Velferðarráð - Fundur nr. 100

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2009, miðvikudaginn 25. febrúar var haldinn 100. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.15 á velferðarsviði, Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Hallur Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Staða mála vegna aðgerðaáætlunar velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
a) Lagt fram minnisblað aðgerðateymis velferðarsviðs dags. 20. febrúar 2009.
b) Lagt fram til kynningar minnisblað um verkefni velferðarsviðs til stuðnings við starfsfólk velferðarsviðs.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

2. Lögð fram til kynningar fræðsluáætlun velferðarsviðs vorið 2009.
Lóa Birna Birgisdóttir, starfsmannastjóri velferðarsviðs mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
Marsibil Sæmundardóttir mætti á fundinn kl. 13.25.

3. Lagður fram til kynningar samanburður á fjárhagsaðstoð í Reykjavík árin 2007 og 2008 ásamt yfirliti yfir fjárhagsaðstoð í janúar 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

4. Lagt fram minnisblað Innri endurskoðunar um Fjölskylduhjálp Íslands dags. 17. febrúar 2009 sbr. samþykkt velferðarráðs frá 24. september 2008. Ennfremur lögð fram tillaga dags. 19. febrúar 2009 um styrk til Fjölskylduhjálparinnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

5. Lagður fram til kynningar samningur velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. dags. 20. febrúar 2009 um verka- og kostnaðarskiptingu á rekstri sjö búsetukjarna fyrir geðfatlaða og er byggður á þjónustusamningi velferðarsviðs og félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 28.08.08
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

6. Lagt fram til kynningar bréf samgönguráðuneytisins varðandi húsaleigubætur árið 2008 og 2009 ásamt yfirliti yfir greiðslur húsaleigubóta 2008.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Með kerfisbreytingu í maí á síðasta ári var niðurgreiðslu á leigu Félagsbústaða hætt en þess í stað teknar upp sérstakar húsaleigubætur sem leigjendur geta nýtt sér. Þar með hætti borgin að niðurgreiða leiguna um þriðjung og er því leigan að fullu verðbætt. Þetta hefur það í för með sér vegna óðaverðbólgu sem ríkt hefur síðustu 9 mánuði og bindingu leigunnar við neysluvísitölu á meðan bæturnar standa í stað, að húsnæðiskostnaður leigjenda Félagsbústaða er að öllum líkindum meiri nú eftir kerfisbreytinguna.
Af þessu tilefni óska fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar eftir svörum við eftirfarandi:
1. Hvað hefur leiga þeirra sem leigja hjá Félagsbústöðum og fá fullar húsaleigubætur hækkað mikið síðan í maí 2008?
2. Hvað hefði leiga sama hóps hækkað mikið ef af kerfisbreytingunni hefði ekki orðið?
Svar verður lagt fram á næsta fundi.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð leggur áherslu á að ríkissjóður standi að fullu við gert samkomulag um framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta nú þegar eru vanhöld á greiðslum á hlut ríkissjóðs vegna húsaleigubóta. Ef staðið verður við lækkun á hlutfalli ríkisins þá mun skerðing framlags ríkisins nema að minnsta kosti 67 milljónum sem munu þá falla á Reykjavíkurborg sem þegar áætlar að greiða úr borgarsjóði 500 milljónir króna til almennra húsaleigubóta. Jafnframt er vísað til þess að velferðarráð samþykkti þann 23. apríl sl. að leggja til að í viðræðum milli sveitarfélaga við ríkisvaldið um stefnumótun í húsnæðismálum verði unnið markvisst að því að húsaleigubætur fylgi verðlagsþróun.

7. Lögð fram til kynningar viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar um kaup Félagsbústaða á 12 íbúðum við Hólaberg í Reykjavík af Félagi eldri borgara. Ennfremur lagðir fram til kynningar sérskilmálar vegna úthlutunar lóða til félaga og samtaka eldri borgara fyrir íbúðir Reykvíkinga, 67 ára og eldri.
Velferðarráð fagnar áframhaldandi uppbyggingu þjónustuíbúða aldraðra á vegum Félags eldri borgara sem tryggð er með samningi Reykjavíkurborgar og Félags eldri borgara um kaup Reykjavíkurborgar á 12 íbúðum í væntanlegu fjölbýlishúsi í Efra - Breiðholti. Þetta skref er ekki einungis mikilvægt fyrir eldri borgara heldur skiptir það máli í atvinnulífi í borginni á erfiðum tímum.

8. Lagt fram til kynningar bréf félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 16. febrúar 2009 um stýrihóp um velferðarvakt. Ennfremur lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 12. febrúar 2009 um skipan fulltrúa Reykjavíkurborgar í stýrihóp um velferðarvakt.

9. Lagðar fram til kynningar leiðbeiningarreglur Talsmanns neytenda og Umboðsmanns barna um aukna neytendavernd barna varðandi markaðssókn sem beinist að börnum.

10. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna ásamt greinargerð:
Velferðarráð samþykkir að fela velferðarsviði að efna til viðræðna við Íþrótta- og tómstundasvið um kosti þess að félags- og íþróttastarf aldraðra verði framvegis á þeirra vegum, enda geti það leitt til betri og heildrænni þjónustu við alla aldurshópa á þessu sviði.
Samþykkt að vísa tillögunni til afgreiðslu sviðsstjóra sem efna mun til viðræðna um málið við Íþrótta- og tómstundaráð.

11. Lögð fram svör sviðsstjóra við fyrirspurnum fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingarinnar frá síðasta fundi velferðarráðs.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar þakka það skýra svar sem lagt er fram við spurningum þeirra varðandi niðurskurð á launakostnaði starfsfólks. Það er ánægjulegt að sjá að jafnræðis sé gætt og sama viðmið sé á öllum sviðum borgarinnar. Þá er það gleðiefni að fá það skriflega fram að ekki eigi að skerða laun fólks sem hefur heildarlaun undir 300 þúsund á mánuði og að enginn starfsmaður sviðsins eigi að fá á sig meiri heildarkjaraskerðingu en 10#PR. Það er einlæg von okkar að þessi markmið náist og eins fyrirheit um að tekið verði tillit til þeirra starfsmanna sem vinna undir miklu álagi vegna kreppunnar.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram kemur í svari velferðarsviðs við fyrirspurn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur Invis ehf. fengið kr. 5.307.248 greiddar frá velferðarsviði frá því í maí 2006. Þar af hefur fyrirtækið fengið greitt kr. 3.434.146 á þessu ári. Í svarinu er ekki gerð grein fyrir því hvað réði ferð þegar fyrirtækið var ráðið til starfa 2006 og hvort leitað hafi verið til annarra fyrirtækja um verðtilboð. Nú, þegar gríðarleg hagræðingarkrafa dynur á starfsmönnum borgarinnar er það umhugsunarefni að slíkar upphæðir skuli renna til fyrirtækis sem meirihlutinn hefur nýtt til að gera úttektir á þjónustumiðstöðvum. Það er umhugsunarefni að slíkir fjármunir skuli nú notaðir til að gera úttekt á rekstri þjónustumiðstöðvanna sérstaklega og má af því tilefni spyrja hvort verið sé að gera samsvarandi úttekt á skrifstofu velferðarsviðs?
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja benda á að samningur um úttekt á þjónustumiðstöðvum var gerður fyrir efnahagshrunið síðasta haust.
Þá er vert að vekja athygli á að tölur sem fram koma í bókun fulltrúa Vinstri grænna um fjárhæðir að þar er talinn með virðisaukaskattur sem Reykjavíkurborg fær endurgreiddan raunkostnaður vegna úttektarinnar er því kr. 2.758.350.

12. Lögð fram bráðabirgðaskýrsla starfshóps um mat á áhrifum atvinnuleysis í Reykjavík sbr. samþykkt borgarráðs frá 19. febrúar s.l. varðandi beiðni um umsögn velferðarráðs.
Málinu eru vísað til sviðstjóra sem mun vinna drög að umsögn sem lögð verður fyrir velferðarráð á næsta fundi.

13. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í janúar var það ákveðið að áætlunin yrði tekin upp í mars. Þar kom ennfremur fram í málflutningi borgarstjóra og formanns velferðarráðs að til stæði náið samráð minnihluta og meirihluta um áætlunina. Af þessu tilefni óska fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar eftir upplýsingum um vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunarinnar og hvernig samráði við minnihlutann verður háttað.

Málinu er frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 14.35

Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Jóhanna Hreiðarsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Þorleifur Gunnlaugsson