No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2013, mánudaginn 13. maí var haldinn 213. fundur s og hófst hann kl. 9.10 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Sverrir Bolla-son, Áslaug María Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Birna Sigurðardóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram til kynningar tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar og fimm ára áætlunar 2014-2018, dags. 7. maí 2013.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 9.15.
2. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 7. mars s.l.
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að Reykjavíkurborg fari að fyrir-mælum velferðarráðuneytisins frá 12. febrúar s.l. um tekju og eignamörk vegna félagslegra leiguíbúða.
Greinargerð fylgir.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðherra hefur látið reikna út tekju- og eignamörk vegna félagslegra leiguíbúða eins og honum ber að gera í upphafi hvers árs. Hann mælir svo fyrir að mörkin skuli vera, fyrir einstakling kr. 4.057.000, fyrir barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu kr. 679.000, fyrir hjón og sambúðarfólk kr. 5.681.000.
Velferðarráð Reykjavíkur hefur hins vegar ákveðið að tekjumörkin verði umtalsvert lægri og nýtt verði heimild sem Reykjavíkurborg aflaði sér frá félagsmálaráðuneytinu árið 2004 um þrengri rétt íbúa umfram það sem segir í reglugerð velferðarráðherra.. Þannig leggur sviðið til að tekjumörk vegna einstaklings verði kr. 3.142.000, vegna barns að 20 ára aldri á heimilinu kr. 525.986 og vegna hjóna og sambúðarfólks kr. 4.399.912.
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur kannað það hvernig þessum málum er háttað meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svörin voru öll á þann veg að farið sé að tilmælum velferðarráðuneytisins. Engin efnisleg rök eru fyrir því að tekjumörk vegna félagslegra leiguíbúða séu allt að fjórðungi lægri en fyrirmæli velferðarráðuneytisins segja til um og réttur borgarbúa þannig þrengri en íbúa nágrannasveitarfélaganna.
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna undrast jafnframt á seinagangi meirihlutans. Tillaga Velferðarsviðs vegna breytinga á tekju- og eignamörkum félagslegra leiguíbúða og sérstakra húsaleigubóta var fyrst lögð fram 28 febrúar. Málinu var frestað til næsta fundar þar sem velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði til að borgin færi ekki sér leiðir í þessum efnum heldur hlýddi tilmælum ráðherra. Nú, 13. maí, er meirihlutinn loksins reiðubúinn til afgreiðslu málsins og þá aðeins til að staðfesta tillögu sviðsins frá 28. febrúar um skert tekjumörk.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
68#PR Reykvíkinga eru undir þeim tekjumörkum sem velferðarráðuneytið leggur til sem viðmið. Reykjavíkurborg sér ekki ástæðu til þess að hafa slík viðmið sem flestir borgarbúar falla undir þegar umsóknir eru metnar í félagslegt leiguhúsnæði sem er einungis ætlað þeim sem eru allra verst settir á húsnæðismarkaði. Fyrir áratug fékk borgin leyfi til að hafa önnur viðmið enda eru þetta ekki fyrirmæli heldur viðmið og hefur borgin hækkað viðmiðin árlega í samræmi við vísitölu. Áfram munum við halda okkur við það enda sýnir nýleg tekjuúttekt að 56#PR Reykvíkinga séu undir þeim mörkum. Það er vel ásættanlegt.
Að tala um að önnur sveitarfélög haldi sig við viðmið velferðarráðuneytisins breytir engu enda hefur Reykjavíkurborg algjöra sérstöðu hvað varðar félagslegt húsnæði og félagslega þjónustu við sína íbúa.
Seinagangur í þessu máli snýr að því hversu lengi hefur tekið að fá tekjuupplýsingar frá skattyfirvöldum.
3. Lögð fram að nýju tillaga Velferðarsviðs vegna breytinga á tekju- og eignamörkum í reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg og breytingar á tekjuviðmiðum á matsblaði með reglunum. Enn fremur lagt fram bréf velferðarráðuneytisins dags. 12. febrúar 2013 um breytingu á reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur nr. 873/2001. Enn fremur lagt fram yfirlit um hlutfall þeirra Reykvíkinga sem eru undir viðmiðunarreglum ráðuneytisins.
Formaður velferðarráðs og skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerðu grein fyrir málinu.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
4. Lögð fram tillaga samráðshóps um forvarnir um styrkúthlutun úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur.
Enn fremur lagðar fram til kynningar afgreiðslur hverfisráða Vesturbæjar, Miðborgar, Hlíða, Laugardals, Háaleitis/Bústaða, Breiðholts, Árbæjar og Grafarvogs á styrkumsóknum úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Stefanía Sörheller, verkefnissstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti tillögu samráðshópsins.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að umbeðinn styrkur Félags einstæðra
foreldra sem ætlaður er til að niðurgreiða þátttöku barna í tómstundum í sumar að
upphæð 400.000 kr. verði veittur. Einnig verði veittur styrkur að upphæð 150.000 kr.
til ADHD samtakanna vegna námskeiðs fyrir unglinga með ADHD á aldrinum 13 – 16
ára. Á móti verði hætt við að styrkja KFUM og KFUK um 650.000 kr. vegna
sumardvalar fyrir börn sem greinst hafa með ADHD og skyldar raskanir.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar verða ekki við breytingartillögu
fulltrúa Vinstri grænna, þar sem við teljum rétt að fylgja rökstuddri tillögu
samráðsnefndar um forvarnir sem byggir starf sitt á forvarnastefnu Reykjavíkurborgar.
Félag einstæðra foreldra er auk þess með þjónustusamning við Velferðarsvið og
ADHD samtökin fá styrk úr forvarnarsjóðum í annað verkefni.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Umsóknir til Forvarnasjóðs Reykjavíkur vegna ársins 2013 eru 47. Samráðshópur setur nú fram þá tillögu að 38 þeirra verði hafnað en orðið verði við 16 umsóknum, að meira eða minna leyti. Ein þeirra umsókna sem er hafnað er frá Félagi einstæðra foreldra sem ætlar að gera börnum og unglingum einstæðra foreldra sem búa við erfiðar félagslegar og/eða fjárhagslegar aðstæður kleift að taka þátt í tómstundastarfi. Félagið ætlar að niðurgreiða þátttöku barna í tómstundum í sumar en eingöngu það sem haldið er viðurkenndum aðilum, greitt verði skv. kvittun og stuðst við skattaframtal umsækjenda og ef af verður, munu starfsmenn Félags einstæðra foreldra fara yfir umsóknir og meta þörf.
Önnur umsókn sem lagt er til að hafna er frá ADHD samtökunum en þau ætla að þróa námskeið fyrir unglinga með athyglisbrest og ofvirkni, sem er ætlað að draga úr brottfalli, styrkja sjálfsmyndina, þekkja kosti og galla ADHD og læra nokkrar einfaldar aðferðir til að nýta sér styrkleika sína sem best og vinna með veikleika.
Hinsvegar hefur meirihluti velferðarráðs ákveðið að styrkja KFUM og KFUK að upphæð 650. 000 kr. til að bjóða börnum sem greinst hafa með ofvirkni, athyglisbrest og skyldar raskanir í sumarbúðir þeirra en þar segjast samtökin mæta þörfum barnanna á skilningsríkan og uppbyggilegan hátt.
Velferðaráðsfulltrúi Vinstri grænna taldi einboðið að Félag einstæðra foreldra yrði styrkt til að auðvelda börnum frá tekjulágum heimilum að taka þátt í tómstundastarfi að eigin vali og jafnframt að ADHD samtökin séu betur í stakk búin til að sinna börnum sem greinst hafa með ofvirkni athyglisbrest en Kristilegt félag ungra manna og kvenna. Niðurstaða meirihluta velferðarráðs hvað þetta varðar er því hörmuð.
Tillaga samráðshópsins um forvarnir um styrkúthlutun úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur var borin upp til atkvæða og samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
5. Lagðir fram til kynningar viðaukasamningar Velferðarsviðs og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um rekstur Konukots og Samhjálpar um rekstur Gistiskýlis.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á vinnubrögðum Velferðarsviðs og meirihluta velferðarráðs hvað samninga vegna neyðarskýla borgarinnar varðar. Á fundi velferðarráðs þann 20 desember sl. þar sem felld var tillaga fulltrúa Vinstri grænna um að Velferðarsvið dragi til baka gildishlaðna auglýsingu eftir áhugasömum um rekstur neyðargistiskýla fyrir konur annars vegar og karla hinsvegar var því haldið fram að vegna tímapressu yrði ráðhagurinn að vera á þennan veg. Þegar fulltrúi Vinstri grænna lagði þá til að samið yrði til eins árs í stað þriggja var það talið ómögulegt. Þrátt fyrir þetta hefur hver viðaukasamningurinn rekið annan. Sá fyrsti rann út 31. mars sl., annar rennur út 31. maí og nú er búið að gera viðaukasamning sem rennur út 31. ágúst. Þar með hefur samningagerð sem í raun á að ljúka fyrir áramót, tekið 7 mánuði. Þetta getur varla talist ásættanleg stjórnsýsla.
6. Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að fela Velferðarsviði að undirbúa flutning á
Gistiskýli fyrir heimilislausa karla.
Greinargerð fylgir.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna harmar þá óskiljanlegu töf sem orðið hefur á þessu máli. Langt er síðan það varð ljóst að annað húsnæði vantaði fyrir Gistiskýlið og umrætt húsnæði hefur verið í myndinni í ár. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur áherslu á að umrætt úrræði rými alla þá sem þurfa á neyðarskýli fyrir karla að halda og uppfylli aðgengis og öryggiskröfur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Töfin sem orðið hefur á þessu máli skýrist af því að þetta er viðkvæm þjónustu og leitin að húsnæði fyrir það hefur tekið langan tíma. Velferðarsvið telur sig hafa fundið húsnæði sem getur uppfyllt þá vankanta sem eru á núverandi húsnæði, svo sem eins og varðandi eldvarnir, möguleika á að taka við fleiri en 20 einstaklingum og aðgengi. Næstu skref eru að fara í kostnaðarmat og hönnun. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagnar því, enda hefur umræða um flutning Gistiskýlisins verið átt sér stað lengi og nú er loksins verið að vinna málið áfram.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki samþykkt flutning Gistiskýlisins áður en fyrir liggur úttekt eða mat á því að það húsnæði sem skoðað hefur verið uppfylli þær kröfur sem gera þarf og sé betri kostur en núverandi húsnæði með breytingum.
7. Lögð fram tillaga um sérstakt framlag til starfsemi Dagseturs dagþjónustu fyrir utangarðsfólk.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar þá afstöðu sína að dagþjónusta fyrir utangarðsfólk eigi
alfarið að vera rekin af veraldlegum en ekki trúarlegum aðilum. Þetta á sérstaklega við þegar enginn valkostur er til staðar.
8. Lagðir fram til kynningar eftirtaldir samningar sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. janúar 2013; AE hlutverkasetur, Félag eldri borgara, Félag heyrnarlausra, Félag einstæðra foreldra, Geðhjálp, Gigtarfélag, Foreldra- og styrktarfélag Klettaskóla, Hjálparstarf kirkjunnar, Hugarafl, Klúbburinn Geysir, Rauði krossinn, Sjálfsbjörg, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Umsjónarfélag einhverfra og Stígamót.
9. Betri Reykjavík Afsláttur á strætókorti fyrir aldraða og öryrkja.
Lögð fram að nýju efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík frá 31. mars 2013 um afslátt á strætókorti fyrir aldraða og öryrkja.
Málinu er frestað.
10. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi velferðarráðs 2. maí sl. varðandi rannsóknina; Líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg.
Þar sem svarhlutfall var lágt í úttekt á líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg, leggur fulltrúi Vinstri grænna til að Velferðarsvið framkvæmi frekari úttekt.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram umrædda tillögu þar sem efasemdaraddir heyrðust á síðasta ráðsins fundi varðandi áreiðanleika úttektarinnar. Úr því að meirihlutinn telur ekki þörf á nánari úttekt er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að hann telji úttektina vera trúverðuga en þar kemur fram að líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg er almennt slæm. Í úttektinni kemur fram að þátttakendur eru mikið andlega veikir og að stór hluti hópsins er í sjálfsvígshættu og hefur reynt sjálfsvíg einhvern tíma um ævina. Rannsóknin leiddu enn fremur í ljós að flestir þátttakendur áttu í vanda með bæði áfengi og vímuefni. Fulltrúi Vinstri grænna telur að það sé pólitísk skylda velferðarráðs að bregðast á afgerandi hátt við úttektinni sem fyrst og óviðunandi sé að þessu mikilvæga máli verði vísað til Velferðarsviðs vegna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og ára.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta Flokksins hafna tillögu Vinstri grænna, enda brýnast að nýta fjármuni og mannafla Velferðarsviðs í að sinna því fólki sem er á fjárhagsaðstoð þannig að það komist út úr erfiðum aðstæðum sínum sem hafa verulega neikvæð áhrif á líðan þeirra samkvæmt nýlegri úttekt og mörgum öðrum.
Velferðarsvið hefur gert nokkrar úttektir á líðan þeirra sem njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Þó svarhlutfall hafi verið lágt í síðustu rannsókn, þá nýtast niðurstöður úttektarinnar samhliða niðurstöðum annarra úttekta og því ekki þörf fleirum rannsóknum að svo stöddu.
11. Lögð fram til kynningar framvinda starfsáætlunar 2013.
12. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi velferðarráðs 2. maí s.l. um tillögur verkefnahóps um þróun verklags og úrræða vegna sjúklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg.
Fulltrúar Samfylkingarinar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir skýrslu um líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Þessi rannsókn sem unnin var með styrkjum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sýnir að meirihluti þátttakenda sem eru þrjá mánuði eða lengur á fjárhagsaðstoð og eru skráðir sjúklingar greinast með geðröskun, margir eru með áfengis- og/eða vímuefnamisnotkun og flestir greinast með vanda á heilsutengdum lífsgæðum. Niðurstöður þessar eru í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna afar léleg lífsgæði þeirra sem eru lengi á fjárhagsaðstoð. Því er akkur bæði fyrir þá og samfélagið að vinna markvisst að því að bæta líðan þeirra með markvissum stuðningi og ráðgjöf og draga fram hæfni og færni þeirra sem þarf að efla.
Fulltrúar Samfylkingarinar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins leggja til að tillögur verkefnahóps um þróun verklags og úrræða vegna sjúklinga verði vísað í áframhaldandi vinnu hjá Velferðarsviði, sérstaklega í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og ára. Sérstaklega er óskað eftir kostnaðarmati á tillögu hópsins um að breyta fjárhagsaðstoðarreglum er varðar rétt þeirra sem fara í meðferð vegna áfengis- og vímuefnaneyslu.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
13. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 2. maí s.l. varðandi fjölda þeirra sem vísað hefur verið frá Gistiskýlinu á þessu ári.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur verið um að ræða 137 tilvik þar sem körlum hefur verið vísað frá neyðarskýli borgarinnar. Þetta er mikil aukning frá síðasta ári þegar 24 körlum var vísað frá allt árið. Við svo búið má ekki standa, því um er að ræða lágmarks mannréttindi. Samkvæmt áætlunum Velferðarsviðs er ekki reiknað með nýju gistiskýli fyrr en eftir 6 – 9 mánuði. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur því til að þegar í stað verði fundið bráðbirgðahúsnæði til að leysa vandann. Ef annað kemur ekki í leitirnar er bent á Tjarnarsal Ráðhússins eða þann hluta Hörpunnar sem ekki er í notkun.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um það hvað margir Reykvíkingar eru í hópi þeirra sem vísað hefur verið frá Gistiskýlinu á fyrstu fjórum mánuðum ársins?
14. Lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps velferðarráðherra um tillögur til að vinna gegn fátækt. Tillögurnar eru byggðar á skýrslunni „Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi.
15. Félagsvísar á vef Hagstofunnar.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu og kynnti gerð félagsvísa sem unnið hefur verið að á vegum velferðarráðuneytisins. Hagstofa Íslands mun síðan taka við verkefninu.
16. Lögð fram tillaga Velferðarsviðs um rekstraraðila Konukots.
Sviðsstjóri og skrifstofustjóri velferðarmála gerðu grein fyrir málinu.
Afgreiðslu málsins er frestað til næsta fundar.
17. Lögð fram tillaga Velferðarsviðs um rekstraraðila Gistiskýlis.
Sviðsstjóri og skrifstofustjóri velferðarmála gerðu grein fyrir málinu.
Afgreiðslu málsins er frestað til næsta fundar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði furðar sig á vinnubrögðum meirihlutans hvað þessi mál varðar. Sú tillaga sem hér er lögð fram fylgdi ekki með í gögnum og því ómögulegt að kynna sér hana enda fylgir viðamikil greinargerð. Fulltrúi Vinstri grænna áskilur sér rétt til að beita sér í málinu í framhaldinu
Fundi slitið kl. 12.15
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Diljá Ámundadóttir (sign)
Áslaug María Friðriksdóttir (sign) Sverrir Bollason (sign)
Jórunn Frímannsdóttir (sign) orleifur Gunnlaugsson (sign)