Velferðarráð - Fundur nr. 1157

Velferðarráð

FÉLAGSMÁLARÁÐ

Ár 2001, mánudaginn 30. apríl var haldinn 1157. fundur félagsmálaráðs og hófst hann kl. 12:17 að Síðumúla 39. Mættir: Helgi Hjörvar, Hreinn Hreinsson, Páll R. Magnússon, Kristján Guðmundsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Af hálfu starfs-manna: Lára Björnsdóttir, Stella Víðisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem skráði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju skýrsla PricewaterhouseCoopers um lokun Húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur. Ennfremur lögð fram umsögn starfshóps á vegum félagsmálaráðs um húsnæðismál, dags. 9. apríl 2001. Formaður starfshópsins gerði grein fyrir umsögninni. Félagsmálastjóri gerði grein fyrir málinu að öðru leyti. Félagsmálaráð samþykkti að fela lögfræðiskrifstofu að kanna hvort ákvæði 3. gr. þjónustusamnings um kaupleiguíbúðir séu í samræmi við gildandi lög á þessu sviði. Guðrún Erla Geirsdóttir mætti á fundinn kl. 12.50. Páll R. Magnússon vék af fundi kl. 13.12. Lögð var fram svohljóðandi tillaga frá minnihluta félagsmálaráðs “Lagt er til að upplýsingaþjónusta vegna húsnæðismála, umsýsla vegna félagslega eignaríbúðakerfisins og viðbótarlána verði áfram starfrækt sem sérstök eining á sama stað með 3-4 starfsmönnum í samræmi við vel rökstuddar tillögur starfshópsins”. Tillagan var borin undir atkvæði. Tillagan er felld með þremur atkvæðum meirihluta. Meirihluti félagsmálaráðs lagði fram eftirfarandi bókun : “Meirihluti félagsmálaráðs bendir á að tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur gegn þeirri meginstefnu félagsmálaráðs að færa þjónustu nær íbúunum. Ráðgjöf og afgreiðsla húsnæðismála sem áður var veitt af húsnæðisnefnd mun hér eftir verða veitt á borgarhlutaskrifstofum og í Miðgarði í ljósi þeirrar stefnu að sem mest þjónusta sé veitt í því hverfi sem fólk býr í. Áhersla er þó á að ljúka málum úr gamla kerfinu á þann hátt að þjónusta verði ekki skert og þekking starfsmanna nýtist að fullu. Þannig munu þrír starfsmenn húsnæðisskrifstofu flytja í borgarhlutaskrifstofu að Skúlagötu, sem verður miðstöð húsnæðismála”.

2. Lagt fram yfirlit yfir samstarf Félagsþjónustunnar og Geðhjálpar ásamt skýrslu Sigtryggs Jónssonar og Þórkötlu Þórisdóttur vegna skoðunar á stuðningsþjónustu Geðhjálpar frá desember 2000 og skýrslu vinnuhóps um samninga Geðhjálpar við Félagsþjónustuna í Reykjavík og Svæðisskrifstofu Reykjavíkur. Félagsmálastjóri gerði grein fyrir málinu og lagði fram minnisblað dags. 30. apríl 2001 til félagsmálaráðs varðandi málið.

3. Lögð fram bókhaldsstaða pr. 31. mars 2001. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs gerði grein fyrir málinu.

4. Lögð fram að nýju umsókn Krossgatna dags.13. mars 2001 um fjárstyrk ásamt umsögn þróunarsviðs dags. 30. apríl 2001. Félagsmálastjóri gerði grein fyrir málinu. Samþykkt að vísa málinu til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar.

5. Lögð fram að nýju umsókn samtakanna Sókn gegn sjálfsvígum dags. 20. nóv. 2000 um fjárstyrk , ásamt umsögn þróunarsviðs, dags. 27. apríl 2001. Samþykkt var að veita samtökunum styrk að fjárhæð kr. 150.000.

6. Lögð fram til kynningar trúnaðarbók frá 25. apríl 2001.

Fundi slitið kl.14.25.

Helgi Hjörvar

Jóna Gróa Sigurðardóttir Guðrún Erla Geirsdóttir
Kristján Guðmundsson