningar í barnaverndarmálum sem hlutfall af heildarfjölda barna í Reykjavík er hærra en annars staðar er að finna.
• ?Hlutfall þeirra barna sem tilkynnt er um og fer í könnun skv. ákvæðum barnaverndarlaga er lægra en hjá flestum öðrum barnaverndarnefndum sem öruggar upplýsingar liggja fyrir um.
• ?Fjöldi mála í vinnslu hjá hverjum barnaverndarstarfsmanni á ársgrundvelli er mun meiri en hjá öðrum barnaverndarnefndum.
• Ýmislegt bendir til að þyngd barnaverndarmála sé að jafnaði meiri en annars staðar vegna félagslegrar samsetningar höfuðborgarinnar.
• Kvartanir vegna vinnslu barnaverndarmála í Reykjavík hefur fjölgað verulega á milli ára.
• ?Sjaldgæft er að gögnum sé skilað frá BR innan tilskilins tímafrests.
• ?Lögbundinn tímafrestur til að ákvarða um könnun máls hefur ekki verið virtur.
• ?Kvörtunum um að erfitt sé að ná í barnaverndarstarfsmenn í síma hefur fjölgað.
Þetta eru vægast sagt alvarlegar athugasemdir en með því að halda gögnum frá fulltrúum minnihlutans er beitt valdi til að koma í veg fyrir umræðu sem nauðsynlegt er að eigi sér stað. Vinstri græn fagna því að brugðist hafi verið við athugasemdum Barnaverndarstofu en þær gefa fullt tilefni til að gera úttekt á því hvort starfsfólki Barnaverndar Reykjavíkur sé gert mögulegt að sinna sínum störfum sem skyldi og hvort viðbót um einn starfskraft sé fullnægjandi.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Barnavernd Reykjavíkur hefur verið til umfjöllunar af og til á síðastliðnu ári, vegna mikillar fjölgunar mála sem þangað berast og vegna ótta við að stofnunin nái ekki að sinna sínu mikilvæga starfi í þágu barna sökum fjárskorts. Þá hafa fjölmiðlar sýnt þessum mikilvæga málaflokki meiri áhuga en áður. Upplýsingar voru lagðar fram í borgarráði snemmsumars af forstjóra Barnaverndarstofu að framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur viðstöddum. Þar kom m.a. fram að fjöldi barna að baki hverjum starfsmanni sem vinnur að beinni vinnslu barnaverndarmála er mun meiri í Reykjavík en annars staðar þekkist, þrátt fyrir að margt bendi til þess að þyngd barnaverndarmála sé að jafnaði meiri hér í borg en annars staðar vegna félagslegrar samsetningar höfuðborgarinnar. Velferðarsvið brást við þessum athugasemdum með því að bæta við einum starfsmanni. Velferðarráð tók málið á dagskrá og þótti ljóst að styrkja þyrfti enn frekar Barnavernd Reykjavíkur og vonir voru bundnar við að það tækist við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Nú þegar drög að starfs- og fjárhagsáætlun liggja fyrir, er séð að einungis verður bætt við einum starfsmanni, en ekki lagt aukið fé til þeirra úrræða sem talin er brýn þörf á, samkvæmt sérstakri úttekt sem gerð var á árinu að frumkvæði okkar um barnaverndarúrræði. Það er ekki mat pólitíska fulltrúa í velferðarráði að meta hvort mistök hafi átt sér stað í einstaka málum þar sem barnaverndarlög nr. 80/2002 kveða mjög skýrt á um í 13. gr. að: “Sveitarstjórn er óheimill aðgangur að gögnum og upplýsingum um einstök barnaverndarmál.” og “Sveitarstjórnum er óheimilt að gefa barnaverndarnefndum fyrirmæli um meðferð einstakra barnaverndarmála.” Við getum þó sagt út frá þeim upplýsingum sem við höfum um starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur að starfsfólk þeirrar stofnunar er án nokkurs vafa að vinna sína vinnu af fagmennsku og heilindum, og með hagsmuni barna að leiðarljósi. Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að Barnaverndarstofa leggi til úttekt á Barnavernd Reykjavíkur. Slík úttekt gæti einungis leitt til þess að bæta starfsemina, auka trúverðugleika hennar, mæta þeim athugasemdum sem fram koma í bréfi Barnaverndarstofu frá 11. júní og setja það fjármagn sem þörf er á í barnaverndarstarf í Reykjavík. Aðferðafræði meirihlutans sem beinir spjótum sínum að sendiboðanum, forstjóra Barnaverndarstofu, er með ólíkindum. Hann hefur reynt að rétta hlut Barnaverndar Reykjavíkur í opinberri umræðu og lagt til aukið fjármagn í stofnun sem er undirmönnuð. Þá hefur hann viljað veg barnaverndar sem mestan og telur að ef mistök eigi sér stað, þá sé það til hagsbóta fyrir barnaverndarstarf að viðurkenna það.
Fundi slitið kl. 15.35
Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Sif Sigfúsdóttir
Hallur Magnússon Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal