No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2009, þriðjudaginn 24. nóvember var haldinn 120. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 8.45 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Sif Sigfúsdóttir, Hallur Magnússon, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynnt drög að fjárhagsáætlun 2010.
Sviðsstjóri og skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerðu grein fyrir málinu.
Málinu er vísað til borgarráðs.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar getur ekki fallist á þær forsendur sem gefnar hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ber þar hæst óbreytta útsvarsprósentu þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað og minni tekjur borgarinnar. Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna. Úthlutun ramma ber lítil merki um nýjar áherslur í forgangsröðun. Skorið er niður með tiltölulega flötum hætti, þó krafan sé meiri á svið sem varða skipulag og framkvæmdir en hin sem varða menntun og velferð. Fulltrúi Vinstri grænna hefði viljað sjá skýrari áherslumun en þann sem hér birtist. Ljóst er að útgjöld á Velferðarsviði þurfa að aukast á árinu 2010 á meðan hægt væri að draga enn frekar saman á sviði framkvæmda eða skipulags. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur. Sú áætlun sem hér er lögð fram hefur ekki verið unnin af fulltrúum allra flokka. Þó einstaka fundir hafi verið haldnir um áherslur í málaflokknum hefur ekki gefist svigrúm til að ráðið reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Án slíks svigrúms er ekki hægt að segja að um samráð hafi verið að ræða auk þess sem starfsáætlun er ekki lögð fyrir í tengslum við fjárhagsáætlun. Fulltrúi Vinstri grænna leggur því fram eftirfarandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun Velferðarsviðs:
1. Að fjárhagsaðstoð verði hækkuð að lágmarki um 18.000 krónur á mánuði og heimildagreiðslur í hlutfalli við það.
2. Að hugmyndum um skilyrðingu fjárhagsaðstoðar verði ýtt út af borðinu.
3. Að fundinn verði staður fyrir þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða út frá þörfum þeirra sem þangað sækja en ekki farið í vanhugsaða flutninga sem gætu reynst dýrari þegar upp er staðið.
4. Að fallið verði frá hugmyndum um einkarekstur og útvistun þjónustuþátta þar sem engin ástæða er til að ætla að aðrir en borgin geti rekið þjónustu á hagkvæmari hátt með sama þjónustustigi.
5. Að endurskoðun samninga verði ekki til þess að skerða nauðsynlega þjónustu sem sjúklingasamtök og önnur félög hafa sinnt í umboði borgarinnar.
6. Að barnaverndarnefnd hafi möguleika á að sinna auknu álagi og veita börnum borgarinnar þá þjónustu sem lögbundin er.
Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2010 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun velferðarmála á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.
Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði sér ekki hagræðinguna af því að útvista þjónustu á vegum borgarinnar enda liggur ekki fyrir hvernig hún hefur áhrif á þá sem þjónustuna þiggja, starfsfólk viðkomandi stofnunar og skattgreiðendur. Engin merki eru um að aðrir geti náð hagræðingu sem borgin getur ekki, án þess að það komi einhvers staðar niður. Ef meirihlutinn treystir sér ekki til að reka stofnanir á sem hagkvæmastan hátt með góðu þjónustustigi og virðingu fyrir starfsfólki ber honum að afsala sér völdum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar þakka sviðsstjóra, fjármálastjóra og öðru starfsfólki Velferðarsviðs fyrir mikla vinnu við mótun fjárhagsáætlunar Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010, sem unnin er við erfið skilyrði. Í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í borgarráði hefur komið fram að Velferðarsvið eigi að hagræða um 430 m.kr. á árinu 2010. Til viðbótar við þann niðurskurð verður Velferðarsvið að hagræða fyrir hækkun verðlags um 110 milljónir. Raun niðurskurður er því 540 milljónir. Nú liggja fyrir tillögur meirihluta Velferðarráðs að niðurskurði. Þær beinast einkum að málefnum aldraðra, bæði hvað varðar dagþjónustu á dagdeildum og félagsmiðstöðvum, í félagslegri heimaþjónustu og á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum. Hluti af áætluðum niðurskurði er óútfærður og er ekki vitað hvort ráðist verði í þær tillögur sem til umræðu hafa verið innan meirihlutans en ekki er sérstaklega getið í lokatillögum, s.s. skipulagsbreytingar sem kalla á breytingu á nærþjónustu í hverfum borgarinnar. Slíkar breytingar gætu fulltrúar Samfylkingarinnar ekki tekið undir. Ekki er gert ráð fyrir neinni hækkun fjárhagsaðstoðar og því áfram gert ráð fyrir að fólk lifi á 115.000 kr. á mánuði. Er þetta algerlega óásættanlegt. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt til hækkun um 13.500 kr. sem kosta myndi borgarsjóð 165 m.kr. á ársgrundvelli. Velferðarsvið fær ekki viðbætur vegna nokkurra mikilvægra þátta, s.s. viðbótar til barnaverndar, bæði til að takast á við aukinn fjölda og vegna úrræða fyrir unglinga. Þá er ekki gert ráð fyrir fyrirhuguðu heimili fyrir heimilislausar konur. Fulltrúar Samfylkingarinnar geta ekki stutt drög að framlagðri starfs- og fjárhagsáætlun. Niðurskurðurinn mun koma sér illa fyrir aldraða Reykvíkinga og enn er óljóst hvernig mæta á heildarniðurskurði. Að okkar mati hefur skort yfirsýn og frekari forgangsröðun milli fagsviða borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihluta vilja þakka sviðsstjóra og starfsmönnum Velferðarsviðs fyrir mikla og góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar á þessum erfiðu tímum. Forsendur fjárhagsáætlunar taka mið af þeirri skýru línu borgarstjórnar um að standa vörð um grunnþjónustuna, hækka ekki skatta, hækka ekki gjaldskrár og standa vörð um störfin þrátt fyrir þá hagræðingu sem nauðsynlegt er að ná fram. Gerð er minni hagræðingarkrafa á Velferðarsvið en önnur svið borgarinnar og þannig tekið tillit til þeirrar sérstöðu sem sviðið hefur á þessum tímum. Þessi drög að fjárhagsáætlun Velferðarsviðs taka mið af þessum markmiðum. Á fundi velferðarráðs í dag var kynnt lækkun á hagræðingarkröfu á sviðið sem þýðir að sviðið hefur um 110 milljónum meira fjármagn til ráðstöfunar en áður var gert ráð fyrir. Þannig er enn frekar tillit tekið til þeirrar sérstöðu sem sviðið hefur. Áréttað skal að í stærstu útgjaldaliði sviðsins, fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur verður veitt því fjármagni sem til þarf enda eru hvort tveggja bundnir liðir. Gert er ráð fyrir að útgjöld til þeirra beggja hækki á næsta ári. Meirihlutinn fagnar því að fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði skuli koma hreint fram og krefjast skattahækkana frekar en sparnaðar. Það er í línu við stefnu Vinstri grænna sem birtist í skattahækkunum ríkisstjórnarinnar. Meirihlutinn í velferðarráði telur brýnt að nýta alla möguleika til sparnaðar áður en gripið er til skattahækkana og fagnar því hversu vel hefur tekist til við gerð fjárhagsáætlunar.
- Marsibil Sæmundardóttir vék af fundi kl. 9.48.
2. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í tilefni þess að fjölmiðlar upplýstu um bréfaskipti milli sviðsstjóra Velferðarsviðs og Barnaverndarstofu þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við möguleika Barnaverndar Reykjavíkur til að sinna sínum skyldum vill fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði spyrja:
1. Af hverju komu bréfaskipti sviðsstjóra Velferðarsviðs og forstjóra Barnaverndarstofu ekki fyrir velferðarráð eða aðra kjörna fulltrúa?
2. Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til eftir að bréfið barst til að ganga úr skugga um að börn í Reykjavík fái þá þjónustu sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ber að veita þeim?
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu eftir að málefni Barnaverndar Reykjavíkur verði rædd á fundi ráðsins á morgun.
Fundi slitið kl. 10.02
Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Sif Sigfúsdóttir
Hallur Magnússon Björk Vilhelmsdóttir
Drífa Snædal